Hoppa yfir valmynd

Félög í eigu ríkisins

Íslenska ríkið á alfarið eða ráðandi eignarhluti í 44 fyrirtækjum með mismunandi starfsemi og markmið. Fyrirtækin eru mörg stór og áhrifamikil á íslenskum markaði og gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu.

Orkufyrirtæki í eigu ríkisins eru t.d. miðlæg í raforkuframleiðslu og dreifingu í landinu og veita almenningi og atvinnulífinu grunnþjónustu, í samkeppni við einkafyrirtæki. Þá sinnir Ríkisútvarpið ohf. menningar- og almannaþjónustuhlutverki á sama tíma og það keppir við einkafyrirtæki á afþreyingarmarkaði sem er í mikilli þróun. Íslandspóstur hf. sinnir alþjónustuhlutverki á póstmarkaði, en er einnig í samkeppnisrekstri á sviði flutningaþjónustu og hraðsendingaþjónustu.

Vegna þessa samspils almannaþjónustuhlutverks og samkeppnishlutverks félaga í eigu ríkisins er mikilvægt að vel sé haldið um eignarhald þeirra.

Ársskýrsla ríkisfyrirtækja 2022

Í ársskýrslu ríkisfyrirtækja sem gefin er út af fjármála- og efnahagsráðuneytinu er fjallað ítarlega um ríkisfyrirtækin. Í skýrslunni eru birtar upplýsingar um ríkisfyrirtæki í A3, B og C hluta ríkissjóðs, en þar eru að langmestu leyti hlutafélög, opinber hlutafélög og sameignarfélög, en einnig stofnanir með ákveðið þjónustuhlutverk. Við umfjöllun um ríkisfyrirtæki eru hér notuð orðin félög og fyrirtæki óháð hvaða form er á rekstri þessara aðila.

Stjórnarskipan í ríkisfélögum

Hlutverk stjórnar í félögum í eigu ríkisins er að gæta hagsmuna félags í hvívetna. Samkvæmt eigandastefnu ríkisins skal velja einstaklinga í stjórn félags með fjölbreytta, víðtæka og góða þekkingu og reynslu af rekstri sem hæfir starfssviði félagsins. Huga skal að jafnréttissjónarmiðum og þess gætt að störf þeirra valdi ekki hagsmunaárekstrum við önnur störf. Stjórn félags ber ábyrgð á og hefur forystu um að móta stefnu og setja félaginu markmið í samræmi við eigandastefnu ríkisins.

Í myndinni hér að neðan er hægt að skoða samsetningu einstaka stjórna með tilliti til kynjaskiptingar. Smellið á hnappana „Stjórnarformaður“ eða „Stjórn“ eftir því sem við á og dökkur litur gefur til kynna hvort valið er. Hægt er að sjá kynjaskiptingu einstakra stjórna og nafnalista yfir stjórnarmenn með því að velja viðkomandi fyrirtæki. Einnig er yfirlit yfir þróun á kynjaskiptingu stjórna síðastliðin ár.

Stjórnir í félögum ríkisins 2023-2024 

Eignir ríkisfyrirtækja

Heildareignir ríkisfyrirtækja árið 2022 námu um 4.460 ma.kr., eigið fé samtals um 931 ma.kr. og stöðugildi voru um 5.312. Stærsta fyrirtæki ríkisins hvað varðar eignir (1.787 ma.kr.) er Landsbankinn hf. en fjölmennasti vinnustaðurinn 2022 var Isavia með starfsfólk sem nemur 1.247 stöðugildum sem er um 23% af heildarstöðugildum fyrirtækja í eigu ríkisins. Upplýsingar úr ársreikningum félaga í eigu ríkisins er að finna í ríkisreikningi í skýringu 15 „Áhrif af rekstri hlutdeildar- og dótturfélaga“ á bls. 43 ásamt séryfirliti 10 og 11 um rekstur og efnahag félagana á bls. 179 og 181. Nánari upplýsingar um eignarhlut ríkissjóðs og rekstur ríkisfyrirtækja er að finna í ársskýrslu ríkisfyrirtækja.

Eftirlitsskyld fjármálafyrirtæki nota CAD hlutfall þar sem mat á áhættu er reiknað inn í eiginfjárhlutfallið samkvæmt tilmælum Seðlabanka Íslands.
Eiginfjárhlutfall (CAD) Íslandsbanka er 22,2%
Eiginfjárhlutfall (CAD) Landsbankans er 24,7%

Arðsemi félaga í eigu ríkisins er misjöfn og fer að einhverju leyti eftir því hvert markmið ríkisins með rekstri félaganna er. Meðaltalsarðsemi eigin fjár ríkisfélaga er um 6,6%.

Eignarhald ríkisins

Fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með eignarhald félaga í eigu ríkisins nema lög mæli fyrir um annað. Markmiðið með þessu fyrirkomulagi er að halda utan um félög ríkisins á miðlægan hátt og skilja sem mest á milli faglegrar umsýslu félaga af hálfu ríkisins og þess lögbundna hlutverks þess að sjá um reglusetningu og eftirlit með starfsháttum einstakra atvinnugreina. Setning almennrar eigandastefnu fyrir öll félög í eigu ríkisins er einn lykilþátta í meðferð eignarhaldsins. Fjármála- og efnahagsráðherra mótar stefnuna í samræmi við 44. gr. laga um opinber fjármál nr. 123/2015.

Ríkið á nú þegar þýðingarmikil félög í íslensku atvinnulífi og gegna sum þeirra mikilvægu kerfislegu hlutverki í samfélaginu auk þess að starfa á samkeppnismarkaði. Þá hefur ör þróun í tækni og neytendahegðun mikil áhrif á rekstur og rekstrargrundvöll fyrirtækja og á það sama við um opinber fyrirtæki. Því er mikilvægt að vel sé haldið utan um eignarhald á ríkisfélögum.

Grundvöllur eignarhalds ríkisins

Forsendur fyrir eignarhaldi ríkisins á einstökum félögum geta verið mjög ólíkar, auk þess sem rök fyrir eignarhaldinu geta breyst með tímanum. Í öllum tilvikum fer ríkið þó með eignarhaldið í þágu almannahagsmuna. Mikilvægt er því að eignarhald ríkisins á félögum byggi á skýrum og hlutlægum forsendum sem unnt er að réttlæta með vísan til almannahagsmuna. Í samræmi við það er mikilvægt að forsendur eignarhalds séu metnar reglulega með tilliti til breyttra aðstæðna.

Almennar forsendur eignarhalds

Þeim almennu forsendum sem eiga við um eignarhald ríkisins á félögum er hér skipt í fjóra meginflokka. Nokkuð breytilegt getur verið hversu margar af þessum forsendum eiga við um einstök félög. Ljóst er hins vegar að upphaflegar forsendur eignarhalds á einstökum félögum kunna að breytast með tímanum. Hér á eftir eru dregnar fram helstu almennu forsendur fyrir eignarhaldi ríkisins í félögum og sett fram dæmi.

Almannahagsmunir og þjónusta

 • Að byggja upp og reka nauðsynlega þjónustu sem tryggir aðgengi almennings að henni á viðunandi verði. Dæmi: að tryggja örugg fjarskipti milli Íslands og annarra landa eða tryggja raforkudreifingu á landsbyggðinni.
 • Að tryggja framkvæmd samfélagslegrar stefnu á tilteknum sviðum. Dæmi: eignarhald á fyrirtækjum sem framfylgja stefnu í áfengis- og tóbaksmálum eða stuðla að vernd og nýtingu gamalla bygginga.
 • Að tryggja yfirráð yfir mikilvægum auðlindum og hámarka virði þeirra. Dæmi: eignarhald á krítískum orkufyrirtækjum sem stuðla að orkusjálfbærni, orkuöryggi og nýsköpun.

Markaðsbrestur

 • Að stuðla að því að starfsemi sem býr við náttúrulega einokun þjóni almannahagsmunum. Dæmi: að framfylgja orkustefnu um að flutningskerfi raforku verði í opinberri eigu.
 • Að draga úr neikvæðum afleiðingum markaðsbrests. Staða fjármálafyrirtækja eftir hrun fjármálakerfisins er lýsandi dæmi um tímabundinn markaðsbrest sem olli því að flest fjármálafyrirtæki landsins komust í ríkiseigu.
 • Að tryggja fjármögnun þar sem stærð verkefna, áhætta og aðrir þættir geta valdið því að erfitt getur verið fyrir einkafyrirtæki að fjármagna þau á hefðbundnum markaðsforsendum. Söguleg dæmi um þetta eru t.a.m. stærri samgöngumannvirki, virkjanir og fjarskiptakerfi.

Innviðir og atvinnuþróun

 • Að tryggja að tiltekin fyrirtæki viðhaldi starfsemi í landinu og mikilvægum innviðum, þjónustu og þekkingu. Dæmi: í eigandastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki er gert ráð fyrir að ríkið haldi vissum hlut í viðskiptabanka til framtíðar.
 • Að tryggja að uppbygging og yfirráð tiltekinna lykilinnviða verði á grundvelli langtímahags-muna samfélagsins frekar en skammtímahagnaðarsjónarmiða. Dæmi: þessi forsenda er ein ástæða eignarhalds ríkisins í flugvallarstarfsemi, orkuflutningi og sæstrengjum.
 • Að stuðla að atvinnuþróun og uppbyggingu tiltekinna atvinnugreina. Dæmi: eignarhald í starfsemi fjárfestingarsjóða og rannsóknar- og þróunarstarfsemi..

Afmörkuð opinber verkefni

 • Að vinna að tilteknum verkefnum ríkisins eða samstarfsverkefni með öðrum aðilum. Dæmi: eignarhald á Kadeco og Betri samgöngum ohf.
 • Þróun og umsýsla fasteigna. Dæmi: Harpa.

Endurmat á eignarhaldi ríkisins í félögum

Ljóst er að upphaflegar forsendur eignarhalds á einstökum félögum kunna að breytast með tímanum eða verða úreltar. Í slíkum tilvikum er eðlilegt að endurmeta kosti þess að starfsemi sé komið fyrir í félagi sem er að öllu leyti eða að meiri hluta í eigu ríkisins og að slíkt endurmat sé gert á hlutlægan hátt út frá eftirfarandi sjónarmiðum:

Breytingum í ytra umhverfi fyrirtækja

 • Tækniþróun, breyttar neysluvenjur eða breytt samkeppnisumhverfi getur leitt til endurmats á eignarhaldi.

Auknum möguleikum til að tryggja framgang markmiða með öðrum hætti en eignarhaldi

 • Eðlilegt er að ríkið endurskoði öðru hvoru hvort enn sé ástæða til þess að starfsemi sé rekin í félagaformi, hvort rétt sé að hún eigi betur heima undir hinum almenna rekstri ríkisins eða hvort einkaaðilar geti sinnt henni á viðunandi hátt.

Breyttri stefnu um hlutverk ríkisins

 • Ríkið hefur látið af margvíslegri atvinnustarfsemi vegna breyttrar stefnu og má þar nefna skipaútgerð og bókaútgáfu.

Fyrirtæki í eigu ríkisins

Skipulag eigandahlutverksins

Umgjörð og skipulag eigandahlutverksins þarf að vera skýrt og er hér fjallað um þá lykilaðila sem helst koma að meðferð eignarhluta í félögum í eigu ríkisins og eftirliti með umsýslu þeirra.

Alþingi

Alþingi tekur ákvörðun með fjárlögum um það hvort veita skuli söluheimild á eignarhlutum ríkisins í einstökum félögum í samræmi við lög. Slík heimild, eða eftir atvikum sérlög um sölu einstakra eignarhluta, er grundvöllur þess að ríkissjóður geti selt hluti í félögum. Það sama gildir um kaupheimildir í félögum fyrir hönd ríkisins.

Alþingi hefur almennt eftirlit með því hvernig stjórnvöld sinna eigandahlutverki sínu og getur í því sambandi krafið fjármála- og efnahagsráðherra og önnur stjórnvöld upplýsinga. Beiðni um upplýsingar sem varða einstök félög skal send því stjórnvaldi sem fer með eignarhald viðkomandi félags.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með fyrirsvar mála er varða félög í eigu ríkisins gagnvart Alþingi og nefndum þess.

Ráðherra setur félögum í eigu ríkisins almenna eigandastefnu. Í eigandastefnunni er mælt fyrir um áherslur sem ríkið leggur til grundvallar við meðferð eignarhluta og við rekstur, stjórnun og starfshætti félaga af hálfu stjórna og stjórnenda þeirra. Ráðherra setur einnig eigandastefnu fyrir fjármálafyrirtæki sem Bankasýsla ríkisins hefur umsjón með.

Ef fyrirhuguð er sala á eignarhlutum í félagi að meiri hluta í eigu ríkisins skal ráðherra leggja fram til Alþingis lagafrumvarp um fyrirhugaða sölu. Að lokinni sölu gerir ráðherra fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir niðurstöðum hennar.

Ráðherra kýs einstaklinga til setu í stjórnum félaga í eigu ríkisins á grundvelli hæfis, hæfni og sjónarmiða um samsetningu stjórna.

Bankasýsla ríkisins fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum í samræmi við lög og eigandastefnu ríkisins.

Í nokkrum tilfellum fara önnur ráðuneyti en fjármála- og efnahagsráðuneytið með fyrirsvar eignarhalds og koma því að ábyrgðar- og ákvörðunarferli þeirra fyrirtækja.

Ráðherra upplýsir ráðherranefnd og ríkisstjórn um einstök stærri mál eftir því sem þörf krefur.

Stjórnir

Félög í eigu ríkisins starfa á ábyrgð stjórna og stjórnenda í samræmi við eigandastefnu ríkisins og almenn viðmið um góða stjórnarhætti. Hlutverk stjórna er að vinna að framgangi félaganna í samræmi við lög, reglur, samþykktir og leiðbeinandi tilmæli sem um starfsemina gilda.

Meginskipulag ábyrgðar- og ákvörðunarferils

Skipurit

Markmið með eignarhaldi ríkisins

Markmið ríkisins með eignarhaldi félaga fer eftir eðli fyrirtækjanna. Um mörg þeirra gilda sérlög og eru þar raktar forsendur fyrir stofnun og eignarhaldi ríkisins. Meirihluti ríkisfélaga eru hlutafélög, einkahlutafélög eða opinber hlutafélög og starfa samkvæmt viðeigandi almennum lögum og sérlögum.

Mikilvægt er að eignarhald ríkisins á félögum sé byggt á skýrum grundvelli og að markmið ríkisins sem eiganda félaga séu gagnsæ og fyrirsjáanleg. Í öllum tilvikum er mikilvægt að umsýsla eignarhluta ríkisins í félögum sé fagleg, traust og með það að leiðarljósi að hámarka arðsemi þeirra, enda um verðmætar samfélagseignir að ræða. Meginmarkmið ríkisins sem eiganda í félögum eru:

 • Að umsýsla ríkisins með eignarhluti í félögum stuðli að trausti og trúverðugleika.
 • Að stuðla að samkeppni.
 • Að stuðla að hagkvæmni í rekstri og fjárfestingum að teknu tilliti til hlutverks og áhættu.
 • Að fjárfestingarstig samræmist hagstjórnarlegum markmiðum stjórnvalda.
 • Að stuðla að samfélagslegum og umhverfislegum markmiðum stjórnvalda.

Eigandastefnur

Fjármála- og efnahagsráðherra mótar almenna eigandastefnu fyrir öll félög í eigu ríkisins en kveðið er á um það í 44. gr. laga um opinber fjármál. Meginstefnan er sú að eignafyrirsvar félaga ríkisins liggi hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Með þessu er skilið milli þeirra markmiða og skyldna sem ríkið hefur sem faglegur og hæfur eigandi félaga og þess lögbundna hlutverks að sjá um reglusetningu og eftirlit með starfsháttum einstakra atvinnugreina og félaga.

Fyrsta eigandastefna ríkisins var sett árið 2009 og gilti hún fyrir fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins sem voru og eru í umsjá Bankasýslu ríkisins. Eigandastefna fyrir fjármálafyrirtæki  var uppfærð árið 2020. Fyrsta almenna eigandastefna ríkisins fyrir hlutafélög og sameignarfélög var sett árið 2012 í samræmi við almennt viðurkennda stjórnarhætti fyrir opinber fyrirtæki en stefnan var uppfærð árið 2021. Í báðum þessum stefnum er skýrt greint frá markmiðum ríkisins sem eiganda og meginreglum eigandastefnu sem ríkið ætlar félögum í sinni eigu að fylgja.

Almennri eigandastefnu skulu fylgja viðaukar þar sem fjallað er ítarlegar um seinstök mál, einstaka geira og stærri félög. Viðauki við eigandastefnu ríkisins - Isavia ohf.  tók gildi 2021.

Meginreglur eigandastefnu

Í ljósi hins opinbera eignarhalds er mikilvægt að áherslur við stjórn og starfsemi félags styðji við og vinni að markmiðum eiganda með eignarhaldinu. Meginreglur þær sem hér eru settar fram byggja á sjónarmiðum um góða og árangursríka starfshætti félaga í opinberri eigu.

 1. Jafnræðis skal gætt í samskiptum eigenda og milli eiganda og félags.
 2. Viðhafa skal skýr ábyrgðarskil og stjórnunarlegan aðskilnað milli eiganda og félags, sem og milli stjórnar og stjórnenda.
 3. Viðhafa skal opna stjórnarhætti, gagnsæi og jafnræði við stjórn félags.
 4. Stjórn félags skal vera sjálfstæð í störfum sínum og bera ábyrgð á starfsemi og rekstri gagnvart eiganda.
 5. Félag skal starfa í samræmi við eigandastefnu og árangursviðmið eiganda.
 6. Félag skal vinna að þeim samfélagslegu markmiðum sem eigandi stefnir að með eignarhaldinu.
 7. Samfélagsleg verkefni sem félagi eru falin skulu fjármögnuð með beinum framlögum í þeim mæli sem tekjur standa ekki undir kostnaði.
 8. Viðskipti milli eiganda og félags eða milli félagsins og annarra félaga í eigu ríkisins skulu fara fram á gagnsæjan hátt og á markaðsforsendum.
 9. Stjórn félags skal skipuð hæfum einstaklingum, því sem næst jafnmörgum konum og körlum, með góða þekkingu og haldgóða reynslu sem hæfir á viðkomandi sviði.
 10. Félag skal setja sér starfskjarastefnu sem er samkeppnishæf, en hófleg og ekki leiðandi.
 11. Félag skal stefna að því að auka samkeppni og draga úr fákeppni með starfsemi sinni.
 12. Félag skal gæta hlutlægni og jafnræðis við innkaup og ráðstöfun eigna og aðrar fjárhagslegar ráðstafanir.

Ársskýrsla ríkisfyrirtækja 2022

Í ársskýrslu ríkisfyrirtækja eru birtar upplýsingar um ríkisfyrirtæki í A3, B og C hluta ríkissjóðs.

Ársskýrsla ríkisfyrirtækja 2022

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum