Hoppa yfir valmynd

Félög í eigu ríkisins

Íslenska ríkið á alfarið eða ráðandi eignarhluti í 36 fyrirtækjum með mismunandi starfsemi og markmið. Fyrirtækin eru mörg stór og áhrifamikil á íslenskum markaði og gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Orkufyrirtæki í eigu ríkisins eru t.d. miðlæg í raforkuframleiðslu og dreifingu í landinu og veita almenningi og atvinnulífinu grunnþjónustu, í samkeppni við einkafyrirtæki. Þá sinnir Ríkisútvarpið ohf. menningar- og almannaþjónustuhlutverki á sama tíma og það keppir við einkafyrirtæki á afþreyingarmarkaði sem er í mikilli þróun. Íslandspóstur hf. sinnir alþjónustuhlutverki á póstmarkaði, en er einnig í samkeppnisrekstri á sviði flutningaþjónustu og hraðsendingaþjónustu. Vegna þessa samspils almannaþjónustuhlutverks og samkeppnishlutverks félaga í eigu ríkisins er mikilvægt að vel sé haldið um eignarhald þeirra.

Í ríkisreikningi eru birtar upplýsingar um ríkisfyrirtæki í B og C hluta ríkissjóðs, en þar eru á ferðinni að langmestu leyti hlutafélög, opinber hlutafélög og sameignarfélög, en einnig stofnanir, eða sjóðir með viss þjónustuhlutverk. Við umfjöllun um alla þessa aðila eru hér notuð orðin félög og fyrirtæki óháð hvaða form er á rekstri þessara aðila.

Stjórnarskipan í ríkisfélögum

Hlutverk stjórnar í félögum í eigu ríkisins er að gæta hagsmuna félags í hvívetna. Samkvæmt eigandastefnu ríkisins skal velja einstaklinga í stjórn félags með fjölbreytta, víðtæka og góða þekkingu og reynslu af rekstri sem hæfir starfssviði félagsins. Huga skal að jafnréttissjónarmiðum og þess gætt að störf þeirra valdi ekki hagsmunaárekstrum við önnur störf. Stjórn félags ber ábyrgð á og hefur forystu um að móta stefnu og setja félaginu markmið í samræmi við eigandastefnu ríkisins.

Í myndinni hér að neðan er hægt að skoða samsetningu einstaka stjórna með tilliti til kynjaskiptingar. Smellið á hnappana „Stjórnarformaður“ eða „Stjórn“ eftir því sem við á og dökkur litur gefur til kynna hvort valið er. Hægt er að sjá kynjaskiptingu einstakra stjórna og nafnalista yfir stjórnarmenn með því að velja viðkomandi fyrirtæki. Einnig er yfirlit yfir þróun á kynjaskiptingu stjórna síðastliðin ár.

Stjórnir í félögum ríkisins 2019-2020 

 
 

Eignir ríkisfyrirtækja

Heildareignir ríkisfyrirtækja árið 2018 námu um 4.953 ma.kr., eigið fé samtals um 996 ma.kr. og stöðugildi voru um 6.400. Stærsta fyrirtæki ríkisins hvað varðar bæði eignir (1.326 ma.kr.) og eigið fé (240 ma.kr.) er Landsbankinn hf. en fjölmennasti vinnustaðurinn er Isavia með starfsfólk sem nemur 1.430 stöðugildum sem er yfir 20% af heildarstöðugildum fyrirtækja í eigu ríkisins. Upplýsingar úr ársreikningum félaga í eigu ríkisins er að finna í ríkisreikningií skýringu 18. „Eignarhlutir í félögum“ á bls. 46 ásamt séryfirliti 7 og 8 um rekstur og efnahag félagana á bls. 150 og 151.

Fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins mynda stærsta hluta hreinna eigna eða 64% af heildar eigin fé, um 647 ma.kr. Fyrirtæki í orkugeiranum eru með næst stærsta hluta eigin fjár fyrirtækja í eigu ríkisins eða um 30% sem er um 300 ma.kr. en Landsvirkjun er þar langstærst með 252 ma.kr. eigið fé.

 
 
 
 

Arðsemi félaga í eigu ríkisins er misjöfn og fer að einhverju leyti eftir því hvert markmið ríkisins með rekstri félaganna er. Meðaltalsarðsemi eigin fjár ríkisfélaga er um 10%.

Markmið með eignarhaldi ríkisins

Markmið ríkisins með eignarhaldi félaga fer eftir eðli fyrirtækjanna. Um mörg þeirra gilda sérlög og eru þar raktar forsendur fyrir stofnun og eignarhaldi ríkisins. Meirihluti ríkisfélaga eru hlutafélög, einkahlutafélög eða opinber hlutafélög og starfa samkvæmt viðeigandi almennum lögum og sérlögum.

Mikilvægt er að eignarhald ríkisins á félögum sé byggt á skýrum grundvelli og að markmið ríkisins sem eiganda félaga séu gagnsæ og fyrirsjáanleg. Í öllum tilvikum er mikilvægt að umsýsla eignarhluta ríkisins í félögum sé fagleg, traust og með það að leiðarljósi að hámarka arðsemi þeirra, enda um verðmætar samfélagseignir að ræða. Meginmarkmið ríkisins sem eiganda í félögum eru:

  • Að umsýsla ríkisins með eignarhluti í félögum stuðli að trausti og trúverðugleika.
  • Að stuðla að samkeppni.
  • Að stuðla að hagkvæmni í rekstri og fjárfestingum að teknu tilliti til hlutverks og áhættu.
  • Að fjárfestingarstig samræmist hagstjórnarlegum markmiðum stjórnvalda.
  • Að stuðla að samfélagslegum og umhverfislegum markmiðum stjórnvalda.

Eigandastefnur

Fjármála- og efnahagsráðherra mótar almenna eigandastefnu fyrir öll félög í eigu ríkisins en kveðið er á um það í 44. gr. laga um opinber fjármál. Meginstefnan er sú að eignafyrirsvar félaga ríkisins liggi hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Með þessu er skilið milli þeirra markmiða og skyldna sem ríkið hefur sem faglegur og hæfur eigandi félaga og þess lögbundna hlutverks að sjá um reglusetningu og eftirlit með starfsháttum einstakra atvinnugreina og félaga.

Fyrsta eigandastefna ríkisins var sett árið 2009 og gilti hún fyrir fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins sem voru og eru í umsjá Bankasýslu ríkisins. Eigandastefna fyrir fjármálafyrirtæki var uppfærð árið 2020. Fyrsta almenna eigandastefna ríkisins fyrir hlutafélög og sameignarfélög var sett árið 2012 í samræmi við almennt viðurkennda stjórnarhætti fyrir opinber fyrirtæki. Í báðum þessum stefnum er skýrt greint frá markmiðum ríkisins sem eiganda og meginreglum eigandastefnu sem ríkið ætlar félögum í sinni eigu að fylgja.

Stjórnarlaun á mánuði og kynjaskipting 2018

Smellið á hnappana „Stjórnarformaður“ eða „Stjórnarmaður“ eftir því sem við á. Hægt er að sjá kynjaskiptingu einstakra stjórna með því að smella á nafn fyrirtækis í súluritinu.  

 
 

Yfirlit yfir fyrirtæki í eigu ríkisins 2018

 
 
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira