Hoppa yfir valmynd

Alþjóðastofnanir í Vín

Fastanefnd Íslands í Vín sinnir eftirtöldum alþjóðastofnunum:

  • Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE/OSCE)
  • Skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Vín (UNOV)
  • Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni (IAEA)
  • Skrifstofu samningsins um allsherjarbann við tilraunum með kjarnorkuvopn (CTBTO)

Samningar sem tengjast starfi fastanefndar Íslands í Vín

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE/OSCE)

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) gegnir mikilvægu hlutverki við eflingu öryggis, mannréttinda, lýðræðis og átakavarna í þátttökuríkjunum. Innan stofnunarinnar sem staðsett er í Vín fer fram reglubundið samráð á sviði mannréttindamála, lýðræðis, réttinda minnihlutahópa, auk öryggis- og afvopnunarmála. Með framlagi stofnunarinnar á ofangreindum sviðum, ekki síst með starfi svæðisskrifstofa í þátttökuríkjunum, gegnir ÖSE þýðingarmiklu hlutverki við að tryggja stöðugleika og festa lýðræði í sessi. ÖSE er stærsta svæðisbundna stofnun heims sem vinnur að öryggi þátttökuríkja í víðu samhengi. Þátttökuríkin vinna saman að heildaröryggi á breiðum grundvelli og eiga skoðanaskipti um margvísleg málefni í viku hverri í Vín.

Upphaf stofnunarinnar má rekja til kalda stríðsins og þeirrar hernaðarlegu spennu sem það skapaði. Þörfin jókst á umræðuvettvangi, Sovétríkin lögðu til ráðstefnu um öryggismál og Finnland tók af skarið og boðaði til ráðstefnunnar. Frá árinu 1972 til ársins 1975 voru síðan haldnir rúmlega 2400 fundir þar sem 4660 tillögur voru ræddar áður en Helsinki lokaskjalið (Helsinki Final Act) var undirritað árið 1975. Skjalið inniheldur tíu atriði sem þátttökuríkin skuldbundu sig að virða í samstarfi sínu. Þar á meðal er áhersla á mannréttindi, lýðræðisþróun og friðhelgi landsvæðis. Samþykkt var að skuldbindingar stofnunarinnar (ráðstefnunnar á þeim tíma) væru pólitískt bindandi en ekki lagalega. Nokkrum vikum eftir fall Berlínarmúrsins hélt ÖSE leiðtogafund í París þar sem lýst var yfir lokum kalda stríðsins og að Evrópa yrði endurreist undir merkjum lýðræðis, mannréttinda og mannfrelsis, efnahagsfrelsis og öryggis fyrir öll ríki. Á leiðtogafundi árið 1994 var samþykkt að breyta ráðstefnunni í stofnun (úr CSCE í OSCE). Stofnunin hefur síðan verið að þróast í það form sem hún er komin í núna en starfið grundvallast enn á Helsinki lokaskjalinu. 

ÖSE teygir anga sína yfir norðurhvel jarðar frá Vladivostok í Rússlandi til Vancouver í Kanada og nær yfir þrjár heimsálfur; Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu. Auk þátttökuríkjanna 57 eiga ellefu ríki áheyrnaraðild[1]. Auk þess vinnur ÖSE náið með öðrum stofnunum, m.a. Sameinuðu þjóðunum, Evrópusambandinu, Evrópuráðinu og NATO. Hvert ár situr eitt þátttökuríki í formennsku, leggur til áherslumál og ber ábyrgð á starfseminni það árið. Formaður stofnunarinnar er utanríkisráðherra formennskuríkis, honum til aðstoðar eru fyrrum formaður og verðandi og saman mynda þeir þríeyki (troika). Framkvæmdastjóri er skipaður af ráðherrafundi til þriggja ára. Æðsta vald hefur leiðtogafundur þar sem þjóðhöfðingjar hittast en sjö slíkir fundir hafa verið haldnir frá upphafi. Ráðherrafundur er haldinn árlega þar sem utanríkisráðherrar þátttökuríkja hittast, taka ákvarðanir og flytja sameiginlegar yfirlýsingar. Flestar ákvarðanir eru hins vegar samþykktar hjá fastaráði ÖSE í Vínarborg en þar hittast fastafulltrúar vikulega. Öll þátttökuríki ÖSE starfrækja fastanefnd í Vínarborg.

Málefnum stofnunarinnar er skipt upp í þrjár víddir. Fyrsta víddin fjallar um öryggis-, afvopnunar- og varnarmál. Þau málefni sem víddin spannar eru meðal annars aðgerðir gegn hryðjuverkum, lögreglusamvinna, stjórnun landamæra, eyðing jarðsprengja, takmörkun vopnaeignar og hernaðarumbætur. Þessi mál eru til umræðu í öryggismálanefnd ÖSE sem framsendir drög að ákvörðunum til fastaráðsins.

Önnur vídd fjallar meðal annars um örugga viðskiptahætti, góða stjórnarhætti, baráttu gegn spillingu, peningaþvætti, þátttöku borgaralegs samfélags, orkuöryggi, loftslagsbreytingar, förgun hættulegs úrgangs og vatnsstjórnun.

Efling og verndun mannréttinda eru málefni þriðju víddar ÖSE. Meðal annars tjáningarfrelsi, frelsi fjölmiðla og verndun fjölmiðlamanna; frelsi til hugsana, samvisku, trúar eða sannfæringar; frelsi til að koma saman með friðsömum hætti og félagafrelsi; ferðafrelsi; lýðræði,  lýðræðisstofnanir og stjórnmálaleg réttindi; réttarríkið þ.m.t. lýðræðisleg lagasetning, sjálfstæði dómstóla og réttlát málsmeðferð; lýðræðislegar kosningar og kosningaeftirlit; störf ODIHR; forvarnir og viðbrögð við hatursglæpum á ÖSE svæðinu; jafnréttismál og hvernig koma megi í veg fyrir ofbeldi gegn konum og börnum; aðgerðir gegn mansali o.fl.

Ísland hefur á vettvangi ÖSE lagt sérstaka áherslu á vernd mannréttinda, framkvæmd lýðræðislegra kosninga, baráttuna gegn mansali og útbreiðslu gereyðingarvopna og smá- og léttvopna auk aðgerða stofnunarinnar til að stemma stigu við hryðjuverkum. Ísland hefur lagt ríka áherslu á framkvæmd skuldbindinga þátttökuríkja á sviði mannréttinda með sérstaka áherslu á jafnréttismál og afnám ofbeldis gegn konum.

 

www.osce.org


Skrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Vín (UNOV)

Skrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Vín (UNOV) er staðsett í Vienna International Center (VIC). Skrifstofan var sett á fót 1. janúar 1980, þriðja í röð fjögurra höfuðstöðva SÞ, og hýsir skrifstofan margar stofnanir. UNOV veitir þessum stofnunum sameiginlega þjónustu svo sem ráðstefnuþjónustu, um innkaup, upplýsingaöflun, öryggisþjónustu o.s.frv. Skrifstofa SÞ í Vín (UNOV) og Fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofa SÞ (UNODC) eru nátengdar og er Ghada Fathy Waly aðalframkvæmdastjóri UNOV og framkvæmdastjóri UNODC. Skrifstofurnar reka sameiginlega stjórnunardeild þar sem haldið er utan um fjármál, mannauð og tæknimál.

Fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna  (UNODC) 

UNODC er ein af 32 stofnunum sem falla undir þróunarhóp SÞ (UN Development Group) sem varð til við uppstokkun SÞ árið 1997.[1] Stofnunin var sett á fót sama ár þegar Alþjóðaáætlun Sameinuðu þjóðanna um fíkniefnavarnir og Miðstöð alþjóðlegra glæpaforvarna voru settar undir sama hatt til að auðvelda Efnahags-og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC) samræmingaraðgerðir í baráttunni gegn skipulögðum glæpum. Fíkniefnanefnd SÞ (CND) og nefnd um afbrotavarnir og refsiviðurlög (CCPCJ) eru starfandi nefndir undir ECOSOC sem móta stefnuna í alþjóðlegri baráttu gegn fíkniefnum og glæpum hjá SÞ og stýra þannig starfi UNODC. Stofnunin er leiðandi í baráttunni gegn ólöglegum fíkniefnum og skipulagðri glæpastarfsemi. UNODC starfar í yfir 150 ríkjum og starfrækir  svæðisskrifstofur um allan heim, sem og tengiliðaskrifstofur í Brussel og New York.

Hlutverk UNODC er að aðstoða aðildarríki í baráttu gegn ólöglegum fíkniefnum, glæpum og hryðjuverkum, ekki síst alþjóðlegri glæpastarfsemi.


Starfsemi UNODC er þríþætt:

  • Svæðisbundin samstarfsverkefni sem veita aðildarríkjum sérfræðiþekkingu í tæknimálum til að vera betur í stakk búin í baráttunni gegn ólöglegum fíkniefnum, glæpum og hryðjuverkum.
  • Rannsóknir og greiningar á málefnum tengdum fíkniefnum og glæpum með það að markmiði að auka þekkingu og skilning en einnig að geta síðan nýtt þá þekkingu til stefnumótunar og ákvarðanatöku.
  • Aðstoð við aðildarríki í fullgildingu og framkvæmd alþjóðasamninga tengdum málefnum stofnunarinnar, þróun innlendrar löggjafar og þjónusta við þær stofnanir og skrifstofur sem fást við málefni UNODC.

International Money Laundering Information Network (IMoLIN)

IMoLIN er upplýsingaveita á netinu, stofnuð árið 1998 af SÞ fyrir hönd alþjóðlegra stofnana sem börðust gegn peningaþvætti og vildu eiga í samstarfi. Gagnagrunnurinn nýtist ríkisstjórnum, stofnunum og einstaklingum í baráttu gegn peningaþvætti. Deild innan UNODC (GPML, Global Programme against Money Laundering) viðheldur og stjórnar gagnagrunninum fyrir hönd ellefu alþjóðlegra stofnana sem berjast gegn peningaþvætti. Í gagnagrunninum má finna lög og reglugerðir ríkja um peningaþvætti, samninga og samþykktir um peningaþvætti o.fl.

Alþjóðafíkniefnaráðið (INCB)

INCB var stofnað árið 1968 með samruna tveggja nefnda; Permanent Central Narcotics Board og Drug Supervisory Board og er sjálfstæður úrskurðaraðili sem stýrir framkvæmd lyfjasamninga SÞ. Ráðið starfar á grundvelli þriggja samninga; alþjóðasamnings um ávana- og fíkniefni frá árinu 1961, alþjóðasamnings um skynvilluefni frá árinu 1971 og samnings Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni frá árinu 1988. INCB er ráðgefandi við ríkisstjórnir og þrýstir á framkvæmd skuldbindinga. Ef ráðið telur ekki staðið við skuldbindingar þá getur það sent mál áfram til ECOSOC og Fíkniefnanefndar SÞ (CND). Í ráðinu sitja þrettán aðilar sem kjörnir eru af ECOSOC til fimm ára á grundvelli hæfni og eiga að starfa óháð stjórnvöldum.

Útgeimsskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (UNOOSA)

Skrifstofan var upphaflega stofnuð árið 1962 til að aðstoða nefndina um friðsamlega nýtingu geimsins (COPUOS) og var þá staðsett í aðalskrifstofu SÞ í New York. Starfsemi UNOOSA var færð til Vínar árið 1993. Skrifstofan sér um daglegan rekstur COPUOS, framkvæmir ályktanir Allsherjarþings SÞ og ákvarðanir COPUOS, auk þess að veita aðstoð við aðildarríki í málefnum útgeimsins.

Póststofnun Sameinuðu þjóðanna (UNPA)

Póststofnun var stofnuð árið 1951 og gefur út frímerki fyrir SÞ í þrenns konar gjaldmiðlum, dollara, evru og svissneskum frönkum. UNPA hóf starfsemi árið 1979 í Vín.

Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (UNIS)

Hlutverk UNIS í Vín er tvíþætt. Annars vegar þjónustar skrifstofan fjögur ríki á svæðinu; Austurríki, Ungverjaland, Slóveníu og Slóvakíu. UNIS miðlar upplýsingum til fjölmiðla, stjórnvalda, fræðimanna, skóla og frjálsra félagasamtaka með það að markmiði að auka þekkingu og skilning á starfi og markmiðum SÞ. UNIS miðlar einnig upplýsingum milli SÞ stofnana í Vín og er aðalskrifstofa fjarskiptahóps SÞ í Vín (UN Communications Group in Vienna).

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR)

Skrifstofa Flóttamannastofnunar var opnuð árið 1951 í Vín, sem tengiskrifstofa, og er því elsta stofnun SÞ í Vín. Starf UNHCR í Vín er margþætt; eftirlit með lögum og reglugerðum tengdum hæli í samræmi við Genfarsamninginn um réttarstöðu flóttamanna; opinberar yfirlýsingar er varða flóttamenn; samstarf við austurrísk yfirvöld og frjáls félagasamtök í málefnum flóttamanna; stuðningur við samtök lögfræðinga í Austurríki sem veita aðstoð við flóttamenn og hælisleitendur; þjálfun opinberra starfsmanna sem vinna að málefnum flóttamanna; bein afskipti af mjög erfiðum einstaklingsbundnum málefnum tengdum stofnuninni; miðla upplýsingum og auka almenningsvitund um aðstæður flóttamanna; halda tengslum við ÖSE og aðrar alþjóðastofnanir í Vín. Aðalskrifstofa UNHCR er í Genf.

Skrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir verkefnaþjónustu (UNOPS)

UNOPS er sjálfstæð stofnun, sett á fót árið 1974 og var þá hluti af Þróunaráætlun SÞ (UNDP) en öðlaðist sjálfstæði árið 1995. Framkvæmdastjóri hennar skilar skýrslum beint til aðalframkvæmdastjóra SÞ. UNOPS sér um framkvæmd verkefna, allt frá uppbyggingu vegakerfa til útvegunar á tölvum til menntunar og hjálpar við mótun verkefna.   

Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um áhrif kjarnorkugeislunar (UNSCEAR)

Allsherjarþing SÞ stofnaði nefndina árið 1955 og tilnefndi fimmtán vísindamenn frá jafnmörgum löndum til að safna upplýsingum um geislun og greina þær. Tvær fyrstu skýrslur nefndarinnar lögðu grunninn að samningnum um bann við tilraunum með kjarnavopn (Partial Test Ban Treaty) sem varð að veruleika árið 1963. UNSCEAR hefur með þessum fyrstu skýrslum haft mikil áhrif á löggjöf og stofnanir líkt og Alþjóðakjarnorkumálastofnun, Alþjóðaheilbrigðismálastofnun o.fl.  Nefndin samanstendur nú af 27 aðildarríkjum og deilir skrifstofu með Umhverfisstofnun SÞ í Vín.

Alþjóðaviðskiptalaganefnd Sameinuðu þjóðanna (UNCITRAL)

Nefndin var stofnuð árið 1966, sérhæfir sig í alþjóðlegum verslunarrétti og hefur verið leiðandi í endurskoðun og þróun verslunarréttar í meira en fjörtíu ár. Starf nefndarinnar snýst um að nútímavæða og samræma lög og reglur um alþjóðleg fyrirtæki. Hún miðlar upplýsingum til aðildarríkja sem ekki eru gerðar opinberar á heimasíðu nefndarinnar. Nefndin samanstendur af sextíu fulltrúum aðildarríkja sem valdir eru af allsherjarþingi SÞ til sex ára í senn.

Eftirlitsskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (OIOS)

OIOS er sjálfstæð skrifstofa sem var sett á fót árið 1994 í þeim tilgangi að veita aðalframkvæmdastjóra aðstoð við innra eftirlit SÞ. Skrifstofan sér því um eftirlit, endurskoðun, mat og rannsóknir. Hún hefur leyfi til að hefja og framkvæma rannsókn og gefa skýrslu um hverja þá aðgerð sem hún telur ekki í samræmi við lög og reglur.

Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP)

UNEP var stofnuð árið 1972 til að ljá umhverfinu rödd innan SÞ. Markmið stofnunarinnar er að stuðla að góðri og sjálfbærri notkun umhverfisauðlinda á heimsvísu. Vinna UNEP snýst um að meta umhverfisaðstæður og tilhneigingar, þróa alþjóðlegar og svæðisbundnar lausnir við umhverfisógnum og síðast en ekki síst að aðstoða stofnanir við skynsamlega stýringu auðlinda og umhverfis. Aðalskrifstofa UNEP er staðsett í Naíróbí.

Þessi skrifstofa var stofnuð árið 2004 í Vín innan UNEP. Hlutverk hennar er að aðstoða við innleiðingu Carpathian samningsins sem varð til árið 2003, stuðla að fullgildingu hans og aðstoðar aðildarríki hans við samvinnu sín á milli. Allt starf skrifstofunnar stuðlar að verndun og sjálfbærri þróun Karpatafjalla, sem liggja gegnum Tékkland, Ungverjaland, Pólland, Úkraínu, Slóvakíu, Rúmeníu og Serbíu, og eru þessi ríki aðilar að samningnum.

Afvopnunarskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (UNODA)

UNODA var stofnuð árið 1998 en starfsemi opnuð í Vín árið 2011 í þeim tilgangi að starfa nánar með alþjóðastofnunum, sendinefndum ríkja, frjálsum félagasamtökum og fræðasamfélaginu í Austurríki. Meðal verkefna UNODA í Vín er samstarf við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina (IAEA) og Undirbúningsnefnd stofnunar um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn (CTBTO) ; náið samstarf með ÖSE og aðstoð við framkvæmd aðgerðaáætlunar SÞ um smá- og léttvopn (SALW), sem og að stuðla að framkvæmd ályktunar 1540 (gegn útbreiðslu gereyðingarvopna) í samvinnu við ÖSE; samstarf við UNODC í tengslum við smygl á skotvopnum.

Skráningarskrifstofa SÞ um skaða vegna byggingar veggsins á hernumdu svæðunum í Palestínu (UNRoD) sem heldur utan um heimildir um skaða vegna byggingar veggsins.

Alþjóðanefnd um verndun Dónár (ICPDR) stuðlar að sjálfbærri og sanngjarnri vatnsstjórnun árinnar milli ríkja í umdæmi hennar.

Auk þessara stofnana hafa Alþjóðakjarnorkumálastofnun (IAEA) og Undirbúningsnefnd stofnunar um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn (CTBTO Preparatory Commission) aðsetur í VIC.


[1] Þróun er ein af þremur stoðum SÞ, hinar eru friður og öryggi og mannréttindi.

 

www.unov.org

Alþjóðakjarnorku-málastofnunin (IAEA)

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin (IAEA) var stofnuð árið 1957 sem sjálfstæð alþjóðastofnun til að stuðla að friðsamlegri nýtingu kjarnorku. Á þeim tíma óttuðust menn áhrifamátt hinnar nýju tækni og var í mun að koma í veg fyrir misnotkun hennar. Markmið IAEA er að auka öryggi og eftirlit með nýtingu kjarnorku og geislavirkra efna í aðildarríkjunum sem eru 160 talsins. Margvíslegt tæknilegt og vísindalegt þróunarsamstarf sem tengist notkun kjarnorku fer einnig fram á vettvangi stofnunarinnar. Árið 2005 hlutu IAEA og framkvæmdastjóri hennar friðarverðlaun Nóbels, ekki síst vegna þess eftirlitshlutverks sem lýtur að því að kjarnefni séu ekki notuð til vopnaframleiðslu.

IAEA fjallar um gerð og þróun lagalega bindandi alþjóðasamninga um öryggi og eftirlit vegna friðsamlegrar nýtingu kjarnorku og geislavirkra efna. Þeir samningar eru bæði á sviði öryggis við nýtingu kjarnorku sem orkugjafa og geislavirkra efna við rannsóknir, og lúta einnig að hefðbundnu þjóðaröryggi. Stofnunin vinnur að fjölþættum aðgerðum gegn smygli og þjófnaði á geislavirkum efnum og úrgangi, auk þess sem framkvæmd eftirlits með kjarnorkuáætlunum ríkja Mið-Austurlanda og Norður Kóreu er ofarlega á dagskrá stofnunarinnar.

Annað meginverkefni IAEA er að efla tækniþekkingu og kunnáttu í þróunarríkjum, m.a. á notkun geislunar í læknisfræði, landbúnaðarframleiðslu og iðnaði. Stofnunin myndar auk þess ramma utan um alþjóðlegt samstarf til að takast á við geislavá, líkt og eftir kjarnorkuslysið í Fukushima árið 2011.
 
Aðalfundur IAEA er haldinn í september ár hvert en þess á milli stýrir stjórnarnefnd starfi stofnunarinnar. Árlega skipuleggur IAEA einnig tugi funda, námskeiða og æfinga, bæði í höfuðstöðvum stofnunarinnar í Vínarborg og í aðildarríkjunum. IAEA starfar á grundvelli eigin stofnskrár og gefur skýrslur til allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og öryggisráðsins.

 


www.iaea.org

Undirbúningsnefnd stofnunar um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn (CTBTO Preparatory Commission)

Undirbúningsnefnd stofnunar um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn (CTBTO Preparatory Commission) var stofnuð 1996 með höfuðstöðvar í Vín og var Ísland meðal stofnaðila. Undirbúningsnefndin er samráðsvettvangur milli aðildarríkja og starfar til bráðabirgða þar til samningurinn um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn (CTBT) gengur í gildi. Samningurinn um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn kveður á um algjört bann við hvers kyns tilraunasprengingum sem tengjast þróun kjarnavopna. CTBT er þannig meðal lykilsamninga á alþjóðavettvangi til þess að stemma stigu við útbreiðslu kjarnavopna og stuðla að afvopnun.

Meginverkefni undirbúningsnefndarinnar er að reka alþjóðlegt eftirlitskerfi með kjarnavopnatilraunum. Alls er um að ræða net 337 eftirlitsstöðva sem staðsettar eru víðsvegar um heiminn en slíkt eftirlitskerfi þarf að vera til staðar þegar samningurinn tekur gildi. Eftirlitskerfið mælir sveiflur í andrúmslofti, jörðu og í sjó, auk þess að mæla geislavirk efni í andrúmslofti og því á ekki að vera hægt að brjóta gegn samningnum í leyni. Samningurinn gerir einnig ráð fyrir að stofnunin geti, þegar samningurinn hefur tekið gildi, sent eftirlitsmenn til ríkja ef tilefni þykir til.

Tvær stöðvar CTBTO eru á Íslandi – jarðskjálftamælingar í Borgarnesi í samstarfi við Veðurstofuna og geislamælingar í Reykjavík í samstarfi við Geislavarnir ríkisins.

 

www.ctbto.org

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum