Hoppa yfir valmynd
21. júní 2019 Utanríkisráðuneytið

Íslendingar velviljaðir þátttöku í alþjóðasamstarfi

Mannréttindaráð SÞ í Genf - myndUN Photo/Violaine Martin

Þorri Íslendinga er jákvæður í garð alþjóðastofnana og þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi. Þetta er niðurstaða könnunar sem Maskína gerði fyrir utanríkisráðuneytið um viðhorf Íslendinga til alþjóðasamstarfs. Íslendingar eru sérstaklega jákvæðir í garð norræns samstarfs. 

Í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram að drjúgur meirihluti telur hagsæld Íslands byggjast að miklu leyti á alþjóðlegri samvinnu (73,6%) og alþjóðlegum viðskiptum (78,3%). Norrænt samstarf á sérstakan stað í hugum landsmanna en 92% eru jákvæð gagnvart virkri þátttöku Íslands í Norðurlandasamstarfi. Þátttaka Íslands í störfum Sameinuðu þjóðanna (77,9%) og mannréttindaráðsins (80,8%) nýtur einnig fylgis meðal landsmanna sem telja jafnframt að seta Íslands í mannréttindaráðinu geti haft jákvæð áhrif á þróun mannréttinda á heimsvísu (70,3%). Þá var viðhorf Íslendinga til þátttöku Íslands í störfum annarra alþjóðastofnana jákvætt en kannað var viðhorf til Norðurskautsráðsins (73,8%), Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) (62,3%), Evrópuráðsins í Strassborg (50,8%) Alþjóðabankans (36%) en þess má geta að svarendur sögðust ekki þekkja vel til síðastnefndu stofnananna. 

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er ánægður með niðurstöður könnunarinnar. „Það er ánægjulegt að sjá hversu alþjóðlega sinnaðir Íslendingar eru almennt og greinilegt að flestir vilja að Ísland taki áfram virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi, sérstaklega norrænu samstarfi og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Stuðningurinn við Evrópska efnahagssvæðið er afgerandi sem er ánægjulegt. Sömuleiðis er góður stuðningur við aðildina að Atlantshafsbandalaginu þótt hún sé líka umdeild eins og búast mátti við,“ segir Guðlaugur Þór. „Við sjáum hins vegar að margir telja sig ekki þekkja nægilega vel til og það er okkur hvatning til að segja betur frá okkar störfum á alþjóðavettvangi. Þessi könnun er kærkominn leiðarvísir við þá vinnu.“

Evrópumálin voru skoðuð sérstaklega og er stuðningurinn við EES-samninginn mikill. Rúm 55% landsmanna eru jákvæð gagnvart aðild Íslands að EES-samningnum en eingöngu 11,8% eru neikvæð gagnvart henni. Til samanburðar eru 43% andvíg inngöngu Íslands í Evrópusambandið en 31,6% fylgjandi skv. niðurstöðum könnunar Maskínu frá því í mars sl. Viðhorfið til Evrópusambandsins sem slíks er aftur á móti nokkuð jákvætt (40,7%). 

Um helmingur landsmanna er jákvæður gagnvart aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (49%) en tæpur fimmtungur neikvæður gagnvart henni (18,8%). 37,1% eru jákvæð gagnvart varnarsamstarfi Íslands við Bandaríkin en 27,9% neikvæð gagnvart því. 

Þegar kemur að þróunarsamvinnu Íslands finnst flestum mikilvægt að íslensk stjórnvöld veiti þróunarríkjum og íbúum þeirra aðstoð (79,1%), sérstaklega á það við um mannúðaraðstoð. Fjórum af hverjum tíu finnst það eigi að vera eitt af forgangsmálum íslenskra stjórnvalda að draga úr fátækt í þróunarríkjum en 26,6% eru því ósammála. Til samanburðar má nefna að 47,7% finnst einkafyrirtæki gegna mikilvægu hlutverki í sjálfbærri þróun í þróunarríkjum en eingöngu 15,2% eru því ósammála. 

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar finnst landsmönnum að þróunaraðstoð eigi markvisst að stuðla að jafnrétti og aukinni virðingu fyrir mannréttindum í þróunarríkjunum. Er þar mikill samhljómur með nýsamþykktri þingsályktun um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019-2023 þar sem tekið er mið af þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland hefur fullgilt á sviði mannréttinda og mörkuð sú stefna að allt þróunarsamstarf Íslands verði mannréttindamiðað. Þá veitir Ísland um 80% framlaga í tvíhliða þróunarsamvinnu til verkefna sem stuðla að jafnrétti. Svarendur eru einnig sammála því að þróunarsamvinna skuli markvisst stuðla að umbótum í umhverfis- og loftslagsmálum(72,3%), þróunarsamvinna leiði til friðsælli og sanngjarnari heims (78,9%) og hún sé jafnframt árangursrík leið til að draga úr fátækt (74,1%) og straumi flóttamanna (73%). 

Í könnuninni var enn fremur skoðað hvort almenningur hafi þurft að nýta sér borgaraþjónustu utanríkisþjónustunnar, þ.e. þá þjónustu sem utanríkisráðuneytið, sendiskrifstofur Íslands og ræðismenn veita íslenskum ríkisborgurum erlendis. Sérstaklega var kannað hversu vel fólk væri upplýst um borgaraþjónustuna og hversu vel hún hafi nýst þeim sem til hennar hafa leitað. Niðurstaðan er sú að þeir sem hafa nýtt sér þjónustuna eru almennt sáttir við þjónustuna en hins vegar sýna þær að borgaraþjónustan þarfnast frekari kynningar. 
Könnunin er liður í markmiði utanríkisþjónustunnar að bæta upplýsingamiðlun til almennings um störf og stefnu utanríkisþjónustunnar sem sett var fram í skýrslunni Utanríkisþjónusta til framtíðar. Af niðurstöðum könnunarinnar má greina að almenningur þekkir misvel til þeirra alþjóðastofnana sem Ísland er aðili að og alþjóðasamstarfs almennt. Þau sem segjast þekkja betur til eru jákvæðari í garð alþjóðlegs samstarfs en þeir sem segjast minni þekkingu, en samstarfið nýtur þó almennt fylgis meðal landsmanna.

Könnunin var framkvæmd á netinu dagana 14.-27. maí 2019. Svarendur úr Þjóðgátt Maskínu voru 824. 

 
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira