Hoppa yfir valmynd
11. september 2020 Utanríkisráðuneytið

Mannréttindi og lýðræði á tímum COVID-19

Utanríkisráðherrar Norðurlanda á fundi í Borgarnesi árið 2019. - myndUtanríkisráðuneytið

Mikilvægi þess að standa vörð um mannréttindi og lýðræði hefur aldrei verið meira en einmitt núna þegar teikn eru á lofti um að COVID-19-heimsfaraldurinn hafi stuðlað að afar neikvæðri þróun í þeim efnum og að hætta sé á vaxandi ójöfnuði í heimi hér sem geri stöðu þeirra verri sem nú þegar eiga mjög undir högg að sækja. Þetta er meðal þess sem fram kemur í sameiginlegri grein allra utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra Norðurlandanna sem birt er í dag á öllum Norðurlöndunum.

Guðlaugur Þór Þórðarson skrifar undir greinina fyrir Íslands hönd en hann er ráðherra bæði utanríkismála og þróunarsamvinnu. Ráðherrarnir níu heita því í grein sinni í dag að Norðurlöndin muni leggja sitt af mörkum til að sporna við þeirri neikvæðu þróun, sem eigi sér stað í skugga COVID-19. 

Norðurlöndin stóðu í dag einnig fyrir umræðufundi um lýðræði og mannréttindi á tímum COVID og tóku utanríkisráðherrar norrænu ríkjanna þátt í fundinum en einnig Michelle Bachelet, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, Marija Pejčinović Burić, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Audrey Azoulay, framkvæmdastjóri Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), Eamon Gilmore, sérstakur fulltrúi Evrópusambandsins á sviði mannréttinda, Katarzyna Gardapkhadze, starfandi framkvæmdastjóri ODIHR (lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE), Kenneth Roth, aðalframkvæmdastjóri Human Rights Watch og Nils Muižnieks, framkvæmdastjóri Evrópuskrifstofu Amnesty International.

Almenningur gat sent þátttakendum á fundinum spurningar sem snerust meðal annars um málefni Hvíta-Rússlands, Hong Kong og Kína, ofbeldi gegn konum og réttindi verkafólks á tímum COVID-19. Í umræðunni um Hvíta-Rússland lagði utanríkisráðherra áherslu á mikilvægi þess að koma á framfæri skýrum skilaboðum um stuðning Norðurlanda við hvítrússneska borgara. Það hefði raunar þegar verið gert og væri málefnið gott dæmi um samstarf norrænu ríkjanna á vettvangi utanríkismála. Framkvæmdastjóri Human Rights Watch tók í umræðunum undir málflutning utanríkisráðherra um að öll ríki, bæði stór og smá, yrðu að láta í sér heyra til að standa vörð um mannréttindi og vísaði hann til forystu Íslands í mannréttindaráðinu í málum Sádi-Arabíu og Filippseyja. 

Innlegg utanríkisráðherra á fundinum má lesa hér. 

Fréttin hefur verið uppfærð

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum