Hoppa yfir valmynd

Eftirlit með framkvæmd fjárlaga

Í lögum um opinber fjármál eru ákvæði um framkvæmd fjárlaga sem ætlað er að stuðla að virkara eftirliti með stjórn og ráðstöfun opinbers fjár og leiða til aukins aga við framkvæmd fjárlaga með því að skýra ábyrgð og skyldur. Lögð er áhersla á stefnumótun ríkisaðila og eftirlit hvers ráðherra með útgjaldaþróun málaflokka og ábyrgð forstöðumanna á rekstri. Hver ráðherra ber ábyrgð á og hefur virkt eftirlit með framkvæmd fjárlaga á sínu málefnasviði og ber ábyrgð á að ráðstöfun fjárheimilda sé innan þess ramma sem Alþingi ákveður. Forstöðumaður eða stjórn stofnana í A-hluta ríkissjóðs, ber ábyrð gagnvart hlutaðeigandi ráðherra á að starfsemin skili tilætluðum árangri og að rekstur og afkoma sé í samræmi við fjárveitingar og áætlanir sem samþykktar hafa verið.

Auglýsing um skiptingu fjárheimilda fjárlaga í fjárveitingar

Innan tveggja vikna eftir að fjárlög eru samþykkt á Alþingi uppfærir fjármála- og efnahagsráðherra fylgirit með frumvarpi til fjárlaga á grundvelli tillagna frá hlutaðeigandi ráðherra. Hver ráðherra upplýsir ríkisaðila og ábyrgðaraðila verkefna um skiptingu fjárheimilda málaflokka í fjárveitingar til einstakra ríkisaðila og verkefna, samkvæmt auglýsingu, og ber ábyrgð á færslu fjárveitinga í fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins.

Millifærsla fjárveitinga

Hverjum ráðherra er heimilt að breyta skiptingu fjárveitinga innan málaflokks enda sé ekki um að ræða millifærslu fjárveitinga milli rekstrar, tilfærslna eða fjárfestinga. Í kjölfarið er rekstraráætlun uppfærð til samræmis við ákvörðunina. Fjármála- og efnahagsráðherra annast birtingu ákvarðana og upplýsir fjárlaganefnd Alþingis um þær.

Heimild til flutnings fjárheimilda milli ára

Hafi fjárheimild ekki verið nýtt að fullu í árslok getur hlutaðeigandi ráðherra óskað eftir því við fjármála- og efnahagsráðherra að ónýttum hluta hennar verði ráðstafað á næsta ári í heild eða hluta. Skilyrði er um að henni sé ráðstafað til þess að mæta útgjöldum sem hafa frestast eða fyrir liggi skýr hagkvæmnisrök. Fjármála- og efnahagsráðherra gerir fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir meðferð og uppgjöri fjárheimilda og annast birtingu breytinga.

Stefnumótun ríkisaðila til þriggja ára

Ár hvert móta ríkisaðilar stefnu fyrir starfsemi sína næstu þrjú ár hið minnsta. Í stefnunni er m.a. greint frá markmiðum og almennum áherslum og hvernig þeim verði náð með tilliti til áætlaðra fjárveitinga. Stefnumótunin er staðfest af hlutaðeigandi ráðherra sem gætir þess að markmið og áherslur séu í samræmi við gildandi stefnu fyrir það málefnasvið sem við á.

Ársáætlanir ríkisaðila í A-hluta

Eftir að frumvarp til fjárlaga hefur verið lagt fram leggja ríkisaðilar fyrir hlutaðeigandi ráðherra áætlun um starfsemi sína fyrir komandi fjárlagaár, þar sem rekstur er lagaður að fjárveitingum. Hlutaðeigandi ráðherra setur tímafresti um skil ársáætlunar og tekur afstöðu til hennar. Endanlegt samþykki áætlunar þarf liggja fyrir eigi síðar en 31. desember ár hvert og áætlun stofnunar þar með lesin inn í Orra, fjárhagskerfi ríkisins.

Mat á útgjaldahorfum til lengri tíma

Hver ráðherra metur langtímahorfur um fjárhagslega framvindu á þeim málefnasviðum og innan þeirra málaflokka sem hann ber ábyrgð á. Hann greinir jafnframt þá áhættuþætti sem valdið geta frávikum frá áætlunum eða falið í sér fjárhagslegar skuldbindingar sem raskað gætu áætlunum um afkomu ríkissjóðs til lengri tíma. Einstakir fagráðherrar tilkynna fjármála- og efnahagsráðherra um hugsanlega áhættuþætti og gera tillögur um hvernig brugðist verði við þeim. Fjármála- og efnahagsráðherra gerir ríkisstjórn og fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir slíkum áhættuþáttum og tillögum um viðbrögð við þeim.

Eftirlit með fjármálum innan fjárlagaárs

Hver ráðherra skal hafa reglubundið eftirlit með fjárhag ríkisaðila sem honum tilheyra og greina og bregðast við áhættu og veikleikum í rekstri. Ef hætta er á að útgjöld verði umfram fjárveitingar leitar ráðherra leiða til að lækka gjöld innan ársins, millifæra fjárveitingar innan málaflokka eða nýta varasjóði þannig að útgjöld verði ekki umfram fjárveitingar. Hver ráðherra skilar greinargerð til fjármála- og efnahagsráðherra um samanburð raunútgjalda og fjárheimilda fyrir þá málaflokka sem undir þá heyra fyrir hvern ársfjórðung þar sem byggt er á útgefnu uppgjöri ríkissjóðs fyrir sama tímabil. Fjármála- og efnahagsráðherra upplýsir ríkisstjórn og fjárlaganefnd Alþingis, eins oft og ástæða er til en ekki sjaldnar en ársfjórðungslega, um framkvæmd fjárlaga og fjárhagslega framvindu ríkissjóðs. Ef fjárlaganefnd Alþingis óskar eftir upplýsingum gerir hver ráðherra grein fyrir framkvæmd fjárlaga á sínu málefnasviði.

Upplýsingaskylda, frávik frá rekstraráætlunum ríkisaðila í A-hluta

Forstöðumaður ríkisaðila upplýsir hlutaðeigandi ráðherra án tafar um frávik frá rekstraráætlun, ástæður þeirra og hvernig fyrirhugað er að bregðast við þeim. Ráðherra ber aðupplýsa forstöðumann innan 15 daga um afstöðu sína til fyrirhugaðra viðbragða. Fallist hann ekki á tillögurnar skal hann, innan sama tímafrests, leggja fyrir forstöðumanninn að bregðast við með nánar tilgreindum hætti þannig að settum markmiðum verði náð.

Ábyrgð forstöðumanna og stjórna ríkisaðila

Í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er kveðið á um ábyrgð forstöðumanna ríkisaðila í A-hluta. Ábyrgðin nær m.a. til þess að rekstur og fjárstýring ríkisaðila sé skilvirk og í samræmi við samþykktar áætlanir. Þá skal bókhald ríkisaðila gefa sem réttasta mynd af fjárhagsstöðu og ársreikningur gerður í samræmi við lög og skilað til hlutaðeigandi ráðherra. Ennfremur skulu mánaðarleg og ársfjórðungsleg uppgjör gefa sem gleggsta mynd af fjárhagsstöðu og skuldbindingum ríkisaðila á hverjum tíma.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum