Hoppa yfir valmynd
18. október 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur á mánudegi

Heil og sæl.

Við heilsum ykkar héðan af Rauðarárstígnum á mánudegi í þetta skiptið vegna anna í síðustu viku. Hringborði norðurslóða - Arctic Circle, lauk um helgina og eðli máls samkvæmt tók utanríkisþjónustan virkan þátt í herlegheitunum.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og utanríkisráðuneytið tóku þátt í tveimur málstofum á ráðstefnunni, annars vegar um nýafstaðna formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu, og hins vegar um tillögur Grænlandsnefndarinnar, en þar fyrir utan stóð ráðuneytið einnig fyrir sjö öðrum viðburðum á Hringborði norðurslóða.

Í tengslum við ráðstefnuna í Hörpu nýtti ráðherra tækifærið og átti fjölmarga tvíhliða fundi með ýmsum háttsettum erlendum ráðamönnum.

Ráðherra fundaði m.a. með Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, Choi Jong-moon, varautanríkisráðherra Kóreu, Bárði á Steig Nielsen, lögmanni Færeyja, bandarísku öldungadeildarþingmönnunum Lisu Murkowski og Sheldon Whitehouse,Virginijusi Sinkevicius, framkvæmdastjóra sjávarútvegs og umhverfismála Evrópusambandsins og Nicolu Sturgeon, fyrsta ráðherra skosku heimastjórnarinnar.

Í síðustu viku kom einnig hingað til lands dönsk viðskiptasendinefnd á viðskiptastefnumót danskra og íslenskra fyrirtækja þar sem sjálfbærar orkulausnir voru í forgrunni. Sendinefndin var eins og frægt er leidd af Friðriki krónprinsi Danmerkur sem ákvað að halda til Íslands fyrst allra ríkja í opinberum erindagjörðum eftir að heimsfaraldurinn skall á. Guðlaugur Þór flutti ávarp á viðburðinum sem haldinn var í Grósku.


Þá hitti ráðherra einnig í síðustu viku Inga Þór Þorgrímsson en hann stóð í ströngu þegar talibanar lögðu undir sig Afganistan á dögunum. Ingi Þór, sem starfar fyrir eina af undirstofnunum Atlantshafsbandalagsins, gegndi þýðingarmiklu hlutverki á flugvellinum í Kabúl við að aðstoða fólk við að komast úr landi, bæði til Íslands og annarra ríkja.

Hingað til lands kom svo einnig í síðustu viku Rob Bauer, aðmíráll, formaður hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins. Meðan á heimsókninni stóð fundaði hann með Martin Eyjólfssyni ráðuneytisstjóra og fleiri embættismönnum ráðuneytisins. Öryggis- og varnartengd málefni voru í forgrunni ásamt framlögum og þátttöku Íslands í verkefnum á vettvangi Atlantshafsbandalagsins.

Þá fór einnig fram fjarfundur ráðherra kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja hjá Alþjóðabankanum þar sem málefni Afganistan voru helsta umfjöllunarefnið. Guðlaugur Þór tók þátt í fundinum sem haldinn var í tengslum við ársfundi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Sendiskrifstofur okkar höfðu einnig í nógu að snúast í síðustu viku.

Í Berlín tók María Erla Marelsdóttir sendiherra þátt í umræðu um kolefnisjöfnun á Norðurlöndunum ásamt sendiherrum hinna Norðurlandanna. Til umræðu voru m.a. tækniframfarir í kolefnisjöfnun og saga kolefnisjöfnunar á Norðurlöndunum. Umræðan fór fram í húsnæði norrænu sendiráðanna í Berlín í viðurvist blaðamanna en henni var einnig streymt á Facebook og Youtube og gátu áhorfendur sent inn fyrirspurnir á meðan.


Í Brussel kom út Brussel-vaktin góða en titillinn á nýjustu færslu hennar er: Regluverk um gervigreind vísi veginn á heimsvísu.

Í Helsinki komu kjörræðismenn Íslands í Finnlandi, Eistlandi, Lettlandi og Úkraínu saman til fundar í sendiráðinu. Á fundinum var fjallað um nýafstaðnar Alþingiskosningar og rætt um helstu verkefni sendiráðsins á sviði stjórnmála, viðskipta og menningar, bæði í Finnlandi og í umdæmisríkjunum. 


Í Genf lagði Ólöf Hrefna Kristjánsdóttir varafastafulltrúi Íslands áherslu á eflingu þátttöku kvenna í alþjóðaviðskiptum og mikilvægi þess að aðildarríki deili upplýsingum um aðgerðir til að auka þátttöku kvenna í viðskiptum, í umræðu um viðskiptastefnu Kóreu á vettvangi WTO. Þar lauk einnig í síðustu viku haustlotu mannréttindarásins. Hátt í þrjátíu ályktanir voru lagðir fyrir ráðið, þ.m.t. ályktun um eftirfylgni með stöðu mannréttinda í Afganistan í kjölfar valdatöku talibana. 

Nokkur sendiráð birtu svo sérstaka færslu á bleika deginum, sem var á föstudaginn, og héldu hann hátíðlegan. Bleiki dagurinn er árveknisátak til stuðnings konum er greinst hafa með krabbamein.

Kaupmannahöfn:

Moskva:

Ottawa:

Osló:

Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra Íslands í Osló kom til landsins á dögunum vegna Hringborðs norðurslóða og átti þar m.a. örfund með Aud Lise Norheim, sendiherra Noregs á Íslandi. Þar fór m.a. fram sameiginleg kynning sendiráðanna á viðskiptahandbók þeirra sem kom út fyrir skemmstu.

Í Malaví var haldið upp á mæðradaginn, sem er einkar viðeigandi í ljósi eðlis þeirra verkefna sem eru á könnu sendiráðs Íslands þar í landi, t.d. á sviði mæðraverndar og fæðingarþjónustu.

Í Svíþjóð var Hannes Heimisson, sendiherra, fulltrúi Íslands á alþjóðlegri ráðstefnu, Remember-ReAct, í Malmö 12. – 14. október sl. sem helguð var minningu fórnarlamba helfararinnar og baráttu gegn gyðingahatri.  Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, var gestgjafi og helsti hvatamaður ráðstefnunnar. 

Í Japan var loðnugleði.


Kristín Árnadóttir sendiherra og fastafulltrúi Íslands í Vín hitti kollega sína í tilefni af 30 ára afmæli ODIHR.


Unnur Orradóttir sendiherra Íslands í París og heimsótti höfuðstöðvar UNESCO í Beirút fyrir skemmstu og var heimsókn hennar gerð góð skil á miðlum menningarmálastofnunarinnar.


Í Kína fór Þórir Ibsen sendiherra á ferðamálasýningu í borginni Guilin. Frekara yfirlit um starfsemi sendiskrifstofu Íslands þar í landi má nálgast hér á enskri vefsíðu ráðuneytisins


Í öllu annríkinu í New York er þörf á góðri samvinnu og það undirstrikaði Jörundur Valtýsson fastafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum í New York.


Fleira var það ekki í bili. Við verðum hér aftur á föstudag.

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum