Hoppa yfir valmynd
3. maí 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Kynnti formennskuáætlun Íslands á sviði menningarmála

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Karen Ellemann framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar í Eddu. - myndMVF
Ísland fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár. Yfirskrift formennskunnar er Norðurlönd – afl til friðar.

Ráðherrafundur norrænna menningarmálaráðherra fór fram fyrr í dag þar sem Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra kynnti áherslumál á sviði menningar á formennskuári Íslands í Norðurlandasamstarfinu.

„Á Norðurlöndum á að vera fjölbreytt menningarlíf sem rúmar fjölbreytileika, forvitni og frumsköpun. Ísland vill nýta það tækifæri sem gefst á formennskuárinu til að vekja athygli á að Norðurlöndin eru eftirsóknarvert og skapandi svæði sem eflir samanlagða samkeppnishæfni landanna,“ sagði menningar- og viðskiptaráðherra meðal annars í erindi sínu í dag.

Menning burðarstoð samfélaga

Verkefni Íslands í ár eru The Artic Airwaves, ráðstefnan Airwaves Pro, Norræna Þjóðbúningaþingið - menningararfur, Vestnorræna menningarhátíðin Taste of Norden, Ungmennamánuður og Verkefnahópur um máltækni á Norðurlöndum.

„Stefnumarkandi áherslur í formennskuverkefnum á sviði menningarmála eru að menningin er burðarstoð í samfélögum okkar sem skapar traust, einkum í viðleitni okkar við að skapa græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd.“

Í formennskutíð Íslands verður unnið að áherslusviðunum þremur í framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Á sama tíma verður einnig varpað ljósi á mikilvægi friðar sem undirstöðu mannréttinda, velferðar, kvenfrelsis og umhverfis- og loftslagsverndar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum