Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttabréf stjórnenda ríkisstofnana 12. febrúar 2013

Fréttabréf stjórnenda ríkisstofnana, 1. tölublað 15. árgangs, er komið út á vef ráðuneytisins.

Launamunur kynjanna

Það gengur illa að vinna bug á launamun kynjanna hér á landi sem og annars staðar á Norðurlöndunum. Í desember 2011 skipaði velferðarráðherra framkvæmdanefnd um launajafnrétti kynjanna. Hlutverk nefndarinnar er að hafa umsjón með og samhæfa aðgerðir  og hefur hún útbúið aðgerðaáætlun þar sem sett eru fram skýr og tímasett verkefni sem eiga að stuðla að launajafnrétti kynjanna. Aðgerðaáætlunin er til fjögurra ára, eða til loka ársins 2016.

Til að unnt sé að leggja fram markvissar tillögur um aðgerðir til að draga úr kynbundnum launamun sem og að meta árangur þeirra aðgerða sem farið er í er mikilvægt að fyrir liggi mat á hver kynbundni launamunurinn sé og hvað valdi honum. Skráning upplýsinga er ein helsta forsenda slíks mats og sömuleiðis forsenda þess að hægt sé að gera marktæka greiningu á launum. Rétt starfaflokkun og skráning á menntun, starfsaldri og öðrum þáttum sem hafa áhrif á laun er nauðsynlegur undanfari launaúttekta innan stofnana. Hagstofan hefur í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið og Fjársýslu ríkisins aðstoðað stofnanir við yfirferð á skráningarupplýsingum og unnið að ÍSTARF- og atvinnugreinaflokkun. Atvinnugreinaflokkuninni er lokið en enn vantar töluvert upp á starfaflokkunina. Í maí á liðnu ári sendi þáverandi fjármálaráðherra forstöðumönnum ríkisstofnana bréf þar sem forstöðumenn voru beðnir um að að tryggja að vel verði tekið á móti starfsfólki Hagstofunnar  og þeim veitt nauðsynleg aðstoð enda er starfaflokkun starfsmanna stofnanna ríkisins ekki valkvæð.

Mikilvægt er að stofnanir fari ekki í endurskoðun á starfaflokkun án aðstoðar Hagstofunnar, en þeir sem vilja hefja endurskoðun strax geta sett sig í samband við Falasteen Abu Libdeh sérfræðing við framkvæmd launarannsóknar Hagstofu Íslands í síma 528 1258 eða með tölvupósti á netfangið [email protected]

Þá hefur starfsmannaskrifstofan útbúið leiðbeiningar um hvernig best sé að framkvæma jafnlaunaúttektir með það að markmiði að ganga úr skugga um að kynjunum sé ekki mismunað launalega hjá stofnunum ríkisins. Fjársýsla ríkisins hefur í samráði við starfsmannaskrifstofuna útbúið sérstaka skýrslu sem auðveldar slíka úttekt og tryggir að stofnanir vinni með sambærileg gögn. Sérfræðingar á starfsmannaskrifstofu munu aðstoða stofnanir við launaúttektir og verður farið í þá vinnu á næstu mánuðum.

Innleiðing jafnlaunastaðals

Á síðustu árum hefur verið unnið að gerð staðals um framkvæmd stefnu um launajafnrétti sem nýst gæti sem undirstaða vottunar. Vinnan byggði á bráðabirgðaákvæði í jafnréttislögunum (nr. 10/2008) og bókun SA og ASÍ frá því í febrúar 2008 sem gerð var í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Staðlaráð Íslands hafði umsjón með gerð staðalsins enda lýtur hann reglum sem gilda um staðlagerð í Evrópu.

Frumvarp að staðli var kynnt þann 19. júní sl. og í desember var staðallinn gefinn út og nefnist Jafnlaunakerfi – kröfur og leiðbeiningar, ÍST 85:2012. Markmið jafnlaunastaðalsins er að stuðla að því að fyrirtæki og stofnanir geti komið sér upp ferlum sem tryggja að málsmeðferð og ákvarðanataka í launamálum feli ekki í sér kynbundna mismunun. Þessi ferli þurfa síðan að fá vottun þess efnis að þau uppfylli þær kröfur.

Jafnlaunastaðallinn getur nýst stofnunum á margan hátt. Hann er mælitæki við ákvörðun launa og getur m.a. komið að gagni við endurnýjun stofnanasamninga. Eðli málsins samkvæmt þurfa þeir sem vilja fá vottun fyrst að gera jafnlaunaúttekt og eins og fram kom hér að ofan munu sérfræðingar á starfsmannaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins leiðbeina og aðstoðað við slíkar úttektir og úrvinnslu tölfræðigagna.

Í aðgerðaáætlun um launajafnrétti kynjanna er m.a. kveðið á um stofnun aðgerðahóps stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins. Hópurinn hefur þegar tekið til starfa og eitt af hlutverkum hans er að gera áætlun um kynningu á jafnlaunastaðlinum.

Liðsstyrkur

Liðsstyrkur er sameiginlegt áttaksverkefni ríkis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins sem hófst nú í ársbyrjun. Markmið þess er að virkja atvinnuleitendur sem hafa fullnýtt rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins til þátttöku að nýju á vinnumarkaði og koma í veg fyrir að langvarandi atvinnuleysi leiði til óvinnufærni. Atvinnurekendur sem ráða fólk úr þessum hópi frá mótframlag fá atvinnuleysistryggingasjóði sem nemur grunnatvinnuleysisbótum auk lífeyrissjóðsframlags.

Stefnt er að því að skapa allt að 2.200 sex mánaða starfstengd vinnumarkaðsúrræði á árinu 2013 sem munu skiptast á milli sveitarfélaga, ríkis og almenna vinnumarkaðarins. Gert er ráð fyrir að ríkið útvegi 220 einstaklingum störf og eru þau undanþegin auglýsingaskyldu. Á næstu dögum fá allir forstöðumenn ríkisstofnana bréf með nánari upplýsingum um átakið, hvar störf í boði eru skráð og mótframlagið sem fylgir hverju starfi.

Samskiptamiðstöð heyrnalausra og heyrnarskertra hlaut nýsköpunarverðlaunin 2012

Nýsköpunarverðlaunin voru afhent í annað sinn á ráðstefnu sem haldin var 30. október síðastliðinn á Grand Hótel Reykjavík. Á ráðstefnunni voru nýsköpunarverðlaun og viðurkenningar fyrir nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu veitt, en 62 verkefni frá 31 stofnun og 11 sveitarfélögum voru tilnefnd til nýsköpunarverðlauna í ár.

VerðlaunaafhendingSamskiptamiðstöð heyrnalausra og heyrnarskertra hlaut nýsköpunarverðlaunin í opinberri þjónustu og stjórnsýslu 2012 vegna verkefnisins „SignWiki“. Verkefnið er upplýsingakerfi og þekkingarbrunnur þar sem táknmálsorðabók og táknmálsnámi er miðlað í tölvur, spjaldtölvur og síma. Þetta er ný nálgun sem byggir á opinni og virkri þátttöku þar sem málsamfélagið og áhugafólk um táknmál eru þátttakendur og leggja til námsefni og tákn. SignWiki nýtist sem orðabók, til kennslu og í samskiptum við heyrnarlausa, fyrir almenning og til rannsókna og hefur gjörbreytt aðgengi að táknmáli og miðlun þess.

Fimm önnur verkefni fengu sérstakar viðurkenningar fyrir nýsköpun. Það voru Blindrabókasafn Íslands fyrir „Librodigital“, Orkustofnun fyrir „Varmadæluvefur“, Öldrunarheimili Akureyrar fyrir „Hænsnahöllin“, Reykjavíkurborg fyrir „Betri Reykjavík“ og Sjúkratryggingar Íslands fyrir „Réttindagátt – gagnagátt“.

Finna má nánari upplýsingar um öll verkefnin sem tilnefnd voru til nýsköpunarverðlaunanna í ár ásamt öðru fróðlegu efni um nýsköpun í opinberum rekstri á vefsíðunni http://www.nyskopunarvefur.is.

Kynjabókhald forstöðumanna 2012

Í árslok 2012 voru forstöðumenn ríkisins 179 og hefur þeim fækkað um 3 frá árinu 2011. Fækkunina má rekja til sameiningar ráðuneyta í september 2012. Þá voru sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, iðnaðarráðuneyti og efnahags- og viðskiptaráðuneyti sameinuð í eitt ráðuneyti, atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti. Undir atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti heyra nú 14 stofnanir en áður heyrðu 20 stofnanir undir þessi þrjú ráðuneyti. Ráðuneytisstjórum fækkaði um tvo og heilsugæslan á Dalvík tilheyrir nú Heilbrigðisstofnuninni a Siglufirði.

Einnig varð nokkur tilflutningur á stofnunum milli ráðuneyta. Undir fjármála- og efnahagsráðuneytið fluttust tvær stofnanir, Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands sem áður heyrðu undir efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti fluttust tvær stofnanir, Veiðimálastofnun sem áður heyrði undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og Íslenskar orkurannsóknir sem áður heyrði undir iðnaðarráðuneyti.

Taflan sýnir fjölda forstöðumanna 2012 (þ.m.t. ráðuneytisstjóra) eftir ráðuneytum og hlutfall kvenna eftir hverju ráðuneyti fyrir sig.

Eining
Karlar
Konur
Samtals
Hlutfall kvenna
Forsætisráðuneyti 1 2 3 67%
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti 10 4 14 29%
Fjármála- og efnahagsráðuneyti 12 1 13 8%
Innanríkisráðuneyti 33 13 46 28%
Mennta- og menningarmálaráðuneyti 25 29 54 54%
Umhverfis- og auðlindaráðuneyti 15 1 16 6%
Utanríkisráðuneyti 2 0 2 0%
Velferðarráðuneyti 22 9 31 29%
Öll ráðuneyti 120 59 179 33%


Hér má sjá þróun á kynjaskiptingu forstöðumanna ríkisins síðustu fimm árin. Konur eru nú 59 talsins eða 33% af fjölda forstöðumanna, en voru 31% á árinu 2011.

Forstöðumenn kyn
Meðalaldur forstöðumanna er 55,4 ár í árslok 2012; konur eru 52,4 ára og karlar eru 56,9 ára. Meðalaldur ríkisstarfmanna í heild er lægri eða 46 ár, aldur kvenna er um 45 ár og karla rúmlega 46 ár.

CAF sjálfsmatslíkan – tilraunaverkefni með stofnunum

Undanfarin misseri hefur verið unnið að því innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins að meta fýsileika þess að innleiða CAF sjálfsmatslíkanið (Common Assessment Framework) en það var fyrst kynnt í Evrópu árið 2000. CAF líkanið hefur notið mikilla vinsælda síðustu árin og eru notendur orðnir yfir 3000, í flestum ríkjum Evrópu, í Asíu, Mið-Ameríku og á fleiri stöðum.

Haustið 2011 fékk fjármála- og efnahagsráðuneytið til liðs við sig velferðarráðuneytið, en það hafði sýnt þessu verkefni mikinn áhugi og vildi taka þátt í þróun þess. Í sameiningu ákváðu ráðuneytin að setja af stað tilraunaferli og prufakeyra CAF hjá nokkrum stofnunum. Tilgangurinn með því að prufakeyra sjálfsmatslíkanið var m.a. að meta áhrif þess á starfsemi íslenskra stofnana, safna upplýsingum er snúa að framkvæmd og úrvinnslu en jafnframt meta hvort þróa þurfi aðferðina frekar.

Í janúar 2012 var tilraunaverkefnið kynnt forstöðumönnum stofnana beggja ráðuneyta og á endanum ákváðu 5 stofnanir að taka þátt. Verkefnið hófst með námskeiði fyrir verkefnastjóra stofnana, forstöðumenn og fulltrúa stofnana í sjálfsmatshópum. Sjálfsmat tekur á bilinu 1-3 mánuði að framkvæma. Í því felst mat á öllum níu þáttum líkansins, gerð niðurstöðuskýrslu og útfærsla á svokallaðri úrbótaáætlun, m.a. til að bæta veikleika í starfsemi stofnunar. Síðan er unnið markvisst eftir áætluninni næstu mánuði þar á eftir.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið og velferðarráðuneytið hafa lokið við mat á því hvernig stofnunum í tilraunaferlinu gekk að framkvæma CAF sjálfsmat og liggja nú niðurstöður fyrir. Óhætt er að segja að tilraunastofnanir séu ánægðar með þetta tæki. Fram hefur komið í samtölum við forstöðumenn og verkefnastjóra að þeir sjái fyrir sér betri nýtingu fjármuna m.a. með endurforgangsröðun verkefna í samræmi við þarfir viðskiptavina, breytingar á verklagi og skipulagi til að ná betur markmiðum stofnunar o.fl.

Fyrirhugað er að kynna nýja handbók og niðurstöður úr tilraunaferlinu fyrir forstöðumönnum í vor. Frekari upplýsingar um CAF sjálfsmatslíkan má finna á heimasíðu ráðuneytisins.

Upplýsingar um verkefnið veitir Pétur Berg Matthíasson í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, [email protected]

Árnessjóður, orlofssjóður embættismanna

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað nýja stjórn fyrir Árnessjóð en fráfarandi stjórn lét af störfum í lok síðasta árs að eigin ósk. Stjórnina skipa: Angantýr Einarsson, Ásta Lára Leósdóttir og Snævar Guðmundsson. Send verður tilkynning á næstu dögum um breytt fyrirkomulag sjóðsins á árinu 2013 til þeirra sem undir sjóðinn heyra.

Nýtt efni á vef fjármálaráðuneytisins


Forstöðumannalisti

Birtur hefur verið nýr listi yfir forstöðumenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja í Lögbirtingarblaðinu. Fyrir 1. febrúar ár hvert sker fjármálaráðherra úr því hvaða starfsmenn teljast forstöðumenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja skv. 1. mgr. 22. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna rikisins og birtir lista yfir þá í Lögbirtingarblaði.

Þegar listi þessi er skoðaður þá þarf ávallt að hafa í huga að hann er ekki tæmandi yfir forstöðumenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja. Embættismenn eru taldir upp í 1 - 13 tölulið í 1. mgr. 22. gr. laganna. Í 13. tölulið segir að fjármálaráðherra skeri úr hvaða starfsmenn falli undir þann lið. Það eru aðeins þeir sem birtir eru á forstöðumannalistanum. Aðrir eru sérstaklega taldir upp í lögunum.

Störf sem undanþegin eru verkfallsheimild

Birt hefur verið auglýsing nr. 81/2013 um skrá yfir störf sem undanþegin eru verkfallsheimild sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Samantekt á lögum um ríkisstarfsmenn

Samantektin (PDF 2,2 MB) er varðar lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins var uppfærð nú í janúar 2013 vegna dóma og álita sem birt voru á árinu 2012.

Reifanir á dómum

Einnig hafa verið birtar á heimasíðu ráðuneytisins reifanir á dómum sem kveðnir voru upp á árinu 2012 og varða starfsmannamál hjá ríkinu og stofnunum þess.

Frá Alþingi

Á Alþingi 140. löggjafarþingi 2011-2012, voru lögð fram nokkur stjórnarfrumvörp sem varða starfsemi og starfsmannamál ríkisstofnana og voru samþykkt sem lög frá Alþingi.

Lög um nýjar stofnanir og/eða sameiningu eldri stofnana í nýjar:

Lög nr. 64/2012 myndlistarlög
Lög nr. 80/2012 um menningarminjar.

Lög sem fela í sér breytt skipulag og/eða tilfærslu á starfsemi milli stofnana:

Lög nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn.

Önnur lög:

Lög nr. 51/2012 um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 15/1998, með síðari breytingum.

Frumvörp sem lögð voru fram en voru ekki afgreidd:

Frumvarp til laga um Farsýsluna, stjórnsýslustofnun samgöngumála (sjá nú lög nr. 119/2012).
Frumvarp til laga um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála (sjá nú lög nr. 120/2012).
Frumvarp til laga um rannsókn samgönguslysa.
Frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996, með síðari breytingum.
Frumvarp til laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði.
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um bókmenntasjóð og fleira, nr. 91/2007.
Frumvarp til sviðslistalaga.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira