Hoppa yfir valmynd

Ágrip af sögu þjóðsöngsins

Árið 1874 var haldin þjóðhátíð í minningu eitt þúsund ára byggðar í landinu. Samkvæmt konungsúrskurði frá 8. sept. 1873 skyldi fara fram guðsþjónusta í öllum kirkjum landsins í lok júlí eða í byrjun ágústmánaðar 1874 af þessu tilefni. Biskup skyldi nánar ákveða messudag og ræðutexta. Dr. Pétur Pétursson ákvað 2. ágúst messudag í aðalkirkjum og ræðutexta 90. sálm Davíðs, 1.-4. og 12.-14. vers, er þannig hljóðar (samkvæmt Biblíuútgáfunni 1866): „Drottinn! Þú varst vort athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og þú til bjóst jörðina og heiminn, já, frá eilífð til eilífðar, ertu guð. Þú gjörir manninn að dufti og segir: Komið aftur, þér mannanna börn, því þúsund ár eru fyrir þínum augum sem dagurinn í gær, þá hann er liðinn, og eins og næturvaka... Kenn oss svo að telja vora daga, að vér verðum forsjálir. Snú þér til vor, drottinn! Hversu lengi aumkastu yfir þína þjóna? Metta oss skjótt með þinni miskunn, þá munum vér fagna og gleðja oss alla daga vors lífs. Gleð oss nú eins marga daga og þú hefur oss beygt, eins mörg ár og vér höfum séð ógæfuna. Lát þína þjóna sjá þitt verk og þeirra börn þína dýrð. Drottins, vors guðs, góðgirni veri yfir oss og staðfesti verk vorra handa, já, lát þér þóknast að staðfesta verkin vorra handa."

Um þetta leyti átti Sveinbjörn Sveinbjörnsson heima í London Street 15 í Edinborg. Stundaði hann söngkennslu og vann að tónsmíðum. Séra Matthías Jochumsson hafði verið sóknarprestur að Móum á Kjalarnesi, en hætti prestskap í bili og dvaldist um hríð hjá Sveinbirni í Edinborg. Þeir voru skólabræður og vinir. Í Edinborg orti séra Matthías fyrsta erindið af lofsöngnum „Ó, guð vors lands," en hin tvö erindin orti hann í London nokkru síðar. Bað séra Matthías Sveinbjörn að semja lag við ljóðið.

Við guðsþjónustu í Dómkirkjunni í Reykjavík sunnudaginn 2. ágúst 1874 var hinn verðandi þjóðsöngur sunginn opinberlega í fyrsta sinn. Konungurinn, Kristján IX., var við messuna. Ljóð og lag var gefið út 1874 og nefndist „Lofsöngur í minningu Íslands þúsund ára".

Séra Matthías orti mörg ljóð að beiðni þjóðhátíðarnefndar, en „Ó, guð vors lands" var ort af eigin hvötum.

Áður en „Ó, guð vors lands" vann sér hefð sem þjóðsöngur mátti segja að „Eldgamla Ísafold“ eftir Bjarna Thorarensen væri um skeið einskonar þjóðsöngur. En lagið var hið sama og við þjóðsöng Breta.

Íslenska ríkið eignaðist höfundarrétt að laginu við þjóðsönginn árið 1948 og að ljóðinu 1949. Menntamálaráðuneytið samdi við Wilhelm Hansen Musik-Forlag í Kaupmannahöfn um kaup á þessum réttindum fyrir milligöngu íslenska sendiráðsins og höfundarrétt að ljóðinu keypti ráðuneytið af erfingjum skáldsins.

Sveinbjörn Sveinbjörnsson var fæddur að Nesi við Seltjörn 28. júní 1847, sonur Þórðar dómstjóra í Landsyfirréttinum Sveinbjörnssonar og seinni konu hans Kirstin Cathrine, dóttur Lauritz M. Knudsen, kaupmanns í Reykjavík. Sveinbjörn útskrifaðist úr Prestaskólanum 21 árs að aldri, stundaði síðan tónlistarnám fimm ár í Kaupmannahöfn, Leipzig og Edinborg. Kona hans var Eleanor, dóttir John Christie lögfræðings frá Banff og konu hans Williamina Peterson frá Aberdeen. Sveinbjörn og Eleanor bjuggu 29 ár í Edinborg, síðan um hríð í Winnipeg, en fluttust til Reykjavíkur 1922 og þaðan til Kaupmannahafnar 1924. Þar andaðist Sveinbjörn 23. febrúar 1927, hneig örendur fram á píanóið. Hann var jarðsettur í kirkjugarðinum við Suðurgötu í Reykjavík. Árið 1953 lét menntamálaráðuneytið reisa legstein á leiði hans. Er það stuðlabergssúla og felld í hana ofarlega afsteypa úr eir af vangamynd, sem Ríkarður Jónsson gerði af tónskáldinu árið 1919. Á súluna er höggvið: Sveinbjörn Sveinbjörnsson, tónskáld. Ríkisstjórn Íslands reisti honum stein þenna.

Árið 1974 lét menntamálaráðuneytið koma fyrir töflu á húsinu nr. 15 við London Street með svofelldri áletrun: Íslenski þjóðsöngurinn „Ó, guð vors lands", lagið og hluti ljóðsins, var saminn í þessu húsi 1874 af Sveinbirni Sveinbjörnssyni og Matthíasi Jochumssyni. - Áletrunin er einnig á ensku.

Þjóðskáldið séra Matthías Jochumsson var fæddur að Skógum í Þorskafirði 11. nóvember 1835, sonur Jochums Magnússonar bónda þar og konu hans Þóru Einarsdóttur frá Skáleyjum. Hann stundaði verslunarstörf í Flatey og var síðan við verslunarnám um hríð í Kaupmannahöfn. Stúdent 1863. Lauk Prestaskólanámi 1865. Hann var prestur að Móum á Kjalarnesi, í Odda á Rangárvöllum og á Akureyri. Dvaldist í Englandi, Danmörku og Noregi 1871-1872. Var ritstjóri Þjóðólfs nokkur ár. Heiðursdoktor við Háskóla Íslands 1920 og sama ár gerður að heiðursborgara á Akureyri. Séra Matthías var þríkvæntur. Konur hans voru Elín Sigríður Diðriksdóttir Knudsen, Ingveldur Ólafsdóttir Johnsen og Guðrún Runólfsdóttir. Séra Matthías andaðist á Akureyri 18. nóvember 1920. Í húsi hans á Akureyri er nú minjasafn um hann.

 

Eftir Birgi Thorlacius. Áður birt í ritinu Fáni Íslands, skjaldarmerki, þjóðsöngur, heiðursmerki, útg. af forsætisráðuneyti 1991

Þjóðsöngur Íslendinga

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum