Hoppa yfir valmynd
10. júní 2022 Utanríkisráðuneytið

Þorri þjóðarinnar telur hagsæld hennar byggjast á alþjóðasamvinnu

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Rúm 77 prósent landsmanna telja hagsæld Íslands byggjast að miklu leyti á alþjóðlegri samvinnu og 80,5 prósent að hagsæld Íslands byggist að miklu leyti á alþjóðlegum viðskiptum. Þá telja 78,4 prósent að Ísland treysti að miklu leyti á alþjóðalög og alþjóðastofnanir til að tryggja að landamæri og lögsaga séu virt. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri könnun Maskínu um utanríkismál og alþjóðasamstarf.

„Það er afskaplega ánægjulegt að sjá að þorri landsmanna segist jákvæður í garð alþjóðastofnana og þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi. Sem sjálfstæð og fullvalda ríki á Ísland allt undir þróttmikilli samvinnu við önnur ríki, hvort heldur á pólitíska sviðinu eða viðskiptasviðinu. Niðurstöður könnunarinnar sýna svart á hvítu að þjóðin er sammála því,“ segir utanríkisráðherra.

Þetta er í fjórða sinn sem Maskína kannar viðhorf almennings til ýmissa þátta í utanríkisþjónustu Íslands fyrir utanríkisráðuneytið en könnunin fór fram dagana 19. til 27. maí síðastliðinn. Í ljósi gjörbreytts öryggisumhverfis í Evrópu í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu var að þessu sinni spurt sérstaklega um áhyggjur Íslendinga af stöðu mála. Þannig segjast 75,5 prósent landsmanna hafa meiri áhyggjur af þróun alþjóðamála nú en þeir höfðu fyrir ári síðan. Þá segjast 68 prósent hafa miklar áhyggjur af dreifingu falsfrétta og 62,1 prósent segjast hafa miklar áhyggjur af ónógu netöryggi. Þegar spurt var um afstöðu fólks til samstarf við Rússland á alþjóðavettvangi segjast 82,4 prósent vera andvíg því.

Stuðningur almennings við aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu hefur aukist um tæp tuttugu prósentustig á einu ári og segjast nú rúmlega sjötíu prósent Íslendinga vera jákvæð gagnvart aðild Íslands að bandalaginu samanborið við rúmlega fimmtíu prósent á síðasta ári. Þá segjast einungis 8,9 prósent vera neikvæð gagnvart aðildinni. Viðhorf almennings til varnarsamstarfs Íslands við Bandaríkin hefur einnig breyst töluvert frá síðustu könnun en nú segjast 60,7 prósent aðspurðra vera jákvæð gagnvart samstarfinu samanborið við 43,1 prósent á síðasta ári.

„Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að almenningur sé jákvæðari gagnvart aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu nú en oft áður,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. „Innrás Rússlands í Úkraínu er harkaleg áminning um að öryggi okkar er ekki sjálfgefið og þegar ráðist er gegn öllum þeim gildum við stöndum fyrir í samskiptum við aðrar þjóðir, gegn lýðræðinu, réttarríkinu, alþjóðalögum og mannréttindum, höfum við Íslendingar skipað okkur í lið með þeim sem standa vörð um þessi gildi.“

Hvað mannréttindi varðar telja 82,9 prósent aðspurðra mikilvægt að Ísland tali máli mannréttinda á alþjóðavettvangi og 77 prósent eru jákvæð gagnvart virkri þátttöku Íslands í störfum mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna.

Sem fyrr mælist yfirgnæfandi stuðningur við norrænt samstarf en 91,8 prósent aðspurðra segjast jákvæð gagnvart því að Ísland taki virkan þátt í norrænu samstarfi. Þegar spurt er með hvaða ríkjum fólk telur að Ísland eigi helst samleið með á alþjóðavettvangi raðast Norðurlöndin einnig í efstu sætin. Flestir telja Ísland helst eiga samleið með Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Bretland er í fjórða sæti og Bandaríkin því fimmta

Sérstaklega var spurt um afstöðu almennings til þróunarsamvinnu og segja 83,8 prósent mikilvægt að Ísland veiti þróunarríkjum og íbúum þeirra aðstoð. Þá segja 78,4 prósent þróunarsamvinnu leiða til friðsælli og sanngjarnari heims, 71 prósent segja þróunarsamvinnu árangursríka leið til að draga úr straumi fólks á flótta og 72,7 prósent segja þróunarsamvinnu árangursríka leið til að draga úr fátækt í þróunarríkjum.

Hér má nálgast allar niðurstöður könnunarinnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira