Hoppa yfir valmynd

Skipulag og stjórnun ríkisstofnana

Á Íslandi skiptist hið opinbera upp í tvö stjórnsýslustig; ríki og sveitarfélög. Hér á landi fer ríkið með stærri hluta þjónustunnar og er til að mynda fjárhagsleg skiptingin á milli stjórnsýslustiga um 70% ríkið og 30% sveitarfélög. Á Íslandi er hærra hlutfall opinberrar þjónustu veitt af ríkinu en neðri stjórnsýslustigum í samanburði við hin Norðurlöndin þar sem sveitarfélagastigið er stærri þjónustuveitandi.

Miklar breytingar hafa orðið á stofnanakerfi ríkisins undanfarna áratugi sérstaklega hvað varðar fjölda stofnana. Fækkaði stofnunum ríkisins þannig hratt í lok 10. áratug síðustu aldar. Á þessu tímabili voru verkefni grunnskólans meðal annars færð til sveitarstjórnarstigsins og áhersla var á tilfærslu verkefna í hlutafélög. Frá þessum tíma hefur ríkisstofnunum fækkað um 37% eða úr 250 talsins í 156 árið 2021 skv. flokkun Ríkisendurskoðunar.

Stofnanir ríkisins eru um 160 talsins með starfstöðvar um allt land þar sem vinna 23,132 aðilar við fjölbreytt störf, en flest þeirra eru í heilbrigðis- mennta og velferðarmálum. Auk þess fer ríkið með eignarhald í fjölda félaga og gerir samstarfssamninga við ýmsa aðila um veitingu þjónustu.

Færri og öflugri stofnanir

Það er stefna stjórnvalda að fækka stofnunum, m.a. með sameiningum. Helstu rök fyrir sameiningum eru þau að stærri einingar séu betur til þess fallnar að sinna kjarnaþjónustu og veita góða þjónustu. Slíkar einingar séu einnig betri rekstrareiningar. Mikill munur er á stærð ríkisstofnana allt frá þeirri stærstu, Landspítalanum með um 5.000 stöðugildi í þá minnstu með 2 starfsmenn. Rúmur helmingur stofnana er með færri en 50 stöðugildi. Fjórðungur stofnana er með færri en 20 stöðugildi. Fjölda stöðugilda stofnana má sjá á vefnum ríkisreikningur.is.

Unnið er út frá því viðmiði um stofnanakerfið að stofnanir hafi að jafnaði ekki færri en 50 stöðugildi svo að stjórnendur og starfsfólk geti betur sinnt kjarnaverkefnum. Út frá þeirri sviðmynd mætti fækka stofnunum töluvert en unnið er að ýmsum sameiningum á vettvangi Stjórnarráðsins.

Áherslur og markmið um ríkisreksturinn

Árlega eru gefnar út áherslur í ríkisrekstri sem miða að bættri þjónustu ríkisstofnana við almenning og fyrirtæki í landinu með sjálfbærum rekstri og stefnumiðaðri mannauðsstjórnun. Til þess að ná því markmiði eru dregnir fram þættir sem öllum stofnunum beri að skoða í sínum rekstri.

Í fjármálaáætlun ár hvert er svo farið yfir þau miðlægu umbótaverkefni sem unnið er að á vettvangi stjórnvalda.

Markmið um ríkisreksturinn eru sett fram á málefnasviði 5, Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla, en auk þess má sjá markmið og áherslur einstakra stofnana í hverjum málaflokki í fjármálaáætlun og vísast þar til. Markmiðin eru í samræmi við áherslur í ríkisrekstrinum og snúa að betri og skilvirkari þjónustu, að efla ríkið sem góðan vinnustað og stundaður sé öflugur og vistvænn rekstur. Framgangur markmiða og verkefni sem unnið er að finna í ársskýrslu ráðherra ár hvert en stærsta umbótaverkefni í ríkisrekstri snýr að aukinni stafvæðingu starfseminnar.

Markmið og mælikvarðar málefnasviðs 5.3, fjármálaumsýsla ríkisins

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

Betri og skilvirkari þjónusta ríkisstofnana.

16.6

Ánægja almennings með þjónustu ríkisstofnana[1]:

4,0

4,2

4,3

Hlutfall opinberra aðila sem nýta stafræna pósthólfið á Ísland.is:

20%

80%

80%

Frammistaða í stafrænni þjónustu stjórnvalda skv. EU eGovernment Benchmark:

4. sæti

1-3. sæti

1. sæti

Efla ríkið sem góðan vinnustað og styrkja hæfni þess til að veita góða opinbera þjónustu.

8.2

Hlutfall svara skv. niður­stöðu stofnunar ársins varðandi ánægju og stolt:

63%

65%

67%

Hlutfall svara skv. niðurstöðu stofnunar ársins varðandi stjórnun:

50%

53%

55%

Öflugri og vistvænni rekstur ríkisstofnana.

8.2

Hlutfall ríkisaðila sem vinna í verkefnamiðuðu vinnuumhverfi:

 

 

 

12.7

Hlutfall innkaupaferla sem eru með vistvænum skilyrðum:*

82%

87%

90%

 

16.6

Hlutfall stofnana með undir 50 stöðugildi:

55%

45%

40%

 

Stofnanir sem veita miðlæga rekstrarþjónustu

Rekstur og þjónustu ríkisstofnana má flokka í kjarnaþjónustu og svo aðra rekstrarþætti sem mætti kalla stoðþjónustu. Unnið hefur verið að því að auka sameiginlega stoðþjónustu..
 
Þannig eru stofnanir sem sinna mannauðsráðgjöf, rekstrarmálum, húsnæðismálum, upplýsingatækni og innkaupum að sinna öllum stofnunum. Stafrænt Ísland er svo hraðall til að auka stafræna þjónustu til almennings.

Þeir opinberu aðilar sem þjónusta aðrar stofnanir eru Verkefnastofa um Stafrænt Ísland, Fjársýsla ríkisins, kjara- og mannauðssýsla ríkisins, Ríkiskaup, Umbra og Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir. Þessar einingar hafa áhrif á getu annarra stofnana til að veita góða þjónustu og auka hagræði í rekstri með því að sinna verkefnum sem allar stofnanir þyrftu annars að sinna.

Hagkvæmur ríkisrekstur

Stöðugt er leitað leiða við að gera ríkisreksturinn sem hagkvæmastan svo að fjármunum sé varið í þau verkefni sem nauðsynlegt er að sinna hverju sinni. Fjármálaáætlun til næstu fimm ára gerir ráð fyrir að haldið sé aftur af útgjaldavexti með auknu aðhaldi, tekjuöflun og frestun framkvæmda. Á sama tíma er staðinn vörður um mikilvæga grunnþjónustu og leitað leiða til að auka skilvirkni og hagkvæmni með því að nýta tækifæri í stafvæðingu, innkaupum og húsnæðismálum stofnana.

Veiting opinberrar þjónustu skiptist í kjarnastarfsemi og stoðþjónustu

Flokkun ríkisaðila

Í lögum um opinber fjármál er að finna skilgreiningu á flokkun á starfsemi og verkefnum ríkisins og er starfseminni skipt í þrjá hluta eftir eðli hennar, þ.e. í A-, B- og C-hluta.

Í fjárlögum 2022 var flokkun ríkisaðila breytt frá því sem áður var til samræmis við breytingar sem gerðar voru á flokkun þeirra í lögum um opinber fjármál. Ríkisaðilar, sem áður voru flokkaðir utan hins opinbera (A-hluta ríkissjóðs), teljast nú innan þess og samhliða var flokkun A-hluta ríkisins skipt upp í A1-, A2- og A3-hluta. Rekstur og efnahagur þessara aðila telst því með hefðbundnum rekstri ríkis og sveitarfélaga og er meðtalinn í opinberum hagtölum.

A-hluti

Til A-hluta telst starfsemi og kjarnaverkefni ríkisins. A-hluti skiptist í þrjá hluta:
A1-hluti. Starfsemi sem er einkanlega fjármögnuð með skatttekjum, lögbundnum þjónustutekjum og framlögum.
A2-hluti. Starfsemi lána- og fjárfestingarsjóða og önnur starfsemi sem er rekin undir stjórn ríkisins og stendur undir sér með sölu á vöru eða þjónustu, leigu og lánastarfsemi.
A3-hluti. Starfsemi hlutafélaga sem eru að meiri hluta í eigu ríkissjóðs en sinna hlutverkum á sviði opinberrar þjónustu samkvæmt alþjóðlegum hagskýrslustöðlum.

B-hluti

Til B-hluta teljast önnur fyrirtæki og lánastofnanir sem eru undir beinni stjórn ríkisins og rekin eru á ábyrgð ríkissjóðs og ekki teljast til A-hluta. Þessir aðilar starfa á markaði og standa að stærstum hluta undir kostnaði við starfsemi sína með tekjum af sölu á vöru eða þjónustu til almennings og fyrirtækja.

C-hluti

Til C-hluta teljast sameignar- eða hlutafélög í meirihlutaeigu ríkisins sem starfa á markaði. Til C-hlutans telst einnig Seðlabanki Íslands.

Sjá einnig:

Styrking stofnanakerfisins

Á síðastliðnum 20 árum hafa verið unnar margar ítarlegar greiningar á stofnanakerfi ríkisins. Hópar og nefndir hafa verið settar á laggirnar og komið fram með tillögur um hvernig megi styrkja stofnanakerfið og yfirstjórnarhlutverk ráðuneyta og hafa ýmsar breytingar verið gerðar á grundvelli þeirra

Skipulag og stjórnun ríkisstofnana

Síðast uppfært: 12.6.2024
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum