Hoppa yfir valmynd
3. maí 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Norrænar lausnir mikilvægar fyrir þróun loftslagsmála

Umhverfis- og loftslagsráðherrar Norðurlanda funduðu í Osló í dag. - myndKlima- og miljødepartementet

Umhverfis- og loftslagsráðherrar Norðurlanda samþykktu á fundi sínum í Osló í dag tillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um að búa til markvissan farveg fyrir að deila sín á milli reynslu og þekkingu á sviði umhverfismála. Ráðherrarnir ræddu einnig sameiginlegar áherslur í loftslagsmálum, alþjóðlegar samningaviðræður um líffræðilega fjölbreytni, orkuskipti í siglingum og væntanlegar viðræður vegna nýs alþjóðlegs samnings um plastmengun.

Á fundinum gáfu ráðherrarnir m.a. út yfirlýsingu um orkuskipti í siglingum þar sem lagt er til  frumkvæði Norðurlandanna varðandi nauðsynleg umskipti yfir í vistvænt eldsneyti í siglingum og sjóflutningum. Var ákveðið að setja af stað tilraunaverkefni sem gengur út á að skilgreina tilteknar alþjóðlegar siglingaleiðir sem losunarlausar leiðir á hafi.

Sem fyrr segir var að tillögu Guðlaugs Þórs ákveðið að kortleggja hvernig Norðurlöndin geta deilt sín á milli reynslu og þekkingu á sviði umhverfismála og þá sérstaklega á sviði endurnýjanlegrar orku, landbúnaðar og skógræktar. 

„Norðurlöndin búa öll yfir mikilvægri þekkingu og reynslu varðandi endurnýjanlega orku sem er lykilatriði í baráttunni gegn loftslagsbreytingum,“ sagði Guðlaugur Þór. „Það skiptir öllu máli að við deilum þessari þekkingu okkar á milli. Það er engin ástæða til að við séum öll að uppgötva hjólið hvert í sínu horni.“

Þá samþykktu ráðherrarnir yfirlýsingu um samnorrænar áherslur vegna nýs samnings um líffræðilega fjölbreytni sem stefnt er að því að samþykkja í Kunming í Kína á seinni hluta ársins. Í yfirlýsingunni kemur fram að ráðherrarnir hafi samþykkt að hraða aðgerðum á Norðurlöndum til verndar líffræðilegri fjölbreytni. Rætt var um mikilvægi náttúrulegra lausna sem gagnast bæði loftslagi og líffræðilegri fjölbreytni.

Ráðherrarnir ræddu einnig hvernig Norðurlönd geta ýtt undir metnaðarfullar aðgerðir sem miða að því að ná því markmiði að halda hlýnun loftslags undir 1,5 gráðum eins og þjóðir heims hafa stefnt að. M.a. var rætt um aðgerðir til að draga úr losun, aðlögun að loftslagsbreytingum, fjármögnun loftslagsmála, hvernig Norðurlöndin geti sem best stutt önnur lönd í baráttunni gegn hamfarahlýnun og sameiginlegar áherslur á loftslagsráðstefnu SÞ, COP-27 sem fram fer í Egyptalandi í lok ársins.

Þá ræddu ráðherrarnir komandi viðræður um nýjan alþjóðlegan samning um plastmengun en Norðurlöndin áttu ríkan þátt í að ríki heims samþykktu að hefja slíkar viðræður. Á fundinum samþykktu ráðherrarnir að senda Inger Andersen, framkvæmdastjóra Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) sameiginlegt bréf þar sem þeir undirstrikuðu áframhaldandi stuðning Norðurlandanna við metnaðarfullt samkomulag.

  • Guðlaugur Þór Þórarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
  • Klima- og miljødepartementet
  • Umhverfis- og loftslagsráðherrar Norðurlanda funduðu í Osló í dag.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira