Hoppa yfir valmynd

Stjórnskipulag upplýsingatækni

Stafræn stjórnsýsla krefst stjórnskipulags sem styður við aukna hagnýtingu upplýsingatækni og gagna og umbreytingu ferla í ríkisrekstri. Að sama skapi þarf lagaleg umgjörð að styðja við stafræna stjórnsýslu.

Lagaumgjörð

Svo stafræn stjórnsýsla á Íslandi verði sem þægilegust og hagkvæmust krefst það lagalegrar umgjarðar sem styður við þau markmið.

Markmið með góðri stafrænni löggjöf er að minnka skriffinnsku með því að einfalda löggjöf og samþætta vinnulag og tækni. Þannig ætti að einfalda flókna löggjöf sem er í gildi í dag og ný löggjöf að vera auðskiljanleg og samrýmast stafrænum veruleika.

Í alþjóðasamstarfi hafa OECD og Evrópusambandið gefið út handhægar leiðbeiningar um viðmið sem góð og virk stafræn stjórnsýsla þarf að hafa.

Samrekstur

Samrekstur í upplýsingatækni er hagkvæmur. Í stað þess að hver og einn ríkisaðili reki t.d. eigin netþjóna eða sinni eigin rekstri á skrifstofuhugbúnaði er hagkvæmara að reka þessa þjónustu með sameiginlegri hætti en í dreifstýrðu fyrirkomulagi. Þannig er hvorki miðstýrt né dreifstýrt fyrirkomulag ákjósanlegt þegar kemur að rekstri upplýsingatækni og gagna. Nokkurs konar blönduð leið hentar ríkinu betur. Í miðstýrðu rekstrarumhverfi, eins og SKÝRR var, sinnir einn aðili öllum rekstri og er það hamlandi fyrir nýsköpun og framþróun. Í dreifstýrðu rekstrarumhverfi gerir hver og einni ríkisaðili sem honum best þykir henta hverju sinni. Slíkt fyrirkomulag eykur kostnað og minnkar samræmingu þvert á ríkið. Í blandaðri leið eru lausnir sem eru sameiginlegar öllum reknar með miðlægari hætti, en ábyrgð á rekstri sem styður kjarnaþjónustu ríkisaðila i þeirra eigin höndum.

Dæmi um samrekstur eru kjarnaþjónustur Stafræns Íslands og rekstur á samræmdum skrifstofuhugbúnaði ríkisins (Microsoft 365).

Arfleifðarkerfi og læst samningsstaða

Opinberir aðilar og einkaaðilar, innlendir og erlendir, þekkja þá stöðu að tiltekin upplýsingakerfi séu komin á tíma og þarfnist yfirhalningar eða uppfærslu. Hins vegar er flækjustigið við að skipta út gömlu kerfi fyrir nýtt mikil áskorun, bæði fjárhagslega og rekstrarlega. Fjármála- og efnahagsráðuneytið lét greina arfleifðarskor (e. legacy score) upplýsingakerfa lykilstofnana og Í framhaldinu n.k. valkostagreiningu fyrir ráðuneyti / stofnanir sem ýmist hafa hátt tæknilegt arfleifðarskor og/eða eru í læstri stöðu gagnvart birgjum.

Kostirnir eru fjórir:

  1. Leggja arfleifðarkerfinu
  2. Skipta út arfleifðarkerfi fyrir staðlað kerfi (ávallt fyrsta val)
  3.  Hjúpa arfleifðarkerfi, þ.e. fela kerfið á bak við vefþjónustur.
  4.  Skipta arfleifðarkerfi fyrir nýtt sérsmíðað kerfi (almennt sísta val)

Gögn og opin gögn

Aðgengi að opinberum gögnum á Íslandi á sér langa sögu. Notkun og endurnotkun gagna á borð við grunnskrá einstaklinga (þjóðskrá) og fyrirtækja (fyrirtækjaskrá) hefur lengi viðgengist, bæði innan opinbera geirans og hjá einkaaðilum.

Áherslur flestra þjóðríkja sem Ísland ber sig saman við hefur verið að auka notkun og samnýtingu gagna þvert á ríkisaðila og jafnvel opinbera aðila líka. Næsta skref í þessari þróun er að auka notkun og flæði gagna þvert á landamæri.

Dæmi um gögn sem eru aðgengileg eru:

  • Grunnskrá einstaklinga, fyrirtækja, ökutækja og fasteigna
  • Veðurupplýsingar
  • Umhverfisupplýsingar
  • Landupplýsingar
  • Landakort, sjókort o.s.frv.

Gögnin eru að jafnaði aðgengileg hjá þeim stofnunum sem ábyrgar eru fyrir gögnunum. Flestar þjóðir hafa farið þá leið að útbúa miðlæga upplýsingagátt, þar sem ólíkum gagnasettum er miðlað í gegnum. Slík síða er væntanleg á Íslandi en í millitíðinni þarf að styðjast við vefi einstakra stofnana og opingogn.is og vefþjónustugátt á Ísland.is.

Einskráning gagna (e. once only principle)

Markmið Íslands, líkt og annarra Evrópuríkja, er að auka notkun og endurnotkun þeirra gagna sem ríkið býr yfir. Einn liður í því er einskráning gagna, þ.e.a.s. að ekki skuli vista / halda skrá yfir sömu upplýsingar á mörgum stöðum. Dæmi um slíkt er t.d. símanúmer og netfang einstaklings. Hægt er að ganga frá því vísu að ein stofnun, t.d. Skatturinn, haldi þessum upplýsingum til haga. Óþarfi er því fyrir aðrar stofnanir að gera slíkt hið sama. Aðrar stofnanir ættu því að geta sótt upplýsingar um símanúmer og netfang tiltekins einstaklings til Skattsins, einkum ef um upplýst samþykki viðkomandi er að ræða. Mörg önnur sambærileg dæmi eru lýsandi fyrir einskráningu gagna.
Væntanleg uppfærsla á lögum um endurnot opinberra upplýsinga tekur tillit til einskráningar gagna í takti við reglugerð ESB 2019/1024 um opin gögn og endurnot opinberra upplýsinga.

Straumurinn sem öruggt flutningslag

Straumurinn (X-Road) er gagnaflutningslag fyrir upplýsingakerfi og er vistkerfi sem er í senn tæknilegt umhverfi og skipulag og tryggir örugg gagnasamskipti á milli upplýsingakerfa. Straumnum er ætlað að auðvelda samskipti milli upplýsingakerfa á landsvísu með öruggum hætti. Stofnanir og fyrirtæki geta tengst Straumnum. Með því að nýta Strauminn verða samskiptaleiðir milli upplýsingakerfa staðlaðar sem eykur hagræðingu í uppsetningu og rekstri.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 5.12.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum