Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 25. nóvember 2022

Heil og sæl.

Það hefur verið nóg um að vera í vikunni. Við hefjum leik á því sem bar hæst en í gær samþykkti mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna ályktun Íslands og Þýskalands um að stofnuð verði sjálfstæð og óháð rannsóknarnefnd sem safna á upplýsingum og gögnum sem nýst geta til að draga þá til ábyrgðar sem ofsótt hafa friðsama mótmælendur í Íran undanfarnar vikur. Ályktunin var samþykkt með 25 atkvæðum, 6 greiddu atkvæði gegn og 16 sátu hjá.

Ályktunin var lögð fram í tengslum við sérstakan aukafund mannréttindaráðsins um hríðversnandi ástand mannréttindamála í Íran sem fram fór á fimmtudag. Utanríkisráðherrar Íslands og Þýskalands, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Annalena Baerbock, tóku þátt í umræðunni.

„Það er ofvaxið mínum skilningi að stjórnvöld í nokkru ríki ákveði að brjóta svo víðtækt og alvarlega á mannréttindum borgaranna sem þeim ber einmitt skylda til að vernda. Um leið dáist ég að kjarki fólksins í Íran sem leggur sig í lífshættu við að krefjast á friðsaman hátt bæði frelsis og jafnréttis,“ sagði Þórdís Kolbrún meðal annars í ávarpi sínu. Hún ræddi einnig við fjölmiðla um málið, m.a. mbl.is.

„Þarna fær þetta fólk [mótmælendur] sterk skilaboð frá alþjóðasamfélaginu um að við stöndum með þeim og ætlum ekki að horfa upp á þennan hrylling heldur grípa til aðgerða. Mér líður nokkuð vel eftir daginn með það í huga,“ sagði Þórdís Kolbrún við mbl.is.

Þá ávarpaði Þórdís Kolbrún einnig fund stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Hörpu í dag. Mikilvægi samstöðu Evrópuríkja um lýðræði, mannréttindi og réttarríkið ásamt formennskuáherslum Íslands á réttindi barna og ungenna, jafnrétti og umhverfismál voru í brennidepli í ávarpi ráðherra.

Á fundinum kynnti ráðherra áherslur og áform formennsku Íslands í Evrópuráðinu fyrir þingmönnum og svaraði spurningum þeirra. Þá var rætt um leiðtogafund Evrópuráðsins sem haldinn verður í Reykjavík 16.-17. maí 2023 og aðkomu Evrópuráðsþingsins í aðdraganda hans.

Ráðherra átti einnig tvíhliða fund með Tiny Kox, forseta Evrópuráðsþingsins.

Þórdís Kolbrún stýrði einnig fundi EES-ráðsins í vikunni þar sem samstarf ríkja Evrópska efnahagssvæðisins á sviði orkuskipta og orkuöryggis í Evrópu var efst á baugi.

Þá hitti hún einnig Sanna Marin forsætisráðherra Finnlands á þriðjudag í Norræna húsinu.

Ráðherra var svo einnig til viðtals nýlega í hlaðvarpi Monocle, the Foreign Desk, þar sem kynjahallinn í stjórnmálum víða um heim var til umræðu.

Við sögðum einnig frá opnun nýs sendiráðs í Varsjá í Póllandi en það tekur til starfa 1. desember næstkomandi. Fyrirsvar vegna Úkraínu, Rúmeníu og Búlgaríu verður við það tækifæri fært til hinnar nýju sendiskrifstofu. Hannes Heimisson verður fyrsti sendiherra Íslands í Póllandi en hann gegndi áður stöðu sendiherra Íslands í Stokkhólmi. Forystufólk í pólsku stjórnmála-, viðskipta- og menningarlífi auk fulltrúa íslenskra fyrirtækja í Póllandi og pólsk íslenskra vináttufélaga verður viðstatt þegar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra opnar sendiráðið formlega.

Í vikunni funduðu varnarmálaráðherrar Norðurlanda og Norðurhópsins í Osló á tveimur aðskildum fundum þar sem öryggismál í norðurhluta álfunnar voru í brennidepli.

Á fundi norrænu varnarmálaráðherranna voru helstu umræðuefnin átökin í Úkraínu, aukið norrænt samstarf í öryggis- og varnarmálum og framtíð samstarfsins í ljósi umsóknar Finnlands og Svíþjóðar um aðild að Atlantshafsbandalaginu.

Á fundi varnarmálaráðherra Norðurhópsins voru helstu umræðuefnin átökin í Úkraínu þróun öryggismála í Norður-Evrópu til viðbótar við eftirlit og vernd mikilvægra innviða.

En þá að sendiskrifstofum okkar.

Í Kaupmannahöfn tekur sendiráðið þátt í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi og af því tilefni er sendiráðið í Kaupmannahöfn baðað roðagylltri lýsingu.

Sömuleiðis sendiráð okkar í Moskvu og Berlín.

 

Í London fundaði Sturla Sigurjónsson sendiherra með Jim Morris, tveggja stjörnu hershöfðingja sem leiðir höfuðstöðvar JEF (Joint Expeditionary Force), samstarfsvettvang 10 Evrópuríkja í varnarmálum sem Bretar eru í forsvari fyrir.

Í Tallinn hélt Harald Aspelund sendiherra Íslands í Finnlandi, þar sem Eistland er umdæmisríki, móttöku í tilefni af kvikmyndahátíðinni PÖFF þar í borg.

Í liðinni viku fór fram ársfundur Uppbyggingarsjóðs EES í Aþenu fram en Grikkland er í umdæmi sendiráðs okkar í Osló.

Högni Kristjánsson sendiherra í Osló heimsótti svo Sverre Bragdø-Ellenes, ræðismann Íslands í Kristiansand og fundaði með varaborgarstjóra Kristiansand, Erik Rostoft, og rektor háskólans í Agder héraði, Sunniva Whittaker.

Færeyingar fengu jólatré frá Íslandi!

Unnur Orradóttir-Ramette, sendiherra Íslands í París, bauð til móttöku í sendiráðsbústaðnum. Þar voru staddir rithöfundarnir Einar Már Guðmundsson og Andri Snær Magnason, þar sem rit þeirra voru til umræðu.

Í París fóru sömuleiðis fram tvíhliða samráð milli Íslands og Frakklands.

Nóg hefur verið um að vera í sendiráði okkar í Berlín. Á föstudaginn í síðustu viku heimsótti María Erla Marelsdóttir, sendiherra Íslands í Þýskalandi, höfuðstöðvar Össurar í Þýskalandi í Köln og fékk að kynnast starfsemi fyrirtækisins bæði á þýska málsvæðinu sem og í allri Evrópu.

Á laugardaginn síðastliðinn tók María Erla þátt í 48. aðalfundi íslenska vinafélagsins í Köln þar sem hún ræddi sérstaklega 70 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Þýskalands og framtíðarhorfur þess.

Á mánudaginn hélt íslenska fyrirtækið Kerecis kynningu og umræður á Kerecis European Burn Symposium Europe ásamt læknum og sérfræðingum frá Íslandi, Þýskalandi, Sviss og Bandaríkjunum í húsnæði norrænu sendiráðanna í Berlín. Sendiherra María Erla Marelsdóttir bauð hópinn velkominn og bauð svo til móttöku ásamt Taste of Iceland þar sem meistarakokkurinn Gísli Matthías Auðunsson eldaði fyrir mannskapinn.

Í Washington eru Bandaríkjamenn í HM-stuði. Bergdís Ellertsdóttir sendiherra festi m.a. Wendy S. Sherman, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, á filmu í landsliðsbúningnum.

Í Kanada fékk okkar fólk meistaranema frá háskólanum í Ottawa í heimsókn.

Á Indlandi tók Guðni Bragason sendiherra þátt í þriðju alþjóðlegu ráðstefnunni um varnir gegn fjármögnun hryðjuverka sem indversk stjórnvöld buðu til í Nýju-Delhí á dögunum.

Í Kína heimsóttu Þórir Ibsen sendiherra og fulltrúar íslenska sendiráðsins þar í landi Wuhan-borg þar sem þeir tóku þátt í norrænu viðskiptaráðstefnu.

Íslenska fyrirtækið Controlant kynnti sömuleiðis starfsemi sína.

Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra Íslands í Japan er staddur í Seoul þar sem hann er ásamt Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, og íslenskri viðskiptasendinefnd.

Þar hélt fyrirtækið Össur einnig upp á 10 ára starfsafmæli sitt þar í landi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum