Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundaði með leiðtogum Norðurlandaráðs

Íslenska sendinefndin á fundi dagsins með leiðtogum Norðurlandaráðs. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, fundaði í dag í Kaupmannahöfn með forseta Norðurlandaráðs, varaforseta og framkvæmdastjóra. Fundarefnið var pólitískar áherslur og fjármögnun þeirra í fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2024 en Ísland fer nú með formennsku í nefndinni.

Norrænu ráðherranefndinni ber að leggja fyrir Norðurlandaráð til umsagnar tillögu sína að fjárhagsáætlun. Tilgangur fundarins var að ræða samkomulag um áætlunina og pólitískar áherslur í starfinu. Fyrir hönd Norðurlandaráðs tóku þátt í fundinum Jorodd Asphjell, forseti ráðsins, Helge Orten, varaforseti, og Kristina Háfoss, framkvæmdastjóri. Með Guðmundi Inga á fundinum var sendinefnd frá Íslandi auk þess sem Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, sat fundinn.

Þá átti Guðmundur Ingi í dag tvíhliða fund með Pernille Rosenkrantz-Theill, félags- og húsnæðismálaráðherra Danmerkur, þar sem þau ræddu meðal annars skipulag og framtíðarsýn þjónustu við fatlað fólk í báðum löndum.


Um norrænu ráðherranefndina og formennsku Íslands

Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Þar er unnið að sameiginlegum lausnum á þeim viðfangsefnum þar sem Norðurlöndin geta náð mestum árangri með því að vinna saman. Ísland fer með formennsku í nefndinni árið 2023 og mun leiða samstarfið undir yfirskriftinni „Norðurlönd – afl til friðar“.

Starf Norrænu ráðherranefndarinnar fer fram í 12 nefndum þar sem ráðherrar fagráðuneyta á Norðurlöndunum eiga með sér samstarf eftir málefnasviðum. Vinnan á sér einnig stað í nefndum embættismanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum