Hoppa yfir valmynd
25. júlí 2025 Brussel-vaktin

Tillaga að nýrri langtímafjármálaáætlun ESB, viðræður um öryggis- og varnarmál, viljayfirlýsing um samstarf á sviði sjávarútvegs og málefna hafsins, geimurinn o.fl.

Að þessu sinni er fjallað um:

  • tillögu að nýrri langtímafjármálaáætlun ESB
  • heimsókn Von der Leyen og viðræður um öryggis- og varnarmál
  • viljayfirlýsing um samstarf sviði sjávarútvegs og málefna hafsins
  • tillögu að nýrri reglugerð um geimstarfsemi
  • stefnumótun á sviði skammtatækni
  • samráð um endurskoðun almennu hópundanþágureglugerðarinnar um ríkisaðstoð
  • samráð um framkvæmd reglugerðar um erlenda styrki
  • viðræður ESB og Bandaríkjanna um tollamál

Vaktin kemur næst út að loknu sumarhléi 12. september.

 

Tillaga að nýrri langtímafjármálaáætlun ESB

Hinn 16. júlí sl. lagði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) fram tillögu að nýrri langtímafjármálaáætlun ESB fyrir árin 2028–2034. Nokkuð hefur verið tekist á um efni tillögunnar nú í aðdraganda að framlagningu hennar enda hefur framsetning áætlunarinnar tekið ýmsum grundvallarbreytingum frá því sem verið hefur. Er nýrri áætlun ætlað að mæta metnaðarfullum áformum um að tryggja sjálfbært og farsælt samfélag og hagkerfi innan ESB á komandi áratug, sem sé vel í stakk búið til að takast á við sífellt auknar áskoranir, svo sem á sviði öryggis- og varnarmála, alþjóðlegra samkeppnismála, innflytjendamála og umhverfis- og loftslagsmála. Þá verða eigin tekjustofnar ESB efldir og nýir kynntir til sögunnar.

Fjárhagslegt umfang fjármálaáætlunarinnar nemur um 2.000 milljörðum evra, þ.e. að meðaltali 1,26% af vergri þjóðarframleiðslu aðildarríkja ESB á árunum 2028–2034.

Helstu einkenni nýrrar áætlunar eru:

  • Aukinn sveigjanleiki, til að unnt sé bregðast hratt við þegar aðstæður breytast eða þegar ný stefnumál krefjast aðgerða.
  • Einfaldari uppbygging og ferlar, sem hafa það að markmiði að auðvelda almenningi og fyrirtækjum að nýta sér þá fjármögnunarmöguleika sem til staðar eru.
  • Fjárhagsrammar verða í auknum mæli sniðnir að heildstæðum áætlunum fyrir aðildarríkin og svæðisbundnar samstarfsáætlanir, sem miða að því að ná fram tilteknum mikilvægum markmiðum sem sett hafa verið. Gert er ráð fyrir að hvert aðildarríki muni hafa eina sérstaka heildaráætlun þar sem öll stuðningsúræði eru sameinuð.
  • Rík hvatning til að efla alþjóðlega samkeppnishæfni, með tryggum aðfangakeðjum, aukinni nýsköpun og þróun á hreinni og stafrænni tækni.
  • Endurskoðun og efling sjálfstæðra tekjustofna ESB, til að auka stöðugleika í fjármögnun ESB og til að tryggja nægar tekjur til að fjármagna forgangsverkefni ESB án þess að það hafi í för með sér aukið álag á ríkisfjármál aðildarríkjanna.

Nýr samkeppnishæfnissjóður (e. European Competitiveness Fund), mun hafa til ráðstöfunar 409 milljarða evra, til að fjárfesta í verkefnum sem gagnast þvert á innri markaðinn, í samræmi við tillögur í skýrslum Letta og Draghi, sbr. umfjöllun um skýrslu Letta í Vaktinni 19. apríl 2024 og um skýrslu Draghi í Vaktinni 13. september sl. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn muni einkum styðja verkefni á eftirtöldum málefnasviðum:

  • Hreinorkuskiptum og kolefnishlutleysi.
  • Stafrænum umskiptum.
  • Heilbrigðismálum, líftækni, landbúnaði og lífhagkerfinu.
  • Varnarmálum og geimvísindum.

Hinn nýi samkeppnishæfnissjóður verður stafræktur í nánu samhengi við rannsóknarsjóði ESB, þar sem samstarfsáætlunin og flaggskipið Horizon Europe mun áfram styðja við nýsköpun á heimsmælikvarða, en gert er ráð fyrir því í tillögunni að sá sjóður muni hafa til umráða 175 milljarða evra á tímabilinu sem er töluverð aukning frá núverandi tímabili.

Þátttaka EES/EFTA-ríkjanna í samstarfsáætlunum ESB er afar mikilvægur þáttur í EES-samstarfinu. Rýna þarf nánar hvaða áhrif þær breytingartillögur sem nú hafa verið kynntar geta haft á þátttöku ríkjanna í samstarfsáætlunum, sbr. m.a. umfjöllun Vaktarinnar 11. júlí sl. um formennskuáætlun Íslands í fastanefnd EFTA og umfjöllun Vaktarinnar 31. janúar sl., um EES/EFTA-álit um þátttöku ríkjanna í samstarfsáætlunum á nýju fjárhagstímabili.

Tillagan gengur nú til umræðu og afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB en gert er ráð fyrir því umræðan geti staðið næsta eina og hálfa árið og að tillagan verði afgreidd ekki síðar en fyrir lok árs 2026.

Sjá nánar um tillöguna á sérstakri vefsíðu framkvæmdastjórnarinnar.

 

Heimsókn Von der Leyen til Íslands og viðræður Íslands og ESB um öryggis- og varnarmál o.fl.

Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar ESB sótti Ísland heim 17. júlí sl. og átti hún fundi með Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra.

Eins og nánar er rakið í fréttatilkynningu Stjórnarráðsins voru öryggismál í víðum skilningi eitt af meginumfjöllunarefnum fundanna og bar þar vitaskuld hæst að ákveðið var að hefja formlegar viðræður um gerð samstarfsyfirlýsingar milli Íslands og ESB um öryggis- og varnarmál.

Á undanförnum misserum hefur ESB aukið umsvif sín á sviði öryggis- og varnarmála. Framkvæmdastjórn og utanríkisþjónusta ESB sendu frá sér orðsendingu um stefnumörkun á sviði varnarmála 5. mars 2024. Var það fyrsta stefnumörkun af því tagi, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 15. mars 2024 um orðsendinguna, sbr. einnig umfjöllun Vaktarinnar 14. febrúar sl., um þróun og stöðu varnarsamstarfs á vettvangi ESB en þar var m.a. sérstaklega fjallað um samstarfsyfirlýsingar ESB við ríki utan sambandsins á þessu sviði

Umræddar samstarfsyfirlýsingar byggjast á strategískri áætlun ESB sem samþykkt var af öllum aðildaríkjum ESB einungis fáeinum vikum eftir að Rússland réðst á Úkraínu árið 2022 og nefnd er Strategic Compass. Á grundvelli þessarar áætlunar hefur ESB nú þegar gert samstarfsyfirlýsingar við átta ríki, þ.e. við Noreg, Moldóvu, Suður-Kóreu, Japan, Albaníu, Norður-Makedóníu og síðast en ekki síst við Bretland og Kanada, sbr. til hliðsjónar umfjöllun Vaktarinnar 30. maí sl. um leiðtogafund ESB og Bretlands. Sjá nánar um tvíhliða samstarfsyfirlýsingar ESB um öryggis- og varnarmál við ríki utan sambandsins í reifun hugveitu Evrópuþingsins.

Á fundum með VdL var einnig ákveðið að hrinda af stokkunum fyrirhugaðri endurskoðun á viðskiptakjörum Íslands við ESB en samkomulag um að ráðist yrði í slíka heildstæða endurskoðun náðist samhliða áritun samninga um framlög í Uppbyggingarsjóð EES og um aukinn markaðsaðgang fyrir fisk og aðrar sjávarafurðir í lok nóvember 2023, sbr. umfjöllun Vaktarinnar 8. desember 2023

Þá var ný-undirrituð viljayfirlýsing um aukna samvinnu Íslands og ESB um málefni hafsins og sjávarútvegsmál rædd, sbr. nánari umfjöllun um þá viljayfirlýsingu hér að neðan í Vaktinni. Einnig lýsti forseti framkvæmdastjórnarinnar því yfir að hafin yrði endurskoðun á norðurslóðastefnu ESB og óskaði eftir samvinnu við Ísland í því skyni. Einnig var minnst áforma um þátttöku Íslands í áætlun ESB um örugg fjarskipti í gegnum gervihnetti, sbr. umfjöllun um þær viðræður í Vaktinni 13. júní sl., o.fl.

Sjá hér útskrift af ávarpi Von der Leyen á blaðamannafundi með Kristrúnu Frostadóttur.

Aðspurð staðfesti Von der Leyen í lok fundarins að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu væri enn í fullu gildi, en eins og kunnugt er ákváðu íslensk stjórnvöld að gera algert hlé á aðildarviðræðunum í kjölfar alþingiskosninga á árinu 2013.

 

Heimsókn atvinnuvegaráðherra til Brussel, viljayfirlýsing um samstarf á sviði sjávarútvegs og málefna hafsins o.fl.

Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, heimsótti Brussel dagana 15. og 16. júlí sl. Megintilgangur ferðarinnar var að funda með Costas Kadis, framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála og málefna hafsins í framkvæmdastjórn ESB og undirrita viljayfirlýsingu um samstarf Íslands og ESB á sviði sjávarútvegs og málefna hafsins sem hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið.

Fjölmörg mál tengd fiskveiðum og hafinu voru til umræðu á fundi ráðherra með Kadis, þar á meðal þörfin á heildarsamkomulagi um skiptingu aflahlutdeildar úr sameiginlegum fiskistofnum í Norðaustur-Atlandshafi, bláa hagkerfið og sjálfbær nýting fiskistofna. Á fundinum kom fram mikill samhljómur um mikilvægi alþjóðlegs samstarfs til að tryggja að nýting sjávarauðlinda byggist á bestu fáanlegu vísindaráðgjöf á hverjum tíma. Einnig var rætt um mikilvægi þess að samræma aðgerðir til að fylgja eftir alþjóðlegum skuldbindingum um líffræðilega fjölbreytni og tryggja þannig sjálfbæra nýtingu og vernd viðkvæmra tegunda.

Í viljayfirlýsingunni er gert ráð fyrir auknu og víðtæku samráði og samstarfi milli ESB og Íslands um ýmis atriði tengd hafinu, s.s. sjálfbærum fiskveiðum, vísindarannsóknum og verndun hafsins. Einnig er stefnt að auknu samstarfi um verndun líffræðilegrar fjölbreytni og orkuskipti í sjávarútvegi og fiskeldi. ESB og Ísland hafa lengi átt í öflugu og nánu samstarfi á sviði fiskveiða og málefna tengdum hafinu. Viljayfirlýsingin nú byggist á sameiginlegum gildum og sameiginlegum hagsmunum sem styrkir samstarfið enn frekar og skapar því formlega umgjörð til framtíðar. Mikilvægur þáttur í því er að gert er ráð fyrir að efnt verði til árlegra samráðsfunda með fulltrúum Íslands og ESB þar sem farið verður reglulega yfir þau málefni sem tilgreind eru í viljayfirlýsingunni. Fyrsti fundurinn af því tagi er áætlaður í byrjun árs 2026. Sjá nánar um yfirlýsinguna í sameiginlegri fréttatilkynningu ESB og Íslands sem og í fréttatilkynningu atvinnuvegaráðuneytisins

Ráðherra átti jafnframt fund með Elisabetu Werner ráðuneytisstjóra stjórnarskrifstofu landbúnaðar og byggðaþróunar í framkvæmdastjórn ESB (DG AGRI). Á fundinum ræddu þær m.a. sameiginlegar áskoranir í landbúnaði s.s. kynslóðaskipti í bændastétt, stuðningskerfi í landbúnaði og hvernig gera megi störf bænda fjölskylduvænni.

 

Tillaga að reglugerð um geimstarfsemi

Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt fram tillögu að nýrri reglugerð um geimstarfsemi (e. EU Space Act) sem hefur það að markmiði að tryggja öruggan, sjálfbæran og samkeppnishæfan geimmarkað. Er þetta í fyrsta sinn sem gerð er tillaga um sameiginlega löggjöf um geiminn á vettvangi ESB.

Reglugerðin er liður í stefnumótun ESB um að styrkja geimvistkerfi Evrópu og bregðast við ört vaxandi þörf fyrir skýrari reglur í kjölfar mikillar aukningar á starfsemi einkaaðila í geimnum, bæði innan og utan Evrópu.

Reglugerðin byggist á þremur lykilstoðum:

  • Öryggi (e. Space Safety):
    Gert er ráð fyrir samræmdum öryggiskröfum fyrir geimhluti, m.a. í tengslum við vöktun og forvarnir gegn geimrusli, aðgerðaáætlunum við lok líftíma gervihnatta og annarra geimtækja og hvernig tryggja megi örugga förgun frá sporbaug.
  • Seiglu (e. Resilience):
    Gerð er tillaga um að þess verði krafist að rekstraraðilar geiminnviða innleiði áætlanir sem uppfylla öryggiskröfur á sviði netvarna og rekstraröryggis. Reglugerðin styður við gildandi tilskipanir um net- og upplýsingakerfi (NIS 2) og mikilvæga innviði (CER) og skilgreinir sérstakar skyldur fyrir geimstarfsemi.
  • Sjálfbærni (e. Sustainability):
    Lögð er áhersla á ábyrga nýtingu geimsins, með áherslu á að dregið verði úr umhverfisáhrifum, m.a. með kröfum um mat á lífsferli geimtækja (e. Life Cycle Assessment) og ábyrgð rekstraraðila á niðurlagningu búnaðar.

Markmið tillögunnar er að skapa samræmt regluverk fyrir aðildarríki ESB á þessu sviði, til að auka samræmi og stuðla að opnari markaði, sérstaklega fyrir smærri aðila og sprotafyrirtæki. Reglugerðin nær meðal annars til fjarskipta, vöktunar, staðsetningarþjónustu og annarrar þjónustu sem byggir á gögnum frá gervihnöttum.

Reglugerðin er sett fram í samræmi við stefnumótun frá árinu 2022 (e. EU Space Strategy for Security and Defence), sbr. umfjöllun í Vaktinni 4. mars 2022, og styður einnig innleiðingu nýrra verkefna á borð við fjarskiptakerfið IRIS², en viðræður um þátttöku í þeirri áætlun hafa staðið yfir, sbr. umfjöllun um þær viðræður í Vaktinni 13. júní sl.

Tillagan gengur nú til umræðu og afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

 

Stefnumótun á sviði skammtatækni

Hinn 2. júlí sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram orðsendingu til Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um nýja stefnumótun á sviði skammtatækni og skammtafræði (e. Quantum Europe Strategy).

Skammtatækni er háþróuð tækni sem byggist á lögmálum skammtaeðlisfræðinnar sem hefur opnað dyr að mun meiri reiknigetu og öruggari fjarskiptum en áður hefur þekkst.

Með tækninni er hægt að leysa flókin verkefni sem hefðbundnar tölvur ráða illa við. Tæknin býður einnig upp á nýjar leiðir til að tryggja öryggi gagna og fjarskipta.

Stefnumótunin nær yfir alla þætti þróunar og nýtingu skammtatækni, allt frá frumrannsóknum og uppbyggingu innviða til öruggrar dulkóðunar, nýsköpunar og markaðssetningar. Markmið stefnunnar er að tryggja tæknilega getu og sjálfstæði ESB á þessu sviði um leið og stuðlað er að efnahagslegum vexti, nýsköpun og aukinni alþjóðlegri samkeppnishæfni.

Sjá nánar um stefnumótunina í fréttatilkynningu framkvæmdastjórnarinnar.

 

Samráð um endurskoðun almennu hópundanþágureglugerðarinnar um ríkisaðstoð

Framkvæmdastjórn ESB hefur efnt til opins samráðs vegna fyrirhugaðrar endurskoðunar á almennu hópundanþágureglugerðinni um ríkisaðstoð (e. General Block Exemption Regulation). Endurskoðunin hefur það að markmiði að einfalda ríkisaðstoðarreglur og draga úr stjórnsýslubyrði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og iðngreinar sem hafa strategíska þýðingu fyrir ESB.

Reglugerðin heimilar aðildarríkjum að veita ákveðnar tegundir ríkisaðstoðar án fyrirfram samþykkis framkvæmdastjórnarinnar að uppfylltum skilyrðum og auðveldar m.a. veitingu ríkisaðstoðar til rannsókna og þróunar, grænnar orkuframleiðslu og til lítilla og meðalstórra fyrirtækja. 

Sjá nánar um samráðið í fréttatilkynningu framkvæmdastjórnarinnar þar sem kallað er eftir umsögnum en umsagnarfrestur er til 6. október nk.

 

Samráð um framkvæmd reglugerðar um erlenda styrki

Framkvæmdastjórn ESB hefur efnt til opins samráðs vegna fyrirhugaðra breytinga á leiðbeiningum um framkvæmd reglugerðar um erlenda styrki (e. Foreign Subsidies Regulation Guidelines). Fjallað var um reglugerðina í Vaktinni 10. febrúar 2023.

Drög að endurskoðuðum leiðbeiningum taka meðal annars á því hvernig bregðast eigi við þegar erlendir styrkir eru taldir raska samkeppni, þ.m.t. í gegnum samruna og opinber innkaup, hvernig svonefndu jafnvægisprófi skuli beitt til að meta hvort neikvæð áhrif vegi þyngra en þau jákvæðu og hvenær framkvæmdastjórnin getur óskað eftir tilkynningum um samruna eða erlent fjárframlag sem ekki nær viðmiðunarmörkum reglugerðarinnar.

Sjá nánar um samráðið í fréttatilkynningu framkvæmdastjórnarinnar þar sem kallað er eftir umsögnum en umsagnarfrestur er til 12. september nk.

 

Viðræður ESB og Bandaríkjanna um tollamál

Í Vaktinni 11. júlí sl. var greint frá því að Bandaríkjastjórn hefði boðið ESB svipuð kjör í tollamálum og samið var um við Bretlandi fyrr á árinu eða sem nemur 10% almennri tollaálagningu, að ákveðnum vörum undanskildum, og þótti líklegt, á þeim tímapunkti, að samningar gætu náðst á þeim nótum. Þær horfur breyttust hins vegar laugardaginn 12. júlí sl. þegar Donald Trump, Bandaríkjaforseti, birti afrit af bréfi til forseta framkvæmdastjórnarinnar á samfélagsmiðli sínum TruthSocial þar sem hann boðaði að 30% tollar (ekki 20% eins og upphaflega var tilkynnt um) yrðu lagðir á innflutning vara frá ESB til Bandaríkjanna frá og með 1. ágúst nk. Í bréfinu er samningaleiðinni þó haldið opinni að einhverju marki þar sem gefið var til kynna að tollprósentan kynni að lækka ef ESB opnaði markaði sína betur fyrir bandarískum vörum með afnámi tolla og með því að ryðja burt öðrum meintum viðskiptahindrunum.

Forseti framkvæmdastjórnarinnar brást við bréfinu með yfirlýsingu sama dag þar sem því var lýst yfir að gripið yrði til allra nauðsynlegra ráðstafana til að vernda hagsmuni ESB en jafnframt áréttaður vilji til ná samningum fyrir 1. ágúst. Þá var jafnframt tilkynnt um að ESB myndi fresta mótvægisaðgerðum sínum sem ella hefðu átt að taka gildi 15. júlí til 6. ágúst.

Fundað var um framangreinda stöðu mála í ráðherraráði ESB mánudaginn 14. júlí sl., sbr. nánar um niðurstöður þess fundar hér. Jafnframt var málið tekið til umræðu á fundi utanríkisviðskiptanefndar Evrópuþingsins sama dag, sbr. upptöku af þeim fundi hér.

Samningaviðræður hafa staðið yfir á umliðnum tveimur vikum en óvíst er enn hvernig þeim lyktar. Nú síðast bárust fréttir af því að hugsanlega gæti náðst samningur um 15% toll, sem er sama prósentutala og nýlega var samið um í samningum Bandaríkjanna og Japans. Hvort það verði niðurstaðan er ennþá óljóst.

 

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ritstjóri: Ágúst Geir Ágústsson, sendiráðunautur.

Ábyrgðarmaður: Kristján Andri Stefánsson, sendiherra.

Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar á netfangið [email protected].

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta