Hoppa yfir valmynd

Spurt og svarað um bann við burðarplastpokum

Samkvæmt lögum sem tóku gildi 1. september 2019 er óheimilt að afhenda alla burðarpoka, þar með talið burðarpoka úr plasti, án endurgjalds á sölustöðum vara og skal gjaldið vera sýnilegt á kassakvittun.

Frá og með 1. janúar 2021 er síðan óheimilt fyrir verslanir að afhenda burðarpoka úr plasti. Ekki skiptir máli hvort það er með eða án gjalds. Bannið á sem sé einungis við um plastpoka og ekki burðarpoka úr öðrum efnum.

Burðarpokar úr plasti eru bæði þykku pokarnir sem hægt var að fá eða kaupa í stykkjatali á afgreiðslukössum verslana og þunnu pokarnir sem til dæmis var hægt að fá endurgjaldslaust í grænmetiskælum matvörubúða.

Bannið tekur ekki til plastpoka sem eru söluvara í hillum í verslunum, svo sem nestispoka og ruslapoka sem seldir eru margir saman í rúllum.


Plast hverfur ekki eða eyðist við náttúrulegt niðurbrot, heldur brotnar það niður í smærri og smærri hluta og verður að endingu að svokölluðu örplasti. Til að framleiða plast þarf olíu og plastið sjálft getur verið skaðlegt fyrir lífríkið.

Banni við burðarplastpokum er ekki ætlað að vera allsherjarlausn á plastvandamálinu, heldur ein aðgerð af mörgum. Hér er um mikilvægt skref að ræða, flest fólk kaupir til dæmis reglulega í matinn og ber vörurnar heim í pokum. Aðgerðin snertir þannig daglegt líf okkar og eykur vitund okkar um plast og notkun þess í okkar daglega lífi.

Því sjónarmiði hefur verið haldið á lofti að plastpokarnir séu aðeins brot af plastvandanum og ekki ætti að horfa til þeirra heldur gera þess í stað eitthvað annað. Margvíslegra aðgerða er hins vegar þörf. Verkefnið fram undan er umfangsmikið og ýmiss konar lausnir nauðsynlegar, plastpokarnir eru þar eitt skref af mörgum. Með lögunum fylgir umhverfis- og auðlindaráðherra eftir tillögum samráðsvettvangs um aðgerðir í plastmálefnum sem í voru fulltrúar atvinnulífs, sveitarfélaga, umhverfisverndarsamtaka, félagasamtaka, opinberra stofnana, Alþingis, ráðuneyta og fleiri. Hópurinn skilaði ráðherra tillögum að 18 aðgerðum í nóvember síðastliðnum og bann við burðarplastpokum var ein þeirra. Ráðherra gaf út aðgerðaáætlunina Úr viðjum plastsins árið 2020.

 


Burðarplastpokar hafa þegar verið bannaðir í fjölda ríkja, svo sem Ítalíu, Frakklandi, Indlandi, Kenía, Makedóníu, Kína, Bangladess, Máritaníu, Úganda, Madagaskar og Nýja-Sjálandi. Auk þess hafa burðarplastpokar hafa verið bannaðir í fjölda borga í Bandaríkjunum og tveimur ríkjum: Havaí og Kalíforníu.
Nærri tveir af hverjum þremur Íslendingum eru samkvæmt könnun MMR sem birt var í október 2018 hlynntir banni á einnota plastpokum í verslunum. Tæp 41% kváðust mjög hlynnt slíku banni.

Heildarniðurstöður könnunarinnar voru þessar: 21% svarenda kváðust vera andvíg banni á einnota plastpokum, það er 9% mjög andvíg og 12% frekar andvíg. Þá kváðust tæp 21% frekar hlynnt banni og tæp 41% mjög hlynnt eða 61% samtals. Loks kváðust 17% hvorki vera andvíg né fylgjandi banni á einnota plastpokum í verslunum.
Jú, það má að sjálfsögðu. Bannið snýst einungis um að óheimilt er fyrir verslanir og sölustaði að afhenda viðskiptavinum sínum burðarpoka úr plasti. Fólk getur þannig haldið áfram að nota plastpoka – og engum verður refsað fyrir slíkt. Öll erum við þó hvött til að draga eins og við getum úr notkun á plasti og velja heldur það sem er fjölnota en það sem er einnota.

Jú, bannið tekur ekki til plastpoka sem eru söluvara í hillum verslana, svo sem nestispoka og ruslapoka sem seldir eru margir saman í rúllum. Á afgreiðslukössum og í grænmetiskælum er ekki lengur leyfilegt að bjóða upp á plastpoka í stykkjatali.

Með því að banna plastpoka tökumst við á við það mikla magn plastpoka sem er í umferð og það er mikilvægt. Bannið hefur hins vegar víðtækari áhrif. Það snertir daglegt líf okkar og virkjar okkur með beinum hætti við að hugsa um lausnir án plasts. Aðgerðin vekur upp nauðsynlega umræðu um plastmengun, neyslu og sóun og fær okkur til að hugsa á annan hátt en áður um plast og eigin neyslu.

Í staðinn fyrir burðarpoka úr plasti er hægt að nota fjölnota poka fyrir matvæli og önnur innkaup. Margir slíkir pokar eru búnir til úr endurunnu plasti og taui. Í stað þess að nota poka sem þessa er líka hægt að nota það sem við höfum í höndunum – s.s. handtöskur, töskur eða annað.

Svokallaðar Pokastöðvar hafa einnig sprottið upp vítt og breitt um landið en þar safna sjálfboðaliðar gömlum stuttermabolum eða öðrum vefnaði og sauma úr því fjölnota poka sem síðan eru boðnir fólki til láns í verslunum.

Í staðinn fyrir litlu plastpokana í grænmetiskælunum er einnig hægt að nota fjölnota poka. Ávexti og grænmeti hafa reyndar oft náttúrulegar umbúðir og þurfa ekki poka en ef poki er nauðsynlegur er einfalt að nota margnota net og margnota poka.


Í umræðu um lífsferilsgreiningu fjölnota poka og plastpoka er mikilvægt að hafa í huga að forsendur slíkra greininga geta verið mismunandi, allt eftir því hvaða markað er verið að skoða. Til dæmis er stór hluti plastpoka á Íslandi urðaður með tilheyrandi umhverfisáhrifum sem ekki eru alltaf teknar inn í greiningarnar. Því ber að varast að yfirfæra án aðlögunar niðurstöður frá öðrum löndum á Ísland. Lykillinn er að:

  • Velja fjölnota poka úr endurunnu efni en ekki nýju hráefni.
  • Eignast fáa góða poka sem ganga undir allt.

Eins og Umhverfisstofnun bendir á: Því meira sem þú flokkar heima hjá þér því færri poka þarftu.

Eftir því sem við flokkum meira frá af plasti, pappír, málmi, gleri, því sem er lífrænt o.s.frv. því minna fellur til af blönduðum úrgangi – og því minni eftirspurn verður eftir lausnum fyrir ruslatunnuna.

Lausnirnar eru þó fjölmargar: Í stað þess að setja plastpoka í ruslið getum við sem dæmi notað poka sem til falla á heimilinu og munu halda áfram að gera það: Poka undan brauði, kartöflum, morgunkorni, hverju sem er. Fyrir þau sem vilja poka af hefðbundinni stærð í ruslafötuna í eldhúsinu eru til dæmis til svokallaðir lífbrjótanlegir pokar. Og fyrir þau sem eftir sem áður kjósa plast í fötuna sína verður áfram hægt að kaupa plastpoka sem seldir eru margir saman í rúllum. Þeir eru þá söluvara í hillum verslana en ekki í stykkjatali á kassanum. Slíkir pokar verða áfram leyfðir.

Síðan eru til fleiri lausnir. Ruslið sem er blautt í tunnunni okkar er í raun matur sem við erum að henda. Því meira sem við drögum úr matarsóun því minna verður af rusli í tunnunni.

Loks má nefna að sum sveitarfélög, til dæmis Reykjavíkurborg, leyfa íbúum sínum að setja blandaðan úrgang beint í gráu tunnuna – sem sé án poka. Það er svo á ábyrgð íbúa að þrífa tunnurnar reglulega. Endurvinnsluefni má einnig setja laust í tunnurnar og í gáma á grenndar- og endurvinnslustöðvum.


Á vef Umhverfisstofnunar er bent á að umhverfisáhrif lífbrjótanlegra poka fari eftir því hvernig þeir eru framleiddir, en best sé ef þeir eru gerðir úr hliðarafurðum af annarri matvælaframleiðslu og bæði hæfir til moltugerðar og niðurbrjótanlegir í náttúrunni.

Þegar lífbrjótanlegir pokar brotna niður á urðunarstað verða til gróðurhúsalofttegundir. Metangasinu er á hinn bóginn safnað á tveimur urðunarstöðum og það síðan nýtt sem eldsneyti. Einn helsti kosturinn við þessa poka er að ef þeir sleppa út í náttúruna valda þeir ekki sama skaða á lífríkinu og plastpokarnir.

Umhverfisstofnun bendir á að í góðu lagi sé að nota lífbrjótanlega poka undir ruslið en að sama skapi sé ekki æskilegt að færa eina einnota notkun yfir á aðra. Ýmsar aðrar lausnir séu til fyrir rusl og því meira sem þú flokkir heima hjá þér því færri poka þurfir þú fyrir heimilissorpið.


Nei, frá og með 1. janúar 2021 er verslunum óheimilt að bjóða upp á allar tegundir einnota burðarpoka úr plasti við afgreiðslukassa.  Bannið tekur til einnota burðarpoka úr hverskyns plasti, líka poka úr lífbrjótanlegu plasti, niðurbrjótanlegu plast, maíspoka og poka úr endurunnu plasti.

Með lögunum er innleidd tilskipun Evrópusambandsins sem miðar að því að draga úr notkun á burðarpokum úr plasti en fjallað er um árlegt notkunarmagn burðarpoka úr plasti í henni. Er þar talað um að ríki geti gripið til ráðstafana sem tryggja að eigi síðar en 31. desember 2019 fari árlegt notkunarmagn ekki yfir 90 þunna burðarpoka úr plasti á einstakling og eigi síðar en 31. desember 2025 ekki yfir 40 þunna burðarpoka úr plasti á einstakling. Ákvæði um hámarks árlegt notkunarmagn einstaklings setur þannig mörk um það hversu mikil plastpokanotkunin getur verið á hverjum tilteknum tíma. 

Jafnvel þótt burðarplastpokar séu bannaðir á sölustöðum vara mun eitthvað af plastpokum verða áfram í umferð – ýmist gamlir pokar sem notaðir eru aftur og aftur eða nýir pokar sem eru söluvara í hillum verslana en ekki afhentir við afgreiðslukassa.


Lögin innleiða tilskipun Evrópusambandsins sem miðar að því að draga úr notkun á burðarpokum úr plasti en ganga þó lengra en lágmarkskröfur tilskipunarinnar gera ráð fyrir. Þetta er gert til að sýna gott fordæmi og takast af enn frekari krafti á við plastmengun og neyslu. Á þremur sviðum ganga lögin lengra en Evróputilskipunin gerir ráð fyrir:

  • Þau ná til hefðbundinna burðarpoka úr plasti, óháð þykkt þeirra. Þau ná þannig einnig til þunnu plastpokana sem fáanlegir hafa verið í grænmetiskælum. Tilskipunin sjálf nær til burðarpoka úr plasti sem eru þynnri en 50 míkron og samkvæmt henni er ríkjum heimilt að undanskilja þynnstu pokana, sem eru þynnri en 15 míkron. Ríki eru á hinn bóginn hvött til að gera það ekki og varð Ísland við þeirri hvatningu. Lögin ná þar að auki til plastpoka sem eru þykkari en 50 míkron.
  • Lögin sem tóku gildi 1. janúar 2021 kveða á um að óheimilt er að afhenda burðarpoka úr plasti, hvort sem er með eða án endurgjalds, á sölustöðum vara. Samkvæmt tilskipuninni er aðildarríkjum heimilt að gera einmitt þetta. 
  • Loks er í lögunum kveðið á um að skylda til að taka gjald fyrir plastpoka gildi um alla burðarpoka, óháð því úr hvaða efni þeir eru. Þetta er gert til að reyna að auka hlut fjölnota poka, draga úr ofneyslu burðarpoka og koma í veg fyrir að ein einnota neysla færist yfir á aðra.

Umhverfis- og auðlindaráðherra gaf út sérstaka aðgerðaáætluní plastmálefnum, Úr viðjum plastins, í september 2020. Aðgerðirnar í áætluninni eru 18 talsins hafa flestar komið til framkvæmda. Þær má nálgast hér.

Bann við burðarplastpokum er ein af aðgerðunum. Önnur aðgerð snýr að aðstoð við neytendur sem mæta með eigin umbúðir undir keypta matvöru. Enn önnur aðgerð felur í sér viðurkenningar fyrir framúrskarandi plastlausar lausnir og hefur að markmiði að draga fram það sem vel er gert varðandi slíkar lausnir og veita nýsköpun aukinn slagkraft. Árlega er auglýst eftir tilnefningum og verðlaun veitt í tengslum við Plastlausan september. Frekari upplýsingar má nálgast á vef Umhverfisstofnunar.

Þessu til viðbótar má nefna aðgerðir um vitundarvakningu um ofnotkun á plasti og mögulega álagningu úrvinnslugjalds á fleiri plastvörur.

Ljóst er að bann við burðarplastpokum er einungis ein aðgerð af mörgum.


Plast er efni sem endist afar lengi og er því hentugt til ýmissa nota. Einmitt þessi eiginleiki þess gerir það hins vegar einstaklega óhentugt sem einnota efni. Plast er í stórum stíl einnota – einungis notað einu sinni. Þetta eru hlutir sem fylgja okkur ef til vill nokkur andartök en geta enst í tugi og hundruð ára sem úrgangur.

Plast hverfur ekki eða eyðist við náttúrulegt niðurbrot, heldur brotnar það niður í smærri og smærri hluta og verður að endingu að svokölluðu örplasti. Til að framleiða plast þarf olíu og plastið sjálft getur verið skaðlegt fyrir lífríkið – bæði þegar dýr innbyrða það eða flækjast í því og vegna þess að í plasti eru oft, eða loða við það, efni sem geta haft hormónaraskandi áhrif. Menn hafa af því áhyggjur hvort þessi efni munu svo berast áfram til okkar mannanna.

Alltof oft endar plastið úti á víðavangi og sökum þess hve létt það er fýkur það auðveldlega um, flýtur niður ár og læki og endar úti í sjó. Plast í hafi er þannig orðið víðtækt vandamál. Verkefnið er það stórt að ef fram heldur sem horfir verður árið 2050 meira plast í hafinu en fiskar.


Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum