Hoppa yfir valmynd
18. maí 2020 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Ísland ári fyrr í formennsku í Norrænu ráðherranefndinni

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. - mynd

Ákveðið hefur verið að Ísland taki að sér formennsku í Norrænu ráðherranefndinni ári fyrr en áður hafði verið ráðgert eða árið 2023. Norðurlöndin skiptast á að sinna því hlutverki og því veitir Ísland norrænu samstarfi formennsku á fimm ára fresti. Eftir að hafa verið í formennsku í fyrra hefði röðin næst komið að Íslandi árið 2024. Sænsk stjórnvöld, sem venju samkvæmt hefðu átt að vera í formennsku ári áður, óskuðu á hinn bóginn eftir því að skipta við Ísland á formennskuárum m.a. vegna þess að Svíþjóð mun gegna formennsku í ráðherraráði ESB á seinni hluta ársins 2023.

„Þetta er gott mál því formennskan í Norðurlandasamstarfinu styður við margvíslega íslenska hagsmuni. Ég er sannfærður að við getum nýtt okkur þetta vel,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda. „Sem formennskuríki getum við sett okkar áherslumál á dagskrá í norrænni samvinnu. Svo felst í formennskunni að mikill fjöldi funda og viðburða færist til Íslands. Á formennskuárinu í fyrra fóru hátt í 200 fundir fram á Íslandi, um allt land, sem um 3.500 manns sóttu. Það munar sannarlega um það fyrir okkar ferðaþjónustu og það mun líka senda jákvæð skilaboð til umheimsins. Svo er ánægjulegt að geta veitt vinaþjóð okkar Svíum liðsinni með þessum hætti.“

Gert er ráð fyrir að virkur undirbúningur fyrir formennskuárið hefjist næsta haust 2021 og svo hefst formennskan hinn 1. janúar 2023.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira