Hoppa yfir valmynd
9. maí 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Friður, sjálfbærni og fundahöld á Álandseyjum

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Veronica Thörnroos, formaður landsstjórnar Álandseyja, og Annette Holmberg-Jansson, samstarfsráðherra Álandseyja og félags- og heilbrigðisráðherra. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, heimsótti Álandseyjar í lok síðustu viku. Annette Holmberg-Jansson, samstarfsráðherra Álandseyja og félags- og heilbrigðisráðherra eyjanna fylgdi ráðherra og þau funduðu meðal annars um velferðarmál, norrænt samstarf og málefni sem eyjasamfélög eiga sameiginleg.

Guðmundur Ingi heimsótti friðarstofnun Álandseyja, en friður er eitt af áhersluatriðum í formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni á árinu 2023. Auk þess fékk Guðmundur Ingi kynningu á verkefnum á sviði sjálfbærni sem Álandseyjar standa framarlega í. Þá heimsótti hann votlendið ,,Nabben vetland“ en sveitarfélagið Mariehamn á Álandseyjum fékk umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2022 fyrir endurheimt votlendisins. Með endurheimtinni er vatn sem rennur um votlendið hreinsað og skilyrði fyrir fjölskrúðugt plöntu- og dýralíf orðið aftur fyrir hendi. Endurheimtin stuðlar jafnframt að því að greiða fyrir loftslagsaðlögun í borgarumhverfi.

Þá fékk ráðherra kynningu á fyrirtækinu PAF og þeim áherslum sem það leggur í störfum sínum hvað varðar samfélagslega ábyrgð. Fyrirtækið hefur meðal annars staðið að sérstöku verkefni þar sem nemendur hvaðanæva að úr heiminum sækja nám í tæknigreinum og stafrænu efni.

 „Ég hef lagt áherslu á aukið samstarf við sjálfstjórnarríkin þrjú, Álandseyjar, Færeyjar og Grænland, í formennskutíð Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Við höfum þegar skipst á mikilvægri reynslu á sviði félagsmála og ég tel að Ísland og Álandseyjar eigi mikið inni hvað varðar frekara samstarf á sviði friðarmála og sjálfbærrar þróunar, sem ég vona að við getum þróað áfram á næstu misserum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Með í sendinefnd Guðmundar Inga voru meðal annars Harald Aspelund, sendiherra Íslands í Helsinki og Nils-Erik Eklund, ræðismaður Íslands á Álandseyjum.

Um norrænu ráðherranefndina og formennsku Íslands

Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Þar er unnið að sameiginlegum lausnum á þeim viðfangsefnum þar sem Norðurlöndin geta náð mestum árangri með því að vinna saman. Ísland fer með formennsku í nefndinni árið 2023 og mun leiða samstarfið undir yfirskriftinni „Norðurlönd – afl til friðar“.

Starf Norrænu ráðherranefndarinnar fer fram í 12 nefndum þar sem ráðherrar fagráðuneyta á Norðurlöndunum eiga með sér samstarf eftir málefnasviðum. Vinnan á sér einnig stað í nefndum embættismanna.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Annette Holmberg-Jansson, samstarfsráðherra Álandseyja og félags- og heilbrigðisráðherra í heimsókn í votlendið Nabben vetland.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum