Hoppa yfir valmynd

Fasteignaréttindi útlendinga

Öllum íslenskum ríkisborgurum er heimilt að eiga fasteign á Íslandi sem og erlendum ríkisborgurum sem hér eiga lögheimili. Kveðið er á um skilyrði fyrir því að mega eiga fasteign á Íslandi í lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna. Sérstakar reglur gilda um aðila sem sækja réttindi sín til EES-samningsins. Aðilar utan EES þurfa leyfi dómsmálaráðherra til að mega eiga hér fasteign.

Þann 31. janúar 2020 mun útganga Bretlands úr Evrópusambandinu taka gildi. Að því tilefni vill ráðuneytið taka fram að útgangan kemur ekki til með að raska rétti þeirra bresku ríkisborgara sem fyrir þann tíma hafa eignast fasteign hér á landi samkvæmt heimild í 2. tölul. 4. mgr. 1. gr. laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna nr. 19/1966, sbr. 6. tölul. 5. gr. laga um ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu nr. 121/2019.

Á aðlögunartímabili, sem er frá 31. janúar 2020 til 31. desember 2020, skulu breskir ríkisborgarar og lögaðilar njóta sömu réttinda og bera sömu skyldur og ríkisborgarar og lögaðilar frá aðildarríkjum Evrópusambandsins. Jafnframt er Bretland bundið af öllum alþjóðasamningum Evrópusambandsins þ.m.t. EES-samningnum.

Það verður því engin breyting á heimild breskra ríkisborgara til að eignast fasteign hér á landi fyrr en eftir 31. desember 2020, en eftir það tímamark verður staða þeirra sú sama og annarra ríkisborgara utan EES.


Heimildir

Skilyrði þess að geta öðlast eignar- eða afnotarétt yfir fasteign hér á landi er að finna í lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna. Þessi réttindi taka einnig til veiðiréttar, vatnsréttinda og annarra fasteignaréttinda, hvort sem er fyrir frjálsa afhendingu eða nauðungarráðstöfun, hjúskkap, erfðir eða afsal. Meginreglan samkvæmt lögunum er sú að íslenskum ríkisborgurum og erlendum ríkisborgurum sem eiga lögheimili á Íslandi er frjálst að eiga fasteign eða öðlast afnotarétt af fasteign á Íslandi. Lögaðilar þurfa að uppfylla tiltekin skilyrði til að mega eiga fasteign á Íslandi, sjá nánar hér.

Erlendir ríkisborgarar

Sérstakar reglur gilda um erlenda ríkisborgara og lögaðila sem njóta réttar skv. samningnum um evrópska efnahagssvæðið, EFTA-samningnum eða Hoyvíkur-samningnum milli Íslands og Færeyja og þurfa þeir ekki leyfi ráðherra að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Dómsmálaráðherra er heimilt að veita sérstakt leyfi fyrir eignarrétti eða afnotarétti ef sá sem hyggst kaupa fasteign fellur ekki undir meginreglu laganna eða framangreinda samninga. Ekki þarf þó leyfi þegar um er að ræða leigu á fasteign eða réttindi yfir henni og leigutími eða annar réttindatími er þrjú ár eða skemmri eða uppsögn áskilin með ekki lengri en árs fyrirvara.

Reglugerð um réttindi þeirra sem falla undir EES-samninginn

Njóti væntanlegur kaupandi eða leigjandi réttar hér á landi skv. reglum samnings um EES eða EFTA, þ.e. til frjálsra fólksflutninga, staðfesturéttar, þjónustustarfsemi eða fjármagnsflutninga eða Hoyvíkur-samningsins milli Íslands og Færeyja, er honum heimilt að eiga fasteign á Íslandi án sérstaks leyfis að tilteknum skilyrðum uppfylltum, sjá sérstaklega 2. – 4. gr. reglugerðar nr. 702/2002.

Um réttindi skv. EES- eða EFTA samningum gildir reglugerð nr. 702/2002, sjá einnig enska þýðingu á reglugerðinni.

Í þessum tilvikum ber að fylla út yfirlýsingu sem skila skal til þinglýsingar ásamt kaupsamningi eða leigusamningi. Sýnishorn yfirlýsinga fylgja reglugerðinni. Í yfirlýsingunni skal koma fram að viðkomandi einstaklingur/félag/stofnun uppfylli þær kröfur sem gerðar eru í reglugerð nr. 702/2000 til þeirra sem njóta þessara réttinda.

Leyfi ráðherra

Ef viðkomandi er hvorki íslenskur ríkisborgari né erlendur ríkisborgari með lögheimili á Íslandi eða á rétt skv. framangreindum samningum er unnt að sækja um leyfi ráðherra til þess að öðlast eignar- og/eða afnotarétt yfir fasteign hér á landi. Þetta á við í eftirfarandi tilvikum:

  • Ef umsækjandi hefur rétt til að stunda atvinnurekstur hér á landi og vill öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteign til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni eða til að halda þar heimili.
  • Ef annars þykir ástæða til.

Samningar, afsöl eða önnur heimildarskjöl vegna eignar- og afnotaréttinda sem eru háð leyfi, skv. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1966, öðlast ekki gildi fyrr en ráðherra hefur staðfest kaupin með áritun sinni á frumrit skjalanna.

Umsóknareyðublöð

Umsókn er hægt að fylla út á vefnum og senda skannaða í viðhengi á netfangið [email protected] eða með bréfi, sjá umsóknareyðublöð hér að neðan. Öll skjöl sem berast ráðuneytinu og eru ekki upphaflega á íslensku eða ensku skulu þýdd á annað hvort það tungumál af löggiltum skjalaþýðanda. Umsókn fer í vinnslu þegar öll gögn og upplýsingar, sem óskað er eftir á umsóknareyðublöðunum, hafa borist ráðuneytinu. 
 

Sjá einnig:

Fasteignaréttindi útlendinga

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira