Hoppa yfir valmynd

Félög í eigu ríkisins

Íslenska ríkið á alfarið eða ráðandi eignarhluti í 35 félögum með mismunandi starfsemi og markmið. Félögin eru mörg stór og áhrifamikil á íslenskum markaði og gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Orkufyrirtæki í eigu ríkisins eru t.d. miðlæg í raforkuframleiðslu og dreifingu í landinu og veita almenningi og atvinnulífinu grunnþjónustu, í samkeppni við einkafyrirtæki. Þá sinnir Ríkisútvarpið ohf. menningar- og almannaþjónustuhlutverki á sama tíma og það keppir við einkafyrirtæki á afþreyingarmarkaði sem er í mikilli þróun. Íslandspóstur hf. sinnir alþjónustuhlutverki á póstmarkaði, en er einnig í samkeppnisrekstri á sviði flutningaþjónustu og hraðsendingaþjónustu. Vegna þessa samspils almannaþjónustuhlutverks og samkeppnishlutverks félaga í eigu ríkisins er mikilvægt að vel sé haldið um eignarhald þeirra.

Eignir ríkisfélaga

Heildareignir ríkisfélaga árið 2018 námu um 4.953 ma.kr., eigið fé samtals um 996 ma.kr. og stöðugildi voru um 7.000. Stærsta fyrirtæki ríkisins hvað varðar bæði eignir (1.326 ma.kr.) og eigið fé (240 ma.kr.) er Landsbankinn hf, en minnstu félögin eru með eignir undir 100 m.kr. Tölur úr ársreikningum félaga í eigu ríkisins er að finna í kaflanum „Ársreikningar ríkisaðila utan A-hluta“ í ríkisreikningi. 

Fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins mynda stærsta hluta hreinna eigna ríkisins í félögum eða 60% af heildar eigin fé (um 600 ma.kr.), en þar á meðal eru t.d. Íslandsbanki, Landsbanki, sem og Seðlabanki Íslands. Fyrirtæki í orkugeiranum eru með næst stærsta hluta eigin fjár félaga í eigu ríkisins eða um 30% (300 ma.kr.) og er Landsvirkjun þar langstærst (um 252 ma.kr. eigið fé), en Orkubú Vestfjarða minnst (um 6 ma.kr.).

 
 

Arðsemi félaga í eigu ríkisins er misjöfn og fer að einhverju leyti eftir því hvert markmið ríkisins með rekstri félaganna er. Meðaltalsarðsemi eigin fjár ríkisfélaga er um 10%.

Hlutverk félaga í ríkiseigu

Markmið ríkisins með eignarhaldi félaga fer eftir eðli félaganna. Um mörg þeirra gilda sérlög og eru þar raktar forsendur fyrir stofnun og eignarhaldi ríkisins. Meirihluti ríkisfélaga eru hlutafélög, einkahlutafélög eða opinber hlutafélög og starfa samkvæmt viðeigandi hlutafjárlögum.

Sum félög, t.d. Náttúruhamfaratrygging Íslands, eru nánast alfarið í almannaþjónustuhlutverki, önnur starfa að hluta til á samkeppnismarkaði og að hluta til á grundvelli þjónustusamnings við ríkið um að veita vissa lágmarksþjónustu til almennings, t.d. RÚV og Isavia.

Nokkur félög starfa nánast alfarið á samkeppnismarkaði en gegna t.d. vissu svæðisbundnu þjónustuhlutverki, svo sem Orkubú Vestfjarða.

Loks eru einnig félög í eigu ríkisins vegna markaðsbrests. Fjármálageirinn er gott dæmi um þetta, en flest fjármálafyrirtæki landsins lentu hjá ríkinu árið 2008 eftir hrun fjármálakerfisins og hefur verið unnið markvisst að því að endurskipuleggja þennan geira síðan. Markmiðið þar er því að losa að mestu um eignarhald ríkisins um leið og viðunandi skilyrði verða fyrir hendi.

Eigandastefnur

Fjármála- og efnahagsráðherra mótar almenna eigandastefnu fyrir öll félög í eigu ríkisins en kveðið er á um það í 44. gr. laga um opinber fjármál. Meginstefnan er sú að eignafyrirsvar félaga ríkisins liggi hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Með þessu er skilið milli þeirra markmiða og skyldna sem ríkið hefur sem faglegur og hæfur eigandi félaga og þess lögbundna hlutverks að sjá um reglusetningu og eftirlit með starfsháttum einstakra atvinnugreina og félaga.

Fyrsta eigandastefna ríkisins var sett árið 2009 og gilti hún fyrir fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins sem voru og eru í umsjá Bankasýslu ríkisins. Eigandastefna fyrir fjármálafyrirtæki var uppfærð árið 2017. Fyrsta almenna eigandastefna ríkisins fyrir hlutafélög og samlagsfélög var sett árið 2012 í samræmi við almennt viðurkennda stjórnarhætti fyrir opinber fyrirtæki. Í báðum þessum stefnum er skýrt tekið á þeim markmiðum að skipta upp hlutverkum um regluverk, eftirlit, faghlutverk, eigandahlutverk og stjórnun varðandi opinber fyrirtæki, sérstaklega þannig að ábyrgðaskil milli eiganda, stjórnar og stjórnenda séu sem skýrust. Einnig eru settar fram þær meginreglur sem ríkið ætlar félögum í sinni eigu að fylgja. Eigandastefnur ríkisins sæta reglulegri endurskoðun.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira