Hoppa yfir valmynd

Lífeyrisréttindi ríkisstarfsmanna

Lífeyrismál

Öllu launafólki og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði. Lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, kveða á um lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs sem nú er 12% af iðgjaldastofni en iðgjaldastofn er allar tegundir launa eða þóknana fyrir störf sem eru skattskyld. Iðgjald launafólks er 4% en mótframlag launagreiðanda er að lágmarki 8% en er 11,5% hjá opinberum launagreiðendum. Lágmarkstryggingavernd sem lífeyrissjóður veitir miðað við 40 ára inngreiðslutíma iðgjalds felur í sér að meðaltal réttindaöflunar til mánaðarlegs ævilangs ellilífeyris nemi 1,8% á ári af þeim mánaðarlaunum sem greitt er af. Almennur lífeyristökualdur er 67 en taka lífeyris getur hafist fyrr en aldrei síðar en frá 70 ára aldri.

Lífeyrissjóðsaðild

Um aðild að lífeyrissjóði, greiðslu lífeyrisiðgjalds og skiptingu iðgjaldsins milli launamanns og launagreiðanda fer eftir þeim kjarasamningi sem ákvarðar lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein, eða sérlögum ef við á. Ríkisstarfsmenn sem eru félagsmenn í aðildarfélögum BHM, BSRB og KÍ eða öðrum félögum sem gera kjarasamninga á grundvelli laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, eiga flestir skylduaðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR). Sama á við um embættismenn og aðra sem falla undir Kjararáð. Þó er starfshópum heimilt að semja í kjarasamningi um aðild að öðrum lífeyrissjóði en LSR og eru þannig félagsmenn Læknafélags Íslands sjóðfélagar í Almenna lífeyrissjóðnum og félagsmenn Stéttarfélags verkfræðinga sjóðfélagar í Lífeyrissjóði verkfræðinga. Aðrir starfsmenn ríkisins eru sjóðfélagar í lífeyrissjóðum sinnar starfstéttar sem samið er um aðild að í viðkomandi kjarasamningi.

Lífeyrissjóðir sem starfa skv. sérlögum

Þótt hin almenna regla sé að greitt skuli iðgjald af heildarlaunum, er undantekningarákvæði í 50. gr. laganna vegna þeirra sjóða, aðallega lífeyrissjóða ríkis og bæjarfélaga, sem starfa samkvæmt sérlögum enda sé kveðið á um iðgjaldsstofn og réttindi í viðkomandi lögum. Þetta á m.a. við um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga (LH) og B-deild LSR en þar reiknast 4% iðgjöld af föstum launum fyrir dagvinnu skv. kjarasamningi, persónu- og orlofsuppbót og launagreiðandi greiðir 6% mótframlag. A-deildin er hins vegar stigasjóður þar sem iðgjöld reiknast af heildarlaunum og mótframlag launagreiðanda er 11,5%. Samkvæmt ákvörðun fjármálaráðuneytisins frá 1998 greiða ríkisstofnanir þó jafnhátt lífeyrisframlag, þ.e. 11,5% af heildarlaunum, í báðar deildir LSR sem og í LH vegna starfsmanna sinna. Það lífeyrisframlag launagreiðanda sem er umfram skyldu til B-deildar LSR og til LH gengur upp í skuldbindingar ríkissjóðs vegna lífeyrisgreiðslna í framtíðinni.

Samræming lífeyrisréttinda

Í Stöðugleikasáttmálanum svokallaða sem var undirritaður þann 29 júní 2009 af aðilum vinnumarkaðarins, ríki og sveitarfélögum, var kveðið á um að þessir aðilar myndu í sameiningu taka lífeyrismál til sérstakrar umfjöllunar. Í kjölfarið var settur á laggirnar vinnuhópur og var hann sammála um að grundvallarmarkmiðið væri að skapa sjálfbært og samræmt lífeyriskerfi til framtíðar. Samræming og jöfnun réttinda á almennum og opinberum vinnumarkaði var eitt helsta leiðarstef vinnuhópsins. Til að ná því þurfti að hækka iðgjöld til almennu sjóðanna úr 12% í 15,5%. Hjá opinberu sjóðunum fólst breytingin í því að taka upp aldurstengt réttindaávinnslukerfi í stað jafnrar réttindaávinnslu og hækka lífeyristökualdurinn í 67 ár í samræmi við það sem tíðkast á almennum markaði.

Lífeyrisréttindi ríkisstarfsmanna

Þann 1. júní 2017 var tekið upp breytt réttindakerfi hjá A-deild LSR með aldurstengdri réttindávinnslu og 67 ára lífeyristökualdri. Breytingin hefur einungis áhrif á þá sem koma nýir inn í sjóðinn eftir 1. júní 2017 en sjóðfélagar sem greiddu iðgjald til sjóðsins fyrir þann tíma er tryggð óbreytt ávinnsla framtíðarréttinda og sömuleiðis miðast lífeyristökualdur við 65 ár. Engin breyting verður á þegar áunnum réttindum núverandi sjóðfélaga við upptöku á breyttu fyrirkomulagi, hvorki þeirra sem eru í starfi, byrjaðir að taka lífeyri eða eiga eldri réttindi hjá sjóðnum. Þau réttindi verða áfram reiknuð í jafnri réttindaávinnslu og miðuð við 65 ára lífeyristökualdur. Á heimasíðu lífeyrissjóðsins eru ítarlegar upplýsingar um breytingar á A-deild LSR auk almennra upplýsinga um réttindi og lífeyri, sjá https://www.lsr.is/

Síðast uppfært: 8.12.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum