Hoppa yfir valmynd
17. mars 2021 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Ráðherra stýrði lokafundi Stjórnstöðvar ferðamála

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, stýrði lokafundi Stjórnstöðvar ferðamála - myndGolli

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra stýrði lokafundi Stjórnstöðvar ferðamála þann 16. mars 2021, en Stjórnstöðin hefur verið starfrækt frá árinu 2015.

Stjórnstöðin var samráðsvettvangur ríkisstjórnar Íslands, Sambands íslenskra sveitafélaga og Samtaka ferðaþjónustunnar og hóf störf í kjölfar útgáfu Vegvísis í ferðaþjónustu. Þar voru skilgreindir sjö áhersluþættir: Samhæfing, jákvæð upplifun ferðamanna, áreiðanleg gögn, náttúruvernd, hæfni og gæði, aukin arðsemi og dreifing ferðamanna.

Stjórnstöðinni var falið að fylgja þessum verkefnum úr hlaði og hefur hún undanfarin ár samhæft aðgerðir og útfært leiðir til að leggja þann trausta grunn sem nú er til staðar í íslenskri ferðaþjónustu. Hlutverk Stjórnstöðvar ferðamála var því meðal annars að ná utan um öran vöxt greinarinnar með skilgreiningu brýnustu forgangsmála og að tryggja samhæfingu aðgerða og framkvæmd þeirra þvert á stjórnkerfið. Með þessu var unnið að því að styrkja grunnstarfsemi ferðaþjónustunnar og styðja við frekari mótun markmiða, verkefna og aðgerða sem gætu stuðlað að framgangi greinarinnar.

Árangur af fimm ára starfsemi Stjórnstöðvar ferðamála er mikill þar sem helstu hagaðilar íslenskrar ferðaþjónustu hafa unnið saman að því að framkvæma þau krefjandi verkefni sem greinin og stjórnvöld stóðu frammi fyrir árið 2015.

Meðal samhæfingarverkefna sem hafa verið unnin á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála má nefna meginverkefni á borð við stofnun Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, sviðsmynda- og áhættugreiningar, ástandsmat ferðamannastaða, mótun skipulags við öflun áreiðanlegra gagna, gerð Mælaborðs ferðaþjónustunnar, mótun áfangastaðaáætlana (DMP) og undirbúning að stofnun áfangastaðastofa (DMO) í öllum landshlutum, mótun Framtíðarsýnar og leiðarljóss íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 og þróun Jafnvægisáss ferðamála sem nú hefur verið birtur.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

„Á þessum tímamótum er sérlega ánægjulegt að segja að meginmarkmiði Stjórnstöðvar Ferðamála hafi verið náð og að okkur hafi tekist að skapa þann grunn sem nauðsynlegur var til að móta stoðkerfi ferðaþjónustu til framtíðar. Við sjáum það, í þeim ólgusjó sem við stöndum í nú vegna heimsfaraldursins, að við stöndum á sterkum grunni og við höldum áfram að byggja ferðaþjónustu til framtíðar. Við sjáum þær grundvallarbreytingar sem hafa orðið undanfarin ár bæði á áfangastöðunum sjálfum og á faglegri uppbyggingu greinarinnar. Áfangastaðastofur eru að taka til starfa í öllum landshlutum, við vinnum okkur markvisst í átt að virkri álagsstýringu og höfum stuðlað að jafnari dreifingu ferðamanna um landið. Við höfum einnig séð umbyltingu í starfrænni þróun ferðaþjónustunnar og stórbætt öryggismál svo eitthvað sé nefnt. 
Mig langar að þakka öllum þeim sem komu að verkefninu, bæði í aðdragandanum að stofnun Stjórnstöðvar og í starfsemi hennar, fyrir þeirra framlag. Með nýsköpun að vopni tókst okkur að vinna samstillt að sterkri framtíðarsýn og horfa heildstætt á verkefnin.“

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira