Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 2. júlí 2021

Heil og sæl!

Við heilsum ykkur héðan af Rauðarárstígnum í blíðskaparveðri og hefjum þennan föstudagspóst á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra með Sviatlönu Tsikhanouskayu, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Belarús, sem fundaði í utanríkisráðuneytinu í morgun.

 

Staða mannréttinda í Belarús og stuðningur íslenskra stjórnvalda við málstað umbótahreyfinga þar í landi voru aðalumræðuefnið á fundi þeirra 

„Allt frá því að meingallaðar forsetakosningar voru haldnar í Belarús í fyrrasumar hafa íslensk stjórnvöld gagnrýnt framgöngu ríkisstjórnar Alexanders Lúkasjenkó og lýst yfir þungum áhyggjum af stöðu mannréttinda og lýðræðis þar. Við höfum um stutt málstað lýðræðisaflanna í landinu og í því skyni bauð ég Tsikhanouskayu í heimsókn til að heyra frá fyrstu hendi áform hennar og stöðumat,“ var haft eftir Guðlaugi Þór í fréttatilkynningu en hann ritaði einnig grein í Fréttablaðið í aðdraganda heimsóknarinnar.

Fjölmiðlar hafa fjallað ítarlega um heimsókn Tsikhanouskaya sem er hér á landi í boði Guðlaugs Þórs en sýnt var frá blaðamannafundi þeirra á Vísi og fréttir m.a. ritaðar um hann á RÚV og mbl.is.

Síðdegis átti Tsikhanouskaya fund með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og þá flutti hún erindi á opnum fundi Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands þar sem utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra flutti opnunarávarp.

Fundurinn setti punktinn aftan við annasama viku ráðherra sem flaug af landi brott á dögunum og sótti fundi norræna varnarsamstarfsins (NORDEFCO) og sameiginlegu viðbragðssveitarinnar (JEF) í vikunni.

„Samstaða vestrænna ríkja og mikilvægi þess að standa vörð um alþjóðakerfið sem byggir á alþjóðalögum er í brennidepli um þessar mundir. Gildin sem binda ríkin saman eru einstaklingsfrelsið, mannréttindin, lýðræðið og réttarríkið. Þetta á sannarlega við á vettvangi öryggis- og varnarmála og samstarf sem Ísland tekur þátt í. Þetta var eitt meginstefið á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins sem fram fór um miðjan júnímánuð og á fundum sem ég sótti í Finnlandi í vikunni á vettvangi norræna varnarsamstarfsins (NORDEFCO) og sameiginlegu viðbragðssveitarinnar (JEF),“ ritaði ráðherra í grein í Morgunblaðinu eftir fundina tvo.

NORDEFCO-fundurinn fór fram í Tuusula í útjaðri Helsinki og var það í fyrsta sinn sem varnarmálaráðherrar Norðurlandanna koma saman til fundar í persónu allt frá því í nóvember 2019. Finnland fer með formennsku í norræna varnarsamstarfinu í ár. Staða og framvinda samstarfsverkefna, samstarfið við Bandaríkin, fjölþáttaógnir og horfur í alþjóðamálum voru efst á baugi á fundinum sem lauk á miðvikudag.

„Norðurlöndin eru okkar nánustu vina- og samstarfsríki og við deilum sameiginlegri sýn á ástand öryggis- og varnarmála í okkar heimshluta,“ sagði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra m.a. eftir fundinn. 

Tveggja daga ráðherrafundi þátttökuríkja í sameiginlegu viðbragðssveitinni (Joint Expeditionary Force, JEF) lauk svo í Helsinki í gær. 

Á fundinum undirrituðu varnarmálaráðherrar þátttökuríkjanna formlega stefnumörkun samstarfsins þar sem lagður er grundvöllur fyrir frekari þróun þess. Í henni er áhersla lögð öryggispólitískt og hernaðarlegt samráð til að tryggja að ríkin búi jafnan yfir sameiginlegum skilningi á öryggisumhverfi þeirra. Sameiginleg gildi eru í hávegum höfð, lýðræðið og alþjóðakerfið sem byggir á alþjóðalögum.

Penninn var enn og aftur á lofti á þriðjudag. Í grein sem birtist á euobserver áréttuðu utanríkisráðherrar Norðurlandanna mikilvægi mannréttinda og þeirra lýðræðislegu gilda sem samstarf Evrópuþjóða í Evrópuráðinu byggist á í sameiginlegri grein. Í greininni snerta ráðherrarnir á þeirri neikvæðu þróun sem víða hefur orðið á mannréttindum og frelsi, oft í skjóli heimsfaraldursins, sem nauðsynlegt er að bregðast við með fjölþjóðlegri samvinnu.

Þá segjum við einnig hér frá ferð Katrínar Jakobsdóttur til Parísar í vikunni þar sem hún kynnti skuldbindingar íslenskra stjórnvalda í átaksverkefni UN Women Kynslóð jafnréttis á ráðstefnu franskra stjórnvalda. Íslensk stjórnvöld veita aðgerðabandalagi um kynbundið ofbeldi forystu og hafa unnið að megináherslum þess og mótun skuldbindinga að aðgerðum og verkefnum til næstu fimm ára. Skuldbindingarnar eiga hvoru tveggja við um aðgerðir sem hafa að markmiði að uppræta kynbundið ofbeldi og kynferðislega áreitni og ofbeldi hér á landi sem og verkefni sem unnin verða fyrir tilstilli alþjóðasamstarfs og í þróunarsamvinnu. Sendiskrifstofa okkar í París hefur haft í nógu að snúast í kringum heimsóknina.

Ánægjulegar fréttir bárust frá vettvangi Heimsljóss í gær þar sem Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, lofaði aðferðafræði Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu. Á vefgátt OECD sem ætlað er að auka skilvirkni þróunarsamvinnu er fjallað um svokallaða héraðsnálgun Íslands. Þar segir að héruðin sem njóti stuðnings standi sig verulega betur en önnur og tilgreind eru dæmi frá í Malaví og Úganda.

„Ísland, sem lítið framlagsríki, miðar að því að hámarka nýtingu takmarkaðs fjármagns og fylgja meginreglum um árangursríka þróunarsamvinnu, til að ná langtíma árangri sem byggist á forgangsröðun heimamanna, bæði á landsvísu og á sveitarstjórnarstigi,” segir á vefgátt OECD.

Þessu næst förum við yfir það sem starfsfólk sendiskrifstofa okkar hefur verið að bralla að undanförnu. 

Í Vín funduðu fastafulltrúar 57 aðildarríkja ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, í Hofburg og í tilefni af því að Anne Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, var á staðnum var efnt til hópmyndatöku. Kristín Árnadóttir er fastafulltrúi Íslands hjá ÖSE.

Í Brussel birti sendiráðið skemmtilegar myndir frá þjóðhátíðardeginum en sendiherrahjónarnir Kristján Andri og Davíð lögðu Íslandsfélaginu í Belgíu til garðinn við sendiherrabústaðinn fyrir hátíðahöldin. 

Kristján Andri tók einnig á dögunum þátt í opnun sýningarinnar „Onze IJslandvissers“ í Ostend með Bart Tommelein borgarstjóra en sýningin fjallar um sókn Belga á Íslandsmið sem hófst snemma á 19. öld og lauk ekki fyrr en 1995. 

Aftur að sendiherrabústöðum. Í Danmörku eru nýir hlaðvarpsþættir komnir í loftið, Mors afskedsbrev, þar sem fjallað er um fjölskyldu sem hefur sterkar tengingar við húsið á Fuglebakkevej í Frederiksberg sem gegnir hlutverki sendiherrabústaðar Íslands í Danmörku í dag. Nálgast má hlaðvarpið á helstu hlaðvarpsveitum eða hér

Í Þýskalandi kynnti María Erla Marelsdóttir sendiherra íslenskt sjávarfang á eyjunni Usedom við Eystrasaltið og fundaði með borgarstjóra Kaiserbäder og aðstoðarráðherra efnahags-, ferða- og heilbrigðismála sambandslandsins Mecklenburg-Vorpommern. Markmið heimsóknarinnar var að efla og styrkja tengsl við þetta vinsæla ferðamannasvæði, ekki síst hvað varðar viðskipti, menningu, nýsköpun og ferðamennsku. 

Í Englandi ferðist Sturla Sigurjónsson sendiherra í London til Grimsby en um aldaskeið hafa verið sterk tengsl á milli Íslands og Humberside-svæðisins. Þar í landi fór einnig fram sumarhátíð eigenda íslenskra hesta sem haldin var í Aston Le Walls í Northampton-skíri norður af Lundúnum. Sturla afhenti verðlaun og flutti stutt ávarp.

Í Washington hitti Bergdís Ellertsdóttir nokkra kollega sína þar sem m.a. var rætt um tengslin yfir Atlantshafið, aðgerðir í loftslagsmálum og grænar lausnir í orkumálum.

Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra Íslands í Tókýó hitti svo Ryotaro Suzuki sendiherra Japan hér á Íslandi og fór vel á með kollegunum.

Fleira var það ekki í bili.

Sumarkveðja frá upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum