Fjármálastöðugleikaráð

Fjármálastöðugleikaráð er formlegur samstarfsvettvangur stjórnvalda um fjármálastöðugleika. Ráðið er vettvangur samráðs, upplýsingaskipta og stefnumótunar vegna fjármálastöðugleika og samhæfir viðbúnað opinberra aðila við fjármálakreppu.

Helstu verkefni fjármálastöðugleikaráðs eru:

 • að móta opinbera stefnu um fjármálastöðugleika,
 • að meta efnahagslegt ójafnvægi, áhættu í fjármálakerfinu, óæskilega hvata og aðrar aðstæður sem eru líklegar til að ógna fjármálastöðugleika,
 • að skilgreina þær aðgerðir, aðrar en beitingu stjórntækja Seðlabanka Íslands í peningamálum, sem eru taldar nauðsynlegar á hverjum tíma til að hafa áhrif á fjármálakerfið í þeim tilgangi að efla og varðveita fjármálastöðugleika,
 • að staðfesta skilgreiningar á kerfislega mikilvægum eftirlitsskyldum aðilum, innviðum og mörkuðum sem eru þess eðlis að starfsemi þeirra getur haft áhrif á fjármálastöðugleika.

Fyrir utan reglulega fundi kemur ráðið saman sem formlegur samráðsvettvangur stjórnvalda þegar fjármálakreppa telst yfirvofandi eða skollin á eða hætta er á atburðum sem geta valdið umtalsverðum smitáhrifum.

Skipulag ráðsins

Í fjármálastöðugleikaráði sitja fjármála- og efnahagsráðherra, sem er formaður ráðsins, seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Samkvæmt lögum nr. 66/2014 um fjármálastöðugleikaráð starfar kerfisáhættunefnd fyrir fjármálastöðugleikaráð en hún leggur mat á ástand og horfur í fjármálakerfinu, kerfisáhættu og fjármálastöðugleika. Nefndin hittist að minnsta kosti fjórum sinnum á ári og í henni sitja seðlabankastjóri, sem er formaður, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, aðstoðarseðlabankastjóri, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins og sérfræðingur skipaður af ráðherra til fimm ára. Björn Rúnar Guðmundsson, hagfræðingur, var skipaður af ráðherra árið 2014. Kerfisáhættunefnd setur sér starfsreglur sem fjármálastöðugleikaráð staðfestir.

Fjármálastöðugleikaráð - skýringarmynd

Stjórntæki sem fjármálastöðugleikaráð á aðkomu að

Tilmæli fjármálastöðugleikaráðs eru bundin í lög nr. 66/2014, um fjármálastöðugleikaráð og lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Í lögum um fjármálastöðugleikaráð er gert ráð fyrir að ef upp komi aðstæður sem eru líklegar til að ógna fjármálastöðugleika eða hafa óæskileg áhrif á fjármálakerfið, geti ráðið beint tilmælum til stjórnvalda um aðgerðir til að mæta þeim aðstæðum. Birting tilmælanna skal vera opinber og rökstudd, nema birtingin sé talin geta haft neikvæð áhrif á fjármálastöðugleika. Í lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 er gert ráð fyrir að fjármálastöðugleikaráð sendi Fjármálaeftirlitinu tilmæli um eiginfjárauka sbr. 86. gr. b – d. 

Þá er gert ráð fyrir að fjármálastöðugleikaráð muni gefa álit á reglum um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána, sbr. 25. gr. laga nr. 118/2016, um fasteignalán til neytenda, og reglum um hámark heildarfjárhæðar fasteignláns eða greiðslubyrðar þess í hlutfalli við tekjur neytanda, sbr. 27. gr. sömu laga.

Millimarkmið um fjármálastöðugleika

Í greiningum sínum horfa kerfisáhættunefnd og fjármálastöðugleikaráð til sex millimarkmiða sem saman stuðla að fjármálastöðugleika. Þessi millimarkmið byggja á millimarkmiðum kerfisáhætturáðs Evrópusambandsins auk atriða sem taka mið af íslenskum aðstæðum. Á fundum fjármálastöðugleikaráðs er farið yfir áhættu tengda millimarkmiðunum, meðal annars með því að horfa til mismunandi vísa. Fjármálastöðugleikaráð hefur samþykkt fjóra kjarnavísa fyrir millimarkmið 1 og þrjá kjarnavísa fyrir millimarkmið 2 en vísar fyrir önnur markmið hafa ekki verið formlega samþykktir af ráðinu. Áhættum millimarkmiðanna er hægt að bregðast við og draga úr með stjórntækjum, sum sem fjármálastöðugleikaráð á aðkomu að en önnur ekki.

Millimarkmið Dæmi um vísaDæmi um stjórntæki
1að vinna gegn óhóflegum útlánavexti, skuldsetningu og ójafnvægi á eignamörkuðum.
 • Raunvöxtur útlána til heimila og fyrirtækja
 • Raunhækkun íbúða- og atvinnuhúnæðisverðs
 • Skuldavöxtur í hlutfalli við verga landsframleiðslu
 • Frávik skuldahlutfalls frá langtímaleitni
 • Sveiflujöfnunarauki
 • Eiginfjárkröfur á ákveðna geira  
 • Vogunarhlutfall
 • Veðsetningarhlutfall (LTV)
 • Greiðslubyrðar-, skulda- og lánshlutfall (DSTI/DTI/LTI)
2að vinna gegn óhóflegu gjalddagamisræmi og lausafjárskorti, sér í lagi í erlendum gjaldmiðlum.
 • Innlán sem hlutfall af útlánum
 • Lausar eignir sem hlutfall af heildareignum
 • Kjarnafjármögnun sem hlutfall af heildarfjármögnun  
 • Lausafjárhlutfall (LCR)
 • Fjármögnunarhlutfall (NSFR)
 • Takmörkun á fjármögnun annarri en kjarnafjármögnun (LTD)
 • Reglur um gjaldeyrisjöfnuð
 • Veðkröfur og frádrag
3að vinna gegn beinni og óbeinni áhættu af skuldbindingum vegna samþjöppunar og krosseignatengsla.
 • Lántakasamþjöppun
 • Geirasamþjöppun
 • Smitáhætta
 • Takmarkanir á stórum áhættuskuldbindingum
 • Kerfisáhættuauki
 • Eiginfjárkröfur á ákveðna geira
 • Stöðustofnunarskylda miðlægs mótaðila
4að vinna gegn áhrifum neikvæðra hvata og freistnivanda einkum stofnana sem teljast kerfislega mikilvægar.Kerfislegt mikilvægi íslenskra fjármálafyrirtækja
 • Stærð
 • Mikilvægi
 • Flækjustig
 • Tengsl
 • Eiginfjárauki á kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki
5að vinna gegn óæskilegum áhrifum af óhóflegu fjármagnsflæði til og frá landinu sem getur magnað hagsveifluna
 • Fjármangsflæði án beinnar erlendrar fjárfestingar og flæðis gömlu bankanna
 • Fjármagnsflæði erlendra aðila
 • Hrein erlend staða þjóðarbúsins
 • Hrein ný fjárfesting
 • Fjárstreymistæki, s.s. sérstök bindiskylda
 • Takmarkanir á lántökur óvarinna aðila
 • Lausafjárhlutfall (LCR)
 • Fjármögnunarhlutfall (NSFR)
6að vinna gegn smitáhættu og öðrum veikleikum í fjármálainnviðum.
 • Greiðsluflæði stórgreiðslukerfis
 • Greiðsluferli í stórgreiðslukerfi
 • Meðalinnstæður á Stórgreiðslureikningum
 • Veðkröfur og frádrag í stöðustofnunum miðlægra mótaðila
 • Aukin upplýsingagjöf

Eiginfjáraukar

Eiginfjáraukar sem fjármálastöðugleikaráð á aðkomu að eru þrír, þ.e. eiginfjárauki vegna kerfislegs mikilvægis, eiginfjárauki vegna kerfisáhættu og sveiflujöfnunarauki. Fjórði eiginfjáraukinn, verndunarauki, leggst á fjármálafyrirtæki án aðkomu fjármálastöðugleikaráðs sbr. 86. gr. e. laga um fjármálafyrirtæki. Sveiflujöfnunarauka skal endurskoða ársfjórðungslega og eiginfjárauka vegna kerfislegs mikilvægis árlega.

Sveiflujöfnunarauki er nú 1,25%, eiginfjárauki á kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki 2% og eiginfjárauki vegna kerfisáhættu 3%. Í fyrsta sinn sem ákveðið var að beina tilmælum um eiginfjáraukana, á fundi ráðsins 22. janúar 2016, fylgdu tilmælunum útskýringar ráðsins á aukunum og aðferðafræðinni við mat þeirra auk rökstuðnings um sveiflujöfnunarauka, eiginfjárauka á kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki og eiginfjárauka vegna kerfisáhættu.

Ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárauka má finna á heimasíðu þess: https://www.fme.is/eftirlitsstarfsemi/fjarmalastodugleiki/eiginfjaraukar/

Tilmæli Fjármálastöðugleikaráðs um eiginfjárauka

 SveiflujöfnunaraukiEiginfjárauki vegna KMFEiginfjárauki vegna kerfisáhættu
22. janúar 2016Tilmæli til FjármálaeftirlitsinsTilmæli um eiginfjárraukaTilmæli til Fjármálaeftirlitsins
30. september 2016Tilmæli um sveiflujöfnunarauka  
20. júní 2017 Tilmæli um sveiflujöfnunarauka
  
10. apríl 2017Tilmæli um sveiflujöfnunarauka Tilmæli um eiginfjárrauka  
22. desember 2017 Tilmæli um sveiflujöfnunarauka  

Eiginfjáraukar á fjármálafyrirtæki

Taflan hér fyrir neðan sýnir þá eiginfjárauka sem mynda samanlagða kröfu um eiginfjárauka, samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, miðað við 1. janúar 2018. Eiginfjáraukar koma til viðbótar almennri kröfu um eiginfjárgrunn.


Eiginfjárauki
    vegna
    kerfisáhættu
Eiginfjárauki
    vegna
    kerfislegs
    mikilvægis
Sveiflu-
  jöfnunar-
auki
Verndunar-
auki*
Samanlögð
krafa um
 eiginfjárauka
Arion banki hf.3%2%1,25%2,50%8,75%
Íslandsbanki hf.3%2%1,25%2,50%8,75%
Landsbankinn hf.3%2%1,25%2,50%8,75%
Kvika banki hf. og sparisjóðir**2%***0%1,25%2,50%5,75%
Lánafyrirtæki****0%0%1,25%2,50%3,75%


*        Verndunarauki er lagður á skv. 86. gr. e. laga nr. 161/2002 og á fjármálastöðugleikaráð ekki aðkomu að honum
**      Sparisjóðir Austurlands, Höfðhverfinga, Strandamanna og Suður-Þingeyinga
***    Verður 3% 1. janúar 2019
****  Borgun hf., Byggðastofnun, Lánasjóður sveitarfélaga ohf., Lykill fjármögnun hf. og Valitor hf.

Álit fjármálastöðugleikaráðs

Heimild til þess að setja reglur um hámark veðsetningarhlutfalls fasteigna og hámarka heildarfjárhæðar fasteignaláns eða greiðslubyrðar þess í hlutfalli við tekjur neytenda var veitt Fjármálaeftirlitinu í lögum nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda, að fengnu áliti fjármálastöðugleikaráðs. Heimildin tók gildi 1. apríl 2017 og slíkar reglur voru settar í fyrsta skipti 20. júlí 2017. Fjármálastöðugleikaráð gaf álitá þeim reglum á fundi sínum 20. júní sama ár.

Kerfislega mikilvægar fjármálastofnanir og innviðir

Fjármálastöðugleikaráði ber að staðfesta skilgreiningar á kerfislega mikilvægum eftirlitsskyldum aðilum, innviðum og mörkuðum sem eru þess eðlis að starfsemi þeirra geti haft áhrif á fjármálastöðugleika.

Kerfislega mikilvægir eftirlitsskyldir aðilar eru þeir sem vegna stærðar og eðlis starfsemi sinnar geta haft umtalsverð neikvæð áhrif á stöðugleika fjármálakerfisins og á raunhagkerfið ef þeir lenda í erfiðleikum. Af þessum ástæðum og sakir þess að kerfislega mikilvægir eftirlitsskyldir aðilar eru almennt mikilvægir varðandi starfsemi fjármálainnviða og aðgang almennings að greiðsluþjónustu og eigin sparifé er opinbert öryggisnet um þær þéttara en ella og beinar og óbeinar ábyrgðir á skuldbindingum þeirra víðtækari. Það magnar freistnivanda sem birtist í því að þessir aðilar gætu tekið meiri áhættu en hagkvæmt er fyrir fjármálakerfið í heild. Því er þörf á regluverki sem vinnur á móti þessari tilhneigingu, sérstaklega í formi aukinna eiginfjárkvaða og virkara eftirlits en ella.

Fjármálastöðugleikaráð hefur staðfest að Arion banki hf., Íslandsbanki hf. og Landsbankinn hf. og Íbúðalánasjóður teljist kerfislega mikilvægir eftirlitsskyldir aðilar.

Þá teljast stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands, jöfnunarkerfi Greiðsluveitunnar ehf. og verðbréfauppgjörskerfi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar hf. kerfislega mikilvægir innviðir.

Fundargerðir og fréttatilkynningar

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn