Hoppa yfir valmynd

Fjármálastöðugleikaráð

Fjármálastöðugleikaráð er formlegur samstarfsvettvangur stjórnvalda um fjármálastöðugleika. Ráðið er vettvangur samráðs, upplýsingaskipta og stefnumótunar í því skyni að efla og varðveita fjármálastöðugleika í almannaþágu, sporna við uppsöfnun kerfisáhættu og samhæfa viðbúnað opinberra aðila við fjármálakreppu. Í ráðinu sitja ráðherra, sem er formaður ráðsins, og seðlabankastjóri. Fjármálastöðugleikaráð kemur saman að minnsta kosti þrisvar á ári en fundar jafnframt sérstaklega þegar fjármálastöðugleika er ógnað eða hætta er á atburðum sem geta valdið umtalsverðum smitáhrifum eða tjóni á fjármálamarkaði.

Helstu verkefni fjármálastöðugleikaráðs eru:

  • að móta opinbera stefnu um fjármálastöðugleika,
  • að vakta efnahagslegt ójafnvægi, áhættu í fjármálakerfinu, óæskilega hvata og aðrar aðstæður sem eru líklegar til að ógna fjármálastöðugleika,
  • að meta árangur af þjóðhagsvarúðartækjum  

Þjóðhagsvarúðartæki

Í þjóðhagsvarúð felst heildareftirlit með fjármálakerfinu, eftirlit með samspili þeirra sem mynda kerfið og tengslum fjármálakerfisins við raunhagkerfið. Aukin áhersla hefur verið lögð á þjóðhagsvarúð á alþjóðavísu í kjölfar fjármálaáfallsins þar sem talið hefur verið að sjónarhorn eftirlitsaðila í aðdraganda áfallsins hafi verið of þröngt. Hér á landi hafa verið bundin í lög nokkur stjórntæki sem hafa að markmiði að stuðla að þjóðhagsvarúð og þar með fjármálastöðugleika, en þau eru:

  • eiginfjáraukar
  • takmarkanir á fasteignalánum til neytenda
  • takmarkanir á lánveitingum í erlendum gjaldmiðlum

Eiginfjáraukar

Um eiginfjárauka er fjallað í 86. gr. a. – e. í lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Seðlabanki Íslands setur reglur um sveiflujöfnunarauka, eiginfjárauka vegna kerfisáhættu og eiginfjárauka vegna kerfislegs mikilvægis.

Taflan sýnir þá eiginfjárauka sem gilda hér á landi miðað við 18. mars 2020. Eiginfjáraukar koma til viðbótar almennri kröfu um eiginfjárgrunn.

 
Eiginfjárauki
        vegna
        kerfisáhættu

Eiginfjárauki
        vegna
        kerfislegs
        mikilvægis

Sveiflu-
        jöfnunar-
        auki

Verndunar-
        auki*

Samanlögð
        krafa um
        eiginfjárauka

Arion banki hf.
3%
2%
0%
2,50%
7,5%
Íslandsbanki hf.
3%
2%
0%
2,50%
7,5%
Landsbankinn hf.
3%
2%
0%
2,50%
7,5%
Kvika banki hf. og sparisjóðir**
3%
0%
0%
2,50%
5,5%
Lánafyrirtæki***
0%
0%
0%
2,50%
2,5%

 

* Verndunarauki er lagður á skv. 86. gr. e. laga nr. 161/2002 og Seðlabankinn setur því ekki reglur um hann.
** Sparisjóðir Austurlands, Höfðhverfinga, Strandamanna og Suður-Þingeyinga
*** Saltpay IIB., Byggðastofnun og Lánasjóður sveitarfélaga ohf. 

Takmarkanir á lánum

Í lögum um fasteignlán til neytenda nr. 118/2016, er heimild til þess að takmarka veðsetningarhlutfall nýrra lána sem og fjárhæð láns í hlutfalli við tekjur lántaka. Enn sem komið er hefur fyrri heimildin eingöngu verið nýtt og voru settar reglur í júlí 2017 sem höfðu það markmið að varðveita fjármálastöðugleika og treysta viðnámsþrótt lánveitenda og lántaka gagnvart ójafnvægi á húsnæðismarkaði. Samkvæmt reglunum er hámark veðsetningarhlutfalls 85%, en þó 90% fyrir fyrstu kaupendur.

Samkvæmt lögum um gjaldeyrismál er  Seðlabanka Íslands heimilt, í þágu fjármálastöðugleika, að setja lánastofnunum reglur um útlán tengd erlendum gjaldmiðlum til aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu. Seðlabankinn getur ákveðið lánstíma, tegundir tryggingar og hámarkshlutfall lána sem eru tengd erlendum gjaldmiðlum af heildarútlánasafni lánastofnunar. Hámarkshlutfallið getur hvort heldur sem er verið hlutfall af heildarútlánum viðkomandi stofnunar eða sérstakt hlutfall vegna einstakra flokka óvarinna lántaka. Einnig er í reglunum heimilt að kveða á um skýrsluskil lánastofnana til Seðlabankans. Enn sem komið er hefur þessi heimild ekki verið nýtt.

Önnur stjórntæki sem styðja við fjármálastöðugleika

Reglum um laust fé lánastofnana er ætlað að draga úr lausafjáráhættu með því að stuðla að því að lánastofnanir eigi lausar eignir til að mæta skuldbindingum á tilteknu tímabili. Gerðar eru kröfur um að lánastofnanir hafi tiltækar lausar eignir til að geta ekki aðeins staðið skil á skuldbindingum á gjalddaga heldur einnig mögulegu útflæði sem verður til dæmis vegna úttekta innlána, minni möguleika á fjármögnun fyrir lánastofnanir eða aukinna krafna um tryggingar eða annað sem krefst fjárútláta lánastofnunar við álagsaðstæður næstu 30 daga. Settar eru kröfur um lágmarks lauss fjár í krónum (50%), erlendum gjaldmiðlum (100%) og um heildarstöðu (samanlagt hlutfall erlendra gjaldmiðla og króna, 100%).

Reglur um fjármögnunarhlutfall í erlendum gjaldmiðlum hafa það markmið að takmarka tímamisræmi á milli eigna og skulda viðskipta¬banka í erlendum gjaldmiðlum og að hve miklu leyti viðskiptabankar reiða sig á óstöðuga skammtímafjármögnun til að fjármagna langtímaeignir í erlendum gjaldmiðlum. Fjármögnunarhlutfall viðskiptabanka í erlendum gjaldmiðlum, að teknu tilliti til gjaldeyrisjafnaðar, skal á hverjum tíma eigi vera lægra en 1. Í reglunum er kveðið á um að reikna skuli fjármögnunarhlutfall í íslenskum krónum og fyrir heild (krónur og erlenda gjaldmiðla) en engar takmarkanir settar.

Reglum um gjaldeyrisjöfnuð er ætlað að takmarka gengisáhættu. Fyrir kerfislega mikilvægar lánastofnanir skal opin gjaldeyrisstaða aldrei vera meiri en 10% í hverjum einstökum gjaldmiðli og í heild. Hjá þeim lánastofnunum sem ekki eru kerfislega mikilvægar eru mörkin 15% fyrir hvern einstakan gjaldmiðil og fyrir heildina. Opin gjaldeyrisstaða má þó aldrei nema meira en 25 mö.kr. hvort sem lánastofnun er kerfislega mikilvæg eða ekki.

Hin sérstaka bindingarskylda á fjármagnsinnstreymi á skuldabréfamarkað og í hávaxtainnstæður var sett á í júní 2016 með það að markmiði að tempra og hafa áhrif á samsetningu innstreymis erlends fjármagns á innlendan skuldabréfamarkað og hávaxtainnstæður og til að styrkja miðlunarferli peningastefnunnar. Bindingarskyldan er í dag 0%.

Kerfislega mikilvægar fjármálastofnanir og innviðir

Kerfislega mikilvægir eftirlitsskyldir aðilar eru þeir sem vegna stærðar og eðlis starfsemi sinnar geta haft umtalsverð neikvæð áhrif á stöðugleika fjármálakerfisins og á raunhagkerfið ef þeir lenda í erfiðleikum. Af þessum ástæðum og sakir þess að kerfislega mikilvægir eftirlitsskyldir aðilar eru almennt mikilvægir varðandi starfsemi fjármálainnviða og aðgang almennings að greiðsluþjónustu og eigin sparifé er opinbert öryggisnet um þær þéttara en ella og beinar og óbeinar ábyrgðir á skuldbindingum þeirra víðtækari. Það magnar freistnivanda sem birtist í því að þessir aðilar gætu tekið meiri áhættu en hagkvæmt er fyrir fjármálakerfið í heild. Því er þörf á regluverki sem vinnur á móti þessari tilhneigingu og stuðlar að virkara eftirliti með þessum mikilvægu aðilum. Arion banki hf., Íslandsbanki hf. og Landsbankinn hf. teljast kerfislega mikilvægir eftirlitsskyldir aðilar hér á landi. Þá teljast millibankakerfi Seðlabanka Íslands (MBK) og verðbréfauppgjörskerfi Nasdaq CSD SE kerfislega mikilvægir fjármálainnviðir. 

Nánari umfjöllun um kerfislega mikilvæga innviði á vef Seðlabanka Íslands. 

Fréttatilkynningar og fundargerðir

Fjármálastöðugleikaráð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira