Hoppa yfir valmynd

Sögulegt efni

Innviðaráðuneytið á rætur að rekja til II. skrifstofu Stjórnarráðsins sem hafði á hendi atvinnu- og samgöngumál. Með konungsúrskurði árið 1917 fékk skrifstofan heitið atvinnu- og samgöngudeild en fallið var frá notkun orðsins „deild“ með konungsúrskurði árið 1921 og fékk hún þá heitið atvinnu- og samgöngumálaráðuneyti. Undir það ráðuneyti voru lögð öll atvinnumál, s.s. landbúnaður, sjávarútvegur, iðnaður og verslun, einkaréttarleyfi, bankar og sparisjóðir, samgöngumálin öll, vegamál, póstmál, síma- og hraðskeytamál, dýralæknar, sveitarstjórnarmál og þjóðjarðir.

Í kjölfar síðari heimsstyrjaldar fjölgaði málefnum og störf ráðuneytisins urðu umfangsmeiri. Loftferðamál, sem vart voru til fyrir styrjöldina, voru orðin stór málaflokkur. Þá varð mikil þensla í atvinnuvegum og vegamálum sem leiddu til uppskiptingar atvinnuvega- og samgönguráðuneytis árið 1947 og voru iðnaðarmál færð undir samgönguráðuneytið.

Með lögum nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, voru iðnaðarmálin færð í sérstakt ráðuneyti, og var því tekið upp heitið samgönguráðuneyti. Ráðuneytinu voru falin yfirstjórn og stefnumótunarhlutverk samgöngumála, fjarskipta- og póstmála og ferðamála. Með lögum nr. 167/2007, um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands, voru málefni ferðamála færð frá samgönguráðuneyti til iðnaðarráðuneytis. Þá voru sveitarstjórnarmálin færð frá félagsmálaráðuneytis til samgönguráðuneytis. Ástæðurnar fyrir síðari flutningnum voru þær að félagsmálaráðuneytið væri að taka við veigamiklum málaflokkum frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Þá færi vel saman að efla samgöngur og að sinna málefnum sveitarfélaga. Heiti ráðuneytisins var þó hið sama þar til með lögum nr. 98/2009, um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands, að tekið var upp heitið samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. 

Þann 1. janúar 2011 tók til starfa innanríkisráðuneytið en með því voru sameinuð samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og dómsmála- og mannréttindaráðuneyti. Árið 2017 var svo fallið frá þessari sameiningu og innanríkisráðuneytinu skipt upp að nýju í sjálfstætt samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, og dómsmálaráðuneyti. 

Þann 1. febrúar 2022 tók innviðaráðuneytið til starfa á grunni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis eftir breytingar á skipan Stjórnarráðsins í kjölfar ríkisstjórnarmyndunar í lok nóvember 2021.

Heimildir: 
Agnar Kl. Jónsson (2004). Stjórnarráð Íslands 1904-1964; Alþingistíðindi; Björn Freyr Björnsson (2018), Enginn tími fyrir teymi (Lokaverkefni HÍ); 
Sumarliði R. Ísleifsson (2004), Stjórnarráð Íslands 1964-2004.

 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum