Hoppa yfir valmynd
28. október 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ísland skilar skýrslu um langtímasýn í átt að kolefnishlutleysi

Ísland skilaði í dag skýrslu til Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna S.þ. (UNFCCC) um leiðina í átt að kolefnishlutleysi.

Samkvæmt Parísarsamningnum eru aðildarríki hvött til að skila slíkri skýrslu til Loftslagssamningsins fyrir loftslagsfund S.þ. - COP26. Nú hafa 35 af 197 aðildarríkjum skilað umfjöllun um langtímasýn sína til Loftslagssamningsins og er Ísland í þeim fámenna hópi.

Skýrslan geymir samantekt um markmið Íslands, m.a. um að kolefnishlutleysi skuli náð eigi síðar en 2040 sem var lögfest á síðasta löggjafarþingi. Ísland er í hópi ellefu ríkja sem hafa lögfest kolefnishlutleysi.

Samantektin byggir á fyrirliggjandi stefnumörkun og áætlunum og varpar ljósi á þær ákvarðanir sem þarf að taka á næstu árum til að markmið Íslands um kolefnishlutleysi náist. Í skýrslunni er greint frá þegar samþykktum markmiðum stjórnvalda og síðan fjallað um mögulegar leiðir að kolefnishlutleysi.

Þetta eru fyrstu skil Íslands á skýrslunni, en Ísland stefnir að því að tilkynna Loftslagssamningnum reglulega um uppfærslur.

Skýrslur um langtímasýn koma til viðbótar við svokölluð landsákvörðuð framlög ríkja í loftslagsmálum (NDC) sem ber að skila til Loftslagsamningsins skv. Parísarsamningnum á fimm ára fresti. Slík framlög geyma yfirlýst markmið ríkja um minnkun losunar og eru þungamiðjan í samningnum varðandi það að ná markmiðum hans um að halda hlýnun andrúmsloftsins innan við 2°C og leita leiða til að halda hlýnun innan við 1,5°C. Ísland skilaði uppfærðu NDC til Loftslagssamningsins í upphafi árs, þar sem tilkynnt var um uppfærðan metnað um að minnsta kosti 55% minni losun árið 2030 miðað við árið 1990, en markmiðið sem kynnt var í París 2015 var -40%. Framlag Íslands er sambærilegt við uppfærð framlög Noregs og ESB og aðildarríkja þess, en ríkin 29 hafa tilkynnt til Parísarsamningsins að þau ætli að ná markmiðinu sameiginlega.

Lykilgögn og stefnur kynntar

Í skýrslunni er stöðu Íslands í loftslagmálum lýst og helstu vörðum sem náðst hafa frá birtingu stjórnarsáttmála 2017 til dagsins í dag. Lykilgögn og stefnur eru kynntar, svo sem aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og nýlega samþykkt orkustefna. Samkvæmt fyrstu stöðuskýrslu Íslands um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, sem kom út í september sl., er  vinna hafin við allar aðgerðirnar 50 sem eru í aðgerðaáætluninni og ætlað er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þar af eru 47 ýmist komnar vel á veg eða í framkvæmd og þrjár í undirbúningi.

Í skýrslunni er einnig fjallað um stöðu losunar gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis á Íslandi. Losunin hérlendis er á margan hátt sérstök vegna þess hve mikil hún er frá landi og landnotkun (LULUCF), hversu stór hluti kemur frá iðnaði (stóriðju) og hversu stór hluti rafmagns og húshitunar nýtir endurnýjanlega orkugjafa.

Fram kemur í skýrslunni að endurheimt votlendis og annarra vistkerfa og binding kolefnis úr andrúmslofti í jarðvegi og gróðri sé lykilþáttur í að ná kolefnishlutleysi. Fjölmörgum verkefnum og áætlunum því tengdu hafi verið hrundið af stað og framlög til þeirra stóraukin á undanförnum misserum. Þá hafi íslensk stjórnvöld lagt áherslu á nýsköpun og þróun nýrrar tækni, svo sem að kanna möguleika til kolefnisföngunar og varanlegrar geymslu til að ná kolefnishlutleysi. Einnig er fjallað um nauðsynlega aðlögun að loftslagsbreytingum en fyrsta stefna um aðlögun samfélagsins að áhrifum loftslagsbreytinga var gefin út í september.

Leiðir í átt að kolefnishlutleysi kynntar

Í skýrslunni eru kynntar niðurstöður greiningarverkefnis (e. back-casting) rannsóknarhóps vísindamanna í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík sem byggði á samráðsrannsókn Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands við almenning um leiðir í átt að kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040.  

Niðurstöður greiningarverkefnisins eru kynntar á grafi, sem byggir á tveimur ásum. Annar er frá litlum kerfisbreytingum til mikilla og hinn frá tæknilausnum til náttúrulausna. Ásarnir endurspegla litróf þeirra skoðana sem komu fram í samráðsrannsókn Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Í skýrslunni er gerð grein fyrir fimm mismunandi sviðsmyndum og áhrifum þeirra á losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis til ársins 2040. Þær munu nýtast við áframhaldandi stefnumótun á málefnasviðinu þar sem þær sýna að Ísland getur náð kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040.

Sviðsmynd A byggir á tæknilausnum og engum kerfisbreytingum.
Sviðsmynd B byggir á náttúrulausnum og engum kerfisbreytingum.
Sviðsmynd C byggir á tæknilausnum og miklum kerfisbreytingum.
Sviðsmynd D byggir á náttúrulausnum og miklum kerfisbreytingum.

Sviðsmyndir A-D, byggja á ýktu safni forsenda þar sem lögð er ofuráhersla á tilteknar áherslur til að draga fram með skýrum hætti virkni mismunandi nálgana. Þeim til viðbótar er svo kynnt fimmta sviðsmyndin (E), sem endurspeglar blandaða leið tæknilausna, náttúrulausna og kerfisbreytinga.

Í skýrslunni eru ekki dregnar ályktanir um hvaða leið Ísland skuli velja í átt að kolefnishlutleysi enda er greiningarverkefninu ætlað að vera eitt þeirra verkfæra sem verður lagt til  grundvallar í stefnumótunarvinnu næstu missera um kolefnishlutlaust Ísland. Sú vinna verður unnin í breiðu samráði við almenning og hagaðila á öllum stigum, þar sem leiðin í átt að kolefnishlutleysi verður vörðuð og áfram unnið með sviðsmyndir um leiðir að kolefnishlutlausu Íslandi 2040.

On the Path to Climate Neutrality - Iceland's Long-Term Low Emission Development Strategy

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum