Hoppa yfir valmynd

Um kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál leysir úr ágreiningi um úrlausn máls á grundvelli upplýsingalaga. Þá er mælt fyrir um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar í lögum um opinber skjalasöfn, sjá 46. gr. núgildandi laga nr. 77/2014. Sé réttilega leyst úr máli á öðrum lagagrundvelli verður slík úrlausn ekki borin undir nefndina.

Kæruheimild til nefndarinnar skv. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er bundin því skilyrði að ágreiningur sé uppi um annað tveggja:

  • skyldu stjórnvalds til þess að veita aðgang að gögnum á grundvelli upplýsingalaga, eða
  • skyldu stjórnvalds til að afhenda gögn á því formi sem óskað er.

Sambærileg skilyrði gilda um kæruheimildir til nefndarinnar samkvæmt lögum nr. 77/2014.

Á grundvelli 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður óhæfilegur dráttur á afgreiðslu beiðni um aðgang að gögnum á grundvelli upplýsingalaga jafnframt kærður til nefndarinnar. 

Þá er samkvæmt 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga heimilt að vísa máli til úrskurðarnefndarinnar hafi beiðni um aðgang að gögnum ekki verið afgreidd innan 30 virkra daga frá móttöku hennar.

Sá einn sem synjað er um aðgang getur verið aðili að kærumáli til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga skal kæra til nefndarinnar vera skrifleg og fram komin innan 30 daga frá því að aðila barst tilkynning um synjun stjórnvalds. Rétt er að eftirtaldar upplýsingar komi frami í kæru:

  • Nafn kæranda og póstfang
  • Tilgreining á hinni kærðu ákvörðun og því stjórnvaldi sem hana tók.
  • Upplýsingar um hvenær kæranda var birt hin kærða ákvörðun.
  • Kröfur kæranda og af hvaða ástæðu hann telur hina kærðu ákvörðun ranga að efni til.

Æskilegt er að kæru fylgi öll þau gögn, sem til þess eru fallin að varpa ljósi á málavexti, s.s.:

  • Ljósrit af beiðni um upplýsingar, hafi hún verið skrifleg.
  • Ljósrit af hinni kærðu ákvörðun, hafi tilkynning um hana verið birt skriflega.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga skal ákvörðun um að synja beiðni um aðgang að gögnum, í heild eða að hluta, sem borin hefur verið fram skriflega, tilkynnt skriflega og rökstudd stuttlega. Í ákvörðun skal koma fram afstaða stjórnvalds til aukins aðgangs skv. 2. mgr. 11. gr. og leiðbeiningar um rétt til kæru skv. 20. gr.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum