Hoppa yfir valmynd
01. apríl 2022 Brussel-vaktin

Stóru netfyrirtækin þurfa að lúta strangari reglum

Að þessu sinni er fjallað um:

  • tímamótasamkomulag um samkeppnisreglur á stafrænum markaði
  • nýjar fjölþættar tillögur um hringrásarhagkerfið
  • fjallaframleiðslu og hliðstæða vísun í uppruna evrópskrar gæðavöru
  • aðgerðir til að milda áhrif innrásarinnar í Úkraínu á sjávarútveg, fiskvinnslu og fiskeldi
  • viðbúnað til að tryggja orkuöryggi

Samkomulag um reglur um netrisana

Evrópusambandinu er oft legið á hálsi fyrir að seinagang og sundurlyndi þegar kemur að því að takast á við erfið mál. En nú hefur á einu ári náðst samkomulag um nýjar reglur sem varða starfsemi stóru netfyrirtækjanna. Reglurnar (e. Digital Markets Act) varða samkeppni þar sem eiga í hlut fyrirtæki eins og Google, Amazon og Apple. Legið hefur fyrir að gildandi almennar samkeppnisreglur dygðu ekki til að tryggja almannahagsmuni. Stafræn þjónusta verður eftirleiðis meðhöndluð líkt og um væri að ræða fjármálafyrirtæki eða orkufyrirtæki með stífari regluramma en áður.

Evrópuþingið náði ýmsum áherslumálum sínum í gegn. Þannig er nú gert ráð fyrir að fyrirtækin megi einungis nota persónuupplýsingar til beinskeyttra auglýsinga þegar fyrir liggur afdráttarlaust samþykki. Þá verður gert að skilyrði að notendur samfélagsmiðla geti deilt tilkynningum og skjölum á milli þjónustuaðila. Fyrirtæki sem ekki virða nýju reglurnar geta átt yfir höfði sér sektir sem nemi allt að 10% af veltu á heimsvísu og 20% þegar um ítrekuð brot er að ræða. Lykilatriði í samningaviðræðum innan ESB var verkaskipting milli framkvæmdastjórnarinnar og stjórnvalda í aðildarríkjunum. Niðurstaðan varð sú að það sé einungis framkvæmdastjórnin sem fari með eftirlit og eftirfylgni.

Meðal annarra atriða í nýju reglunum má nefna að leitarvélum og sambærilegum netvettvöngum verður meinað að hygla eigin vöru og þjónustu. Stærstu fyrirtækin þurfa einnig að tilkynna kaup á öðrum fyrirtækjum til þess að hægt sé að hafa auga með því hvort þau kæfi alla samkeppni í fæðingu.

Tillögur um hringrásarhagkerfið

Framkvæmdastjórnin gaf út í vikunni tillögupakka er varðar hringrásarhagkerfið. Pakkinn er annar tveggja sem eru á áætlun framkvæmdastjórnarinnar fyrir lok júlí.

Í pakkanum er að finna orðsendingu um sjálfbæra framleiðslu (e. Communication on making sustainable products the norm) en meðfylgjandi henni var einnig lögð fram vinnuáætlun fyrir árið 2022-2024 um visthönnun og orkumerkingar (e. Ecodesign and Energy Labelling Working Plan 2022-2024). Kjarninn í pakkanum er tillaga að reglugerð er setur ramma utan um kröfur til visthönnunar fyrir sjálfbærar vörur (e. Regulation establishing a framework for setting ecodesign requirements for sustainable products ). Einnig er í pakkanum að finna aðgerðaráætlun er varðar sjálfbæran textíl (e. EU strategy for sustainable and circular textiles), tillögu er varðar samræmd skilyrði fyrir markaðssetningu byggingarvara (e. Proposal for a Regulation laying down harmonised conditions for the marketing of construction products) og tillögu að nýjum reglum um valdeflingu neytenda til grænnar umbreytingar (e. empowering consumers for the green transition).

ESB stefnir að vistvænni hönnun framleiðsluvara. Gerð verður krafa um að vörur verði hannaðar til að endast lengur, auðveldara verði að uppfæra vöru, gera við vöru, endurnýja og endurvinna vöru. Reglurnar eru taldar geta haft mikil jákvæð áhrif þar sem yfir 80% af umhverfisáhrifum vöru eru ákveðin á hönnunarstigi vörunnar. Reglurnar munu ná til fjölda vörutegunda sem framleiddar eru innan ESB en einnig vara sem fluttar eru inn á ESB svæðið m.a. snjallsíma, spjaldtölva, sólarsella og hita- og kælibúnaðar. Gert er ráð fyrir að nákvæmari kröfur er varða hvern vöruflokk verði settar fram í svokölluðum framseldum gerðum (e. delegated acts) eftir að framkvæmdastjórnin hefur framkvæmt mat á áhrifum tillagnanna.

ESB stefnir einnig að því að stöðva eyðingu á óseldum vörum. Framkvæmdastjórnin leggur til að fyrirtæki taki upp ný einkunnarorð sem hvetja til þess að vörur séu gefnar í stað þess að þeim sé eytt (e. donate, don‘t destroy). Hugmyndin er sú að innan ESB verði óheimilt að eyða óseldum vörum en slíkt bann er nú þegar í gildi í Frakklandi. Sem fyrsta skref þá mun framkvæmdastjórnin fara fram á að fyrirtæki gefi upp opinberlega magn þeirra óseldu vara sem eytt er á hverju ári. Hyggst framkvæmdastjórnin skoða bann út frá vöruflokkum en ekki stærð fyrirtækja.

Framkvæmdastjórnin hefur einnig kynnt aðgerðir til að koma í veg fyrir svokallaðan grænþvott. Með tillögu sinni um valdeflingu neytenda til grænnar umbreytingar (e. empowering consumers for the green transition) ætlar framkvæmdastjórnin að kveða í kútinn almennar fullyrðingar er varða umhverfið. Bannað verður að nota hugtök eins og „umhverfisvænn“, „vistvænn“ og „grænn“ í markaðsskyni ef ekki verður hægt að sýna fram á vistvænleika vörunnar með umhverfismerki eða með öðrum leiðum sem byggja á lögbundnum ferlum. Einnig er gert ráð fyrir banni við því að fyrirtæki markaðssetji vörur sínar með sjálfbærnimerkjum sem hafa ekki vottun eða hafa ekki farið í gegnum ferli hjá opinberum aðilum.

Endurbættar reglur um uppruna landbúnaðarvöru

Framkvæmdastjórn ESB kynnti 31. mars sl. tillögur að endurbættum reglum um uppruna vöru eins og víns og osta. Tilgangurinn er að efla landbúnað sem byggir á gæðum og gömlu hefðum. Í breytingum felst það helst að skráning vöru sem óskað er að njóti verndar verður einfölduð, vernd upprunamerkinga á netinu verður samræmd því sem gerist endranær. Þá verður gert ráð fyrir þeim möguleika að um leið og vísað sé til landfræðilegs uppruna vöru sé lögð áhersla á félagslegar, umhverfislegar og efnahagslegar hliðar framleiðslunnar. „Fjallaframleiðsla“ verður tekin upp sem nýtt hugtak sem framleiðendur geti vísað til og nýtt til að undirstrika sérstöðu.

Stuðningur við sjávarútveg og fiskeldi

Framkvæmdastjórn ESB tilkynnti 25. mars sl. að búið væri að virkja neyðaraðgerðir í þágu fiskveiða og fiskeldis vegna átakanna í Úkraínu. Stríðið þar hefði mikil áhrif vegna hækkandi orkuverðs og hráefna sem nýtt eru í þessu geirum. Með þessu verður aðildarríkjunum til dæmis heimilað að bæta fyrirtækjum tekjutap og viðbótarkostnað vegna röskunar á mörkuðum.

Orkuöryggi í skugga stríðsátaka

Stríðsátökin í Úkraínu hafa haft í för með sér enn meira rask á orkumörkuðum en þegar var orðið vegna verðhækkana. Ekki er eingöngu um að ræða gríðarlega hækkun orkuverðs heldur hafa átökin sett í enn sterkari brennidepil orkuöryggi og aðgang að orku; ekki síst frá Rússlandi.

Hár orkukostnaður hefur leitt til aukinnar verðbólgu sem hefur skaðað evrópskan efnahag og haft áhrif á endurreisn efnahagsins eftir Covid-19 faraldurinn. Í október sl. kynnti framkvæmdastjórn ESB verkfærakistu aðgerða og stuðnings til að draga úr áhrifum hás orkukostnaðar á neytendur og fyrirtæki innan aðildarríkja ESB. Stuðningsaðgerðirnar hafa nýst til að draga úr kostnaði neytenda, heimila og í iðnaði, sem hefur dregið úr þrýstingnum.

Í byrjun mars gaf framkvæmdastjórnin úr orðsendingu „REPowerEU“ sem gaf aðildarríkjunum enn frekari leiðbeiningar um hvern best væri að draga úr áhrifum af hækkandi orkuverði á heimili og fyrirtæki auk leiða til að nýta mikinn hagnað nokkurra raforkuframleiðenda til að fjármagna þær aðgerðir.   

ESB hefur markað stefnu að verða eins fljótt og auðið er óháð Rússlandi varðandi orku og er unnið að áætlunum í því efni sem gert er ráð fyrir að komi fram í maí.

Á fundi í Versölum í mars sl. samþykktu leiðtogar ESB ríkjanna að bregðast hratt við og fara í markvissar aðgerðir til að mæta áhrifum af hækkandi orkuverði sérstaklega á viðkvæman hóp almennings og lítil og meðalstór fyrirtæki.

Framkvæmdastjórnin hefur brugðist með því að gefa út orðsendingu þar sem fjallað er um kosti og galla ýmissa markvissra skammtímalausna til að tempra hækkanir á orkuverði (e. Communication on Security of supply and affordable energy prices: Options for immediate measures and preparing for next winter). Í orðsendingunni eru einnig lagðar til sameiginlegar evrópskar aðgerðir sem ætlað er að ráðast að rót vandans á gasmarkaðnum og að tryggja öryggi framboðs á sanngjörnu verði fyrir næsta vetur og til lengri tíma. Tillögu að reglugerð um birgðahald fyrir gas er síðan ætlað að bæta viðnámsþrótt orkukerfis Evrópusambandsins.      

Þau atriði sem framkvæmdastjórnin veltir upp eru eftirfarandi:

  1. Leiðir til niðurgreiðslu á verði raforku á smásölustigi með ýmiss konar stuðningi við heimili og fyrirtæki, þ.m.t. beinni ríkisaðstoð, lækkun skatta og gjalda o.s.frv.
  2. Mögulegar aðgerðir á heildsölustiginu eins og með magninnkaupum sem haft gætu áhrif til lækkunar á innkaupsverði.
  3. Þak á orkuverð.

Framkvæmdastjórnin leggur síðan mata á kosti og galla einstakra aðgerða. Helstu gallar við niðurgreiðslu á verði á smásölustigi er beinn útlagður kostnaður og áhætta fyrir jöfnun samkeppnisskilyrða. Gallar við aðgerðir á heildsölustigi er beinn útlagður kostnaður, röskun á samkeppni og röskun markaða. Gallar við aðgerðir tengdar setningu þaks á orkuverð er hátt flækjustig, röskun á framboði og áhrif á fjárfestingar. Framagreint bíður síðan nánari greiningar hjá framkvæmdastjórninni. Meginniðurstaðan er hins vegar sú að það er ekki nein ein tiltekin lausn í hendi til að takast á við hátt orkuverð og það óöryggi sem hefur skapast.

Varðandi framboð á gasi á viðráðanlegu verði þá segir í orðsendingunni að Evrópusambandsríki þurfi að standa saman og semja sameiginlega við birgja. Framkvæmdastjórnin lýsir yfir vilja til að setja á fót aðgerðarhóp um sameiginleg innkaup á gasi og vetni. Aðgerðarhópurinn myndi njóta stuðnings fulltrúa aðildarríkjanna í stýrinefnd sem starfrækt er innan ESB. Hópnum væri m.a. ætlað að undirbúa samstarf á sviði orkumála við lykilbirgja fyrir fljótandi náttúrugas (LNG), gas og vetni á svæðinu við Miðjarðarhaf, aðilum í Afríku, Austurlöndum nær og BNA. Honum væri einnig ætlað að efla notkun á innviðum fyrir gas innan ESB, sérstaklega miðstöðvar fyrir fljótandi náttúrugas en einnig geymslustaði og leiðslur.

Regluverk ESB gerir þegar ráð fyrir því að aðildarríki eigi að minnsta kosti birgðir olíu til þriggja mánaða. Í tillögu að reglugerð um gasbirgðir er gert ráð fyrir að aðildarríki tryggi að birgðir af gasi 1. nóvember ár hvert verði aldrei undir 90% af því geymslurými fyrir gas sem er til staðar en markið þó sett við 80% á árinu 2022. Með þessu er brugðist við þeirri stöðu sem kom upp á yfirstandandi vetri þar sem birgðastaðan hefur verið 20% minni en venjulega en hafa skal í huga því sambandi að 20-25% af því gasi sem notað er innan ESB á hverjum vetri kemur úr geymslurýmum. Var því ljóst að birgðastaðan var komin óþægilega nálægt hættumörkum. Ástæða þessa er fyrst og fremst rakin til þess að rússnesk fyrirtæki kusu að hafa minni birgðir innan ESB en venjan hefur verið.

Gert er ráð fyrir að birgðahaldarar séu sérstaklega vottaðir. Engir aðrir fá að halda birgðir en þeir sem hafa slíka vottun en markmiðið er að koma í veg fyrir utanaðkomandi áhrif á birgðastöðu. Þeim sem ekki hafa slíka vottun er gert að láta af hendi geymslurými sem um ræðir. Birgðahaldarar munu verða undanþegnir tilteknum gjöldum og er gert að skila reglulegum skýrslum um birgðastöðu svo eitthvað sé nefnt.

 

***

Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum