Hoppa yfir valmynd
1. maí 2019 Utanríkisráðuneytið

Brexit eitt viðamesta verkefnið

Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, og Guðlaugur Þór Þórðarson á fundi í Bretlandi í október sl. - myndUtanríkisráðuneytið

Hagsmunagæsla vegna úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu er eitt viðamesta verkefni utanríkisþjónustunnar um þessar mundir. „Frá upphafi ráðherratíðar minnar hef ég lagt höfuðáherslu á að hagur Íslands vegna Brexit verði tryggður,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í inngangsorðum skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál sem rædd var á Alþingi í gær. Í aldarfjórðung hafa samskipti Íslands og Bretlands byggst á EES-samningnum en svo verður ekki eftir að Bretland gengur úr ESB. Á grundvelli víðtækrar hagsmunagreiningar hefur Ísland náð samningum við Bretland sem tryggir kjarnahagsmuni um vöruviðskipti, búseturéttindi og loftferðamál, hvort sem Bretland gengur úr ESB með eða án samnings. „Ég er mjög stoltur af því hversu vel utanríkisþjónustunni hefur tekist að greina hagsmuni okkar og undirbúa allar mögulegar sviðsmyndir í ljósi óvissunnar,“ segir Guðlaugur Þór.

 

Undanfarin misseri hefur ráðherra einnig skerpt frekar á áherslu Íslands á utanríkisviðskipti. „Frá því að ég tók við embætti hef ég átt hátt í 150 fundi með ráðherrum og fulltrúum annarra ríkja, ekki síst í þeim tilgangi að liðka fyrir viðskiptum. Þannig hefur okkur meðal annars tekist að koma á samkomulagi sem greiðir fyrir beinum flugsamgöngum milli Íslands og Japans og samkomulagi sem greiðir fyrir útflutningi íslenskrar landbúnaðarvöru til Kína. Fleiri slíkir samningar líta brátt dagsins ljós. Ekki má heldur gleyma tímamótasamkomulagi um viðskiptasamráð Íslands og Bandaríkjanna sem við Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gerðum þegar hann kom í heimsókn hingað til lands í febrúar,“ segir Guðlaugur Þór. 


 

Þá hafa EFTA-ríkin samið um fríverslun við Ekvador og Indónesíu á undanförnu ári og gert víðtækari samning við Tyrkland. Nær þá fríverslunarsnet EFTA til fjörutíu ríkja og landsvæða utan ESB. Viðræður standa að auki yfir um gerð fríverslunarsamninga við Indland, Malasíu, Víetnam og Mercosur-ríkin: Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrúgvæ. 

 

 

Guðlaugur Þór segir að til að tryggja áframhaldandi hagvöxt og velsæld á Íslandi verði að auka útflutningsverðmæti þjóðarbúsins umtalsvert á næstu árum. Í því skyni hafi samstarf við atvinnulífið verið eflt, meðal annars í tengslum við nýja Íslandsstofu og nýskipað útflutnings- og markaðsráð. Íslandsstofu er ætlað, í samstarfi við sendiskrifstofur Íslands á erlendri grundu, að greina betur tækifæri á mörkuðum og veita fyrirtækjum í útrás enn betri þjónustu.

„Á grundvelli þessa verður einnig unnið að því að tryggja fyrirtækjum bestu möguleg viðskiptakjör svo að þau kjósi að starfa áfram á Íslandi. Það gerum við meðal annars með því að stækka fríverslunarnet Íslands sem nær um þessar mundir til 74 ríkja. Leitast verður við að fjölga enn frekar samningum á sviði tvísköttunar, fjárfestinga og loftferða, sem stuðla að auknum viðskiptum og laða að fjárfesta. Þá verður áfram markvisst leitast við að ryðja úr vegi öðrum viðskiptahindrunum, til dæmis hvað varðar heilbrigðisvottun á íslensku kjöti og fiski,“ segir utanríkisráðherra.

Skýrslu utanríkisráðherra má lesa í heild sinni hér á Stjórnarráðsvefnum en jafnframt hefur verið gefið út sérstakt hefti með útdrætti úr skýrslunni. Fjölmargar tölulegar upplýsingar koma fram í skýrslunni sem settar eru fram á myndrænan hátt. 


 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum