Hoppa yfir valmynd
16. september 2021 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Störf án staðsetningar vöktu athygli á fundi norrænna byggðamálaráðherra

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, í ræðustól á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í október 2019. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tók þátt í fjarfundi norrænna ráðherra byggðamála í dag. Helsta viðfangsefni fundarins var aukinn hreyfanleiki fólks með tilliti til búsetu, starfs, frístunda og atvinnu, einkum á tímum heimsfaraldurs.

Ráðherrarnir voru einhuga um að auka þekkingu á þessu sviði og greina hvernig Norðurlöndin geti stutt þróunina svo hún skapi sjálfbærari vöxt í byggðunum. Sigurður Ingi kynnti á fundinum hugmyndafræði og stöðu verkefnisins Störf án staðsetningar sem er liður í metnaðarfullri byggðaáætlun stjórnvalda.

Í frétt norrænu ráðherranefndarinnar um fundinn segir að heimsfaraldurinn hafi skapað nýjar aðstæður og tækifæri varðandi vinnu og fyrirtæki væru orðin minna háð staðsetningu. Þannig hafi almenningur, fyrirtæki, menntastofnanir og stjórnvöld nýtt sér stafræna þjónustu í auknum mæli. 

Norrænu ráðherrarnir miðluðu dæmum um byggðastefnu landa sinna. Meðal dæma sem nefnd voru var markmið Íslands um að 10 prósent starfa á vegum ríkisins verði án staðsetningar og að byrjað væri að bjóða upp á starfsstöðvar vítt og breitt um landið sem gæfi fólki kost á að sinna störfum sínum frá heimabyggð. Rauntímaupplýsingar Byggðastofnunar um framboð á húsnæði fyrir störf án staðsetningar vöktu sérstaka athygli á fundinum.

„Það er mikilvægt að fjölga fjölbreyttum störfum á vegum hins opinbera um allt land ekki síst í hinum dreifðu byggðum. Verkefnið Störf án staðsetningar er liður í metnaðarfullri byggðaáætlun íslenskra stjórnvalda og felur í sér hugmyndafræði sem veitir byggðum landsins stórkostlegt tækifæri til að vaxa og dafna. Með nútímasamskiptatækni er hægt að vinna fjölmörg störf hvar sem er án vandkvæða. Við viljum að fólk geti valið sér búsetu óháð starfi á stað þar sem því líður vel og í umhverfi sem gerir það hamingjusamt,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

„Hreyfanleikinn er drifkraftur breytinga, hann hefur áhrif skipulag og skapar ný tækifæri fyrir hagkerfi byggðanna, fyrirtæki og aðgang að hæfu vinnuafli,“ segir Mika Lintilä, atvinnumálaráðherra Finnlands og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um byggðaþróun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira