Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2021 Utanríkisráðuneytið

Víðtækt samstarf Íslandsstofu og Business Sweden

Guðlaugur Þór á fundinum í dag - myndBIG

Íslandsstofa og systurstofa hennar í Svíþjóð, Business Sweden, hafa gert með sér samkomulag sem tryggir íslenskum fyrirtækjum aðgang að alþjóðlegu neti viðskiptafulltrúa Business Sweden. Guðlaugur Þór Þórðarson kynnti þessi tímamót í ávarpi sínu á ársfundi Íslandsstofu í dag. 

Viðskiptafulltrúar utanríkisþjónustunnar hafa til þessa veitt íslenskum fyrirtækjum margháttaða þjónustu og greitt götu þeirra í útlöndum en þeir eru til staðar á tólf erlendum mörkuðum. Nú bætist verulega við þann hóp en alls eru 450 starfsmenn á vegum Business Sweden í 42 löndum víða um heim. Hlutverk þeirra er að styðja við framgang sænskra fyrirtækja erlendis með ýmis konar þjónustu á markaði. Með samkomulaginu verður íslenskum fyrirtækjum gert kleift að nýta sér tiltekna þjónustu eins og um sænsk fyrirtæki væri að ræða.
 
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra segir að um mikilvæg tímamót sé að ræða: „Við eigum sameiginlega viðskiptahagsmuni með Norðurlöndum enda eru þar tækifæri til að nýta sameiginlega styrkleika til árangurs fyrir öll ríkin. Við höfum átt mjög gott samstarf við Svía á sviði utanríkisviðskipta um langt skeið. Rætur þessa samkomulags liggja í samstarfi Norðurlandanna um rekstur nýsköpunarhúsa í Bandaríkjunum og Asíu, sem er annað skínandi dæmi um kosti norræns samstarfs. Sameinuð erum við öflugri.“
 
„Sem ráðherra utanríkisviðskipta og norrænnar samvinnu, hef ég mikla trú á gildi þess að styrkja samstarf Norðurlandanna og kynningarstarf útflutningsgreina á alþjóðlegum mörkuðum. Samstarf Íslandsstofu og Business Sweden er gott dæmi um það,“ sagði Anne Hallberg, ráðherra utanríkisviðskipta í Svíþjóð í ávarpi á ársfundi Íslandsstofu fyrr í dag.

Auk þess að opna dyr fyrir íslensk fyrirtæki út í heim felst einnig í samkomulaginu að stofurnar munu vinna saman í markaðs- og kynningarmálum í sértækum verkefnum þar sem þau eigi sameiginlegra hagsmuna að gæta. 

„Þetta samkomulag skapar nýja möguleika fyrir íslensk fyrirtæki til þess að hasla sér völl á erlendis. Sú aðstoð sem þeim býðst getur stytt leið þeirra á markað og auðvelda þeim að koma undir sig fótunum í ókunnu umhverfi,“ segir Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu.

Frederik Fexe, framkvæmdastjóri Business Sweden, segir tímasetningu samstarfsins afar góða. „Nú þegar markaðir eru að opnast á ný finna fyrirtæki sig í nýju viðskiptalandslagi eftir heimsfaraldur. Þetta eru kjöraðstæður til þess að hleypa af stokkunum samstarfi Business Sweden og Íslandsstofu til þess að styðja við fyrirtæki til þess að auka sölu á erlendum mörkuðum.“

Samkomulagið hefur þegar tekið gildi og má reikna með að fyrstu íslensku fyrirtækin geti notið góðs af þessu samstarfi innan skamms.

Ræðu utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra á ársfundinum má lesa hér. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira