Hoppa yfir valmynd

Prófnefnd verðbréfaviðskipta

Athygli er vakin á því að nýtt fyrirkomulag prófs í verðbréfaviðskiptum mun ganga í gildi í október 2020. Sjá nánari upplýsingar hér.

Prófnefnd verðbréfaviðskipta hefur umsjón með prófi í verðbréfaviðskiptum samkvæmt 53. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Próf skulu að jafnaði haldin eigi sjaldnar en einu sinni á ári. Öllum er heimilt að skrá sig til verðbréfaviðskiptaprófs. Starfsmenn sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við viðskipti með fjármálagerninga skulu hafa staðist próf í verðbréfaviðskiptum.

Ráðherra ákveður prófgjöld og skal greiða þau fyrir þau tímamörk sem prófnefnd ákveður. Um próf í verðbréfaviðskiptum gildir reglugerð nr. 633/2003 um próf í verðbréfaviðskiptum, með áorðnum breytingum.

Prófnefnd verðbréfaviðskipta
c/o Fjármála- og efnahagsráðuneyti
Arnarhvoli
150 Reykjavík
[email protected]


Auglýsing frá prófnefnd verðbréfaviðskipta


Helstu verkefni prófnefndar verðbréfaviðskipta

 • Prófnefnd sér um að halda próf í verðbréfaviðskiptum a.m.k. einu sinni á ári.
 • Prófnefnd er heimilt að semja við utanaðkomandi aðila um framkvæmd prófa. Á hendi framkvæmdaraðila verðbréfaviðskiptaprófs er m.a. að annast skráningu í próf, innheimtu prófgjalda, útvegun húsnæðis vegna prófahalds, tilkynningar og upplýsingagjöf til próftaka vegna prófahalds, sending einkunna til próftaka og umsjón með prófsýningum í samráði við prófnefnd.
 • Prófnefnd er jafnframt heimilt að semja sérstaklega við óháða aðila um gerð og yfirferð prófa, en prófnefnd staðfestir að próftaki hafi staðist verðbréfaviðskiptapróf.
 • Prófnefnd tekur ákvörðun um efni sem prófað er úr og gefur út prófsefnislýsingu, sem birt er á vefsíðu prófnefndar.
 • Prófnefnd ákveður fjölda prófa og skulu þau að jafnaði vera skrifleg.
 • Prófnefnd getur veitt undanþágur frá töku prófa á tilteknum forsendum, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 633/2003.

Verðbréfaviðskiptapróf

Próf í verðbréfaviðskiptum skiptist í þrjá hluta:

 1. hluta (almenna lögfræði),
 2. hluta (almenna viðskiptafræði) og
 3. hluta (fjármagnsmarkaðinn).

Próf eru haldin á tímabilinu nóvember til maí og á haustin í ágúst til september, ef tilskilinn fjöldi þátttakenda hefur skráð sig í próf (a.m.k. 10 manns). Einkunnir á prófum eru gefnar í heilum og hálfum tölum frá 0-10. Próftaki telst ekki hafa staðist einstök próf hljóti hann lægri einkunn en 5,0.

Til þess að standast verðbréfaviðskiptapróf þarf próftaki að hljóta a.m.k. 7,0 í meðaleinkunn úr þeim prófum er hann hefur þreytt og skal próftaki hafa lokið öllum nauðsynlegum prófum með fullnægjandi árangri innan þriggja ára frá því að hann tók fyrsta prófið. Meðaleinkunn (lokaeinkunn) er gefin með tveimur aukastöfum.

Leyfileg hjálpargögn

Kveðið er á um leyfileg hjálpargögn í prófsefnislýsingu. Af gefnu tilefni skal eftirfarandi komið á framfæri að því er varðar lög og reglugerðir. Heimildin nær til eftirfarandi gagna:

 1. Lagasafns útgefnu af dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
 2. A- og B-deilda Stjórnartíðinda.
 3. Útprentaðra laga af www.althingi.is.
 4. Útprentaðra reglugerða af www.stjr.is.

Í leyfilegum hjálpargögnum eru heimilar einfaldar yfir- og undirstrikanir ásamt leiðréttingum á lagatexta. Leiðréttingar greini einvörðungu tilvísanir til númers og heitis nýrra laga. Annars konar tákn eða merkingar er óheimilt að nota, að undanskildum bréfaklemmum og límmiðum. Ekki er heimilt að hafa meðferðis önnur skjöl eða milliblöð; s.s. heimatilbúin efnisyfirlit eða þvíumlíkt.

Verði próftaki uppvís af því að nota óleyfileg gögn, mun honum umsvifalaust verða vikið úr prófi og missir hann rétt til próftöku. Prófnefnd leggur áherslu á að eftirlit með hjálpargögnum á prófstað sé mjög öflugt.

Prófsýningar

Próftaki á rétt á að sjá prófúrlausn sína ef hann æskir þess innan fimmtán daga frá birtingu einkunnar. Framkvæmdaraðili prófs í verðbréfaviðskiptum hverju sinni annast skráningu á prófsýningar og skipuleggur þær í samráði við prófnefnd verðbréfaviðskipta.

Próftaka er heimilt að skjóta mati á úrlausn til prófnefndar til endurmats innan tveggja mánaða frá birtingu einkunnar. Prófnefnd getur skipað prófdómara til að endurskoða úrlausn próftaka á ábyrgð nefndarinnar.

Undanþágur frá töku prófa

Hér er umfjöllun um undarþágur frá töku prófa sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 633/2003 um próf í verðbréfaviðskiptum.

a) Próf í lögfræði sem metið er fullnægjandi að lögum til að öðlast héraðsdómslögmannsréttindi.

Þeir sem lokið hafa prófi í lögfræði sem metið er fullnægjandi að lögum til að öðlast héraðsdómslögmannsréttindi, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, eru undanþegnir töku prófa í I. hluta. Þ.e. þeir sem lokið hafa fullnaðarprófi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi við lagadeild háskóla sem viðurkenndur er hér á landi samkvæmt lögum um háskóla.

Sýna þarf fram á að próftaki uppfylli skilyrði til undanþágu frá próftöku á þessum grundvelli. Í því skyni skal afhenda framkvæmdaraðila prófs í verðbréfaviðskiptum afrit af prófskírteini, áður en til útskriftar kemur.

Ekki þarf að sækja formlega um undanþágu hjá prófnefnd.

b) Réttur að lögum til að kalla sig viðskiptafræðing eða hagfræðing.

Þeir sem hafa rétt að lögum til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga eru undanþegnir töku prófa í Grunnatriði í fjármálafræði og Grunnatriði í þjóðhagfræði í II. hluta. Sækja þarf um slíkt leyfi hjá viðskiptaráðherra samkvæmt lögum nr. 27/1981 um rétt manna til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga. Þeir sem lokið hafa BS- eða cand.oecon.-prófi úr viðskiptadeild eða BS-prófi úr hagfræðideild viðurkennds íslensks háskóla eða meistaranámi úr framangreindum deildum hafa þó sjálfkrafa rétt til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga, sbr. 1. gr. laga nr. 27/1981.

Þeir sem uppfylltu skilyrði til að kalla sig viðskiptafræðing eða hagfræðing og höfðu lokið einu eða fleiri prófum til verðbréfaviðskiptaprófs hinn 2. september 2016 eru einnig undanþegnir frá töku prófs í Greiningu ársreikninga í II. hluta prófs í verðbréfaviðskiptum.

Sýna þarf fram á að próftaki uppfylli skilyrði til undanþágu frá próftöku á þessum grundvelli. Í því skyni skal afhenda framkvæmdaraðila prófs í verðbréfaviðskiptum afrit af prófskírteini eða leyfi viðskiptaráðherra til að mega kalla sig viðskipta- eða hagfræðing, áður en til útskriftar kemur.

Ekki þarf að sækja formlega um undanþágu hjá prófnefnd.

c) Prófnefnd getur veitt undanþágu frá töku prófa í einstökum greinum ef próftaki sýnir fram á það með fullnægjandi hætti, að mati prófnefndar, að hann hafi staðist sambærileg próf á háskólastigi.

Prófnefnd getur veitt próftaka sem um það sækir undanþágu frá því að þreyta próf í einstökum greinum í I. og II. hluta. Skilyrði þess að slíka undanþágu megi veita er að próftaki sýni fram á það með fullnægjandi hætti að hann hafi staðist sambærileg próf á háskólastigi að mati prófnefndar, þ.e. með vottorði frá hlutaðeigandi menntastofnun og öðrum þeim gögnum sem prófnefnd kann að óska eftir. Það athugast að ekki eru veittar undanþágur frá prófum í III. hluta prófs í verðbréfaviðskiptum.

 • Sækja þarf formlega um undanþágu hjá prófnefnd verðbréfaviðskipta.
 • Staðlað eyðublað (umsókn um undanþágu frá próftöku) er að finna á vefsíðu prófnefndar.
 • Útfyllt eyðublað, ásamt fylgigögnum, skal sent prófnefnd með tölvupósti eða hefðbundnum pósti.
 • Prófnefnd er heimilt að vísa umsókn frá berist hún síðar en einum mánuði fyrir próf sem óskað er undanþágu frá.
 • Það athugast að prófnefnd verðbréfaviðskipta fundar að jafnaði einu sinni í mánuði.

d) Þeir sem lokið hafa prófi á Evrópska efnahagssvæðinu sem krafist er í viðkomandi ríki til að vera heimilt að hafa umsjón með daglegri starfsemi í tenglsum við viðskipti með fjármálagerninga þurfa einungis að taka próf í lögum og reglum á fjármagnsmarkaði í III. hluta, sbr. 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 633/2003 um próf í verðbréfaviðskiptum.

Sýna þarf fram á að próftaki uppfylli skilyrði til undanþágu frá próftöku á þessum grundvelli.

Erindi vegna undanþágu frá töku prófa á þessum grundvelli skal beint til prófnefndar verðbréfaviðskipta ásamt nauðsynlegum fylgigögnum og staðfestingum.

Námskeiðahald

Öllum er heimilt að skrá sig til verðbréfaviðskiptaprófs. Ekki er gerð krafa um að próftakar sitji námskeið til undirbúnings prófi í verðbréfaviðskiptum, en háskólastofnanir bjóða reglulega upp á slík námskeið.

Opni háskólinn við Háskólann í Reykjavík býður upp á námskeið til undirbúnings prófi í verðbréfaviðskiptum og annast jafnfram framkvæmd verðbréfaviðskiptaprófs.

Upplýsingar og skráning í próf fara fram á heimasíðu Opna háskólans.

Hæstaréttardómar á sviði félagaréttar

Dómar sem fjallað er um í Hlutafélagaréttur (2013) eftir Stefán Már Stefánsson. Sérstök áhersla á eftirfarandi dóma:

Hæstaréttardómar - ábyrgðir

Dómar sem koma fyrir í lesefni samkvæmt prófefnislýsingu. Sérstök áhersla á eftirfarandi dóma:

Listi yfir einstaklinga sem lokið hafa prófi í verðbréfaviðskiptum

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira