Hoppa yfir valmynd
3. september 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 3. september 2021

Heil og sæl. 

Eftir nokkurra vikna hvíld hefur föstudagspósturinn á ný reglubundna göngu sína.

Staðan í Afganistan hefur verið í brennidepli í utanríkisráðuneytinu að undanförnu. Á þriðjudag greindi utanríkisráðuneytið frá því að borgaraþjónustan hefði aðstoðað 33 einstaklinga við að komast frá Afganistan hingað til lands. Á sama tíma tóku íslensk stjórnvöld undir áskorun fjölmargra ríkja til nýrra valdhafa í Afganistan um að heimila fólki frjálsa för úr landi.

Tugþúsundir hafa yfirgefið Afganistan að undanförnu vegna ástandsins í landinu en fljótlega eftir valdatöku talibana kom til kasta borgaraþjónustunnar að aðstoða íslenska ríkisborgara í landinu heim. Með góðri samvinnu við borgaraþjónustustofnanir í Finnlandi og Danmörku tókst að koma öllum íslenskum ríkisborgum sem óskuðu eftir aðstoð úr landi og til Íslands og lauk þeim heimflutningi í síðustu viku. Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn og Helsinki og fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu höfðu einnig milligöngu um heimflutninginn.

Staðan í Afganistan var til umræðu í norræna varnarsamstarfinu sem fór fram fyrir viku síðan en á fundinum þakkaði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra fyrir veitta aðstoð Norðurlandanna við brottflutning íslenskra ríkisborgara frá Afganistan.

„Norðurlöndin hafa unnið þrekvirki á undanförnum dögum og vikum við að koma fólki í öruggt skjól, ekki síst afgönskum ríkisborgurum sem voru í sérstakri hættu vegna starfa sinna fyrir vestræn ríki,“ sagði Guðlaugur Þór.

Í gær ræddu svo þróunarsamvinnuráðherrar Norðurlanda og framkvæmdastjóri Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP) stöðuna í Afganistan á sérstökum fjarfundi. Áframhaldandi starf stofnana Sameinuðu þjóðanna í landinu og aðgerðir landanna á sviði mannúðaraðstoðar voru til umræðu, sem og möguleikinn á langtímaþróunarsamvinnu í Afganistan. 

„Það er brýnt að alþjóðasamfélaginu takist að tryggja áframhaldandi mannúðaraðstoð og aðgengi í landinu á þessum óvissutímum en um leið þarf að huga að því að vernda lífsviðurværi afgönsku þjóðarinnar,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnráðherra.

Í síðustu viku fór einnig fram sérstakur fundur um stöðu mannréttinda í Afganistan utan dagskrár mannréttindaráðsins sem Ísland ásamt hópi annarra ríkja óskaði eftir að yrði haldinn í ljósi stöðunnar í landinu. 

Guðlaugur Þór fundaði með utanríkisráðherrum Atlantshafsbandalagsins 20. ágúst. Í yfirlýsingu fundarins var m.a. kallað eftir því að nýir valdhafar í Afganistan virði alþjóðlegar skuldbindingar landsins, mannréttindi og réttindi kvenna, barna og minnihlutahópa.

„Afganska þjóðin hefur fært miklar fórnir á síðustu tuttugu árum til að koma á friði og umbótum, bæta öryggi, mannréttindi, aðgengi að menntun og stöðu kvenna og stúlkna. Aðstoð alþjóðasamfélagsins byggist á ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og hlutverk Atlantshafsbandalagsins undanfarin ár hefur verið að veita þjálfun og ráðgjöf á sviði öryggis- og varnarmála. Sú staða sem upp er komin í landinu er því áfall og hætt við að kastað verði á glæ þeim framförum sem orðið hafa í landinu á þessum tíma,“ var haft eftir Guðlaugi Þór í fréttatilkynningu. Sama dag tilkynnti utanríkisráðuneytið um 60 milljóna króna framlag til mannúðaraðstoðar í Afganistan en framlaginu verður skipt jafn á milli Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC).

En þá að öðru.

Í gær fór fram ráðstefna Íslandsstofu og utanríkisráðuneytisins með stjórnendum og frumkvöðlumum frá Íslandi og Singapúr þar sem nýsköpun í matvælaframleiðslu var efst á baugi. Útlit er fyrir að matarþörf heimsins muni tvöfaldast fyrir árið 2050. Því verður að leita nýrra leiða til að framleiða næg matvæli fyrir ört vaxandi fólksfjölda án þess að raska jafnvægi náttúrunnar. 

„Nú þurfa allir að vinna saman til að ná settum markmiðum, hvort sem það er hið opinbera eða einkageirinn. Við þurfum að nota þær diplómatísku leiðir sem eru fyrir hendi og tengingar í viðskiptalífinu. Ef við nýtum okkur ekki kraft einkageirans vegna stjórnmálalegra ástæðna, sem sumir stjórnmálamenn boða, munum við aldrei ná markmiðum okkar,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars í ræðu sinni.

Í gær öðlaðist einnig loftferðasamningur milli Íslands og Bretlands formlega gildi. Samningnum hefur verið beitt til bráðabirgða frá síðustu áramótum fram að gildistöku og voru flugsamgöngur milli ríkjanna því tryggðar við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Gærdagurinn var nokkuð annasamur hjá ráðherra en hann afhenti einnig Vaxtarsprotann, íslensku sprotaverðlaunin, sem er viðurkenning til þriggja fyrirtækja í hugverkaiðnaði sem eiga það sameiginlegt að vera í miklum vexti.

„Ég óska 1939 Games, Coripharma og Algalíf áframhaldandi velgengni því áframhaldandi vöxtur þeirra og fleiri slíkra fyrirtækja skiptir okkur Íslendinga gríðarlega miklu máli,“ sagði ráðherra á Facebook-síðu sinni. 

„Lífskjör okkar sem lítillar útflutningsþjóðar til framtíðar munu ráðast af því hvernig okkur tekst til við að styrkja stoðir útflutnings og auka útflutningstekjur,“ sagði hann enn fremur. 

Á miðvikudag undirrituðu utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Eyjólfur Guðmundsson, formaður stjórnar Norðurslóðanets Íslands og rektor Háskólans á Akureyri, endurnýjaðan samstarfssamning til fimm ára. Undirritunin fór fram á Akureyri. 

„Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir hve þróttmikil starfsemin er hér undir einu þaki með Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, skrifstofur tveggja af vinnuhópum Norðurskautsráðsins, skrifstofu Alþjóða Norðurslóðavísindanefndarinnar (IASC)og Háskólann á Akureyri í broddi fylkingar. Við Íslendingar erum öll norðurslóðabúar en Akureyringar og Norðlendingar eru fremst meðal jafningja í þessum málaflokki“, sagði Guðlaugur Þór m.a. við þetta tækifæri.

Í upphafi nýrrar leiktíðar krufði ráðherra svo að sjálfsögðu enska boltann á Fótbolta.net.

Á fimmtudaginn í síðustu viku var gagnagrunni um stuðning Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu formlega ýtt úr vör af utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Um er að ræða vefsvæðið openaid.is þar sem almenningi og haghöfum gefst kostur á að rýna í opinber framlög Íslands til málaflokksins. Markmið gagnagrunnsins er að auka gagnsæi í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands og gefa betri yfirsýn yfir það hvernig framlagi íslenskra skattgreiðenda er varið.

Í síðustu viku var þess einnig minnst að þrír áratugir eru liðnir frá upphafi stjórnmálasambands Íslands og Eystrasaltsríkjanna. Guðlaugur Þór ritaði grein í Fréttablaðið af því tilefni sem lesa má hér.

Fyrr í ágústmánuði átti ríkisstjórnin fund með Ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Á fundinum kynntu fulltrúar ungmennaráðsins fyrir ríkisstjórn tillögur sínar að framgangi heimsmarkmiðanna hér á landi. Um er að ræða 40 tillögur á sviði menntamála, heilbrigðismála og umhverfismála. Í framhaldinu áttu ráðherrar samtal við ungmennaráðið um tillögurnar og sýn ungmennanna á verkefnið framundan.

Um miðbik síðasta mánaðar undirritaði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra ásamt forsætisráðherra, mennta og menningarmálaráðherra, atvinnu- og nýsköpunarráðherra og framkvæmdastjóra Íslandsstofu samkomulag um að efla kynningu á skapandi greinum og íslenskri list á erlendum vettvangi undir vinnuheitinu Skapandi Ísland. Verkefninu er ætlað að auka þekkingu alþjóðlegs fagfólks á listum og skapandi greinum á Íslandi, styðja við útflutning íslenskra listamanna og hins skapandi geira og auka þannig útflutningstekjur af listum og skapandi greinum.

Þessu næst ætlum við að víkja að starfsemi sendiskrifstofa okkar sem hafa í nógu að snúast þessa dagana, m.a. vegna utankjörfundaratkvæðagreiðslu erlendis vegna alþingiskosninga 25. september en hún hófst þann 13. ágúst sl. Utankjörfundaratkvæðagreiðslan fer fram í öllum sendiráðum Íslands erlendis og aðalræðisskrifstofum Íslands í New York, Winnipeg, Nuuk og Þórshöfn í Færeyjum.

Í sendiráði Íslands í Berlín tóku til starfa í ágústmánuði þau Ágúst Már Ágústsson, sendiráðsritari og staðgengill sendiherra, og Erla Helgadóttir, sendiráðsfulltrúi. Þær Elín Rósa Sigurðardóttir og Jónína Sigmundsdóttir hverfa til starfa í utanríkisráðuneytinu í Reykjavík.

Nóg hefur verið um að vera hjá okkar fólki í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn að undanförnu og þar hafa menningarmál verið fyrirferðamikil. Móttaka til heiðurs Steinunni Þórarinsdóttur listakonu fór fram til dæmis fram á dögunum í tilefni af opnun sýninganna Armors og Connections. Þá tók okkar fólk einnig þátt í gleðigöngu ásamt öðrum norrænum sendiráðum á hinsegin dögum fyrir skemmstu.



Svo hlaut Helga Hauksdóttir sendiherra þann heiður að vera fyrsti gestur nýs hlaðvarps Félags kvenna í atvinnulífinu í Danmörku sem ber heitið Damerne Først!

Í London leit Sturla Sigurjónsson sendiherra við á fiskmarkaðinn í Billingsgate í síðustu viku. Markaðurinn á langa sögu og sér Lundúnasvæðinu fyrir fersku sjávarfangi. Fulltrúi City of London, sem rekur markaðinn, og framkvæmdastjóri markaðarins tóku á móti sendiherranum.

Árni Þór Sigurðsson sendiherra afhenti þann 11. ágúst Sadyr Japarov forseta Kirgistan trúnaðarbréf sitt sem sendiherra í Kirgistan með aðsetri í Moskvu. Athöfnin fór fram í forsetahöllinni í Bishkek og afhentu alls átta sendiherrar trúnaðarbréf við það tækifæri.


Í Osló tók Eva Mjöll Júlíusdóttir viðskiptafulltrúi sendiráðsins þátt á ANTOR Norway regional workshops 2021 í Stavanger, Bergen, Trondheim og Osló þar sem Ísland var kynnt sem spennandi áfangastaður. Eva Mjöll tók til starfa í sendiráðinu í byrjun ágúst. 


Þá er rétt að vekja athygli á skemmtilegu viðtali við Ingibjörgu Davíðsdóttur sendiherra Íslands í Osló sem birtist í Morgunblaðinu fyrr í mánuðinum. 

Í Malaví var kveðjustund á dögunum þegar Mai Linley fjármála- og skrifstofustjóri hætti störfum eftir 22 ár. Henni voru færðar hugheilar þakkir fyrir störf sín.


Okkar fólk í Tókýó hefur svo fylgst grannt með gangi mála á Ólympíumóti fatlaðra sem fram fór í Tókýó.

Í Washington bauð Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, stjórn Íslendingafélagsins í Washington til móttöku í sendiráðsbústaðnum á dögunum. 

Þá er þetta komið í bili. Við lofum styttri pósti næst!

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum