Hoppa yfir valmynd

Málstefna Stjórnarráðs Íslands

I. kafli. Inngangur og meginsjónarmið

1.1. Íslenska er mál Stjórnarráðs Íslands og málnotkun þar skal vera til fyrirmyndar.

Íslenska er mál Stjórnarráðs Íslands, eins og kveðið er á um í 8. gr. laga nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og táknmáls. Í sömu lögum er enn fremur kveðið á um að stjórnvöld skuli tryggja að unnt verði að nota íslensku á öllum sviðum íslensks þjóðlífs (2. gr.) og að ríki og sveitarfélög beri ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skuli sjá til þess að hún sé notuð (5. gr.).

Íslenskt táknmál er fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra, eins og kveðið er á um í 3. gr. laga nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og táknmáls. Stjórnarráð Íslands leitast við að tryggja að allir sem þess þurfa eigi þar kost á þjónustu á íslensku táknmáli, skv. 13. gr. áðurnefndra laga. Þeim sem koma til starfa hjá Stjórnarráðinu skal sérstaklega bent á lögbundnar skyldur stjórnvalda, jafnt ríkis og sveitarfélaga, að því er varðar íslenskt táknmál sem lýst er í þessum lögum.

Aðalmarkmið íslenskrar málstefnu, sem Alþingi samþykkti hinn 12. mars 2009 og birtist undir heitinu Íslenska til alls (rit 44, mennta- og menningarmálaráðuneyti 2009), er að tryggja að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.

Stjórnarráð Íslands gegnir mikilvægu hlutverki í varðveislu og eflingu íslenskrar tungu. Lög nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og táknmáls og íslensk málstefna samþykkt á Alþingi (Íslenska til alls) eru höfð að leiðarljósi í störfum Stjórnarráðs Íslands.

2. kafli. Íslenska og önnur tungumál

2.1. Íslenska er mál Stjórnarráðs Íslands.

Starfsmenn Stjórnarráðs Íslands nota íslensku í störfum sínum nema þar sem erlend samskipti krefjast notkunar annarra mála. Fundargerðir, minnisblöð og bréfaskipti innan Stjórnarráðsins, skýrslur og öll vinnugögn eru á íslensku nema sérstök rök séu fyrir notkun annarra mála.

Leitast er við að vinnuumhverfi í Stjórnarráði Íslands sé á íslensku. Þetta gildir meðal annars um viðmót í tölvum, bæði stýrikerfum og helsta notendahugbúnaði.

2.2. Aðgengi að upplýsingum á íslensku og íslensku táknmáli.

Það er sjálfsagður réttur íslenskra ríkisborgara að geta kynnt sér á íslensku það efni sem frá íslenskum stjórnvöldum kemur og öll helstu gögn er varða meiriháttar ákvarðanir íslenskra stjórnvalda. Stjórnarráð Íslands mun kappkosta að tryggja þennan rétt, eins og nánar er fjallað um í næstu greinum.

Stjórnarráð Íslands skal gæta þess að grunnupplýsingar um starfsemi ráðuneytanna séu aðgengilegar á íslensku táknmáli og leitast við að fréttir, fræðsluefni, kynningarefni og annað efni þess ætlað íslenskum borgurum sé aðgengilegt á íslensku táknmáli ef þörf krefur. Efnið skal vera auðfundið og tæknilega vel frá gengið á vef Stjórnarráðsins.

Vefur Stjórnarráðs Íslands skal vera aðgengilegur fötluðu fólki og standast viðmiðunarreglur Web Content Accessibility Guidelines 2.0 af gerð AA (WCAG). Markmiðið er að gera efni á vef Stjórnarráðsins aðgengilegt með helstu hjálpartækjum, svo sem skjálesurum. Stjórnarráðið gengst fyrir þróun og notkun gátlista um vefaðgengi er tekur mið af íslenskum aðstæðum.

2.3. Lög, reglugerðir, dómsmálaauglýsingar og önnur stjórnvaldsfyrirmæli skal birta á íslensku.

Allt það efni sem íslenskum stjórnvöldum er skylt að birta skv. lögum nr. 64/1943 um birtingu laga og stjórnvaldaerinda skal birta á íslensku. Þetta á meðal annars við um lög, tilskipanir, opin bréf, auglýsingar og aðrar tilkynningar, reglugerðir, erindisbréf, samþykktir og auglýsingar sem gefnar eru út eða staðfestar af ráðherra, umburðarbréf, ákvarðanir og úrlausnir ráðuneyta sem almenna þýðingu hafa, veitingar opinberra embætta og lausn frá þeim, og dómsmálaauglýsingar. Enn fremur gildir þetta um samninga við önnur ríki og auglýsingar varðandi gildi þeirra. Undanþágu í 4. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað til að birta eingöngu erlendan frumtexta milliríkjasamnings skal nota mjög sparlega.

2.4. Ræður og greinar fulltrúa Íslands á erlendum tungumálum skulu gerðar aðgengilegar á íslensku.

Allar helstu ræður íslenskra ráðherra, sendiherra og annarra fulltrúa íslenskra stjórnvalda sem fluttar hafa verið á erlendu máli á innlendum eða erlendum vettvangi og birtar á vef Stjórnarráðsins skulu gerðar aðgengilegar á íslensku. Þetta gildir meðal annars um ræður fulltrúa Íslands á þingum og fundum ýmissa alþjóðastofnana, svo sem þingum Norðurlandaráðs, Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins.

Allar greinar íslenskra ráðherra, sendiherra og annarra fulltrúa íslenskra stjórnvalda sem varða mikilvæga hagsmuni Íslands og birtar eru á erlendu máli á innlendum eða erlendum vettvangi skulu svo fljótt sem auðið er gerðar aðgengilegar á íslensku, annaðhvort með íslenskri þýðingu heildartexta eða efnisútdrætti á íslensku. Þetta gildir meðal annars um greinar í dagblöðum, tímaritum og vefritum ýmiss konar.

2.5. Útgefið efni skal vera á íslensku.

Allt efni sem gefið er út á vegum Stjórnarráðs Íslands skal vera á íslensku enda þótt sumt af því sé jafnframt gefið út á erlendum málum. Þetta á meðal annars við um skýrslur, greinar, fréttir og fréttatilkynningar sem varða mikilvæga hagsmuni Íslands, þar með taldar skýrslur íslenskra stjórnvalda til erlendra nefnda og stofnana.

Erlendar skýrslur og greinargerðir sem varða hagsmuni Íslands og Íslendinga skulu eftir föngum gerðar aðgengilegar á íslensku, annaðhvort með íslenskri þýðingu heildartexta eða efnisútdrætti á íslensku.

3. kafli. Málfar

3.1. Málnotkun í Stjórnarráði Íslands skal vera til fyrirmyndar.

Mál það sem notað er í Stjórnarráði Íslands eða á vegum þess skal vera vandað, einfalt og skýrt, sbr. ákvæði 10. gr. laga nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og táknmáls. Málnotkun í Stjórnarráði Íslands skal vera til fyrirmyndar.

Íslenskt mál er mikilvægur þáttur í daglegum störfum flestra starfsmanna Stjórnarráðs Íslands. Stjórnarráðið gerir kröfu um góða íslenskukunnáttu starfsmanna sinna. Jafnframt skapar Stjórnarráðið starfsmönnum sínum skilyrði til þess að málnotkun þar megi vera til fyrirmyndar, meðal annars með málfarsráðgjöf og yfirlestri, aðgangi að handbókum og endurmenntun eins og nánar er lýst í eftirfarandi greinum.

Gera skal sams konar kröfur til stjórnvalda um vandaða, staðlaða og skýra málnotkun á íslensku táknmáli og gerðar eru um íslensku.

3.2. Vandað mál og skýrt.

Mál það sem fer frá Stjórnarráðinu skal vera vandað. Á þetta við um öll tungumál, íslensk sem erlend, raddmál sem táknmál. Vandað mál er markvisst og í samræmi við málvenju, í réttu málsniði, vandlega frágengið og ritað í samræmi við gildandi reglur um réttritun.

Mál það sem fer frá Stjórnarráðinu skal vera skýrt og öllum skiljanlegt. Í skýru máli eru fremur notuð stutt orð en löng og stuttar setningar fremur en langar. Mikilvægt er að skýra sérhæfð orð og hugtök.

3.3. Málfarsráðgjöf og yfirlestur.

Innan Stjórnarráðs Íslands, í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, skal vera málfarsráðgjafi sem sinnir málfarsráðgjöf og yfirlestri fyrir starfsmenn þess til að tryggja að málfar í Stjórnarráði Íslands sé til fyrirmyndar. Í tilviki íslensks táknmáls skal Stjórnarráðið leita eftir málfarsráðgjöf hjá Málnefnd um íslenskt táknmál sem stuðlar að samræmi og festu í notkun íslensks táknmáls. Málfarsráðgjafi les yfir mikilvægar ræður, greinar, skýrslur og annað útgefið efni Stjórnarráðsins sé þess óskað og er starfsmönnum til ráðuneytis í málfarsefnum.

3.4. Handbækur um íslenskt mál.

Starfsmenn Stjórnarráðs Íslands skulu hafa greiðan aðgang að öllum helstu handbókum um íslenskt mál, svo sem íslenskri orðabók, stafsetningarorðabók og samheitaorðabók.

3.5. Endurmenntun.

Starfsmönnum Stjórnarráðs Íslands er reglulega gefinn kostur á hagnýtum námskeiðum um ritun, málnotkun og stafsetningu.

3.6. Þýðingamiðstöð.

Í Stjórnarráði Íslands er starfrækt þýðingamiðstöð sem hefur það hlutverk að þýða lagatexta, aðallega texta er heyra undir EES-samninginn og Evrópusambandið, alþjóðlega samninga og eftir atvikum aðra texta þar sem nota þarf staðlaðan hugtakaforða.

3.7. Íðorðasmíð og hugtakasafn.

Í tengslum við þýðingamiðstöð er unnið markvisst að íðorðastarfi og nýyrðasmíð í samstarfi við sérfræðinga hjá opinberum stofnunum, í háskólasamfélaginu og atvinnulífinu. Skipulega er haldið utan um þessi íðorð og hugtakaskýringar í sérstökum gagnagrunni sem er öllum aðgengilegur á Netinu.

3.8. Sértækur táknaforði í stjórnsýslutextum.

Í tengslum við þýðingar á íslenskt táknmál er unnið íðorðastarf þar sem búin eru til tákn um ýmis hugtök á sviði laga og stjórnsýslu og tæknileg hugtök sem finna má í lögum og samningum ýmiss konar. Skipulega er haldið utan um þessi sértæku tákn og hugtakaskýringar í sérstökum gagnagrunni Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra sem er öllum aðgengilegur á Netinu.

3.9. Ráðgjöf um málefni íslensks táknmáls.

Starfsmenn Stjórnarráðsins geta leitað ráðgjafar hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og Málnefnd um íslenskt táknmál ef upp koma álitamál í þjónustu stjórnvalda við notendur íslensks táknmáls.

4. kafli. Réttur manna af erlendum uppruna

Tryggja skal réttindi manna af erlendum uppruna í samskiptum við Stjórnarráð Íslands með því að bjóða eftir föngum túlkaþjónustu þeim sem ekki geta tjáð sig á íslensku.

5. kafli. Málnefnd Stjórnarráðs Íslands

Hvert ráðuneyti skipar einn fulltrúa í málnefnd Stjórnarráðs Íslands og skal fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins vera formaður. Hlutverk nefndarinnar er að tryggja að farið sé að málstefnu Stjórnarráðsins og endurskoða málstefnuna reglulega í samráði við Íslenska málnefnd og Málnefnd um íslenskt táknmál.


Málstefna Stjórnarráðs Íslands

Málstefna Stjórnarráðs Íslands var samþykkt á fundi ríkisstjórnar á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember 2012.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum