Hoppa yfir valmynd
2. mars 2023 Innviðaráðuneytið

Ráðherra staðfestir fyrsta skipulag sem tekur til fjarða og flóa við strendur landsins

Magnús Jóhannesson, formaður svæðisráða, og Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, staðfesta Strandsvæðisskipulag Austfjarða og Strandsvæðisskipulag Vestfjarða. - myndMynd/Sigurjón Ragnar

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, staðfesti í dag tillögur svæðisráða að Strandsvæðisskipulagi Austfjarða og Strandsvæðisskipulagi Vestfjarða. Þetta eru tímamót í skipulagssögu landsins þar um er að ræða fyrsta skipulag sem tekur til fjarða og flóa við strendur landsins. Skipulagið öðlast gildi þegar það hefur verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Svæðisráðin sem hafa unnið að tillögunum eru skipuð fulltrúum sveitarfélaga á svæðunum, fulltrúa Samband íslenskra sveitarfélaga ásamt fulltrúum þriggja ráðuneyta. Strandsvæðisskipulag tekur til afmarkaðra svæða á fjörðum og flóum utan staðamarka sveitarfélaga. Þar er sett fram stefna og ákvarðanir stjórnvalda um hvernig framtíðarnýtingu og vernd svæðisins verður háttað. Skipulagið leggur þannig grunn að framkvæmdum og annarri starfsemi á skipulagssvæðunum. 

Með skipulaginu verður til mikilvægt stjórntæki líkt og raunin er með skipulag lands og byggðar. Vaxandi sókn ólíkra aðila í nýtingu fjarða og flóa hefur í för með sér samkeppni um staði og hugsanlega hagsmunaárekstra. Með strandsvæðisskipulagi fæst yfirsýn yfir þá starfsemi sem fram fer á skipulagssvæðinu. Við mótun Strandsvæðisskipulags Austfjarða og Strandsvæðisskipulags Vestfjarða var aflað yfirgripsmikilla upplýsinga um þá starfsemi sem fram fer, verndarákvæði sem gilda á svæðinu og aðliggjandi landi, veiðar og umferð skipa og báta. Slík yfirsýn hafði áður ekki verið til staðar.

„Ég fagna þeim áfanga að strandsvæðisskipulag hefur verið staðfest hvort tveggja fyrir Austfirði og Vestfirði. Með þessu er lagður grunnur að nýtingu og vernd fyrir svæðin sem býr til ákveðinn fyrirsjáanleika og leiðbeiningar um nýtingu og vernd þeirra. Líkt og við skipulagsgerð á landi þarf jafnan að huga að fjölbreyttum hagsmunum íbúa, atvinnuvega, siglinga og fjarskipta og tryggja skynsamlegt jafnvægi milli nýtingar og verndunar. Við erum nú að taka fyrstu skrefin varðandi strandsvæðisskipulag en rétt er að taka fram að vinna við áhættumat siglinga stendur enn yfir á tilteknum svæðum,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

Mikið samstarf um mótun tillagna

Strandsvæðisskipulag er unnið í góðri samvinnu ríkis og sveitarfélaganna sem liggja að skipulagssvæðinu. Svæðisráð er skipað fyrir hvert skipulagssvæði sem ber ábyrgð á skipulagsgerðinni. Í þeim sitja fulltrúar heimafólks, Sambands íslenskra sveitarfélag og þriggja ráðuneyta. Skipulagsstofnun veitir svæðisráðum aðstoð við mótun skipulagsins, kynningu á tillögum og eftirfylgni þeirra þegar skipulagið hefur tekið gildi.

Við mótun tillagna höfðu svæðisráðin víðtækt samráð við íbúa, sveitarstjórnir, hafnarstjórnir og hagsmunaaðila. Vatnasvæðanefndir á viðkomandi svæðum voru til ráðgjafar en einnig eru ýmsar stofnanir ráðgefandi í verkefnum sem þessum, m.a. Ferðamálastofa, Fiskistofa, Hafrannsóknastofnun, Landgræðslan, Landhelgisgæsla Íslands, Landmælingar Íslands, Matvælastofnun, Minjastofnun Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Samgöngustofa, Umhverfisstofnun, Veðurstofan og Vegagerðin.

Stefnan í strandsvæðisskipulagi byggir m.a. á annarri stefnumörkun og ákvörðunum stjórnvalda. Þar má nefna byggðaáætlun, samgönguáætlun, náttúruverndaráætlun og burðarþolsmat fjarða ásamt því að tekið er mið af innviðum á svæðunum, leyfum til nýtingar á skipulagssvæðinu og umsóknum um leyfi sem eru langt komnar í umsóknarferli.

Fyrsti vísir að skipulagsstefnu um hafsvæðin við Ísland var settur í landsskipulagsstefnu sem samþykkt var á Alþingi árið 2016. Lög um skipulag haf- og strandsvæða voru síðan sett árið 2018. Á grundvelli þeirra skal vinna strandsvæðisskipulag fyrir afmörkuð svæði á fjörðum og flóum. 

Samráðshópar voru skipaðir fyrir hvort strandsvæðisskipulagsverkefni og voru hóparnir hvoru svæðisráði til ráðgjafar og samráðs við gerð strandsvæðisskipulagsins. Í samráðshópi eiga sæti fulltrúar tilnefndir af ferðamálasamtökum, umhverfisverndarsamtökum, útivistarsamtökum og Samtökum atvinnulífsins, auk fulltrúa sem svæðisráð getur tilnefnt.

Skipulagsuppdrættir og greinargerðir

Skipan svæðisráða og samráðshópa

 
  • Fulltrúar í svæðisráðum um strandsvæðisskipulag fyrir Austfirði annars vegar og Vestfirði hins vegar ásamt innviðaráðherra og starfsfólki Skipulagsstofnunar. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum