Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. ágúst 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKristján Þór Júlíusson

Málþing um menntun fyrir alla á Íslandi

Ágætu málþingsgestir.

Mér er það sönn ánægja að ávarpa ykkur hér í dag og ég lýsi einnig ánægju minni með hversu margir hafa tekið daginn frá til að eiga samtal um framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar hér á landi sem grundvöll gæðastarfs fyrir alla nemendur.

Eins og ykkur flestum er kunnugt fór fram umfangsmikil úttekt árið 2016 á framkvæmd stefnunnar um menntun án aðgreiningar á Íslandi á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi á vegum Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir, eða European Agency for Inclusive Education and Special Needs, en Ísland hefur tekið virkan þátt í starfi miðstöðvarinnar frá stofnun hennar árið 1996. Ástæður þess að ráðist var í þessa úttekt má m.a. rekja til þess að þrátt fyrir að stefnan um menntun án aðgreiningar hafi verið leiðarljós í menntastefnu hér á landi allt frá þeim tíma hefur verið gagnrýnt að innleiðing stefnunnar í daglegt skólastarf hafi ekki verið fullnægjandi.

Þegar niðurstöður úttektarinnar voru afhentar og kynntar hér á landi 2. mars síðastliðinn með vandaðri úttektarskýrslu og ítarlegum fylgigögnum var ánægjulegt að geta nýtt tækifærið til að undirrita samstarfsyfirlýsingu allra helstu hagsmunaaðila skólasamfélagsins um eftirfylgni með úttektinni. Það var stór stund þegar við náðum þeim áfanga en undir samstarfsyfirlýsinguna rituðu ásamt þeim sem hér talar ráðherrar velferðarráðuneytis, þeir Óttar Proppé heilbrigðisráðherra og Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra, Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Aðalheiður Steingrímsdóttir varaformaður Kennarasambands Íslands, Steinn Jóhannsson formaður Skólameistarafélags Íslands og Anna Margrét Sigurðardóttir formaður Heimilis og skóla. Með undirritun slíkrar samstarfsyfirlýsingar hafa allir þessir aðilar í raun skuldbundið sig til samstarfs um eftirfylgni úttektarinnar undir forystu mennta- og menningarmálaráðuneytis og leitast jafnframt við að fylgja eftir því markmiði að styðja við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi. Mér er til efs að slík samstarfsyfirlýsing hafi áður verið undirrituð með öllum þessum aðilum á sviði menntamála hér á landi. Ráðuneytið skipaði í kjölfarið stýrihóp með fulltrúum allra framangreindra samstarfsaðila til þess að fylgja úttektinni eftir. Stýrihópnum var ætlað að fara ítarlega yfir tillögur í úttektarskýrslunni og útbúa raunhæfa aðgerðaáætlun til lengri og skemmri tíma til að festa í sessi farsæla framkvæmd menntunar án aðgreiningar hér á landi. Stýrihópurinn hefur einnig undirbúið þetta mikilvæga málþing þar sem eitt af meginefnunum verður að leitast við að skapa sameiginlegan skilning á því hvað felst í hugtakinu menntun án aðgreingar eða menntun fyrir alla. Stefnt er að því að fylgja niðurstöðum þessa málþings eftir með ýmsum hætti og verður útbúið sérstakt kynningarefni sem mun nýtast öllum hagsmunaaðilum á þeirra vettvangi. Ég vil nota tækifærið og þakka kærlega fyrir vandaðan undirbúning stýrihópsins og annarra aðila sem komu að skipulagningu málþingsins. Sérstaklega vil ég þakka Auði Árnýju Stefánsdóttur fyrrverandi skrifstofustjóra á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar fyrir hennar framlag við undirbúning þingsins sem sérstakur verkefnisstjóri.

Stýrihópurinn gerði tillögur um aðgerðir sem þykir nauðsynlegt að ráðast í til að fylgja eftir niðurstöðum úttektarinnar og hvernig nýta megi þann samstarfsvettvang sem er fyrir hendi til að styrkja framkvæmd stefnunnar og áframhaldandi þróun skólakerfisins á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Þær tillögur eru nú aðgengilegar á heimasíðu ráðuneytisins en ég vil tæpa á helstu málefnum sem þar er að finna.

- Helstu verkefni ríkis og sveitarfélaga verði greind nánar og gerðar tillögur um aukið samstarf þar sem það á við.
- Stjórnendur og starfsfólk skóla verður stutt til að innleiða starfshætti lærdómssamfélags í öllum skólum.
- Gerð verður úttekt á núverandi fjárveitingareglum á skólastigunum þremur og lagðar fram tillögur sem eiga að auka skilvirkni og jafnræði og miða að því að fjárveitingar styðji betur við framkvæmd stefnunnar.
- Sett verða lágmarksviðmið um þjónustu og ekki síst þá verður kannað hvernig grunnmenntun kennara og fagleg starfsþróun þurfi að grundvallast á stefnunni svo allir geti tileinkað sér árangursríka starfshætti.
- Tillögurnar eru tímasettar út árið 2019 en margar þeirra munu ná yfir lengra tímabil því hér er um langhlaup að ræða og gæta þarf að því að gefa sér nægilegan tíma til að ná sátt um útfærsluna.

Jafnframt þarf að halda umræðunni lifandi í framhaldi þessa málþings. Ekki síst tel ég þörf á því að efna þarf til umræðu meðal kennara, nemenda og foreldra. Stýrihópurinn hefur það verkefni á sínu borði hvernig best verður staðið að því að ýta undir almenna umræðu um menntun án aðgreiningar meðal allra í skólasamfélaginu og þá sérstaklega til að koma á sameiginlegum skilningi um hvað stefnan felur í sér og hvaða starfshættir einkenna fyrirmyndar framkvæmd á henni.

Að lokum við ég segja þetta.
Ég tel að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi mikilvægt fjöregg í höndunum með allt það efni sem fyrir liggur í tengslum við niðurstöður úttektar Evrópumiðstöðvarinnar. Þó að verkstjórnin sé í höndum ráðuneytisins eru samstarfsaðilar margir og mikilvægir og framþróun í átt að gæða menntun án aðgreiningar fyrir alla á Íslandi getur einungis átt sér stað ef allir leggjast á árarnar. Mér finnst afar mikilvægt -nú þegar búið er að kortleggja ítarlega stöðuna hér á landi og setja fram tillögur til úrbóta til lengri og skemmri tíma - að allir leitist við að sjá tækifærin til umbóta í þágu menntunar æsku þessa lands og leiti lausna til að bæta menntakerfið enn frekar. Það er mín einlæga ósk að við öll sem viljum standa vörð um menntun án aðgreiningar tökum höndum saman og sýnum í verki að samtal, samstarf og sameiginlegur skilningur er ein mikilvægasta grunnstoðin sem byggja þarf á til að stefnan nái fram að ganga með farsælum hætti.

Ég þakka áheyrnina og óska okkur öllum góðs gengis í dag sem og í framtíðinni.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum