Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

05. maí 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKristján Þór Júlíusson

73. Íþróttaþing Íþrótta- og ólympíusambands Íslands

Forseti Íþrótta- og olympíusambands Íslands, góðir gestir

Staða íþrótta hér á landi er í miklum blóma um þessar mundir og margt bendir til þess að landsmenn láti sér þær varða og það kemur meðal annars fram í því hve íþróttaiðkun er almenn og hvað hugðarefnin eru fjölbreytt þegar kemur að þessum þætti í lífi hvers og eins. Undanfarin ár hefur iðkun almenningsíþrótta aukist til muna og augljóst að þar hefur átt sér stað vitundarvakning sem skilar sér í því að flestir hreyfa sig reglulega. Við sjáum að sífellt fleiri stunda skokk, göngur, hjólreiðar, skíði, golf og ýmiss konar útivist auk hreyfingar í hefðbundnum líkamsræktarstöðvum. Ýmis verkefni íþróttahreyfingarinnar, sem laða að tugþúsundir þátttakenda ár hvert, hafa vakið mikla athygli og eru augljós merki þess að Íslendingar hafa áhuga á þessum málum.

Ef horft er á heildina hefur afreksfólk okkar náð betri árangri undanfarin ár en lengi þar á undan. Bæði í einstaklingsíþróttum og hópíþróttum hafa verið unnin afrek sem meta má á heimsmælikvarða. Þau eru mikilvæg fyrir okkur sem þjóð og mynda samstöðu meðal þjóðarinnar. Einnig er afreksfólk okkar mikilvægar fyrirmyndir fyrir unga fólkið en ekki síður fyrir þjóðina almennt. Við getum verið stolt af þessu og á sama tíma er mikilvægt að við höldum utan um þekkingu á því hvað liggur þar að baki.

Þetta leiðir einnig hugann að því hvernig stutt er við bakið á börnum og ungmennum sem velja að sækja í íþróttastarfið. Það er engin tilviljun að svo mikil áhersla er lögð á íþróttaiðkun barna og unglinga en að sama skapi er ef til vill ekki sjálfgefið að íþróttastarfsemin sé skipulögð með þeim hætti. Okkur hefur hins vegar borið gæfa til að meta samfélagslegt gildi skipulagðs íþróttastarfs fyrir alla aldurshópa og við þekkjum niðurstöðu rannsókna sem sýna fram á gildi þess, ekki síst fyrir yngri kynslóðirnar. En í þessu efni má ekki slá slöku við vegna þess að því verkefni lýkur aldrei að vera vakandi yfir því hvernig íþróttastarfsemin er skipulögð til að hún skili hámarks árangri fyrir afreksfólkið, unga fólkið og okkur hin sem þurfum á hvatningu að halda til að stunda hreyfingu og útivist. Íþróttahreyfingin gegnir mikilvægu hlutverki í samfélagi okkar og á sama tíma og ég þakka hreyfingunni fyrir ötult, gefandi og árangursríkt starf vil ég einnig hvetja til þess að ávallt sé hugað að þessum þáttum.

Mig langar að nefna nokkur atriði sem ég veit að skipta íþróttahreyfinguna máli í nútíð og framtíð, og sem meðal annars marka nú þegar vinnuna innan ráðuneytisins á þessu sviði.
Í lok árs árið 2015 voru samþykkt ný lög um opinber fjármál. Þessi nýju lög hafa það meðal annars að markmiði að auka aga og skilvirkni þegar kemur að undirbúningi og framkvæmd fjárlaga og efnahagsmála auk þess að bæta stjórnarhætti almennt. Nú er birt fjármálaáætlun til 5 ára í senn og þurfa stofnanir ríkisins að skila þriggja ára áætlunum til viðkomandi ráðuneytis á grundvelli hennar. Einnig hefur ráðuneytið ákveðið að fjárveitingar, sem eru til lengri tíma um verkefni sem eru viðvarandi, eins og þau verkefni íþróttahreyfingarinnar sem ráðuneytið styður, verði ákveðnar í þriggja ára samningstímabilum með þeim skyldum sem hvíla einnig á ríkisaðilum. Með þeim samningum sem gerðir verða við ÍSÍ og aðra verður markmiðið að sjálfsögðu að stuðla að góðum stjórnarháttum, samhliða því að styðja góð verkefni eftir því sem kostur er. Unnið hefur verið að því að kynna forystufólki íþróttahreyfingarinnar þetta ferli, en það mun væntnalega taka einhvern tíma að slípa þetta fyrirkomulag til þannig að allir séu sáttir við það. Ég vil koma á framfæri þökkum til ykkar fyrir góða samvinnu og skilning á því að þetta ferli kunni að taka einhvern tíma.

Á síðasta ári var gerður veigamikill samningur milli ríkisvaldsins og íþróttahreyfingarinnar til þriggja ára um að efla fjárframlög til afreksstarfs, þannig að á þessu ári er framlag ríkisins í sjóðinn 200 m.kr., en verður á næsta ári 300 m.kr. og loks 400 m.kr. árið 2019. Þessi mikla aukning framlaga í afrekssjóðinn kallar eðlilega á nokkra endurskoðun á starfsemi hans. Vinna starfshóps við endurskoðun á reglum afrekssjóðs er góð og faglega unnin og sýnist mér að tillögur hans geti skapað góðan umræðugrundvöll um þessi mál hér á þessu þingi. Komið hefur fram að mikilvægt sé að forsendur stuðnings og kröfur til þeirra sem fá stuðning þurfi að vera vel skilgreindar sem og rökstuðningur og gegnsæi við úthlutun. Þetta þarf að vinna saman með það að markmiði að framlög úr sjóðnum geti orðið til þess að Íslendingar geti náð enn betri árangri í íþróttum á alþjóðavísu.

Reglugerð um þjóðarleikvanga hefur nú um nokkurn tíma verið í vinnslu í ráðuneytinu, en byggt er á stefnumörkun starfshóps sem tókst á við þetta efni. Það er mikilvægt að íþróttahreyfingin átti sig á að með slíkri reglugerð er hvorki ætlunin að búa til loforð um stórfellda uppbyggingu mannvirkja á þessu sviði né heldur að breyta inntaki í verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að ábyrgð á uppbyggingu íþróttamannvirkja. Hér er fyrst og fremst um að ræða setningu reglugerðar sem fæli í sér að hægt verði að votta mannvirki sem geta hýst alþjóðlega viðburði íþróttagreina, sem standa framarlega í sinni grein á heimsvísu, og að þörf sé á því að mannvirki, sem standast alþjóðlegar kröfur, séu til staðar. Í dag er hægt að halda alþjóðleg mót þrátt fyrir að slík vottun sé ekki til staðar, enda íþróttamannvirki hér á Íslandi mjög góð og hafa sveitarfélögin staðið vel að þeirri uppbyggingu. Hins vegar er ekki verið að útiloka aðkomu stjórnvalda að uppbyggingu mannvirkja sem þjóna þeim tilgangi að vera þjóðarleikvangar eins og þeir hafa verið skilgreindir. Hér þarf að fara varlega og taka yfirveguð skref en stefna samt að því að hægt sé að standa hér á landi fyrir alþjóðlegum íþróttakappleikjum eða mótum sem skipta máli í alþjóðlegu samhengi.

Á síðustu misserum hefur málum sem tengjast ólöglegri lyfjanotkun, veðmálasvindli og almennri spillingu fjölgað í tengslum við afreksíþróttir í víða um heim, sérstaklega í þeim íþróttagreinum þar sem miklir peningar eru í spilinu. Rússlandsmálið sem og fjölgun mála sem tengjast hagræðingu úrslita í íþróttakeppnum gera að verkum að spurningar hafa vaknað um trúverðugleika íþrótta yfirleitt og þá sérstaklega alþjóðlegra íþróttasambanda. Þetta hefur svo áhrif á allar íþróttahreyfingar. Barátta þeirra sem vinna að lyfjaeftirliti og gegn hagræðingu úrslita í íþróttakeppnum miðar að því að vernda hreina íþróttamenn og viðhalda heiðarleika í íþróttum og er mikilvægur hluti af því að stuðla að góðu siðferði og góðum stjórnarháttum. Íþróttahreyfingin verður að taka alvarlega þau teikn sem nú eru á lofti og brynja sig gegn þeim neikvæðu áhrifum sem þessi mál hafa haft á orðstír íþróttanna. Því er mikilvægt að íþróttahreyfingin sjálf hafi frumkvæði og sýni að hún sé fær um að taka á slíkum málum. Ráðuneytið fylgir eftir alþjóðasamningum um lyfjaeftirlit í samstarfi við ÍSÍ og unnið er að því að greina alþjóðasamning um hagræðingu úrslita í íþróttakappleikjum og vinnulag og samstarf í tengslum við hann, en eigi að síður skipta viðbrögð hreyfingarinnar sjálfrar mestu í þessu samhengi.

Nú er unnið að endurskoðun stefnumótunar stjórnvalda í íþróttamálum í samstarfi við íþróttanefnd, en fyrirliggjandi stefna rann út í árslok 2015. Samkvæmt mínum upplýsingum virðist þeirri stefnu hafa verið vel tekið og að ýmislegt hafi áunnist á þessum tíma, en auðvitað má alltaf gera enn betur og er mikilvægt að stefna að því. Ég hef gefið nefndinni grænt ljós á að þessi vinna verði unnin á þessu ári og hef rætt við formann íþróttanefndar og starfsmenn mína í ráðuneytinu um að svo verði. Ég vænti þess að þegar þessu starfi verður lokið verði hægt að kynna nýja íþróttastefnu stjórnvalda sem allir aðilar á íþróttasviði í landinu geti sameinast um.

Góðir gestir,
Það eru fjölmargir snertifletir milli verkefna innan mennta- og menningarmálaráðuneytis og hugðarefna íþróttahreyfingarinnar, og samvinna hefur verið aðalsmerki í samskiptum aðila til að þoka málum áfram. Ég hef hér fjallað um nokkur af þessum verkefnum, en þau eru vissulega fleiri, eins og dagskrá þessa íþróttaþings ber með sér. Ég vil hins vegar ekki tefja ykkur frekar frá því að taka til starfa, og leyfi mér því að lokum að óska ykkur alls velfarnaðar í ykkar verkefnum á þessu þingi og í framtíðinni.
Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta