Hoppa yfir valmynd

Hugtök er varða undirbúning og mótun stefnu

Hugtakalisti til notkunar við stefnumótun málefnasviða og -flokka, tekinn saman af stefnuráði Stjórnarráðsins.

(Skjal í vinnslu 18.10.17.)

Stefnumótun (e. Policy Making)

Opinber stefnumótun (hér eftir stefnumótun) er ferli þar sem leitast er við að meta núverandi stöðu, setja fram framtíðarsýn og velja bestu leið að henni. Í lögum nr. 123/2015 um opinber fjármál er hugtakið stefnumótun notað og í 20. gr. laganna kemur fram að hver ráðherra setur fram stefnu fyrir þau málefnasvið og málaflokka sem hann ber ábyrgð á til eigi skemmri tíma en fimm ára. Niðurstöður eða áherslur stefnumótunar innan stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga geta komið fram í lögum, þingsályktunum, samþykktum eða öðrum opinberum stefnum.

Heimild: Handbók um stefnumótun og áætlanagerð (HOSA), Lög um opinber fjármál (LOF).

Stefna (e. Policy)

Stefna felur í sér umfjöllun og ákvörðun um framtíðarsýn, markmið og árangur af starfsemi yfir tiltekið tímabil, ávinning á tilteknu sviði eða sjónarmið og gildi sem byggt skal á. Stefna nær yfir tiltekið tímabil og er ætlað að stuðla að heildstæðri áætlanagerð, fyrirsjáanleika við töku ákvarðana um aðgerðir og markvissu eftirliti. Innan stjórnsýslunnar vísar hugtakið stefna einkum til þeirra pólitísku áherslna og umbóta sem stjórnvöld hyggjast framkvæma og greint er frá í stefnum fyrir einstök málefnasvið og varða málaflokka og verkefni stjórnsýslunnar. Framkvæmd stefna kemur fram í aðgerðaáætlunum, ákvörðunum og athöfnum stjórnvalda, reglugerðum og lögum.

Heimild: HOSA, breytt lítillega af vinnuhópi IRR og FOR um virka og gagnsæja ferla á netinu.

Stefnumiðuð áætlanagerð (e. Strategic Planning)

Stefnumiðuð áætlanagerð byggir á stefnu og er nánari útfærsla á innleiðingu hennar. Áætlanagerðin felur í sér ferli við forgangsröðun, útfærslu markmiða og áherslur í starfsemi, ávinning eða árangur af þjónustu og starfsemi. Unnin er greining á stöðu starfseminnar, sett fram markmið, árangursmælikvarðar og aðgerðaáætlun um hvernig þeim markmiðum skuli náð. Leitast er við að setja fram hvaða breytingum frá núverandi ástandi skuli náð fram, með hvaða hætti stefnu er hrint í framkvæmd og hver sé æskileg eða viðunandi staða eftir tilsettan tíma.

Heimild: Stefnuráð - J.M.Bryson.

Framtíðarsýn (e. Vision Statement)

Framtíðarsýn er almenn lýsing á þeim árangri eða ávinningi sem ætlað er að ná fram innan ótilgreinds tíma eða með framkvæmd stefnu. Tilgangur framtíðarsýnar er að styrkja grundvöll ákvarðana um markmið og hlutverk í starfsemi til skemmri og lengri tíma. Almennt er gert ráð fyrir að framtíðarsýn sé einföld, skýr, feli í sér áskoranir og viðmið til lengri tíma, byggi á stöðugum forsendum og sé hvetjandi fyrir starfsfólk og aðra hlutaðeigandi.

Heimild: HOSA, breytt lítillega af vinnuhópi IRR og FOR um virka og gagnsæja ferla á netinu.

Hlutverk (e. Mission Statement)

Hlutverk skýrir tilgang starfsemi sviðs eða skipulagsheildar. Í hlutverkalýsingu kemur fram í stuttu máli af hverju sviðið/skipulagsheildin er til og hvaða árangri starfsemin á að ná. Hlutverkalýsing inniheldur bæði lýsingu á hlutverki og meginmarkmiðum (sjá hér á eftir). 

Heimild: Performance Measurement: Getting Results.

Meginmarkmið (e. Goal)

Meginmarkmið tengjast og byggja á hlutverki og lýsa skilgreindum árangri sem ætlað er að ná. Þau eru hugsuð til langs tíma og eru huglæg, það er að segja ekki sett fram með mælikvörðum.

Heimild: Performance Measurement: Getting Results.

Markmið (e. Objective)

Markmið er sett á grunni fyrirliggjandi stefnu og takmarks um árangur í starfsemi skipulagsheildar eða á tilteknu sviði. Í því ljósi vísar markmið til þess hvernig skilgreindum ávinningi verði náð, s.s. með tilliti til gæða vöru eða þjónustu, skilyrða eða annars árangurs eða ástands á tilteknu sviði. Almennt er gert ráð fyrir að markmið séu sértæk, mælanleg, aðgerðamiðuð, raunsæ og tímasett (smart) og ljóst sé hver beri ábyrgð á framkvæmd þeirra og hvernig að fjármögnun verði staðið. Á grundvelli markmiða eru oft sett fram nánari viðmið um árangur og árangursmælikvarðar tilgreindir. Á þann hátt er mögulegt að fylgjast á hlutlægan hátt með framgangi markmiða.

Heimild: Performance Measurement: Getting Results.

Árangursmælikvarði (e. Performance indicator)

Árangursmælikvarði lýsir tölulegri mælieiningu sem gefur til kynna framvindu í átt að settu marki. Slíkir mælikvarðar hefjast oft á orðunum fjöldi eða hlutfall.

Dæmi: Fjöldi aðgerða, hlutfall notenda.

Heimild: Performance Measurement: Getting Results.

Aðföng (e. Input)

Breyttar og bættar áherslur/viðmið, hvers konar upplýsingar, þekking, tími, mannauður, efni eða aðrar bjargir sem eru notaðar í afurðir og áhrif.

Dæmi: Fjárhæðir, fjöldi mannára sem varið er til verksins.

Heimild: Handbók um stefnumótun og áætlanagerð (HOSA).

Afurðir / skilvirkni (e. Output)

Aukin og bætt skilvirkni, niðurstöður úr ferli, vara eða þjónusta.

Dæmi: Fjöldi mála lokið, kílómetrar af bundnu slitlagi, fjöldi nemenda, útgefnar skýrslur, fjöldi kennslustunda.

Heimild: Performance Measurement: Getting Results.

Áhrif (e. Outcome)

Áhrif vísa til greinanlegra breytinga á aðstæðum, hegðan eða viðhorfum, sem gefa til kynna framfarir í átt að markmiðum tiltekinnar starfsemi og sem skipta máli fyrir hag almennings. Eitthvað sem að er stefnt að hámarka eða lágmarka. Áhrifavísar (e. outcome indicators) mæla magn eða tíðni slíkra atvika. Gæði þjónustunnar (e. service quality) er hér skilgreint sem hluti áhrifa.

Dæmi: Hlutfall útskrifaðra sjúklinga sem geta séð um sig sjálfir (áhrif) vs. fjöldi sjúklinga sem fengu meðferð (afurð). 

Heimild: Performance Measurement: Getting Results.

Áhrif til skemmri tíma / milliáhrif (e. Intermediate Outcomes) 

Áhrif sem ætlað er að stuðla að því að endanlegum áhrifum verði náð. Mörg milliskref geta stuðlað að því að lokaáhrifum verði náð.

Heimild: Performance Measurement: Getting Results.

Framfarir (e. End Outcomes) 

Endanleg áhrif sem sóst er eftir: Aukið samfélagsvirði eða sjáanlegar jákvæðar breytingar/bætt gæði fyrir samfélagið (aukin lífsgæði fyrir fólk, bætt heilbrigði þjóðarinnar, öruggara samfélag, bætt skuldastaða, lægri útgjöld heimila).

Heimild: Performance Measurement: Getting Results.

Haghafi (e. Benificiary)

Einstaklingar, hópar eða skipulagsheildir sem hafa beinan eða óbeinan hag af tiltekinni ákvörðun eða athöfnum.

Heimild: Byggt á umræðu vinnuhóps IRR og FOR um virka og gagnsæja ferla á netinu.

Hagsmunaaðili (e. Stakeholder)

Einstaklingar, hópar eða skipulagsheildir sem eiga hagsmuna að gæta, kunna að verða fyrir áhrifum af eða hafa látið sig varða tilteknar ákvarðanir eða athafnir. Þar á meðal eru frjáls félagasamtök, fyrirtæki, launþegar, neytendur, opinberar stofnanir, sveitarfélög o.s.frv.

Heimild: Handbók um stefnumótun og áætlanagerð (HOSA). Byggt á umræðu vinnuhóps IRR og FOR um virka og gagnsæja ferla á netinu.

Notandi (Customer)

Notandi vísar til einstaklings eða skipulagsheildar sem nýtir eða getur nýtt sér þjónustu einka- eða opinbers aðila. Með skilgreiningu á notanda er unnt að greina þarfir afmarkaðs hóps, viðhorf hans og sjónarmið, sbr. notendamiðaða þjónustu.

Heimild: Byggt á umræðu vinnuhóps IRR og FOR um virka og gagnsæja ferla á netinu.

 

Heimildir:

Bryson, John M. 2011. Strategic Planning for Public and Nonprofit Organizations: A Guide to Strengthening and Sustaining Organizational Achievement (4th edition).

Hatry, Harry P. 2006. Performance Measurement: Getting Results (2nd edition).

Stjórnarráð Íslands. 2013. Handbók um opinbera stefnumótun og áætlanagerð. https://www.stjornarradid.is/media/forsaetisraduneyti-media/media/utgefidefni/handbok-stefnumotun.pdf

Vinnuhópur forsætisráðuneytis og innanríkisráðuneytis um virka og gagnsæja ferla á netinu.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum