Hoppa yfir valmynd

Stefnumótun og samstarf

Skrifstofa stjórnunar og umbóta fer fyrir stefnumótun í málaflokknum, sem felur í sér alþjóðlegt samstarf um opinbera þjónustu, hagnýtingu nýrrar tækni og áherslur á minnkað kolefnisfótspor í ríkisrekstrinum og áhrif á samfélagið fyrir tilstilli tækni og breytingu á vinnulagi og ferlum.

Stafræn vegferð

Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á stafræna þjónustu og aukna stafvæðingu í íslensku samfélagi líkt og kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Framþróun í tækni og áhugi almennings á bættri stafrænni þjónustu hefur jafnframt skipt miklu máli. Aðgangur heimila og fyrirtækja að háhraða interneti hefur verið einn lykilþátturinn í þessari þróun. Stafrænir ferlar á borð við skattskil hafa einnig ýtt undir frekari framþróun ólíkra opinberra aðila. Aðgangur og notkun almennings á rafrænum skilríkjum hefur aukist statt og stöðugt frá tilkomu þeirra og tryggja þau öryggi í stafrænni þjónustu opinberra aðila og á einkamarkaði.

*Hlutfall útgefinna rafrænna skilríkja getur verið hærri en 100% af skráðum einstaklingum á Íslandi þar sem hluti skilríkjaeigenda er búsettur erlendis.

Viðhorf almennings til stafrænnar þróunar eru mæld og sýna þjónustukannanir mikla eftirspurn eftir stafrænni þjónustu sem og ánægju með hana.

 
 
 

Verkefnastofa um Stafrænt Ísland

Verkefnastofu um Stafrænt Ísland var formlega komið á fót árið 2018 í kjölfar þess að verkefni upplýsingasamfélagsins færðust til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Stafrænt Ísland hefur gegnt lykilhlutverki í því að þróa sameiginlegar kjarnaþjónustur, sem opinberir aðilar geta nýtt sér með tilheyrandi hagræði. Að sama skapi sinnir Stafrænt Ísland mikilvægu ráðgjafahlutverki þegar kemur að stafrænni umbreytingu hjá ríkisaðilum, s.s. með breytingu á ferlum, studda af tæknilegum þáttum.

Vinna við stafræna umbreytingu er svo m.a. studd af stefnu um stafræna þjónustu hins opinbera sem var gefin út 2021 og er Samband íslenskra sveitarfélaga aðili að þeirri stefnu fyrir hönd sveitarfélaga.

Innlent samstarf

Ríki og sveitarfélög eiga í miklu samstarfi um stafræna umbreytingu opinberrar þjónustu. Fyrir hönd samstarfsnefndar ríkis og sveitarfélaga (Jónsmessunefndar) hefur samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga um stafræna þróun hins opinbera verið sett á laggirnar.

Hlutverk samráðsnefndarinnar er tvíþætt. Annars vegar að miðla upplýsingum um stafræna þróun milli ráðuneyta og sveitarfélaga til að stuðla að bættri yfirsýn og hagnýtingu stafrænna lausna hins opinbera og hins vegar að styrkja samstarf við veitingu þjónustuferla í gegnum Ísland.is.

Nefndin er skipuð einum fulltrúa samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, einum fulltrúa
fjármála- og efnahagsráðuneytis, einum fulltrúa Verkefnastofu um stafrænt Ísland, einum fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og einum fulltrúa Reykjavíkurborgar. Skipar hver framangreindra aðila bæði einn aðal- og varafulltrúa í nefndina.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið á jafnframt í stöðugu samstarfi við önnur ráðuneyti, bæði formlega og óformlega, um verkefni sem tengjast upplýsingatækni, innkaupum og stafrænni umbreytingu í ríkisrekstrinum.

Alþjóðlegt samstarf

Ísland tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi sem snýr að stafrænni opinberri þjónustu. Þar má nefna vinnu á norrænum og evrópskum vettvangi auk Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Skrifstofa stjórnunar og umbóta (SSU) auk Stafræns Íslands eiga fulltrúa í þessari vinnu. Til viðbótar við ofangreint formlegt samstarf, tekur ráðuneytið þátt í því að halda erindi og taka á móti sendinefndum annarra ríkja.

Forgangsmál

Áherslur Íslands í alþjóðasamstarfi um stafræna opinbera þjónustu eru m.a.:

  • Innleiðing eIDAS reglugerðarinnar til að tryggja notkun rafrænna skilríkja þvert á landamæri
  • Þátttaka í alþjóðlegum könnunum um stafræna opinbera þjónustu, notkun gagna o.s.frv. Má þar nefna EU eGovernment Benchmark, EU Open Data Maturity, OECD Digital Government, OECD Open Government Data, United Nations – eGovernment, World Bank GovTech Maturity Index (GTMI)
  • Innleiðingu Single Digital Gateway, sem felur m.a. í sér að koma upp og viðhalda tengingum á YourEurope síðunni.

Norræna ráðherranefndin – Stafvæðing – MR-DIGITAL

Innan norrænu ráðherranefndarinnar er starfrækt undirnefnd um stafræna opinbera þjónustum, MR-DIGITAL. Hópurinn er sá eini á vegum norrænu ráðherranefndarinnar sem á í samstarfi við Eystrasaltsríkin, Eistland, Lettland og Litháen til viðbótar við fulltrúa Norðurlandanna. Fulltrúi Íslands í nefndinni er fjármálaráðherra. Nánar má lesa um samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna á norden.org.

Digital North 2.0 yfirlýsingin

Ráðherrar í samstarfinu undirrituðu sameiginlega yfirlýsingu, Digital North 2.0, á grunni framtíðarsýnar Norðurlandanna um að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Yfirlýsingin tekur á helstu markmiðum samstarfsins með áherslu á þrjá þætti:

  • Auka hreyfanleika og samþættingu á svæðinu sem tekur til Norðurlanda og Eystrasaltsríkja með því að byggja upp sameiginlegan vettvang fyrir stafræna þjónustu þvert á landamæri
  • Stuðla að grænum hagvexti og sjálfbærri þróun á svæðinu með gagnadrifinni nýsköpun og sanngjörnu gagnahagkerfi til þess að samnýting og endurnýting gagna verði skilvirk
  • Stuðla að forystu Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í ESB og EES og á heimsvísu um sjálfbæra og samþætta stafræna umbreytingu

Digital North 2.0 yfirlýsingin á norden.org

Verkefni á vegum MR-DIGITAL

Ísland er virkur þátttakandi í þeim verkefnum um stafræna opinbera þjónustu. Jafnframt eru verkefni sem snúa að þjónustu þvert á landamæri og fellur það undir ábyrgð CBDS (Cross Border Digital Services) áætlunarinnar. Fjórar stoðir CBDS eru:

  • Byggja upp örugga og trausta samvirkni rafrænnar auðkenningar á svæðinu,
  • Stuðla að gagnaskiptum opinberra aðila yfir landamæri,
  • Að gera stafræna þjónustu yfir landamæri mögulega,
  • Opið fjármögnunarkerfi, CBDS sjóðurinn.

NOBID verkefnið (The Nordic-Baltic eID Project) er eitt þeirra verkefna sem styður við helstu markmið CBDS, þ.e.a.s. að auka aðgengi einstaklinga að þjónustu þvert á landamæri fyrir tilstilli rafrænna skilríkja. Verkefnið hlaut styrk frá DIGITAL Europe áætluninni um uppbyggingu stafræns evrópsks auðkennaveskis (EU Identity Wallet) í lok árs 2022 hvar greiðslur milli aðila með millifærslu, ekki kortum, eru þjónustuviðmiðið. Nánar um NOBID verkefnið.

Nánar um Cross Border Digital Services (CBDS) Programme á digdir.no

Græn umbreyting

Bætt og aukin stafræn þjónusta hjálpar til við að lækka kolefnisfótspor veittrar þjónustu. Með því að flytja gögn en ekki fólk fæst hagræði í tíma þeirra sem þjónustuna sækja, bílferðum þeirra fækkar og þau sem þjónustuna veita geta sinnt öðrum virðisaukandi verkefnum.
Ísland hefur sett sér háleit markmið þegar kemur að minnkun í kolefnislosun fram til ársins 2040 og 2050. Aukin stafræn þjónusta, hagnýting upplýsingatækni, græn gagnaver og notkun gagna eru allt liðir í að ná markmiðum Íslands. Aukning í stafrænni umbreytingu, hagnýtingu upplýsingatækni og gagna kallar á aukna orkunotkun. Mikilvægt er því að rammi um opinber innkaup styðji við græn skref, sjá nánar um sjálfbær innkaup ríkisins.

Græn umbreyting krefst samstarfs

Markmiðum um sjálfbærni og minnkaða kolefnislosun verður ekki náð án samstarfs einstaklinga, fyrirtækja, ríkis, sveitarfélaga og þjóða. Á Íslandi eru mörg verkefni sem styðja við aukna sjálfbærni. Á vegum MR-DIGITAL var gefin út skýrsla um rafgræna umbreytingu (e. Digital Green Transition) á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum, stöðu og tillögur að breytingum fram á við.

Síðast uppfært: 18.4.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum