Hoppa yfir valmynd

Samningar

Nálgast má alla helstu tvíhliða samninga og alþjóðasamninga Íslands á heimasíðu utanríkisráðuneytisins.

Hér er að finna upplýsingar um helstu samninga sem tengjast starfi fastanefndar Íslands í Vín.

 • Samningurinn um opna lofthelgi (Open Skies Treaty, OST)
 • Samningurinn um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn (Comprehensive Test Ban Treaty, CTBT)
 • Samningurinn um hefðbundinn herafla í Evrópu (Treaty on Conventional Armed Forces in Europe, CFE)
 • Samningur SÞ gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi (United Nations Convention against Transnational Organized Crime, UNTOC)
 • Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu (United Nations Convention against Corruption, UNCAC)
 • Alþjóðasamningur um ávana- og fíkniefni (Single Convention on Narcotic Drugs)
 • Alþjóðasamningur um skynvilluefni (Convention on Psychotropic Substances)
 • Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni (United Nations Convention Against Illicit Traffic in Narcotic Drugs and Psychotropic Substances)

Almennt um samninginn um opna lofthelgi

Samningurinn um opna lofthelgi (Treaty on Open Skies, OST) er ein af þremur meginstoðum í því eftirlits- og afvopnunarkerfi sem varð til eftir lok kalda stríðsins til að stuðla að stöðugleika og samvinnu á sviði öryggismála[1]. Meginmarkmið samningsins er að heimila óvopnað eftirlit úr lofti með hergögnum og -mannvirkjum í aðildarríkjum samningsins og stuðla þannig að gagnsæi, auka gagnkvæman skilning og traust milli þeirra.

Hugmyndin um óvopnað eftirlit úr lofti á rætur sínar að rekja til vígbúnaðarkapphlaups stórveldanna og til Dwight D. Eisenhower þáverandi Bandaríkjaforseta. Hugmyndin varð að veruleika eftir að kalda stríðinu lauk en þá komu 26 aðildarríki Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins saman á vettvangi Öryggis- og samvinnuráðstefnu Evrópu (Conference on Security and Co-operation in Europe, CSCE, síðar Organisation for Security and Co-operation in Europe, OSCE) og skrifuðu undir samninginn um opna lofthelgi.

Samningurinn var undirritaður í mars 1992 og tók gildi í janúar 2002, þá með 34 aðildarríki innanborðs. Meðal aðildarríkja eru Bandaríkin, Rússland, Kanada, helstu Evrópuríki og öll Norðurlöndin þ. á m. Ísland.[2] Frá gildistöku samningsins til ágúst 2013 hafa samtals verið flogin 1000 eftirlitsflug í lofthelgi aðildarríkja samningsins sem þannig hefur byggt upp samvinnu og traust milli þeirra. Ekki hefur komið til þess að eftirlitsflug hafi fara fram á Íslandi en flugvöllurinn í Keflavík hefur verið notaður til að taka eldsneyti.

Samráðsnefnd samningsins um opna lofthelgi (Open Skies Consultative Commission, OSCC) sér um framkvæmd samningsins. Í henni sitja fulltrúar frá hverju aðildarríki og fundir fara fram í höfuðstöðvum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Vín í Austurríki. Aðildarríkin skiptast á að sinna formennsku í samráðsnefndinni til fjögurra mánaða í senn. Undir samráðsnefndinni starfa einnig óformlegir vinnuhópar um tæknileg mál, meðal annars um skynjara, vottun loftfara, kvótaúthlutun o.fl.

Meginhlutverk samráðsnefndarinnar eru eftirfarandi:

 • Taka til athugunar mál sem upp kunna að koma varðandi samningsákvæði.
 • Leitast við að leysa úr ágreiningi um túlkun á framkvæmd samningsins.
 • Íhuga og taka ákvarðanir um aðildarumsóknir.
 • Endurskoða árlega dreifingu eftirlitskvóta.

[1] Hinar tvær eru samningurinn um takmörkun hefðbundins herafla í Evrópu (Conventional Armed Forces in Europe, CFE) og Vínarskjalið frá 2011 um traustvekjandi aðgerðir (Vienna Document on Confidence and Security Building Measures).

[2] Ríki sem eiga aðild að samningnum eru Hvíta-Rússland, Belgía, Bosnía-Hersegóvína, Búlgaría, Kanada, Króatía, Tékkland, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Georgía, Þýskaland, Grikkland, Ungverjaland, Ísland, Ítalía, Lettland, Litháen, Lúxemborg, Holland, Noregur, Pólland, Portúgal, Rúmenía, Rússland, Slóvakía, Slóvenía, Spánn,  Svíþjóð, Tyrkland, Bretland, Úkraína og Bandaríkin.

Almennt um samninginn um allsherjarbann
við tilraunum með kjarnavopn

Samningurinn um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn (Comprehensive Test Ban Treaty, CTBT) kveður á um algjört bann við hvers kyns tilraunasprengingum sem tengjast þróun kjarnavopna. CTBT er þannig meðal lykilsamninga á alþjóðavettvangi til þess að stemma stigu við útbreiðslu kjarnavopna og stuðla að afvopnun.

Fyrstu hugmyndir um samninginn má rekja til upphafs kalda stríðsins. Formlegar samningaviðræður um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn hófust hins vegar ekki fyrr en árið 1993 og var samningurinn samþykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1996. Árið 2013 höfðu 183 ríki undirritað samninginn og 161 ríki fullgilt hann. Ísland undirritaði samninginn hinn 24. september árið 1996 um leið og hann var lagður fram til undirritunar, og var hann fullgiltur af Íslands hálfu hinn 26. júní árið 2000.

Samningurinn um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn  eða CTBT hefur ekki enn öðlast gildi þar sem 14. grein hans kveður  á um að það gerist ekki fyrr en 44 tilgreind ríki hafi fullgilt hann. Það eru ríki sem réðu  yfir kjarnavopnum eða rannsóknarkjarnakljúfum þegar samningurinn var lagður fram til undirritunar. Í september árið 2013 höfðu 36 þessara ríkja fullgilt samninginn. Þau  ríki sem ekki hafa stigið það skref eru: Bandaríkin, Egyptaland, Indland, Íran, Ísrael, Kína, Norður-Kórea og Pakistan. Svokölluð „14. greinar ráðstefna“ er haldin annað hvert ár í þeim tilgangi að stuðla að fullgildingu samningsins.

Undirbúningsnefnd stofnunar um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn (CTBTO Preparatory Commission) annast framkvæmd samningsins og er staðsett í Vín. Á Íslandi eru reknar tvær eftirlitsstöðvar í tengslum við samninginn, jarðskjálftamælingar í Borgarnesi á vegum Veðurstofunnar og geislamælingar í Reykjavík á vegum Geislavarna ríkisins.

Almennt um samninginn um hefðbundinn herafla í Evrópu

Samningurinn um hefðbundinn herafla í Evrópu (Treaty on Conventional Armed Forces in Europe, CFE) var undirritaður árið 1990 af öllum aðildarríkjum og tók gildi í júlí árið 1992 hjá öllum aðildarríkjum[1]. Aðildarríki samningsins eru þrjátíu talsins. Hann var upphaflega gerður milli aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins. CFE hefur verið talinn mikilvægasti afvopnunarsamningurinn á sviði hefðbundinna vopna. Hann kveður m.a. á um hámarksfjölda hermanna og hergagna, upplýsingaskipti, tilkynningar, skoðun og eftirlit. Samráðsnefnd samningsins (JCG) samanstendur af fulltrúum aðildarríkja. Nefndin fundar með reglubundnum hætti í Vín og fjallar um framkvæmd samningsins.

Samningurinn var endurskoðaður árið 1999 í Istanbúl en breytingarnar tóku aldrei gildi vegna ágreinings um dvöl herliðs Rússa í Georgíu (m.a. Abkasíuhéraði) og Moldóvu (Transnistríu-héraði).  Rússar tilkynntu „frestun“ á framkvæmd hans í desember 2007 en Atlantshafsbandalagsríkin halda áfram að framkvæma ákvæði hans. Ísland styður áframhaldandi viðræður um að ná samkomulagi um framkvæmd CFE-samningsins.

[1] Fyrir utan Tékkland og Slóvakíu þar sem samningurinn tók gildi 1.janúar árið 1993 við gildistöku sjálfstæðis l         landanna tveggja eftir upplausn Tékkóslóvakíu.

 

Almennt um samning SÞ gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi

Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi (United Nations Convention against Transnational Organized Crime, UNTOC), hér eftir Palermó-samningurinn, var samþykktur á allsherjarþingi SÞ árið 2000. Samningurinn tók gildi í september árið 2003 og hafa 179 ríki fullgilt hann (janúar 2014). Ísland undirritaði samninginn í desember árið 2000 og lauk sínu fullgildingarferli á árinu 2010. Samningurinn tók því gildi gagnvart Íslandi í maí árið 2010. Við Palermó-samninginn hafa verið gerðar þrjár bókanir sem fást við sértæka fleti og birtingarmyndir skipulagðar glæpastarfsemi. Ísland hefur undirritað þær allar og fullgilt eina þeirra. Hún fjallar um að koma í veg fyrir, uppræta og refsa fyrir mansal, einkum kvenna og barna.

Megintilgangur samningsins er að stuðla að samvinnu á milli ríkja með það að markmiði að berjast gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi með skilvirkari hætti en áður hefur tíðkast. Til þess að því markmiði verði náð þarf annars vegar að draga úr mismun á réttarkerfum sem hefur torveldað samstarf ríkja og hins vegar að gera lágmarkskröfur til landsréttar aðildarríkjanna til þess að efla alþjóðlegt samstarf. Í þessu skyni miðar samningurinn meðal annars að því að samhæfa stefnumörkun aðildarríkjanna, lagalegar heimildir þeirra og aðferðir valdhafa gagnvart þeim sem skipuleggja fjölþjóðlega glæpi þannig að sameiginlegar aðgerðir ríkja til að koma böndum yfir þá verði árangursríkari. Samningurinn miðar einnig að bættri samvinnu aðildarríkja um málefni á borð við framsal, gagnkvæma dómsmálaaðstoð, meðferð sakamála og sameiginlega rannsókn þeirra, verndun vitna og fórnarlamba o.s.frv. Einnig skulu aðildarríki veita þróunarlöndum tækniaðstoð og auðvelda þeim að gera nauðsynlegar ráðstafanir og ná fram getu til þess að takast á við skipulagða glæpastarfsemi. Fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofa SÞ (UNODC) í Vín er vörsluaðili samningsins.

Almennt um samning Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu

Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu (UN Convention against Corruption, UNCAC) var samþykktur á allsherjarþingi SÞ árið 2001. Samningurinn tók gildi í desember árið 2005 og hafa 170 ríki fullgilt hann (janúar 2014). Ísland lauk sínu fullgildingarferli seint á árinu 2010 og tók samningurinn gildi gagnvart Íslandi í mars árið 2011.

Markmiðið með samningnum er þrenns konar. Í fyrsta lagi að stuðla að og styrkja ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir og berjast gegn spillingu með skilvirkari og árangursríkari hætti. Í öðru lagi að stuðla að og styðja við alþjóðlega samvinnu og tæknilega aðstoð í tengslum við baráttu gegn spillingu, og í þriðja lagi að stuðla að ráðvendni, áreiðanleika og góðri opinberri stjórnsýslu og umsýslu opinberra eigna.

Samningurinn inniheldur fimm megináherslusvið; forvarnarráðstafanir, refsivæðingu og framkvæmd laga, alþjóðlegt samstarf, endurheimtingu eigna og tæknilega aðstoð og upplýsingaskipti. Aðildarríki samningsins annast sjálf eftirlit með framkvæmd hans. Tvö ríki eru dregin úr potti og hafa eftirlit með þriðja ríkinu í ákveðinn tíma, með virkri þátttöku ríkisins sem er undir eftirliti. Þessi tvö ríki skila síðan skýrslu um eftirlitið til sérfræðinga sem fara yfir framkvæmd ríkisins á samningnum með eigin eftirliti, byggðu á skýrslunni. Sérfræðingarnir skrifa því næst landaeftirlitsskýrslu um framkvæmd viðkomandi ríkis á samningnum. Því næst fer skýrslan á dagskrá hóps um framkvæmd samningsins sem fundar einu sinni til þrisvar á ári og hefur yfirumsjón með framkvæmd eftirlitsferlisins undir samningnum. Þessi hópur leggur til úrbætur ef þörf er á til ríkjaráðstefna samningsins, sem fundar á eins til tveggja ára fresti. Ísland er undir eftirliti sem hófst í júní árið 2013. Noregur og Madagaskar annast eftirlitið. Fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofa SÞ (UNODC) í Vín stuðlar að framkvæmd samningsins en aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna er vörsluaðili samningsins.

Fíkniefnasamningar UNODC

Eftirfarandi alþjóðasamningar eru þrír mikilvægustu samningarnir um eftirlit með útbreiðslu fíkniefna í heiminum. Markmið þeirra er að samræma alþjóðlegar aðgerðir í baráttunni gegn ólöglegum fíkniefnum og samhliða að tryggja framboð efna til lækninga og rannsókna. Ásamt UNTOC og UNCAC eru þessir þrír samningar þeir sem liggja til grundvallar starfsemi UNODC í fíkniefnamálum. Allir þessir samningar eru mikilvægur hluti af æskilegum lagaramma sem þarf að vera fyrir hendi í aðildarríkjum og styrkir þau í baráttunni gegn ólöglegum fíkniefnum.

Almennt um alþjóðasamninginn um ávana- og fíkniefni.

Skrifað var undir alþjóðasamning um ávana- og fíkniefni (Single Convention on Narcotic Drugs) árið 1961 og tók hann gildi í ágúst árið 1975. Hann kveður á um baráttu gegn misnotkun fíkniefna með samræmdum alþjóðlegum aðgerðum. Samningurinn miðar að því að takmarka alla útbreiðslu og framleiðslu á fíkniefnum, nema með sérstöku leyfi til framleiðslu efna sem ætluð eru til lækninga eða rannsókna. 184 ríki eiga aðild að samningnum. Alþjóðafíkniefnaráðið (International Narcotic Board, INCB) annast eftirlit með framkvæmd samningsins.

Almennt um alþjóðasamninginn um skynvilluefni.

Alþjóðasamningur um skynvilluefni (Convention on Psychotropic Substances) er eins konar viðbótarsamningur við alþjóðasamninginn um ávana- og fíkniefni, þar sem sá samningur náði ekki yfir nýlega uppgötuð skynvilluefni á þessum tíma. Skrifað var undir samninginn árið 1971 og hann tók gildi í ágúst árið 1976. Líkt og samningurinn um ávana- og fíkniefni miðar þessi samningur að takmörkun útbreiðslu á ólöglegum fíkniefnum og kveður á um samræmt alþjóðlegt samstarf. 183 ríki eiga aðild að samningnum. Alþjóðafíkniefnaráðið (International Narcotic Board, INCB) annast eftirlit með framkvæmd samningsins.

Almennt um samning Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni.

Skrifað var undir samning Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni (United Nations Convention Against Illicit Traffic in Narcotic Drugs and Psychotropic Substances) árið 1988 og tók hann gildi í nóvember árið 1990. Samningurinn kveður á um auknar ráðstafanir í baráttu gegn ólöglegri fíkniefnasölu, en í honum eru ákvæði um peningaþvætti og forefni ávana- og fíkniefna. Einnig er kveðið á um alþjóðlegt samstarf um framsal fíkniefnasala, afhendingarmáta og málsmeðferð þeirra. Þessi samningur táknaði ákveðna stigmögnun í baráttunni gegn fíkniefnum. Í formála hans er bent á að undangengnar aðgerðir hafi ekki dugað til að koma böndum á fíkniefnaneyslu og varað er við stöðugri aukningu ólöglegrar verslunar með fíkniefni. 188 ríki eiga aðild að samningnum. Alþjóðafíkniefnaráðið (International Narcotic Board, INCB) annast eftirlit með framkvæmd samningsins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum