Hoppa yfir valmynd

Stafrænt Ísland og opinber þjónusta

Í nútímasamfélagi er þjónusta æ meir veitt með stafrænum hætti. Í norrænu velferðarsamfélagi líkt og á Íslandi þarf þjónustan að vera notendamiðuð og byggt á þörfum þeirra. Verkefnastofa um Stafrænt Ísland er ábyrg fyrir þróun á þjónustu Ísland.is

Ísland.is

Ísland.is er miðlæg þjónustugátt stjórnvalda. Þar má finna alla opinbera þjónustu á einum stað. Á mínum síðum Ísland.is, sem krefst innskráningar með rafrænum skilríkjum, er hægt að sækja gögn og upplýsingar sem tengjast einstaklingum og fyrirtækjum beint.

Hægt er að leita upplýsinga um þjónustu hins opinbera, réttindi og skyldur, eftir þjónustuflokkum eða lífsviðburðum, ganga frá umsóknum o.fl.

Aðgengi fyrir alla

Stafræn þjónusta auðveldar aðgengi flestra að þjónustu hins opinbera. Það á þó ekki við um alla hópa. Einstaklingar með skerta getu, hvort heldur líkamleg, andleg, fjárhagsleg eða félagsleg, hafa ekki endilega sama aðgengi að rafrænni þjónustu og aðrir. Því er mikilvægt að mæta þörfum þessa hóps svo að aðgengi fyrir alla sé náð.

Ráðist hefur verið í nokkur verkefni til að mæta þörfum þessa hóps.

Nýtt umboðskerfi

Af hálfu stjórnvalda hefur nú verið opnað umboðskerfi fyrir stafrænt pósthólf sem eykur rekjanleika auðkenningar eins og hægt er. Í umboðskerfi Ísland.is er eftirfarandi umboðsvirkni til staðar eða í vinnslu:

  1. Prókúruhafar fyrirtækja samkvæmt skráningu í fyrirtækjaskrá Skattsins hafa sjálfkrafa rafrænt umboð til að nálgast stafrænt pósthólf viðkomandi fyrirtækja. Innleiðingu lauk 2022.
  2.  Forráðamenn barna samkvæmt skráningu í Þjóðskrá hafa sjálfkrafa rafrænt umboð til að nálgast stafrænt pósthólf barna sinna. Innleiðingu lauk 2022.
  3. Allir einstaklingar með rafræn skilríki geta með upplýstu samþykki veitt öðrum einstaklingi, s.s. fjölskyldumeðlimi, rafrænt umboð til að nálgast stafrænt pósthólf fyrir sína hönd. Innleiðingu lauk 2022.
  4. Lögformlegir talsmenn fatlaðra einstaklinga skv. skráningu félags- og vinnumarkaðsráðuneytis hafa sjálfkrafa rafrænt umboð til að nálgast stafrænt pósthólf fyrir skjólstæðinga sína. Innleiðingu lauk 2022.
  5. Einstaklingum sem ekki hafa rafræn skilríki og falla ekki í einhvern ofangreindra hópa verður gefinn kostur á að afhenda undirritað umboð á pappír sem skráð verður í rafræna umboðskerfið. Innleiðing áætluð árið 2023.

Aðgangur og notkun á rafrænum skilríkjum er útbreidd á Íslandi, sem styður við notkun á stafrænni þjónustu. LINK: á Rafræn skilríki hér að neðan

Rafræn skilríki

Útbreiðsla rafrænna skilríkja á Íslandi er með því mesta sem þekkist í þeim löndum sem Ísland ber sig saman við, en aðgengi er yfir 95% þeirra sem eru 13 ára og eldri og eru með íslenska kennitölu.

*Hlutfall útgefinna rafrænna skilríkja getur verið hærri en 100% af skráðum einstaklingum á Íslandi þar sem hluti skilríkjaeigenda er búsettur erlendis.

Auðkenni ehf. gefur út rafræn skilríki til einstaklinga og eru þau í boði á Auðkenniskorti, á SIM korti og í Auðkennisappi. Algengasta leiðin í notkun er rafræn skilríki á SIM kortum en stuðningur við þá leið er breiður, einna helst í símtækjum. Við útgáfu skilríkja eru kröfur gerðar um að sannprófa kennsl einstaklinga og því verða aðilar að mæta í eigin persónu á skráningarstöð til að fá skilríki. Vegna þessa hefur áhersla verið lögð á af hálfu Auðkennis og stjórnvalda að aðgengi að skráningarstöðvum sé sem mest. Hægt er að nálgast rafræn skilríki á starfstöð Auðkennis, hjá fjarskiptafélögum og fjármálafyrirtækjum sem eru með útibú um allt land.

Stafrænt pósthólf

Árið 2021 voru samþykkt lög um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda. Með þeim er fest í sessi sýn stjórnvalda um að meginboðleið samskipta við einstaklinga og lögaðila verði stafræn og miðlæg á einum stað, gegnum stafrænt pósthólf á Ísland.is.
Á fyrsta innleiðingarárinu verður í forgangi að ljúka innleiðingu með þeim sem nú þegar hafa hafið birtingu í stafræna pósthólfinu. Jafnframt verður horft til þess að hefja innleiðingu hjá þeim aðilum sem eru tilbúnir til að tengjast stafræna pósthólfinu og þurfa að senda mikið magn gagna frá sér til einstaklinga og fyrirtækja.

Á árunum 2023 og 2024 er gert ráð fyrir að röð stofnana í innleiðingu fylgi annars vegar skiptingu þeirra niður á ráðuneyti en hins vegar skiptingu sveitarfélaga eftir landshlutum.

Stafrænt Ísland hefur yfirumsjón með innleiðingu stafræna pósthólfsins í samvinnu við ráðuneyti, stofnanir og sveitarfélög. Hlutverk Stafræns Íslands er að verkstýra innleiðingunni samkvæmt innleiðingaráætlun, veita ráðgjöf við tæknilega vinnu við að tengja upplýsingakerfi aðila við stafræna pósthólfið og leiðbeina aðilum varðandi notkun pósthólfsins. Hver aðili ber hins vegar ábyrgð á að forgangsraða sínu efni til birtingar í stafræna pósthólfinu ásamt innri vinnu við að koma efninu til birtingar.

Pósthólfið er aðgengilegt á Mínum síðum á Ísland.is og í appinu Ísland.is

Síðast uppfært: 2.4.2024 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum