Gervigreindarverksmiðjur, jarðvegstilskipun o.fl.
Að þessu sinni er fjallað um:
- aðgerðaáætlun ESB um uppbyggingu og hagnýtingu gervigreindar
- samkomulag um efni nýrrar jarðvegstilskipunar
- samkomulag um breytingar á tilskipun um ökuskírteini
- samkomulag um útvíkkun á gildissviði ökuleyfissviptinga vegna alvarlegra umferðalagabrota
- samkomulag um breytingar á reglum um öryggisstaðla fyrir leikföng
- frestun á gildistöku ákvæða tveggja sjálfbærnitilskipana
- tillögu um aukinn sveigjanleika til að mæta kröfum um afkolun bifreiða
- tillögur um breytingar á reglum um skráningu bifreiða og eftirlit með þeim
- tillögu um breytingu á reglum til að styðja við fjármögnun hergagnaiðnaðar
- opið samráðsferli um framkvæmd ETS-kerfisins
Aðgerðaáætlun ESB um uppbyggingu og hagnýtingu gervigreindar
Framkvæmdastjórn ESB kynnti 9. apríl sl. metnaðarfulla aðgerðaáætlun um uppbyggingu og hagnýtingu gervigreindar sem ætlað er að styðja við innleiðingu nýrrar reglugerðar um gervigreind, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 9. júní 2023 um reglugerðina.
Áætlunin, sem ber heitið AI Continent Action Plan, hefur það að markmiði að gera ESB leiðandi á heimsvísu í nýsköpun, þróun og ábyrgri og traustri notkun gervigreindar.
Áætlunin nær yfir breitt svið aðgerða en lykiláhersluatriðin eru eftirfarandi:
- Innviðir og ofurtölvur: ESB hyggst byggja upp 13 gervigreindarverksmiðjur (e. AI Factories) og allt að 5 stórvirkar risaverksmiðjur (e. AI Gigafactories) með stuðningi úr nýrri fjármögnunaráætlun: InvestAI sem mun hafa um 20 milljarða evra til ráðstöfunar.
- Gagnageta og aðgangur að hágæða gögnum: Settar verða á fót gagnarannsóknarstofur (e. Data Labs) á vettvangi framangreindra gervigreindarverksmiðja og mótuð stefna um evrópskt gagnamarkaðssvæði til að styðja við rannsóknir, nýsköpun og trausta gagnadeilingu.
- Gervigreind í þjónustu atvinnulífs og almennings:Með nýrri áætlun, Apply AI Strategy, verður lögð áhersla á innleiðingu og hagnýtingu gervigreindar í lykilkerfum svo sem í heilbrigðiskerfum, ýmsum framleiðslukerfum, orkukerfum og opinberum stjórnsýslukerfum.
- Hæfni og menntun:Ný AI Skills Academy verður vettvangur fyrir þjálfun og samstarf við atvinnulíf og ráðningu innlendra og erlendra gervigreindarsérfræðinga. Sérstök áhersla verður lögð á að fjölga konum í greininni og að efla menntun á sviði gervigreindar á öllum námsstigum.
- Regluverk og stuðningur við fyrirtæki:Til að styðja við innleiðingu gervigreindarlöggjafarinnar verður sett á laggirnar ný þjónustugátt með aðgengilegum leiðbeiningum og verkfærum fyrir fyrirtæki og stofnanir.
Framangreind reglugerð ESB um gervigreind og tilheyrandi aðgerðaáætlun fellur undir málefni innri markaðarins og tekur Ísland þátt í stjórnarnefnd ESB um gervigreindarmál, AI Board.
Vænta má að íslensk fyrirtæki og stofnanir, í samvinnu við evrópska samstarfsaðila, geti sótt um þátttöku í verkefnum á vegum InvestAI og tengst AI Skills Academy og tekið þátt í sameiginlegum nýsköpunarverkefnum og hagnýtingu gervigreindar í gegnum samstarfsáætlanir ESB.
Sjá nánari upplýsingar um aðgerðaáætlunina á heimasíðu framkvæmdastjórnarinnar.
Samkomulag um efni nýrrar jarðvegstilskipunar
Þann 10. apríl sl. náðist samkomulag milli Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um efni tillögu nýrrar tilskipunar um vöktun á jarðvegi (e. Soil monitoring law). Fjallað var um tillöguna í Vaktinni 7. júlí 2023.
Með tillögunni og samkomulaginu sem nú liggur fyrir er lögð megin áhersla á að koma á fót alhliða ramma til að meta og fylgjast með ástandi jarðvegs. Tilskipunin er hluti af víðtækari stefnu ESB um verndun líffræðilegrar fjölbreytni og framfylgd jarðvegsáætlunar ESB frá 2021.
Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.
Sjá nánar um samkomulagið í fréttatilkynningu Evrópuþingsins og í fréttatilkynningu ráðherraráðs ESB.
Samkomulag um breytingar á tilskipun um ökuskírteini
Evrópuþingið og ráðherraráð ESB náðu þann 25. mars sl. samkomulagi um efni tillögu að breytingum á tilskipun um ökuskírteini. Tillagan er hluti af umferðaröryggispakka sem framkvæmdastjórnin birti 1. mars 2023, sbr. umfjöllun um pakkann í Vaktinni 10. mars 2023.
Eftirfarandi eru helstu atriði samkomulagsins:
- Frá árslokum 2030 verði samræmd rafræn ökuskírteini, auk hefðbundinna, í boði fyrir alla skírteinishafa og aðgengileg í Evrópsku stafrænu auðkennisveski (e. European Digital Identity wallet). Gildistími ökuskírteina verði að hámarki 15 ár nema í þeim tilvikum sem ökuskírteinin hafa tvíþætt hlutverk, þ.e. sem ökuskírteini og persónuskírteini, en þá sé hámarks gildistími 10 ár.
- Í samkomulaginu felst að tekin verði skref í átt að samræmingu á heilsufarsmati ökumanna. Aðildarríki geta sett þau skilyrði fyrir útgáfu ökuskírteina að umsækjandi skili inn læknisvottorði eða framkvæmi sjálfsmat á heilsufarslegum þáttum.
- Reglur um reynslutíma nýrra ökumanna verða samræmdar og verður lágmarks reynslutími tvö ár. Á reynslutímanum gildi strangari reglur um refsingar vegna ölvunaraksturs og aksturs undir áhrifum lyfja.
- Í samkomulaginu felst jafnframt að brugðist verði við skorti á atvinnubílstjórum með innleiðingu á nýjum leyfisflokki, leyfisflokki C, þar sem ökumönnum verður heimilt að aka undir leiðsögn atvinnubílstjóra með viðeigandi réttindi.
- Þá verður borgurum sem ekki búa í heimaríki sínu auðveldað að fá almenn ökuréttindi í búseturíki.
Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.
Samkomulag um tillögu um samræmda útvíkkun á gildissviði ökuleyfissviptinga vegna alvarlegra umferðalagabrota
Evrópuþingið og ráðherraráð ESB náðu þann 25. mars sl. efnislegu samkomulagi um tillögu að nýrri tilskipun um útvíkkun á gildissviði ökuleyfissviptinga. Tillagan er hluti af umferðaröryggispakka sem framkvæmdastjórnin birti 1. mars 2023, sbr. umfjöllun um pakkann í Vaktinni 10. mars 2023.
Með tillögunni er lagt til að sett verði upp nýtt kerfi sem gerir ESB ríkjum kleift að framfylgja sviptingu ökuleyfis þvert á öll ríki ESB vegna alvarlegra umferðarlagabrota, þ.e.:
- brota vegna hraðaksturs,
- brota þar sem ökumaður verður valdur að dauðaslysi,
- brota vegna akstur undir áhrifum áfengis eða vímuefna.,
Í samkomulaginu felst m.a. að endurskoðunarákvæði verði bætt við sem feli í sér að tekið verði til að skoðunar hvort ástæða sé til að útvíkka reglurnar til fleiri brotaflokka.
Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.
Sjá nánar um samkomulagið í fréttatilkynningu ráðherraráðs ESB.
Samkomulag um breytingar á reglum um öryggisstaðla fyrir leikföng
Evrópuþingið og ráðherraráð ESB náðu nýverið samkomulagi efni tillagna um breytingar á reglugerð um öryggisstaðla fyrir leikföng. Fjallað var um tillöguna í Vaktinni 15. september 2023.
Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.
Sjá nánar um samkomulagið í fréttatilkynningu ráðherraráðs ESB.
Frestun á gildistöku ákvæða tveggja sjálfbærnitilskipana
Ráðherraráð ESB samþykkti 14. apríl sl. tillögu framkvæmdastjórnarinnar um frestun á gildistöku tiltekinna ákvæða tveggja tilskipana er varða sjálfbærnikröfur til fyrirtækja (e. ‘Stop-the-clock’ directive), þ.e. annars vegar tilskipunar um sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja (e. Corporate Sustainability Reporting Directive, CSRD) og hins vegar tilskipunar um áreiðanleikakannanir á sjálfbærni fyrirtækja (e. Corporate Sustainability Due Diligence Directive, CSDDD). Umrædd tillaga er hluti af Omnibus I löggjafarpakkanum og viðamiklum áformum framkvæmdastjórnar ESB um einföldun regluverks sem fjallað var um í Vaktinni 7. mars 2025.
Lögð hefur verið áhersla á hraða afgreiðslu framangreindra tillagna og má ætla að hin skjóta afgreiðsla ráðherraráðsins nú gefi fyrirheit um áframhaldandi snör vinnubrögð við samþykkt annarra þátta Omnibus I tillagnanna. Umræddar sjálfbærnigerðir hafa enn sem komið er ekki verið teknar upp í EES-samninginn en unnið er að undirbúningi upptöku.
Tillaga um aukinn sveigjanleika til að mæta kröfum um afkolun bifreiða
Framkvæmdastjórn ESB birti þann 1. apríl sl. tillögu til Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um breytingu á reglugerð um aukinn sveigjanleika fyrir bifreiðaframleiðendur til að uppfylla kröfur um hámarkslosun kolefnis frá almennings- og sendibifreiðum. Fyrir hefur legið að margir bifreiðaframleiðendur séu ekki í stakk búnir til að uppfylla þær lagakröfur sem settar hafa verið fyrir árið 2025 og hafa háar sektir blasað við þeim framleiðendum. Með tillögunni er lagt til að framleiðendur fái aukið svigrúm til að mæta kröfunum og er í því skyni lagt til að í stað þess að miða kröfur um hámarksútblástur yfir eitt ár, þ.e. árið 2025 er lagt til að miðað verði við meðaltal útblásturs á árabilinu 2025-2027.
Með tillögunni sem felur jafnframt í sér afléttingu sekta fyrir árið 2025 vonast framkvæmdastjórnin til þess að fjárfestingageta bifreiðaframleiðanda í hreinorkutækni haldi sér sem og samkeppnisstaða þeirra um leið og meginmarkmið ESB um samdrátt í losun frá bifreiðum er óbreytt.
Tillagan gengur nú til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.
Sjá nánar um tillöguna í fréttatilkynningu framkvæmdastjórnarinnar.
Tillögur um breytingar á reglum um skráningu bifreiða og eftirlit með þeim
Framkvæmdastjórn ESB birti þann 24. apríl sl. nýjar tillögur sem ætlað er að stuðla að bættu umferðaröryggi og minni mengun frá ökutækjum.
Tillögurnar eru afrakstur endurskoðunar á reglum um umferðaröryggi og skráningu bifreiða og eru tillögurnar m.a. settar fram með hliðsjón af nýrri tækni sem er að ryðja sér til rúms, en þar er m.a. lagt til:
- að gerðar verði endurbætur á reglum um skoðun bifreiða þ.m.t. um reglubundnar skoðanir á rafmagnsbifreiðum og rafrænum aðstoðarkerfum ökumanns,
- að gefin verði út rafræn skráningarskírteini og rafræn skoðunarvottorð til að einfalda stjórnsýslu, eftirlit og upplýsingamiðlun yfir landamæri,
- að rafræn skráning á kílómetrastöðu ökutækis verði aðgengileg á milli aðildarríkja,
- að gagnkvæm viðurkenning aðildaríkja á skoðunarskírteinum sem gefin eru út í gestaríki verði innleidd.
Tillögurnar fela í sér breytingar á þremur tilskipunum, þ.e. um reglubundnar skoðanir á ökutækjum, um skráningarskírteini ökutækja og um eftirlit á vegum með atvinnubifreiðum.
Tillögurnar ganga nú til umfjöllunar í Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.
Tillaga um breytingu á reglum til að styðja við fjármögnun hergagnaiðnaðar
Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt fram tillögu að breytingu á reglum um fjárlagaramma ESB og samstarfsáætlanir sem ætlað er að styðja sérstaklega við fjármögnun hergagnaiðnaðar í ESB í samræmi við markmið hvítbókar um varnarmál og endurvopnunaráætlun ESB, sbr. m.a. umfjöllun Vaktarinnar 21. mars sl. um þær áætlanir.
Sjá nánar um tillöguna í fréttatilkynningu framkvæmdastjórnarinnar.
Samráðsferli um framkvæmd ETS-kerfisins fyrir flug, siglingar og staðbundinn iðnað
Framkvæmdastjórnin hefur efnt til opins samráðs (e. call for evidence) um reynsluna af framkvæmd ETS-kerfisins. Tilgangur samráðsins er að afla sjónarmiða fyrir skýrslugerð sem mælt er fyrir um í núverandi löggjöf ESB um kerfið. Í auglýsingunni segir að í skýrslunni verði m.a. lagt mat á það hvort þörf sé á viðbótarráðstöfunum til að ná þeim loftlagsmarkmiðum sem kerfinu er ætlað að stuðla að.
Í aðlögun fyrir Ísland sem samþykkt var við upptöku tilskipunar um breytingar á ETS-viðskiptakerfinu með losunarheimildir fyrir flug í EES-samninginn, sbr. m.a. umfjöllun Vaktarinnar 26. maí 2023, var kveðið á um að áhrif á íslenskar aðstæður yrðu skoðaðar sérstaklega við endurskoðun á tilskipuninni. Áform um þetta komu m.a. fram í útboðslýsingu vegna útboðs framkvæmdastjórnarinnar á ráðgjafarvinnu við skýrslugerðina.
Miðað er við að í fyrirhugaðri umsögn íslenskra stjórnvalda verði m.a. lögð áhersla á sérstöðu Íslands að því er varðar landfræðilega stöðu og neikvæð áhrif viðskiptakerfisins á samkeppnisskilyrði tengiflugvallarins í Keflavík fyrir flugþjónustu milli Evrópu og N-Ameríku.
Samráðsferlinu lýkur 8. júlí nk.
***
Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.
Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geirs Ágústssonar, á netfangið [email protected].
Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].