Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2020 Utanríkisráðuneytið

Skýrsla um norrænt samstarf um utanríkis- og öryggismál komin út á íslensku

Skýrsla um norrænt samstarf um utanríkis- og öryggismál komin út á íslensku - myndWikimedia Commons

Skýrsla Björns Bjarnasonar um norrænt samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála er nú komin út í íslenskri þýðingu. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hafði frumkvæði af því á vettvangi norrænnar samvinnu að skýrslan yrði gerð.

Utanríkisráðherrar Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar ákváðu á fundi sínum í október í fyrra að fela Birni Bjarnasyni, fyrrverandi alþingismanni og ráðherra, að skrifa óháða skýrslu þar sem gerðar yrðu tillögur um þróun samstarfs Norðurlandanna á sviði utanríkis- og öryggismála. Var það gert að tillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, í tilefni af því að áratugur var liðinn síðan Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, var falið að skrifa sambærilega skýrslu.

Skýrslan kom út í sumar og á fundi ráðherranna á Borgundarhólmi í haust kynnti Björn svo efni hennar. Þar gerðu norrænu ráðherrarnir góðan róm að skýrslu Björns og sammæltust um að skoða tillögur úr öllum þremur köflum hennar sem fjalla um loftslagsmál, fjölþáttaógnir og fjölþjóðakerfið í því augnamiði að koma þeim í framkvæmd.  

Skýrslan er nú komin út í íslenskri þýðingu og er titill hennar Norræn utanríkis- og öryggismál 2020 – Loftslagsbreytingar, fjölþátta- og netógnir og áskoranir í fjölþjóðasamstarfi innan ramma alþjóðalaga. Af því tilefni ritaði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag um norrænt samstarf á þessu sviði og nauðsyn þess að byggja upp sameiginlegar varnir gegn svonefndum fjölþátta ógnum. „Skýrsla Björns Bjarnasonar er þýðingarmikið innlegg í samstarf Norðurlandanna í þessum mikilvæga málaflokki um fyrirsjáanlega framtíð,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson í niðurlagi greinarinnnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira