Hoppa yfir valmynd

Endurheimt vistkerfa

Víða hafa vistkerfi eyðst eða laskast og þannig dregið úr getu þeirra til að veita manninum og náttúrunni mikilvæga þjónustu. Með því að grípa til aðgerða við að endurheimta þessi vistkerfi má auka virkni þeirra á ný. Með endurheimt vistkerfis eða vistheimt í landgræðslu er leitast við að bæta skemmd vistkerfa svo þau verði m.a. betur í stakk búin til að geyma mikilvægar auðlindir á borð við vatn og næringarefni.

Á Íslandi er meðal annars unnið að endurheimt birkiskóga. Með því að koma upp birkiskógi á ný á landi sem hefur eyðst vegna ofnotkunar eykst framleiðni landsins, fuglar nýta skóginn sem búsvæði og sömuleiðis ýmis smádýr. Slíkur skógur geymir einnig betur vatn sem annars rynni viðstöðulítið burt af ógrónu landi og þá getur skógurinn bundið ösku sem fellur við eldgos. Aska á ógrónu landi fýkur hins vegar um og veldur margsháttar tjóni, m.a. á öðrum gróðri og öndunarfærum. Hekluskógar er dæmi um verkefni sem felur í sér endurheimt birkiskóga á svæði þar sem skógur hefur eyðst. Land og skógur hefur umsjón með því verkefni.

Endurheimt votlendis

Þá er endurheimt votlendis mikilvæg. Með því að ræsa fram votlendi með skurðum byrja lífræn efni í jarðveginum að brotna niður og við það losnar koldíoxíð sem er gróðurhúsalofttegund út í andrúmsloftið. Með því að bleyta aftur upp í framræstu votlendi dregur úr þessari losun. Að auki eru votlendi oft auðug af lífi og getur endurheimt votlendis aukið líffræðilega fjölbreytni.

Land og skógur hefur umsjón með endurheimt votlendis í samræmi við sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum.

Endurheimt votlendis - skýrsla samráðshóps (pdf-skjal)

 

Síðast uppfært: 16.1.2024
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum