Hoppa yfir valmynd
14. maí 2024 Forsætisráðuneytið

Bjarni Benediktsson á sumarfundi norrænu forsætisráðherranna í Stokkhólmi

Frá vinstri: Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands, Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. - myndNinni Andersson/Regeringskansliet

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tók þátt í sumarfundi forsætisráðherra Norðurlandanna sem haldinn var í Stokkhólmi í gær. Á fundinum samþykktu ráðherrarnir yfirlýsingu um samkeppnishæfni Norðurlanda og funduðu með Olaf Scholz, kanslara Þýskalands.

Dagskrá sumarfundarins hófst á vinnuhádegisverði forsætisráðherra Norðurlandanna með fulltrúum atvinnulífsins þar sem rætt var um samkeppnishæfni en Sveinn Sölvason, forstjóri Össurar, kom fram fyrir hönd íslensks atvinnulífs. Rætt var um brýna nauðsyn þess að ýta undir samkeppnishæfni Norðurlanda jafnt sem Evrópu í heild, enda væri álfan um margt að dragast aftur úr í þeim efnum. Í því samhengi var m.a. rætt um stafræna innviði, aðgengi að fjármagni, leyfisveitingar til grænna orkuverkefna og uppbyggingu hergagnaiðnaðar.

„Norðurlöndin eru vel menntaðar og framsæknar þjóðir, þar sem lífskjör eru með besta móti. Við eigum ekki að sætta okkur við neitt minna en að vera áfram í fremstu röð þegar kemur að nýsköpun, frumkvöðlastarfsemi og samkeppnishæfni í stærra samhengi. Til þess þurfa innviðirnir að vera til staðar og við megum ekki láta of íþyngjandi regluverk og kröfur verða okkur fjötur um fót. Um þetta var almenn samstaða í hópnum,” segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.

Á fundi norrænu forsætisráðherranna með kanslara Þýskalands sem fram fór í höfuðstöðvum tæknifyrirtækisins Ericsson var rætt um fjölþáttaógnir, upplýsingaóreiðu, viðnámsþol samfélaga og öryggi innviða.

Að loknum fundinum var haldinn blaðamannafundur með þátttöku forsætisráðherra Norðurlandanna og kanslara Þýskalands. Umræðum þeirra var svo framhaldið í vinnukvöldverði þar sem m.a. var rætt um um öryggis- og varnarmál, áframhaldandi dyggan stuðning við Úkraínu og málefni Atlantshafsbandalagsins.

Bjarni átti einnig tvíhliða fund með Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, þar sem þeir ræddu m.a. frekari tækifæri í samskiptum ríkjanna og stöðuna í alþjóðamálum.

  • Frá vinstri: Olof Scholz, kanslari Þýskalands, Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands, og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum