Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 19. ágúst 2022

Heil og sæl,

Sem fyrr heilsum við ykkur héðan af Rauðarárstígnum og færum ykkur það helsta sem drifið hefur á daga utanríkisþjónustunnar síðastliðnar tvær vikur.

Í dag fundaði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra með varautanríkisráðherra Indlands, Meenakashi Lekhi, í utanríkisráðuneytinu hér í Reykjavík. Ísland og Indland fagna því í ár að 50 ár eru liðin frá því að ríkin tóku upp formlegt stjórnmálasamband. Á fundi sínum ræddu ráðherrarnir helstu samstarfsfleti landanna – t.d. á sviði jarðvarma, sjávarútvegs, menningar, jafnréttis, nýsköpunar og viðskipta.

Á mánudag var því fagnað að 75 ár voru liðin frá því að Ísland og Finnland tóku upp formlegt stjórnmálasamband. Í tilefni dagsins komu þær Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Ann-Sofie Stude, sendiherra Finnlands á Íslandi, saman til hádegisverðar. Um kveðjustund var að ræða því á næstunni lýkur dvöl sendiherrans hér á landi.

 

Á mánudag var þess einnig minnst að ár var liðið frá valdatöku talibana í Afganistan. Utanríkisráðherra lýsti yfir áhyggjum af mannúðarástandinu þar í landi af þessu tilefni og atlögu talibana að réttindum kvenna og stúlkna.

Í síðustu viku sögðum við frá frumkvæði Íslands að verkefni á sviði þjálfunar í sprengjuleit og sprengjueyðingu í Úkraínu. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra kynnti verkefnatillögu þess efnis á ráðstefnu um stuðning við öryggi og varnir Úkraínu í Kaupmannahöfn. Hin norrænu ríkin komu einnig að verkefninu og líklegt er að fleiri lönd muni taka þátt í verkefninu þegar fram í sækir.

Markmið ráðstefnunnar Copenhagen Conference for Northern European Defence Allies of Ukraine sem fram fór 11. ágúst var að styrkja samstarf og samráð um hvernig best megi styðja Úkraínu í stríðinu gegn Rússlandi. Áhersla er á viðbótarstuðning til lengri tíma litið, einkum framlög sem styðja við hernaðarlega getu úkraínsku þjóðarinnar til varnar innrás Rússa, fjárframlög, þjálfun hermanna og sprengjueyðingu.

Þá að sendiskrifstofum okkar.

Fyrir tveimur vikum sögðum við frá trúnaðarbréfsafhendingu nýs sendiherra Íslands í Finnlandi, Harald Aspelund. Sendiráð Íslands í Helsinki fer einnig með fyrirsvar gagnvart Eystrasaltsríkjunum og í vikunni afhenti Harald forsetum Litáens og Lettlands trúnaðarbréf sín sem sendiherra gagnvart ríkjunum.Þá heimsótti Harald kjörræðismann Íslands í Riga, Inetu Rudzite.

 

 

Í Kaupmannahöfn tekur sendiráð Íslands þátt í hinsegin dögum og tekur starfsfólk með norrænum kollegum sínum þátt í gleðigöngu borgarinnar á morgun.

Í Lilongwe studdi sendiráð Íslands við Rakarastofuviðburð í malavíska þinginu fyrir þingnefnd um mannfjöldaþróun í landinu. Nánari umfjöllun má finna í Heimsljósi.

Á dögunum sagði sendiráð Íslands í Nýju-Delí frá aðkomu ÍSOR að undirbúningi jarðvarmavirkjunar í Kasmír-héraði á Indlandi. Ef allt gengur að óskum mun þar rísa fyrsta jarðvarmaorkuver Indlands.

Í Genf hefur nýr sendiherra og fastafulltrúi Íslands, Einar Gunnarsson, tekið til starfa. Í vikunni afhenti hann framkvæmdastjóra Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), Henri Gétaz, trúnaðarbréf sitt sem fastafulltrúi Íslands gagnvart stofnuninni.

Við endum þennan föstudagspóst á eldgosi og brauðtertum. Í gær sögðum við enskumælandi fylgjendum okkar á Facebook frá hinu stórskemmtilega framtaki Brauðtertufélags Erlu og Erlu að efna til keppni um bestu eldgosa-brauðtertuna. Það verður ekki mikið íslenskara en það!

Minnum á Heimsljós - upplýsingaveitu um þróunar- og mannúðarmál.

Góða helgi og gleðilega menningarnótt

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum