Hoppa yfir valmynd
15. október 2021 Brussel-vaktin

Regluverk um gervigreind vísi veginn á heimsvísu

Að þessu sinni er fjallað um:
• umræður um gervigreind á fundi fjarskiptaráðherra ESB
• endurskoðaða stefnu ESB í málefnum Norðurskautsins 
• réttindi blaðamanna og hvernig ESB fikrar sig inn á það svið
• fyrsta starfsárið hjá nýjum átakshópi gegn hindrunum á innri markaði
• athugasemdir EFTA-ríkjanna í EES við drög að reglugerð um stafræna þjónustu
• norska skýrslu um EES-vinnu ráðuneyta
• fund umhverfisráðherra ESB í aðdraganda COP26 í Edinborg
• flaggskip ESB helgað ferðaþjónustu
• gagnaleka sem varpar ljósi á afstöðu hagsmunavarða landbúnaðar til græna sáttmálans
• samráð um skoðun ökutækja og stafræna samþættingu samgönguþjónustu

 

Fjarskiptaráðherrar ESB fjalla um tillögur að regluverki um gervigreind

Ráðherrar aðildarríkja ESB sem fara með fjarskiptamál og málefni upplýsingasamfélagsins komu saman í gær til þess að ræða nýja tillögu framkvæmdastjórnarinnar að reglugerð um gervigreind.

Ráðherrarnir tóku almennt vel í tillöguna og lögðu áherslu á mikilvægi þess fyrir innleiðingu tækninnar að almenningur bæri traust til hennar, hún væri opin og gagnsæ. Gæta þyrfti þess að regluverkið tæki tillit til gildandi reglna ESB og færi ekki fram úr því. Þá lögðu þeir mikla áherslu á að regluverkið hindraði ekki nýsköpun og þróun á sviði gervigreindar.

Ráðherrarnir höfðu einnig ýmsar athugasemdir og ábendingar um það sem betur mætti fara við nánari útfærslu á reglugerðinni svo sem varðandi verkaskiptingu ríkjanna og framkvæmdastjórnarinnar við stjórnsýslu, skilgreiningu á hárri áhættu, útgáfu leiðbeininga ofl.

Fram kom í máli slóvenska fjarskiptaráðherrans, sem fer með formennsku í ráðherraráði ESB, að fundi loknum að tillagan sé sú fyrsta sinnar tegundar á heimsvísu og í henni er miðað við að nálgast viðfangsefnið þannig að hún greiði fyrir nýsköpun um leið og gætt er að gildum vestræns samfélags, þ.e. siðfræðilegum gildum, grunnréttindum borgaranna og frelsi. Markmiðið með reglusetningu gervigreindar sé að tryggja sameiginlegan markað fyrir gervigreind, greiða fyrir þróun tækninnar og nýtingu hennar. Þróun og notkun gervigreindar er mikilvæg fyrir hagvöxt og velferð samfélagsins í framtíðinni. Gervigreind getur hjálpað til við að vinna gegn loftlagsbreytingum, bætt heilbrigðiskerfið og stuðlað að framförum á fjöldamörkum sviðum sem ná m.a. yfir sjálfvirknivæðingu í iðnaði, framfarir í landbúnaði, samgöngum, menntun og fjármálastarfsemi.

Það er mat ráðherranna að án regluverks um gervigreind sé hætta á ófyrirséðum og hættulegum afleiðingum af notkun gervigreindar á viðkvæmum sviðum. Svarið sem tillagan hefur við þessu er að stuðla að eins konar vistkerfi sem byggir á trausti og vandvirkni um leið og grunnréttindi séu í heiðri höfð.

Tillagan er í forgangi hjá slóvensku formennskunni og miða þeir við að klára fyrstu umræðu um hana í desember. Markmiðið er að kynna fyrstu tillögu að málamiðlun fyrir lok ársins.

Framkvæmdastjóri innri markaðar ESB, Thierry Breton, vakti á fundi ráðherranna athygli á tveimur lykilatriðum:

Annars vegar mikilvægi sameiginlegrar nálgunar á gervigreind fyrir sameiginlega markaðinn sem byggir á trausti og stuðlar að bættu heilbrigði, vernd og tryggir grunngildi samfélagsins. Fram kom hjá mörgum ráðherrum mikilvægi þess að íbúar og notendur bæru traust til gervigreindar og þeirra lausna sem hún væru notuð fyrir.

Hins vegar mikilvægi þess að stuðla að nýsköpun og þróun á sviði gervigreindar þannig að Evrópa sé samkeppnishæf á þessu sviði á heimsvísu.

Þörf væri fyrir sameiginlegt regluverk sem hægt væri að útfæra hratt, væri skýrt og aðgengilegt ekki síst fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Innfluttar vörur og lausnir þyrftu einnig að uppfylla kröfur regluverksins um grunngildi evrópsk samfélags svo sem persónuvernd.

Ný stefna í málefnum Norðurskautsins - sendiskrifstofa í Nuuk

stefna Evrópusambandsins í málefnum Norðurskautsins var kynnt í vikunni. Þar eru gefin fyrirheit um aukna viðleitni sambandsins til að styðja við frið, sjálfbærni og velsæld á norðurslóðum. Evrópusambandið teygir sig inn á Norðurskautið og svæðið er mikilvægt frá sjónarhóli þess vegna loftlagsbreytinga, hráefna og varnar- og öryggismála. Fram kemur að Evrópusambandið hyggist setja á laggirnar sendiskrifstofu í Nuuk á Grænlandi.

Fram kemur að Evrópusambandið hyggist setja málefni norðurslóða ofar á dagskrá í samskiptum út á við, auka svæðisbunda samvinnu og fylgjast enn betur með og bregðast við áskorunum í öryggismálum. Löggjöf um umhverfismál er varðar norðurslóðir verði hert og þrýst verði á að olía, kol og gas liggi óhreyfð í jörðu. Horft verði einnig sérstaklega til að styrkja stöðu frumbyggja, kvenna og ungmenna, m.a. með fjárfestingum í störfum sem vísa fram á veginn.

Virginijus Sinkevičius, sem fer með málefni umhverfisins, fiskveiða og hafsins í framkvæmdastjórn ESB, kynnti stefnuna á Arctic Circle ráðstefnunni í Hörpu í gær, 14. október.

ESB lætur sig varða réttindi blaðamanna 

Öryggi blaðamanna er ógnað í ýmsum ríkjum Evrópusambandsins. Evrópusambandið er nú farið að láta sig þetta málefni varða í auknum mæli. Thierry Breton sem sæti á framkvæmdastjórn ESB lýsti í ræðu í apríl sl. áhyggjum af fjölmiðlafrelsi í löndum eins og Póllandi, Ungverjalandi, Slóveníu og Tékklandi. Þá var einnig skammt síðan gríski blaðamaðurinn George Kariavaz var myrtur. Kariavaz sérhæfði sig í umfjöllun um glæpastarfsemi. Breton viðurkenndi að verkfærakista sambandsins á þessu sviði væri fátækleg en þó kvaðst hann hlynntur evrópskri fjölmiðlafrelsislöggjöf.  Ursula von der Leyen gerði árásir á blaðamenn einnig að umtalsefni í stefnuræðu sinni 15. september sl. og boðaði fjölmiðlafrelsislöggjöf á næsta ári.

Þann sama dag lagði framkvæmdastjórnin fram tilmæli um aukna vernd blaðamanna Í tilmælum framkvæmdastjórnarinnar frá 15. september er lögð áhersla á leiðir til að auka öryggi blaðamanna. Þetta er í fyrsta sinn sem ESB setur fram stefnutexta á þessu sviði. Fram kemur að þriðjungur árása á blaðamenn á sér stað í tengslum við mótmæli á götu úti. Þá verða konur í blaðamennsku frekar fyrir árásum en karlar og þá ekki síst þær sem fjalla um jafnréttismál.

5. október sl. var síðan birt til samráðs frumtillaga að tilskipun sem beinist gegn óréttmætum málshöfðunum á hendur blaðamönnum og mannréttindafrömuðum. Slíkt háttalag gengur undir enska heitinu SLAPP (e. Strategic lawsuits against public participation). Gert er ráð fyrir að tilskipunin sæki stoð í gr. 81.2 í sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins, sem fjallar um samstarf á einkaréttarsviðinu. Af því leiðir að gerðin muni falla utan EES-samningsins.

Ráðist á hindranir á innri markaðnum

Átakshópur um frjálst flæði á sameiginlega innri markaðnum (e. Single Market Enforcement Taskforce eða SMET) hefur skilað af sér fyrstu ársskýrslu og var hún rædd á fundi ráðherra samkeppnishæfni í lok september sl. Hópurinn endurspeglar tilraun til nýrra vinnubragða þar sem framkvæmdastjórnin og fulltrúar aðildarríkjanna vinna saman að því koma auga á hindranir og meta hvort þær eigi rétt á sér.

Fram kemur að SMET hafi ákveðið að einbeita sér að fimm sviðum:

  • Hömlur á því að sérfræðingar bjóði fram þjónustu sína tímabundið eða tilfallandi þvert á landamæri: fyrirfram eftirlit með því hvort skilyrði eru uppfyllt. Farið hefur verið yfir slíkar kröfur í aðildarríkjunum og bent á möguleika til að fella úr gildi kröfur sem ekki miða beinlínis að því að vernda heilsu og öryggi viðtakenda þjónustu.
  • Hömlur er varða landbúnaðarvörur. Brögð hafa verið að því, ekki síst á tímum farsóttarinnar, að aðildarríki hygli eigin landbúnaðarvöru til dæmis í opinberum útboðum eða með því að skylda smásala til að bjóða upp á tiltekið hlutfall af innlendri framleiðslu.Farið hefur verið yfir málið, bent á hvaða aðgerðir til stuðnings landbúnaði heima fyrir séu heimilar, og þau ríki sem eiga í hlut hvött til að endurskoða sína nálgun.
  • Viðurkenning á starfshæfni – yfirdrifnar kröfur um fylgiskjöl. Komið hefur í ljós að enn er sums staðar verið að gera kröfur um að frumriti skjala sé framvísað eða staðfestri útgáfu á pappír sem rímar illa við notkun á stafrænum ferlum og hægir á málum.
  • Vottunarkerfi í byggingariðnaði og hömlur á flæði vöru sem ekki lýtur stöðluðum kröfum. Hér hefur komið í ljós misbrestur á því að ríki viðurkenni vöru sem markaðssett hefur verið löglega í öðru aðildarríki sem er þó grundvallarregla. Ein leið fram á við er að stjórnvöld muni að nota sameiginlegt tilkynningarkerfi um markaðseftirlit á grundvelli reglugerðar 2019/515.
  • Óþarfa skriffinnska vegna starfmanna sem koma á vegum starfsmannaleigu.

SMET fundaði nú síðast 13. október og þá kynntu Frakkar og Hollendingar nýja tillögu að viðfangsefni sem er afnám hindrana fyrir því að settar séu á laggirnar hleðslustöðvar fyrir rafbíla. Komið hefur í ljós að skortur á slíkum innviðum er ein helsta hindrunin fyrir því að fólk kaupi sér rafbíla.

Athugasemdir EFTA-ríkjanna við drög að reglugerð um stafræna þjónustu

EES EFTA ríkin fagna tillögu framkvæmdastjórnarinnar um reglugerð um stafræna þjónustu (e. Digital Services Act, DSA) og taka undir þörfina á að uppfæra regluverk í ljósi þess hve mikilvæg slík þjónusta er fyrir efnahagslífið, samfélagið og lýðræðið. Í athugasemdum við tillöguna frá 29. september sl. er lýst yfir stuðningi við það tvíþætta markmið að styrkja sameiginlega markaðinn fyrir stafræna þjónustu til að stuðla að nýsköpun og styðja við öruggara netumhverfi fyrir borgarana. Minnt er á mikilvægi tjáningarfrelsis andspænis þörfinni fyrir að fjarlægja ólöglegt efni. Hér eigi að standa vörð um meginreglur sem endurspegluðust á sínum tíma í tilskipuninni um rafræna þjónustu, þ.e. varðandi takmarkaða ábyrgð hýsingar- og milligönguaðila.

Að því er varðar hnitmiðaðar auglýsingar þá segjast EFTA ríkin þrjú vera hlynnt auknum varúðarráðstöfunum að því er varðar notkun á persónusniði og beinskeyttustu auglýsingum sérstaklega þegar börn og viðkvæmir hópar eiga í hlut.

Norsk skýrsla um EES-vinnu ráðuneyta

Nefnd um úrbætur í EES-vinnu ráðuneyta í Noregi hefur nýlega skilað ítarlegri skýrslu. Kveikjan að starfi nefndarinnar var hneyksli sem upp kom er í ljós kom röng túlkun stjórnvalda á reglum um rétt til bótagreiðslna þegar dvalið væri í öðru EES-ríki (NAV-málið svokallaða).

Helstu niðurstöður í skýrslunni eru þessar:

  • Umfang EES-reglna heldur áfram að aukast. Fjöldi svokallaðra framkvæmdagerða sem framkvæmdastjórnin gefur út hefur aukist. Þá hefur reglugerðum fjölgað á kostnað tilskipana. Mjög misjafnt er eftir málefnasviðum hversu ítarlegar EES-reglurnar eru.
  • Gæðum lagasetningar, vandaðri innleiðingu og réttri framkvæmd ber að gera hærra undir höfði.
  • Við hagsmunagæslu ber að gæta þess að reyna að hafa áhrif á fyrri stigum í löggjafarferli ESB. Beita skal kröftum í samræmi við hversu mikilvægt mál er fyrir Noreg og hvers megi vænta að ná fram á ólíkum stigum.
  • Í þágu aukinnar samræmingar verði sett á laggirnar sérstök nefnd um almenn lögfræðileg álitamál er snúa einkum að innleiðingu EES-skuldbindinga í landsrétt.
  • Tekið er undir fyrri tillögur í annarri skýrslu um stafrænt stuðningskerfi fyrir EES-vinnuna og þar m.a. vitnað í íslenska EES-gagnagrunninn.
  • Samráði um nýjar EES-reglur þarf að haga í samræmi við eðli máls. Í tilviki reglugerða er til dæmis í stórum dráttum ekkert svigrúm til að hafa áhrif á efni reglna eftir að þær hafa verið samþykktar innan ESB.
  • Aðlögunartextar sem samþykktir eru af sameiginlegu EES-nefndinni eru formlega séð hluti af viðkomandi EES-gerð. Vinnan við aðlögunartexta er því löggjafarvinna. Mælt er með því að unnið verði að því með hinum EFTA-ríkjunum tveimur að orða aðlögunartexta skýrar og gera þá aðgengilegri.
  • Gera þarf átak í því að gera EES-reglur aðgengilegar þannig að uppfærð og gildandi útgáfa reglna sé í einu og sama skjalinu. Stungið er upp á að EFTA-skrifstofan fái hlutverk í þessu sambandi. Þá er mælt með því að við útgáfu norsks lagasafns sé betur auðkennt hvaða reglur stafi frá EES-samstarfinu.
  • Ráðuneytin þurfa að standa sig betur í að fylgjast með nýjum dómum frá EFTA-dómstólnum og ESB-dómstólnum. Ein leið gæti verið sú að þau þurfi að gera árlega grein fyrir dómaþróun í samhæfingarnefnd á sviði EES-mála.
  • Auka þarf hæfni starfsmanna í ráðuneytunum í EES-málum. Þar er nefnt mikilvægi námskeiða, leiðbeininga og handbóka, sjónarmiða við ráðningar í sérfræðingsstöður og stjórnendastöður og að nýttir séu möguleikar til starfsnáms og starfsmannaskipta hjá Evrópustofnunum.

Norska fjármálaráðuneytið hefur nú útbúið breytingar á leiðbeiningum um vinnslu stefnumótandi skjala (n. utredningsinstruksen) þar sem tekið er mið af ofangreindum tillögum. Samráð um þær breytingar er opið fram í janúar nk.

Hitað upp fyrir Edinborg

Fundur umhverfisráðherra ríkja ESB var haldinn í Lúxemborg 6. október 2021. Dagskrá fundarins var yfirgripsmikil en á honum var rætt um m.a. „Fit for 55“ tillögupakka framkvæmdastjórnar ESB, hækkun orkuverðs í Evrópu og nýja skógræktaráætlun ESB til ársins 2030. Samþykkt var ályktun um undirbúning fyrir COP26 fundinn sem haldinn verður í Glasgow 31. október – 12. nóvember 2021 og einnig samþykku ráðherrarnir tillögu að breytingu á Árósareglugerð sambandsins.

„Fit for 55“

Í umræðum um „Fit for 55“ pakkann þá var sjónum aðallega beint að endurskoðun á ETS tilskipun sambandsins, endurskoðun á ESR reglugerð (e. Effort sharing regulation), LULUCF reglugerð og reglugerð um staðla er varðar losun CO2 frá bifreiðum (e. Setting CO2 emission performance standards for new passenger cars and for new light commercial vehicles).  Einnig var rætt um reglugerð er varðar stofnun á „Social Climate Fund“.

Pakkinn sem framkvæmdastjórn ESB kynnti 14. júlí sl. samanstendur af fjölda tillagna sem tengjast innbyrðis og annað hvort breyta núgildandi löggjöf eða leggja til nýja löggjöf. Umræðan á fundinum snerist að mestu um þessi innbyrðis tengsl og framlag þeirra til aukins metnaðar ESB á sviði loftslagsmála. Ráðherrarnir ræddu um áhrif tillagnanna á ríkin sjálf og mismunandi atvinnuvegi auk áhrifa á almenning. Umræða fundarins snerist mest um útvíkkun ETS kerfisins til vegasamgangna og bygginga en loftslagssjóðnum, sem til stendur að stofna, er einmitt ætlað að jafna út efnahagsleg og félagsleg áhrif milli ríkja ESB og innan þeirra af útvíkkun kerfisins. Gert er ráð fyrir að ríkin fjármagni sjálf a.m.k. helming áætlana sinna um stuðning með hagnaði þeim sem myndast af uppboði á heimildum í nýja kerfinu.

COP26

Í ályktun umhverfisráðherra um COP26 fundinn er lögð áhersla á mikilvægi þess að ríki heims bregðist við neyðarástandi í loftslagsmálum og að brugðist sé við með jöfnum og sanngjörnum hætti þvert á ríki heims. Í ályktuninni er að finna ákall til ríkja heims um að þau setji fram metnaðarfull landsmarkmið (NDC) til Parísarsáttmálans og að viðurkennt verði að þörf sé á aukinni sameiginlegri viðleitni til aðlögunar að loftslagsbreytingum.

Ályktunin er almennt umboð fyrir COP26 fundinn. Nákvæmara umboð fyrir samningamenn ESB hvað varðar fjárhagslega þætti var samþykkt í formi ályktunar á fundi Efnahags- og fjármálaráðs Evrópusambandsins (e. Ecofin) 5. október sl.

Hækkun orkuverðs

Að beiðni Grikklands, Spánar og Póllands var á fundinum rætt um hækkun orkuverðs í Evrópu. Miklar umræður urðu á fundinum og aukinn þrýstingur hefur myndast á framkvæmdastjórnina að koma með lausnir. Óttast er að skortur á viðbrögðum geti grafið undan markmiðum Græna sáttmálans og þeim tillögum sem boðaðar eru í „Fit for 55“ pakkanum. Framkvæmdastjórnin hefur bent á að aðeins 20% af hækkuninni megi rekja til loftslagsstefnu sambandsins. Fram kom að búið er að setja málið á dagskrá fundar ráðsins sem haldinn verður 21.-22. október nk. Framkvæmdastjórnin mun fyrir þann fund leggja fram orðsendingu þar sem verða tillögur til að sporna við hækkunum.  

Skógræktaráætlun ESB

Á fundinum skiptust ráðherrarnir á skoðunum er varðar nýja skógræktaráætlun ESB. Áætlunin er eitt af flaggskipum Græna sáttmálans og byggir á áætlun sambandsins er varðar líffræðilega fjölbreytni til ársins 2030. Áætluninni er ætlað að stuðla að því að markmiði ESB er varðar loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni verði náð. Umræðurnar á fundinum snerust að mestu um hvort að ný skógræktaráætlun endurspeglaði nægjanlega vel ályktun ráðsins er varðar áætlun um líffræðilega fjölbreytni til ársins 2030 og hvort að skógræktaráætlunin sé nægjanlega góður grunnur fyrir ESB til að vera leiðandi í sjálfbærri skógrækt á heimsvísu.

Árósareglugerð

Á fundinum var samþykkt afstaða til breytinga á Árósareglugerð sambandsins um aðgang að réttlátri málsmeðferð er varðar umhverfismál. Samþykki afstöðu ráðsins til breytinganna kemur í kjölfar samkomulags er náðist við Evrópuþingið í júlí sl. og er lokaskrefið í samþykktarferlinu. Breyting á reglugerðinni er tilkomin vegna ákvörðunar eftirlitsnefndar Árósasamningsins um að ESB hefði gerst brotlegt við 3. og 4. mgr. 9. gr. Árósasamningsins. Ákvörðun eftirlitsnefndarinnar kom í kjölfar kvörtunar frá árinu 2008 er laut að skorti á heimild almennings til að óska eftir endurskoðun á ákvörðunum sem teknar voru af hálfu stofnana ESB ef þær ákvarðanir gætu stangast á við löggjöf er varðar umhverfismál.

Ferðaþjónustan fær pláss um borð í flaggskipi Evrópusambandsins

Sumum finnst eflaust að verið sé að bera í bakkafullan lækinn þegar minnst er á áherslur ESB á græna og stafræna umbreytingu. Þetta er hins vegar rétt að byrja og raunhæf verkefni að líta dagsins ljós.

Nú hefur EBS skilgreint stuðningskerfi eða flaggskip sem ætlað er að létta undir með aðildarríkjum við innleiðingu þessara áherslna. Þessi svokölluðu flaggskip eru rannsóknarverkefni sem hugsuð eru til allt að tíu ára og er ætlað að greiða leiðina að betra samfélagi. Flaggskipunum er ætlað að virkja háskóla- og vísindasamfélagið, atvinnugreinar og ríki til að takast á við risaverkefni á sviði tækni og vísinda. Markmið verkefnanna er að stuðla að því að ESB verði áfram leiðandi afl á þessu sviði og árangurinn skili sér í jákvæðum breytingum fyrir þjóðfélög og efnahagskerfi.

Þetta eru svokölluð tæknileg stuðningsverkefni (TSI - Technical Support System) sem lengi hafa verið við lýði þó að ferðaþjónustan hafi ekki verið formlega með (vissulega tengist greinin inn í margt annað). Ekki er um útdeilingu fjárstyrkja að ræða heldur fjárfestingu sem birtist í tæknilegri aðstoð og ráðgjöf til að stuðla að umbótum á  ýmsum sviðum. Þrettán höfuðsvið hafa verið valin og varða þau  m.a. stafræna stjórnsýslu, stafræna heilbrigðisþjónustu, stafræna fjármálaþjónustu og félagslegar umbætur auk verkefna sem snúa að endurnýjanlegum orkugjöfum - og ferðaþjónustu. Er þetta sem sagt í fyrsta sinn sem ferðaþjónustan fær pláss í kerfi af þessu tagi og er ástæðan auðvitað það högg sem greinin varð fyrir í heimsfaraldrinum.

Í þessu prógrammi er ætlað að beina athyglinni að því að ,,þróa tæki fyrir sjálfbærara og stafrænna kerfi í ferðaþjónustunni". Tveir aðgerðarpakkar hafa verið skilgreindir; öðrum er ætlað að styðja hagstofur aðildarríkjanna við að þróa hagtölur enn frekar og ljúka við innleiðingu ferðaþjónustureikninga (e. tourism satellite accounts) sem eru hliðarreikningar þjóðhagsreikninga og er ætlað að leggja mat á hlut ferðaþjónustunnar í hagkerfinu og þróun hennar sem atvinnugreinar. Ferðaþjónustureikningar taka til útgjalda innlendra sem og erlendra ferðamanna.

Hinum pakkanum (þeim síðari) er ætlað að styðja við uppbyggingu sjálfbærra áfangastaða/svæða með því m.a. að veita íbúum, frumkvöðlum og stefnumarkandi aðilum nýjustu tölfræðigögn svo byggja megi ákvarðanir t.d. um stofnun fyrirtækja í greininni á marktækum upplýsingum.

Hagsmunasamtök í landbúnaði bíta í skjaldarrendur

Evrópsk hagsmunasamtök í landbúnaði vilja grundvallarbreytingar á stefnu framkvæmdastjórnarinnar sem kölluð hefur verið frá haga til maga (e. farm to fork) og er þáttur í græna sáttmálunum. Franska dagblaðið Le Monde komst yfir ýmis vinnuskjöl úr herbúðum COPA-Cogeca sem eru samtök sem eru málsvarar 10 milljón bænda í Evrópusambandinu.

Þar kemur fram sá ásetningur að fellt verði brott úr tillögu framkvæmdastjórnarinnar það bindandi markmið að minnka notkun á sýklalyfjum í eldi og skordýraeitri um 50% fram til ársins 2030. Sama á við um tillögu um að dregið verið úr notkun á tilbúnum áburði. Þá leggjast samtökin einnig gegn banni í áföngum við því að skyldar dýrategundir séu aldar undir sama þaki. Tilgangurinn með tillögu um slíkt bann er að draga úr hættu á að upp komi smitsjúkdómar sem geti borist milli skepna og manna.

Þá kemur fram í þessum skjölum einnig andstaða við áform um auknar kröfur til afurða um sykur-, fitu- og saltmagn. Sama á við um hömlur á markaðssetningu er lúta að upplýsingagjöf til neytenda um uppruna, framleiðsluaðferðir og dýravelferð.

Loks má lesa úr gögnum þeim sem dagblaðið komst yfir að til standi að reyna að fá atkvæðagreiðslu í Evrópuþinginu sem áætluð er í næstu viku frestað fram í nóvember þannig að betri tími gefist til að koma sjónarmiðum bænda og annarra framleiðenda landbúnaðarafurða á framfæri.

Opið samráð um endurskoðun reglna um skoðanir ökutækja

Framkvæmdastjórnin hefur birt áform og tímaáætlun varðandi endurskoðun á gildandi tilskipun um skoðun ökutækja. Finna má tillöguna hér: roadmap on a new proposal for a directive revising the roadworthiness package.
Óskað er eftir ábendingum og athugasemdum við áformin fyrir 1. nóvember 2021.

Í tilkynningu framkvæmdastjórnarinnar segir að almennt markmið með tillögunni sé að bæta umferðaröryggi, stuðla að sjálfbærari og snjallari umferð og greiða fyrir og einfalda frjálsa för fólks og vöru innan sambandsins. Sértæk markmið séu að tryggja að ný tækni, s.s. rafrænn öryggisbúnaður og rafræn aðstoðarkerfi bílstjóra, virki sem skyldi yfir líftíma tækjanna, bæta mælingatækni við útblástur bifreiða og bæta gagnavörslu og miðlun gagna sem safnað er og haldið er utan um varðandi ökutæki og skoðun þeirra.

Opið samráð um nýjar reglur um stafræna samþættingu samgönguþjónustu

Framkvæmdastjórnin hefur hafið opið samráð um áform um nýjar reglur um samþættingu  samgöngumáta. Með samráðinu á að ná til skipulagningar ferða og kaupa á farmiðum á netinu fyrir ferðalög þar sem fleiri en einn samgöngumáti koma við sögu.

Meðal annars er tilgangur með reglunum að auka áreiðanleika og gegnsæi samninga milli fyrirtækja sem stunda smásölu á ferðum á landi og á legi. Með því er dregið úr hættu á ámælisverðri framkomu fyrirtækja sem sjá um slíka þjónustu. Einnig er tilgangurinn að stuðla að greiðari og umhverfisvænni samgöngum.

Samráðið er opið til 2. nóvember 2021.

Nánar um samráðið hér: roadmap for a new regulation on digital services integrating different transport nodes.

 

***

Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum