Hoppa yfir valmynd
28. október 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Plastmengun, loftslagsmál og orkuskipti í flugi til umræðu á fundi norrænna umhverfisráðherra

Plastmengun, loftslagsmál og orkuskipti í flugi til umræðu á fundi norrænna umhverfisráðherra - myndHeidi Orava/norden.org

Síaukin plastmengun er sá umhverfisvandi sem enn hefur ekki verið tekið á með samtakamætti á alþjóðavísu, en á það atriði leggja umhverfisráðherrar Norðurlandanna mikla áherslu á og kalla eftir nýjum alþjóðlegum samningi. Þau funduðu í dag með rafrænum hætti í ljósi Covid-19 kórónuveirufaraldursins.  Auk plastmengunar voru vistvænar skemmtiferðasiglingar og möguleikar til orkuskipta í flugsamgöngum líka á dagskrá ráðherranna. Þá nýttu þeir einnig fundinn til að fjalla um setningu nýrra landsmarkmiða um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til 2030 og aukinn metnað í þeim efnum sem nú er til umræðu á alþjóðavísu og meðal Evrópuríkja.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, fagnaði yfirlýsingu Evrópuríkja um væntanlegan aukinn metnað í loftslagsmálum og þakkaði norrænum kollegum sínum fyrir að halda þeim áherslum á lofti innan Evrópusambandsins. Hann benti á að orkuskipti í samgöngum væru nú á fleygiferð á Norðurlöndunum og eins stæðu löndin framarlega hvað endurnýjanlega orku varðaði. „En að sama skapi tel ég mikilvægt að auka áherslu á aðgerðir til þess að draga úr losun frá þungaflutningum, sjávarútvegi og landbúnaði.“ Draga þyrfti úr losun innan þessara geira ef uppfylla ætti markmið landanna í loftslagsmálum.

Samkvæmt uppfærðri aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum, sem kom út í júní sl, er gert ráð fyrir meiri samdrætti í losun hér á landi en krafa er gerð um skv. núgildandi skuldbindingum Íslands. Ísland hefur metnað til að auka þær skuldbindingar sínar, en samkvæmt Parísarsamningnum eiga öll ríki að senda inn uppfærð landsmarkmið á 5 ára fresti og er nú unnið að uppfærslu landsmarkmiðs Íslands.

Norðurlöndin hafa frá 2016 talað fyrir samræmdum aðgerðum á heimsvísu til að takast á við plastmengun í hafi. Á fundi sínum í Reykjavík í apríl í fyrra samþykktu ráðherrarnir að hvetja til og vinna að því að koma á fót nýjum alþjóðlegum samningi til að draga úr og fyrirbyggja losun plasts og örplasts í hafið.

Ráðherrarnir kynntu fyrr í þessum mánuði skýrslu sem norræna ráðherranefndin lét vinna og er þar meðal annars lagt til að mögulegur nýr samningur kveði á um gerð landsbundinna áætlana sem grundvalla skuldbindingar einstakra ríkja. Þess má geta að umhverfis- og auðlindaráðherra kynnti aðgerðaáætlun vegna plastmengunar hérlendis í september síðastliðnum.

 Á fundi umhverfisráðherra Norðurlandanna í dag samþykktu ráðherrarnir síðan yfirlýsingu þar m.a. er lögð áhersla á að virkja stjórnvöld, atvinnulíf og neytendur í sameiginlegu átaki til að koma í veg fyrir plastmengun, sem og að sett verði sjálfbærniviðmið fyrir plastvörur, sem spanna allan líftíma þeirra.

Danir hafa gegnt formennsku í Norrænu ráðherranefndinni þetta árið og eitt af verkefnum þeirra hefur verið að greina leiðir til notkunar annars eldsneytis en jarðefnaeldsneytis í flugi. Niðurstöður greiningarinnar voru kynntar ráðherrunum í dag og þær ræddar í kjölfarið. Guðmundur Ingi sagði m.a. að Norðurlöndin væru suðupottur nýjunga á mörgum sviðum loftslagsmála, og þegar kæmi að orkuskiptum í flugi væri mikilvægt að þau tækju fullan þátt í að hraða þeim svo draga megi úr losun í þessum geira. Ísland gæti líka orðið lykilaðili í sölu á vistvænu eldsneyti til flugvéla vegna staðsetningar sinnar í Atlantshafinu, t.d. vetnis. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum