Hoppa yfir valmynd

Mannauðsstefna Stjórnarráðsins

Framtíðarsýn

Að Stjórnarráðið hafi á að skipa mannauði sem er í stakk búinn að sækja fram og ná árangri við framkvæmd stefnu stjórnvalda.

Áherslur og leiðir

Eftirfarandi áherslur og leiðir hafa verið skilgreindar til þess að framtíðarsýn stefnunnar verði að raunveruleika.

Mannauður

Ráðuneyti hafi á að skipa hæfu, áhugasömu og traustu starfsfólki

 1. Við ákvörðun um ráðningu starfsfólks skal tekið mið af hæfni þess til að inna starfið af hendi. Gæta skal jafnræðis í ráðningarferlinu í samræmi við gildandi lög og reglur.  
 2. Störf hjá Stjórnarráðinu eru auglýst í samræmi við lög, reglur og leiðbeiningar. Um auglýsingar á lausum störfum gilda reglur, nr. 464/1996. Frekari upplýsingar er að finna í ritinu Ráðningar hjá ríkinu. Þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir skal frá henni gengið með formlegum og faglegum hætti.
 3. Leggja skal áherslu á að taka vel á móti nýju starfsfólki og að því líði vel í starfi frá byrjun. Nýtt starfsfólk verði upplýst um almenna starfsemi ráðuneytisins og þann hluta starfseminnar sem lýtur sérstaklega að starfssviði þeirra og um réttindi þeirra og skyldur. Mikilvægt er að starfsfólk kynni sér vel stjórnsýslulög, nr. 37/1993, og upplýsingalög, nr. 50/1996.

Tryggja skal gott samstarf og að gagnkvæmt traust ríki meðal starfsfólks

 1. Starfsmannasamtöl milli starfsfólks og stjórnenda skulu fara fram reglulega eða einu sinni á ári. Í starfsmannasamtölum fer fram umræða um frammistöðu og annað sem snertir starfið og eru þau byggð á samræmdu formi fyrir hvert ráðuneyti.

Stuðla skal að jafnrétti meðal starfsfólks ráðuneyta

 1. Gæta skal fyllsta jafnréttis milli kvenna og karla og að hver starfsmaður verði metinn á eigin forsendum. Stuðlað skal að jafnri stöðu kvenna og karla hjá Stjórnarráðinu og jöfnum tækifærum einstaklinga á sem flestum sviðum, óháð kynferði, sbr. jafnréttisstefnu Stjórnarráðsins.

 2. Tryggja skal körlum og konum jafna möguleika til starfa, verkefna, ábyrgðar, launa, stöðuhækkana, endurmenntunar og starfsþjálfunar.
 3. Öll mismunun á grundvelli kynferðis er óheimil. Allt starfsfólk á rétt á að komið sé fram við það af virðingu og að það sæti ekki kynferðislegri áreitni eða kynferðislegri hegðun sem er ósanngjörn og/eða móðgandi og í óþökk þess sem fyrir henni verður, sbr. 22. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Starfsfólk tekur skýra afstöðu gegn einelti, sbr. stefnu Stjórnarráðsins gegn einelti.

Starfsfólk skal eiga kost á fræðslu og endurmenntun sem eykur hæfni þess í starfi og auðveldar því að takast á við ný og krefjandi viðfangsefni

 1. Fræðsla og þjálfun skal stuðla að því að starfsfólk verði betur í stakk búið til að takast á við ný og breytt verkefni á starfssviði sínu og sé hæfara til að taka þátt í og innleiða breytingar á starfseminni á farsælan hátt.
 2. Ráðuneytin stuðla að því að starfsfólk geti þróað faglega hæfni og aukið frumkvæði og getu til að takast á við ný verkefni sem snúa að starfinu.
 3. Mikilvægt er að yfirmaður og starfsfólk meti þörfina fyrir fræðslu og menntun sem nýtist í starfi og finni leiðir til að mæta þeirri þörf.
 4. Ráðuneytin stuðli að því að stjórnendur hafi tök á að þróa stjórnendahæfni og skilvirka samskiptahæfni í takt við þarfir á hverjum vinnustað.

Auðvelda skal starfsfólki að samræma einkalíf og starf

 1. Mikilvægt er að velferð einstaklinga í einkalífi fari saman við líðan þeirra og árangur í starfi. Leitast skal við að skapa starfsfólki aðstæður til að samræma kröfur starfs‐ og fjölskylduábyrgðar eins vel og kostur er. Starfsfólk skal eiga möguleika á hlutastarfi og sveigjanlegum vinnutíma eftir því sem aðstæður leyfa, t.d. að minnka við sig vinnu tímabundið vegna fjölskylduaðstæðna.

Starfsumhverfi

Ráðuneyti séu eftirsóknarverður vinnustaður í hvetjandi starfsumhverfi þar sem starfsfólki gefst kostur á að vaxa og dafna í starfi

 1. Lögð er áhersla á þarfir, hvatningu, frammistöðu og starfsþróun. Starfsmannasamtöl veita stjórnendum og starfsfólki tækifæri til að veita uppbyggilega endurgjöf, en afar mikilvægt er fyrir starfsfólk að fá endurgjöf fyrir frammistöðu sína og að vita hvaða möguleika það hefur til þróunar innan Stjórnarráðsins.

Starfsfólk sé vel upplýst um verkefni sín og skyldur og hafi þekkingu á málaflokkum og verkefnum viðkomandi ráðuneytis og undirstofnana

 1. Mikilvægir þættir í starfsþróun eru m.a. endurmenntun, tilflutningur og þróun í starfi og þátttaka í þverfaglegum hópum þar sem því verður við komið. Leggja skal áherslu á að starfsfólk þróist í starfi og viðfangsefni taki breytingum í samræmi við hæfni, menntun, reynslu og áhugasvið þess og samræmist þörfum vinnuveitanda hverju sinni.

Bæta skal þjónustu og skapa meira traust og áreiðanleika á opinberum stofnunum ríkisins

 1. Siðareglur og viðmið um góða starfshætti eru leiðarljós í öllum daglegum störfum starfsmanna Stjórnarráðsins. Sjá viðmið fyrir góða starfshætti ríkisstarfsmanna og Siðareglur starfsfólks Stjórnarráðsins, sbr. lög nr. 86/2010 um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands og fleiri lögum (siðareglur).

Tryggja skal góða vinnuaðstöðu fyrir starfsfólk, að aðbúnaður, hollustuhættir og starfsaðstæður séu í góðu lagi.

 1. Ráðuneytin skulu leitast við að tryggja starfsfólki sínu heilsusamlegt og gott starfsumhverfi sem uppfyllir kröfur um öryggi, hollustu og vinnuvistfræði og skapa þar með vinnuaðstæður sem stuðla að velferð og árangri í starfi. Á sama hátt er það á ábyrgð starfsfólks að leggja sitt af mörkum til að skapa slíkar aðstæður og viðhalda þeim, t.d. með heilsurækt.

Árangur

Starfsfólk skal læra hvert af öðru og leggja áherslu á árangur og markvissa stjórnun

 1. Leggja skal ríka áherslu á góðan starfsanda og að starfsfólk sýni hvert öðru virðingu, umburðarlyndi og jákvætt viðmót í öllum samskiptum. Starfsfólk skal vera í stakk búið til þess að vinna saman sem ein liðsheild að sameiginlegum markmiðum ráðuneytisins. Góður starfsandi eykur starfsánægju og gerir ráðuneytin að eftirsóknarverðum vinnustöðum.
 2. Starfsfólki ber að leggja sig fram í starfi, fylgja fyrirmælum, tileinka sér fagleg og vönduð vinnubrögð, þróa hæfni og rétta hegðun sem þörf er á til að skapa árangur við framkvæmd stefnu. Starfsfólk skal leitast við að þróast í starfi og laga sig að breytilegum kröfum sem gerðar eru á hverjum tíma.

Bæta skal vinnubrögð og vinnuferla til að auka skilvirkni og hagkvæmni í rekstri og þjónustu

 1. Sameiginlegt viðfangsefni stjórnenda og starfsfólks er að samræma stefnu og aðgerðir til að ná settum markmiðum og leysa á árangursríkan hátt þau verkefni sem ráðuneytin fara með. Það er sameiginleg ábyrgð allra að þróa vinnubrögð og bæta vinnuferla til að ná þeim árangri sem sóst er eftir.
 2. Stjórnendur þurfa leiðtogahæfni og framtíðarsýn. Stjórnendum ber að tileinka sér markvissa stjórnunarhætti, skipuleggja og stjórna eftir aðstæðum, þróa með sér jákvætt viðhorf, virkja starfsfólk, hvetja, veita stuðning og dreifa ábyrgð og verkefnum til að ná árangri.
 3. Stjórnendur bera ábyrgð á árangri og verkefnum starfsfólks og þurfa því að geta lagt mat á frammistöðu og árangur. Stjórnendur stuðli að því að starfsfólk nái árangri og þróist í starfi. Stjórnendur leiti leiða til þess að gera ráðuneytið að eftirsóknarverðum vinnustað fyrir hæft og metnaðarfullt starfsfólk.

Mannauðsstefnuna skal endurskoðuð árlega. Jafnframt verði hugað að eftirliti með framkvæmd hennar og mati á árangri.

 

Samþykkt á fundi ráðuneytisstjóra 9. nóvember 2010.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira