Hoppa yfir valmynd

Opinber innkaup

Innkaup ríkisins eru stór hluti af hagkerfinu og því mikilvægt að huga að því hvernig innkaupamætti er beitt. Ár hvert kaupir ríkið vörur og þjónustu fyrir um 117 milljarða króna en heildarumfangið, þegar kaup vegna þjónustusamninga og mannvirkjagerðar eru tekin með, eru um 202 milljarðar króna á ári. Ríkið kaupir fjölbreytta vöru og þjónustu á mjög breiðu sviði. Allt frá ljósaperum til stórra mannvirkja t.d. vegganga. Auk þess er hluti af innkaupum ríkisins í formi þjónstukaupa þar sem einkaaðilar og sjálfseignastofnanir sjá um veitingu þjónustunnar s.s. hjúkrunarheimili, skóla og ýmsa heilbrigðisþjónustu.

Í ljósi umfangsins eru miklir hagsmunir tengdir opinberum innkaupum og eru innkaup mikilvægt stjórntæki í rekstri ríkisins og gegnir einnig hlutverki í mótun rekstrarumhverfis fyrirtækja á almennum markaði. Því þurfa samskipti ríkis og markaðarins í innkaupamálum að vera einföld, gagnsæ og byggja á skýrri lagalegri umgjörð. Einnig er hægt að nýta opinber innkaup til að ná fram ýmsum samfélagslegum markmiðum t.d. að hægt virkja samfélagslega ábyrgð með innkaupum þar á meðal með vistvæn innkaup þar sem gerðar eru kröfur og hvatt til að lausnir sem bjóðast opinberum aðilum í innkaupum stuðli að jákvæðum áhrifum á umhverfið. Einnig er hægt að stuðla að nýsköpun í atvinnulífinu þannig að kaupendur að opinberri þjónustu leiti eftir nýjum lausnum og gefi bjóðendum tækifæri til að þróa nýjar lausnir sem til lengri tíma leiði til aukinnar hagræðingar og þróun á þjónustu.

 
 

Meginreglur við innkaup

Við innkaup á vörum, þjónustu, verkum og gerð þjónustusamninga gilda lög um opinber innkaup og eru meginreglur við opinber innkaup ávallt jafnræði, meðalhóf og gagnsæi. Markmið með lögum um opinber innkaup er að tryggja jafnræði fyrirtækja, stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni og efla nýsköpun og þróun við innkaup hins opinbera á vörum, verkum og þjónustu. Telji seljendur á sér brotið í málum er varða opinber innkaup eru nokkrar leiðir færar til að leita réttar síns og eru þær tilgreindar í XI. kafla laga um opinber innkaup. Þar er meðal annars fjallað um kærunefnd útboðsmála sem ber að leysa með skjótum og óhlutdrægum hætti úr kærum fyrirtækja vegna ætlaðra brota á lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim.

Fjármála- og efnhagsráðuneytið ber ábyrgð á mótun stefnu og regluverks á sviði innkaupa hins opinbera. Ríkiskaup er miðlæg innkaupastofnun á vegum ríkisins og hefur það hlutverk að annast innkaup fyrir ríkisstofnanir, rannsaka sameiginlegar þarfir fyrir vörur og þjónustu, beita sér fyrir sameiginlegum innkaupum til þarfa ríkisins og stuðla að þróun skilvirkra innkaupaferla. Ríkiskaup gera rammasamninga fyrir hönd ríkisins þar sem lagt er mat á hæfi og verð og eftir atvikum magn innkaupa. A-hluta stofnunum ber að fara eftir rammasamningum eða skýra frá sérstöðu sinni til ráðuneytis. 

Alþjóðasamningar

Ísland er aðili að alþjóðasamningum tengdum opinberum innkaupum, GPA (e. Government Procurement Agreement) samningi WTO og EES. Samningarnir veita réttindi og skyldur og auka samkeppni og jafnræði í opinberum innkaupum og veita fyrirtækjum jöfn tækifæri á því að taka þátt í opinberum útboðum erlendra ríkja sem eru aðilar að samningunum.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira